Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Strand Hafþórs
Hinn 17. febr. 1962 strandaði m.b. Hafþór VE-2 á Dynskógafjöru. Á bátnum voru 5 menn og var þeim öllum bjargað af björgunarsveitinni í Vík í Mýrdal, undir forystu Ragnars Þorsteinssonar á Höfðabrekku.
Hér fer á eftir stutt lýsing á þessum atburði eftir skipstjóra og eiganda bátsins Pálma Sigurðsson í Vestmannaeyjum:
Það mun hafa verið kl. 21, að ég vaknaði við að brotsjór reið á bátinn. Ég hljóp upp á dekk lítt klæddur og varð strax ljóst, að báturinn stóð á útrifi við sandana. Þegar ég ætlaði aftur í stýrishús reið annað brot yfir bátinn og varð ég nærri farinn út með því. Þar sem báturinn stóð ca. 200 m. frá landi, taldi ég rétt að fara í gúmmibjörgunarbátinn og bað strákana að koma upp á stýrishús og gerum við bátinn kláran til notkunar; ennfremur bað ég 1. vélstjóra að tilkynna strandið, en matsveinninn, sem verið hafði í stýrishúsinu með vélstjóranum, var nýkominn framí, er óhappið skeði.
Þegar hér var komið, hafði báturinn færzt nær landi. Þar sem vélstjóranum tókst ekki að ná sambandi við báta né land, fór ég inní stýrishúsið um glugga bakborðsmegin, þar sem stöðugt braut á stýrishúsinu stjórnborðsmegin. Náði ég strax sambandi við m.b. Gamm og Vestmannaeyjaradío.
Er hér var komið, og með hliðsjón af því, að 1 klst. var í háfjöru, taldi ég rétt að reyna að komast í gúmmíbátnum upp í fjöru. Sendi ég eftir björgunarbeltum handa öllum skipverjum og þegar allir voru tilbúnir, fékk ég vélstjóranum og matsveininum líflínuna sem liggur úr gúmmibátnum og bað þá halda í, en sjálfur kippti ég í snúruna er lá að lofthylkinu. Báturinn blés sig ekki að fullu upp og bað ég menn bíða þar til báturinn væri fullblásinn. Í sömu svifum reið sjór á björgunarbátinn og reif hann úr höndum okkar og skárust vélstjórinn og matsveinninn á höndum við átökin. Einn hásetinn vildi reyna að komast í land, en ég taldi það ekkert vit, eins og allar aðstæður voru, og ákvað að halda til í bátnum, þar til hjálp bærist úr landi.
Kl. 22:00 var komið mikið meira brim og báturinn lagðist á sjó með ca. 45° halla. Þar sem mikið gekk yfir bátinn, taldi ég bezt að halda til í lúkarnum, þó að töluverður sjór kæmi niður um loftventla og lúkarskappa, sem er lokaður að hálfu leyti.
Ég var við talstöðina og reyndi að gefa upp strandstað bátsins. Einnig skutum við upp flugeldum, sem m/b. Andvari sá og gat miðað Hafþór eftir.
Það mun hafa verið kl. 0:30 að þungt brot braut stýrishúshurðina og hálffyllti stýrishús og kortaklefa. Taldi ég þá ekki ástæðu til að vera lengur við talstöðina og fór framí lúkar. Skiptumst við síðan á um að vera á verði til hlés við lúkarskappann og héldum okkur í vantinn, er verstu ólögin riðu yfir bátinn. Um kl. 2:45 sá ég ljósbjarma mjög vestarlega á sandinum og þóttist strax vita, að þar væri björgunarsveitin á ferð. Við höfðum geymt nokkrar rakettur til að nota til leiðbeiningar sveitinni, en þegar til kom, reyndist ómögulegt að kveikja í þeim ofandekks. Urðum við að kveikja í þeim niðri í lúkar og rétta þær síðan upp og gátum við skotið þeim öllum á þennan hátt. Það kom síðar í ljós, að björgunarsveitin hafði séð allar raketturnar og flýtti það mikið ferð hennar.
Björgunarsveitin mun hafa lagt á stað frá Vík um kl. 22:00 og var komin á strandstaðinn um kl. 3:45 um nóttina. Leiðin, sem sveitin þurfti að fara, mun undir venjulegum kringumstæðum vera ca. klukkustundar ferð í bíl, en sökum gífurlegrar ófærðar á sandinum tók ferðin nær 6 klukkustundir. Höfðu björgunarmennirnir ekki komizt alla leið í bílum sínum vegna ófærðar og vatnavaxta og orðið að brjótast áfram fótgangandi um langan veg.
Það gékk mjög vel að draga okkur að landi í stól, en allir fórum við mikið í sjó, er við vorum dregnir í land. Hefur klukkan sennilega verið rúmlega 4 er ég fór frá borði síðastur skipverja.
Þegar búið var að ganga frá björgunartækjunum á strandstaðnum og leggja skyldi af stað, kom í ljós, að einn björgunarmannanna hafði veikzt svo hastarlega, e. t. v. af þreytu og vosbúð, að hann gat ekki gengið, og varð að bera hann til bifreiðanna. Færðin var vægast sagt vond og þessi ganga út fjöruna og yfir tvö illfær vötn, sem voru mjög ill yfirferðar, tók okkur nær 3 1/2 klst., en þar biðu bílarnir okkar. Var síðan haldið stytztu leið í skipbrotsmannaskýlið við Hjörleifshöfða. Þar vorum við drifnir úr öllum fötum og nuddaðir og færðir í þurr föt, er voru í skýlinu. Ennfremur var hitað kaffi og mjólk og hressti það okkur mikið eftir volkið, sem staðið hafði í II. klst.
Kl. 9:00 var lagt af stað til Víkur í Mýrdal á 4-5 bílum. Sveitin sem kom alla leið á slysstaðinn mun hafa verið skipuð 12 harðduglegum mönnum og má með sanni segja, að þeir leystu af hendi mikla þrekraun í þessari björgunarferð, sem tókst svo giftusamlega, að öllum skipverjum 5 tókst að bjarga, heilum á húfi. Báturinn eyðilagðist hinsvegar algerlega.
M/b. Andvari og m/b. Gammur, báðir frá Eyjum, lónuðu úti fyrir strandstaðnum alla nóttina og veittu ýmsa ómetanlega aðstoð, m. a. með því að miða Hafþór á strandstaðnum, eins og áður var að vikið.
Skipverjar á Hafþóri voru auk skipstjórans, Pálma Sigurðssonar: Ívar Nikulásson vélstjóri, Guðlaugur Sveinsson matsveinn og tveir færeyskir hásetar: Peter Debes og Jógvan Jóensen.