Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1965/ Þið eigið virðingu og þakklæti mitt og alþjóðar
Frá því ég man fyrst eftir mér, hef ég haft náin kynni af sjómönnum á öllum aldri. Bernskuvinir mínir, tveir bræður, urðu samferða í hina votu gröf, einmitt á þeim aldri, þegar æskan og lífið brosir sem blíðast í lífi manns. Ég gleymi heldur aldrei þeirri stund, né þeim orðum, sem okkur fór á milli, er ég fylgdi yngri bróðurnum til skips, er hann fór í sína síðustu för, og við kvöddumst yfir borðstokkinn á Leifi heppna.
Á skipi með þeim bræðrum voru tveir heimilisvinir foreldra minna og daglegir heimagangar, þegar þeir voru í landi.
Þetta var í byrjun ársins 1925, í febrúar, þegar Halaveðrið svokallaða skall óvænt yfir og varð ofurefli tveim togurum ásamt báðum áhöfnunum.
Þá varð biðin í landi mörgum löng og erfið. Óttinn leyndi sér heldur ekki, né kvalafull eftirvæntingin með sínar veiku vonir, þegar togararnir, sem af komust, fóru að smátínast inn. Allt var brotið og bramlað ofandekks, og menn sögðu farir sínar ekki sléttar. Var þá sögð saga af einum skipstjóranum, sem að jafnaði þótti óvorkunnlátur við undirmenn sína. Þegar menn vildu fara að þakka dugnaði hans björgunina, á hann að hafa sagt: „Hér er ekkert mér að þakka. Næst forsjóninni þakka ég það skipverjum mínum, sem aldrei létu hugfallast, en gerðu allt, sem í mannlegum mætti stóð til að koma skipinu á réttan kjöl, þegar það lá stjórnlaust á hliðinni og ekkert var sýnna en úti væri um alla björgunarvon.“
Eg var ungur maður, þegar þetta gerðist, aðeins átján ára og ólífsreyndur. En þá skildist mér fyrst, hvílíkt ofurfarg biðin er milli vonar og ótta — þessi seigpínandi bið — fyrir alla þá, sem eiga nána ástvini sína á hafi úti.
þegar stórviðrin geisa miskunnarlaust og sjórinn hefur komizt í sinn versta ham, Það var ekki vegna þess, að eftir þetta mikla óveður ætti ég á bak að sjá góðum og ógleymanlegum vinum, að ég fékk að skilja áhyggjurnar og kvíðann, sem kemur þegar veðrin skella á, heldur einmitt af því, að þá kynntist ég sorg móður, föður og systkina, sorg sjómannskonunnar og barnanna, sem allt í einu og óvænt höfðu misst ómetanlegan, hjartfólginn ástvin sinn og fyrirvinnu í fullu fjöri, búinn kostum karlmennsku og ábyrgðartilfinningar.
Ég hef haft náin kynni af sjómönnum frá því ég fyrst man eftir mér, sagði ég í upphafi þessa greinarkorns. Og vegna þess, að ég hef þekkt marga úr þessari stétt, bæði vel og lengi, hef ég frá því fyrsta fundið, að sjómennskan er veigamikið ábyrgðarstarf, sem er auk þess í hæsta máta heillandi fyrir alla þá, sem eiga krafta í kögglum og hina seiðandi útþrá, sem að líkindum skynjar af brjóstviti sínu, að „fornhelga spekin veit, að afl skal mót afli, en andanum gefur hún seinasta leikinn í tafli“, eins og Einar Ben, kemst að orði í kvæðinu Útsær. En svo á hinn bóginn mátti ég einnig kenna það af reynslunni, að engin stétt í okkar þjóðfélagi lifir jafn áhættusömu lífi og sjómennirnir, já, og fórnfúsu, langdvölum oft, fjarri heimilum sínum.
Um mína ævi, sem ekki er orðin ýkja löng, hefur margt breytzt í þessum efnum sem öðrum. Nú eru sjómenn betur undir volkið búnir og að mæta hættunum á hafi úti, en engu að síður held ég því fram, að enn sé sjómennskan lífshættulegasta starfið, þrátt fyrir stór og glæsileg hafskip, sem tekið hafa við af litlu fleytunum fyrrum. Vilji einhver mótmæla þessu, skal honum bent á, að allur öryggisútbúnaður í öðrum starfsgreinum, hefur einnig tekið framförum í sömu hlutföllum.
