Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1965/ Sjóhrakningar. Lýsi og olía eru sígild á sjó
Mjög merkur og skilvís maður í Rangárvallasýslu ritar í Ísafold:
„Að morgni hins 1. þ. m. (1890) lagði bátur undan Eyjafjöllum út til Vestmannaeyja með héraðsprófastinn, séra Kjartan Einarsson, til vizitasíuerindagjörða; formaður var Stefán Guðmundsson frá Mið-Skála. Útferðin sóttist seinlega, því kaldi stóð af Eyjum. Eftir nál. 3ja klst. dvöl í Eyjunum fóru skipverjar 8 að tölu til baka kl. 7 um kvöldið: veður var spakt en talsverð rigning komin og dimmt loft og drungaél. Þegar komið var austur fyrir austur-eyjarnar, gekk hann til austurs með stormi og regni. Samt sem áður var haldið áfram inn eftir til lands við nauðbeit í þeirri von, að sjór mundi vera dauður; en þegar undir sandinn kom, var hann albrimaður. Eyjar byrgðar af þoku og regni og næturskuggi kominn á allt saman, sjó og land. Slógu skipverjar þá undan út með brimgarðinum, því ókleift var að halda sér við, og köstuðu út 7 klyfjum af kolum og salti, til að geta betur varizt áföllum. Svo leið og beið, þar til að morgna tók og þeir fóru að sjá á ný, hvað sjónum leið. Sýndist þeim þá sama og áður: allstaðar ólendandi og héldu enn undan þar til þeir tóku það ráð, að vera viðbúnir á siglingu, ef einhver læging sæist á brimgarðinum á einum stað fremur en öðrum, að beygja þá af og tefla á tvær hættur og sigla upp í sandinn, til heims og helju, og var það loks afráðið fram undan Skúmstöðum í Út-Landeyjum, og á meðan á því stóð, að sigla upp í sandinn, var dreift út 8 pottum af steinolíu.
Lendingin tókst ágætlega, því olían lægði svo vel sjóganginn og brimið, að báturinn hreppti engan fallsjó.
Þetta dæmi er eitt með öðrum eftirtektarvert fyrir sjófarendur, til þess að vanrækja ekki að hafa innanborðs olíu eða lýsi á sjóferðum.“