Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Sigurvin Marínó Jónsson
Hinn 16. desember s.l. lézt að heimili sínu, Faxastíg 25 hér í bæ, Sigurvin Marinó Jónsson, pípulagningameistari.
Marinó, en undir því nafni var hann þekktur hér, var fæddur hinn 20. maí árið 1900, að Skógum á Þelamörk í Eyjafirði.
Foreldrar hans voru Jón Jónsson Fanndal, bóndi í Skógum og kona hans Manasína Sigurðardóttir.
Marinó dvaldist með foreldrum sínum til 6 ára aldurs, en fór þá í fóstur til séra Árna Jóhannessonar í Grenivík og ólst þar upp til fermingaraldurs.
Eftir fermingaraldur fór Marinó að sjá um sig sjálfur og kom þá fljótlega hingað til Eyja í atvinnuleit yfir vetrarvertíðina. Á sumrin dvaldist hann ýmist hjá séra Árna eða með föður sínum. Hann þurfti því snemma að fara að bjarga sér sjálfur og byrjaði lífið ungur með tvær hendur tómar. En þær hendur voru vinnufúsar og þeim stjórnað af einbeittum vilja, sem var ákveðinn að vinna sig áfram i lífinu.
Framanaf stundaði Marinó alla almenna vinnu, en snéri sér samt fljótlega að sjónum og stundaði hér sjómennsku i 23 ár, lengst af sem vélstjóri, en vélstjórapróf tók hann á Siglufirði árið 1922. Nokkur síðustu ár sjómennsku sinnar var Marinó skipstjóri.
Vegna heilsubrests varð Marinó að lokum að hætta sjómennsku og snéri sér þá að pípulagningum. Starfaði hann fyrstu árin hjá S. Hermansen, en hóf síðan nám í iðngrein sinm og útskrifaðist með sveinsprófi árið 1948. Eftir það rak Marinó sjálfstæðan rekstur í iðngrein sinni, allt til dauðadags.
Þann 25. okt. 1924, gekk Marinó að eiga eftirlifandi konu sína Guðbjörgu Guðnadóttur frá Hliði í Sléttuhlíð í Skagafirði. Varð þeim 6 barna auðið, eru 5 þeirra á lífi og uppkomin, öll hin mannvænlegustu. Eitt barnanna lézt í bernsku, 6 mánaða gamalt, af afleiðingum kíghósta.
Það sem fyrst og fremst einkenndi Marinó heitinn, var dugnaður og framtakssemi að hverju sem hann gékk, enda viðurkenndur starfsmaður hvort heldur var á sjó eða landi.
Marinó Jónsson var maður glaðlyndur og vinsæll af öllum þeim er honum voru kunnugir, enda dagfarsprúður og þægilegur í viðmóti, þótt hann gæti verið fastur fyrir, ef svo bar undir.
Sjómannadagsblaðið kveður Marinó Jónsson og þakkar honum margra ára giftudrjúgt sjómannsstarf, jafnframt því sem blaðið sendir ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur.