Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1964/ Aflaverðmætisverðlaunin

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Aflaverðmætisverðlaun


Rafn Kristjánsson skipstjóri.

Svo sem kunnugt er gáfu þau hjónin Sigríður Sigurðardóttir og Ingólfur Theódórsson, netagerðarmeistari hér í bæ, mjög fagran farandgrip í fyrra, er á hverjum sjómannadegi skyldi afhendast þeim skipstjóra, er mest aflaverðmæti hafði fært að landi undangengið ár. Gripur þessi er fögur og mjög haganlega gerð fánastöng, en auk hennar fylgir skrautritað heiðursskjal til handa hverjum skipverja á viðkomandi báti. Viðurkenning þessi var í fyrsta skipti veitt á sjómannadaginn 1963 og hlaut hana þá Rafn Kristjánsson, skipstjóri á m/b Gjafari VE 300, og skipshöfn hans, er hafði árið 1962 dregið mesta björg í bú af Vestmannaeyjabátum.
Nú á sjómannadaginn mun þessi fagri gripur afhentur öðru sinni, og mun hann áfram prýða heimili þeirra hjóna. Rafns og Pálínu, konu hans, þar sem á árinu 1963 skilaði Rafn á Gjafari mestu aflaverðmæti á land, eða fyrir rúmar 6,7 milljónir króna, en þess ber að geta að báturinn var ekki gerður út héðan á haustvertíð, þar sem þeir félagar seldu hann síðastliðið haust, og eru núna um það bil að leggja upp frá Hollandi með sinn þriðja Gjafar nýbyggðan.
Um Rafn skipstjóra Kristjánsson er óþarfi að skrifa mikið, hann er okkur Vestmananeyingum svo vel kunnur bæði sem aflamaður og drengur góður. Hann mun á síðastliðnu ári hafa átt 10 ára skipstjórnarafmæli, og á þessum árum hefur hann stöðugt verið á uppleið hvað afla snertir og er í dag einn af aflasælustu skipstjóruni okkar Íslendinga, jafnvígur á öll veiðarfæri, þótt hann nú hin síðustu ár hafi aðallega snúið sér að síldveiðunum. Hjá Rafni hefur verið valinn maður í hverju rúmi hin síðustu ár, enda ekki fyrir neina aukvisa að inna af hendi þau störf, sem þarf til þess að slíkur árangur náist.
Sjómannadagsblaðið óskar Rafni og skipshöfn hans til hamingju með verðlaunin og heiðurinn, sem þeir eru vel að komnir, og vonast til að þeir haldi áfram sem hingað til að vaxa í starfi, sér og þjóð sinni til heilla.

Farandgripur aflaverðmætisverðlauna.
Mb. Gjafar VE 300.