Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1964/ Sigfús Vigfússon Scheving

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Sigfús Vigfússon Scheving


Fæddur 2. maí 1886, dáinn 3. maí 1964


Sigfús Vigfússon Scheving.

Sigfús Vigfússon Scheving, Heiðarhvammi hér í bæ, var fæddur að Vilborgarstöðum 2. maí 1886. Foreldrar hans voru Vigfús Pálsson Scheving, bóndi á Vilborgarstöðum og kona hans, Friðrika Sighvatsdóttir, útvegsbónda Sigurðssonar.
Sigfús ólst upp í foreldrahúsum í samstilltum glaðværum systkinahópi og meðal frænda og vina, en ekki var þá til setu boðið og snemma kallaði þörfin frek á vinnu hinna veiku barnahanda, enda mun Sigfús ekki hafa látið sinn hlut eftir liggja, slíkur vilja- og fjörmaður, sem hann ávallt var, enda mun hann hafa farið innan við fermingu á sjóinn, sem hann svo stundaði beztu ár ævi sinnar. Hann réðist svo á skútu í nokkur ár, en fór þá í Sjómannaskólann til Páls Halldórssonar skólastjóra; tók hann þar próf 1907, rúmlega tvítugur að aldri, í þeim fræðum. Eftir það gjörðist hann formaður hér í Eyjum um ca. 25 ára skeið. Fyrst var hann með Haffrúna og var meðeigandi í henni, en árið 1924 kaupir hann m/b Maí ásamt föður sínum, Jóhanni bróður sínum og Lofti frænda sínum á Vilborgarstöðum, en þeir höfðu verið fóstbræður frá því í æsku. Sigfús þótti farsæll formaður, og þótt hann væri ekki neinn aflakóngur, fór honum allt vel úr hendi um borð og í landi, meðferð og nýting á afla mun hafa verið til fyrirmyndar hjá honum og ekki ósjaldan orðið drýgri stórum aflahlut.
Eigi mun hann hafa verið mikill átakamaður við vinnu, en aftur á móti vilja- og fjörmaður, léttur í hreyfingum, snarpur og handtakagóður, svo að „betri þóttu handtök hans heldur en nokkurs annars manns“, enda mun hann hafa haft lífgandi og fjörgandi áhrif á skipshafnir sínar og samstarfsmenn fyrr og síðar. Á seinni formennskuárum sínum og þar á eftir mun Sigfús hafa verið skipstjóri og stýrimaður á 5 bátum, er hann sótti til Noregs og Danmerkur og sigldi upp til landsins. Fórst honum það eins og annað farsællega úr hendi.
Formennsku hætti Sigfús um 1936. Byrjaði hann þá að starfa í landi að hinum ýmsu áhugamálum sínum. Þó mun hugurinn hafa verið tengdur sjónum alla tíð eða starfsemi bundna honum. Um þetta leyti hélt hann hér námskeið í stýrimannafræðum og kenndi ungum sjómönnum undirstöðuatriði í hinni bráðnauðsynlegu siglingakonst. Mun sú fræðsla hafa komið sér vel fyrir allmarga af hinum ungu hetjum hafsins, sem þá voru upp á sitt bezta.
Sigfús var bæjarfulltrúi hér um það bil 20 ár, og þótti góðgjarn, hollráður og hreinskilinn á því þingi. Hann var í sóknarnefnd Landakirkju í 12 ár, enda kirkjurækinn og áhugasamur um andleg mál. Í stjórn Verkamannafélagsins Drífanda, átti þátt í stofnun Lifrarsamlags Vm., Olíusamlags Vm., meðal stofnenda Björgunarfélags Vm., K.F.U.M. og í stjórn þess. Hann var og félagi í Oddfellowstúkunni Herjólfur hér í Eyjum. Alls staðar þótti sæti hans vel skipað. en við Olíusamlagið var hann í fjölda ára og fram undir dauðadúr.
Kvæntur var Sigfús Sesselju Sigurðardóttur, sjómanns úr Borgarfirði syðra Sigurðssonar, hinn ágætustu konu. Bjuggu þau í Heiðarhvammi við Helgafellsbraut hér í bæ. Þar mætti manni tryggð hans og hlýja, glaðværð, velvild og heilindi, sannkallað bróðurþel. Þau hjón eignuðust tvö börn: Vigfús Helga og Guðrúnu Sigríði, sem nú er ekkja eftir Karl Ó. Björnsson bakarameistara. Hún var stoð og stytta Sigfúsar í elli hans og sjúkdómum. Þann 8. sept. 1934 skall ógæfuholskeflan yfir hafnargarðinn hérna, og tók með sér Helga son þessara hjóna í blóma lífsins, en hann var óvenjulegur ungur maður að gáfum og atgervi, sem miklar vonir voru við tengdar. Silfurkerin sökkva í sæ, en soðbollarnir fljóta.
Sigfús missti konu sína fyrir rúmum tíu árum eftir 43ja ára farsæla sambúð. Það var honum og mikið áfall. Mótgangsbylgjur verða ekki allar umflúnar í lífinu, svo að ekki gefi endrum og eins á bátinn. Sigfús fór ekki varhluta af þeim, enda reyndur sjómaður, en hann átti mikla lífsgleði, bjartsýni og þó kannski ekki sízt trúartraust, sem mun hafa reynzt honum, ekki síður en ýmsum öðrum sem átt hafa, óhvikull bakhjarl í gegnum lífsins öldur.
Það er gott að minnast slíks manns, sem Sigfús var. Það var ávallt bjart í kringum hann; hann var allra manna glaðastur og minningin um hann lifir þó maðurinn falli og sú minning er eins og sólskinsblettur í heiði. Það átti við Sigfús, sem eitt sinn var kveðið:
Glaður og reifur skyli gumna hverr unz sinn bíður bana.

Vestmannaeyjum, 23. maí 1964.

E. Guttormsson