Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1964/ Gunnlaugur Sigurðsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Gunnlaugur Sigurðsson


Fæddur 20. maí 1920. Drukknaði 29. nóvember 1963.


Þrátt fyrir bættan skipakost, aukna tækni og búnað skella sjóslysin eins og reiðarslög á þjóðinni og þá að sjálfsögðu ganga þau næst þeim sem um sárt eiga að binda hverju sinni.
Svo kann að virðast frá lágum sjónarhólum að ekki verði héraðsbrestur þótt umkomulitill maður, sem aðeins hefur haft það lífsstarf að vinna hörðum höndum, hverfi af sjónarsviðinu, en það eru nú einmitt mennirnir með sigg í lófum, sem leggja undirstöðurnar að þjóðfélagsbyggingunum og skapa öðrum aðstöðu til þess að komast hærra í metorðastiganum eins og það er kallað.
Gunnlaugur Sigurðsson fæddist í Vestmannaeyjum og var elzta barn í stórum systkinahópi iðjusamra, en manndóinsmikilla foreldra, sem bjuggu við kröpp kjör, en komu upp barnahópnum sínum sem nú eru í hópi þess fólks sem ber hita og þunga dagsins annar og eru vel látin og manndómsmikið fólk.
Ungur að árum hóf Gunnlaugur þátttöku í framleiðslustörfunum til lands og sjávar og var harðduglegur og atorkusamur og þótti hvarvetna góður liðsmaður. Guðlaugur giftist góðri konu og eignuðust þau nokkur mannvænleg börn, en þá kom dauðinn og unga konan dó frá ungu bórnunum sínum og heimilið leystist upp og Gunnlaugur fluttist burt frá Vestmannaeyjum, dvaldi í fyrstu hjá tengdaforeldrum sínum í sveit ásamt börnunum, en hvarf svo að störfum við sjávarsíðuna og stundaði sjóinn.
Í Vestmannaeyjum hafði Gunnlaugur lengi starfað í þjónustu Helga Benediktssonar og notið þar trausts og verðskuldaðra vinsælda eins og annars staðar þar sem hann starfaði, hafði hann þar að öðrum þræði verkstjórn á hendi og tókst vel. Það munar ávallt um mannsliðið og atorkusamur maður getur bókstaflega ráðið úrslitum um það að skipi verði haldið úti til aflafanga og menn gera sér það ekki almennt Ijóst hve mikla úrslitaþýðingu atorka og afköst eins manns hafa. Gunnlaugur Sigurðsson var einn þeirra manna sem unnu störf sín án þess því væri sérstök athygli veitt, en tilþrifamikill dugnaður fylgdi störfum hans hvar sem hann fór.
Í einni haustsorta stormhrinunni í nágrenni Vestmannaeyja hvarf Gunnlaugur í hafdjúpið ásamt félögum sínum með „Hólmari“, siðasta bátnum sem hann var á. Aldurhnignir foreldrar og börn á byrjandi manndómsárum eiga á bak ástvini að sjá sem alltaf gerði sitt bezta og hlífði sér hvergi í harðri lífsbaráttu. Meðal samferðafólksins geymast minningar um þrekmikinn og glaðlyndan mann, sem allra götu vildi greiða og afkastaði á skammri ævi góðu dagsverki.

H. B.