Það vita allir, sem komnir eru á miðjan aldur eða meira, að fram að þeim tíma, sem Halaveðrið gekk yfir, var það bjargföst sannfæring allra Íslendinga, að togararnir væru skip, sem þyldu öll veður í rúmsjó. Því miður hefur reynslan sýnt annað, eða hver stenzt veldi höfuðskepnanna? Enda hafa margir togarar farizt síðan á svipaðan hátt og Leifur heppni og Robinson. Margir okkar stóru báta hafa líka farizt á síðustu árum, sumir með allri áhöfn, einstakar drukknanir hafa komið fyrir og margvísleg slys hafa skeð á mönnum, lífi og limum, sem beinlínis hafa orðið vegna starfsins. En við skulum samt ekki láta okkur sjást yfir þá guðdómlegu handleiðslu, sem margar áhafnir sokkinna eða brennandi og strandaðra skipa hafa mátt þreifa á, vegna giftusamlegrar björgunar frá beinum voða og ótímabærum dauða.
Oft verður mér þá líka hugsað til margþættrar handleiðslu í þessum efnum, sem ekki sízt okkur Vestmannaeyingum ætti að vera hið stórkostlegasta þakkarefni, tilefni til lofgjörðar og bænar daglega, um áframhaldandi hlífð og farsæld. Hugsum okkur allan þann fjölda báta, sem héðan er gerður út á hverri vertíð — og árið um kring — og hugsum okkur allar hinar stórkostlegu fiskvinnslustöðvar í landi, sem einnig eru starfandi allt árið. Þegar ég hugsa um þetta, finnst mér það stórkostlegt kraftaverk, að allir bátarnir skyldu komast heilir í höfn á liðnum vetri, og einnig það, hversu slysin á mönnum hafa orðið fá, aðeins eitt dauðaslys úti í sjó. Það er dásamleg Guðs gjöf, að ekki skyldi verða meira að, eins og hér er þó fast sótt og oft til fjarlægra fiskimiða.
Af því, sem ég nú hef sagt, á sjómannastéttin traust mitt, virðingu og þakklæti. Hún er sú stéttin, sem leggur langsamlega mest af mörkum til öflunar daglegs brauðs, án hennar komumst við aftur á frumstig rányrkju og örbyrgðar. Ennfremur er það sjómannastéttin með framámönnum sínum og framsýnismönnum um breytta framleiðsluháttu, samfara skynsamlegu áræði við að kanna nýjar leiðir til aukins aflamagns, vaxandi vörugæða og fjölgandi viðskiptasambanda, sem lagt hefur grundvöllinn að velmegun okkar í dag.
Eg er ekki einn um þetta álit á sjómannastéttinni, en hver einn og einasti heilbrigður Íslendingur.
Vegna þessa nýtur engin stétt í landinu jafn almennt heitra fyrirbæna um farsæld og fararbeina, því að þar eru hinar einlægu bænir hjartans að verki. En ekkert veitir meiri blessun en heit og sönn bæn réttláts manns. Hugsum okkur þann skara ástvina — eiginkvenna, mæðra, feðra, bræðra, systra, barna og vina — þar eru öll með einum huga, með eitt í hjarta og með einni sál: Gefðu, Drottinn. íslenzku sjómannastéttinni blessun þína og farsæld. Forðaðu henni frá slysum og óhöppum. Gef henni og okkur öllum, sem njótum starfa hennar, náð til þess að kunna að meta réttilega gjafir þínar, svo að velsæld og aukið öryggi geri okkur ekki hrokafull, en þroski okkur og hjálpi okkur til að lifa saman heiðarlega og í gagnkvæmu samfélagi og bræðralagi, þar sem einskis manns réttur er borinn fyrir borð —, þar sem á Guð er trúað í Jesú nafni.
Megi Drottinn blessa ókomna daga og þá vertíð, sem nú er hafin að lokinni vetrarvertíð. Hann blessi og þennan sjómannadag.