Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Nokkur orð á sjómannadaginn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Séra ÞORSTEINN L. JÓNSSON:


Nokkur orð á sjómannadaginn


“Sjómannastéttin, nei, hún er ekki í miklum metum hjá þjóðinni, nema þá kannski bara á sjómannadaginn. Þá er vissulega margt fallegt um okkur sagt.“
Það er ekki langt síðan maður nokkur lét þessi napuryrði falla í eyru mín.
Ég mætti hinum á Strandveginum í vikunni sem leið.
Ég var einmitt að hugsa, hve geðugur og frjálsmannlegur hann væri, þessi roskni og lífsreyndi sjómaður, þarna sem hann kom á móti mér með snyrtilega tilhaft ýsuband í hendinni. Hann ætlaði augsýnilega að gleðja konuna sína með þessu, er hann kæmi heim að afloknum róðri. Mér fannst þetta ýsuband vera tákn umhyggju og ástríki manns, sem vann með sínum tveim höndum fyrir fjölskyldu sinni í sveita síns andlitis.

Séra Þorsteinn L. Jónsson.

Við tókum tal saman, og er minnzt var á sjómennsku og sjómenn, sagði hann þessi kuldalegu orð. Ég get ekki neitað því, að þetta snart mig ónotalega. Og það var heldur engin furða, ég sem átti að fara að skrifa grein í Sjómannadagsblað Vestmannaeyja.
Hvað meinti maðurinn eiginlega? Var hann að skensa mig og bera upp á mig hræsni?
Ég lét samt ekki á neinu bera.
Þetta mátt þú ekki segja. Það er langt fyrir neðan virðingu þína sem sjómanns, varð mér að orði. Og svo sagði ég honum frá því, að vestur á landi hafi í minni tíð þar verið kona nokkur, sem lét sér einu sinni um munn fara svipaða fjarstæðu og hann nú. Hún var ein efnaðasta konan í sinni sveit, greind og gegn. Maður hennar var hverjum manni vinsælli og hinn ágætasti búhöldur. Svo átti hún fjóra efnilega syni, sem voru að vaxa upp.
Einu sinni sagði hún við mig: “Ég veit svo sem, að það verður ekkert sérstakt úr drengjunum mínum, þeir verða bara bændur.“
„En hvað er þetta, kona góð,“ sagði ég, „finnst þér það nú ekki vera mikil og dásamleg Guðs gjöf?“
„Ja, jú, - það getur kannski verið. Þeir koma sér sjálfsagt áfram, strákarnir, en það líta bara allir niður á okkur sveitafólkið.“
Ég sagði sjómanninum, að mér hafi sérstaklega gramizt þessi orð konunnar, ekkert síður en mér hefði gramizt við hann áðan. Og með það skildum við.
Sannleikurinn er nefnilega sá, þvert á móti skoðun þessa vinar míns á Strandveginum, að þjóðin sýnir leynt og ljóst, að hún einmitt lítur upp til sjómannastéttarinnar, e. t. v. meira en hún lítur upp til annarra stétta í landi hér og fær þó bændastéttin allan sinn heiður jafnframt.
Hvernig á líka annað að vera? Þetta eru stéttirnar, sem færa björg í bú, og allt vanmat á þeim er vanþakklæti.
Verkhyggindi og vinnandi hendur eru í efnalegu tilliti einhver sá mesti fjársjóður, sem nokkur þjóð á. Og því vinnufúsari og ósérplægnari sem þessar hendur eru, verða þær hreinasta gersemi. Ég tala nú ekki um ef á bak við hverja vinnandi hönd stendur göfugur, ærlegur og traustur persónuleiki, þá hefur þjóðin náð hámarki í andlegri farsæld og daglegri lífshamingju.
En vinnandi hendur? Er hér ekki óljóst að orði komizt? Hverjar eru eiginlega hinar vinnandi hendur? Má ekki segja að, allar hendur, sem á annað borð annast afkomu sína og sinna, séu hinar vinnandi hendur?
Vissulega má þetta til sanns vegar færa, en í daglegu tali er venjulega meint hendur sjómannsins, bóndans og verkamannsins, þegar talað er um hinar vinnandi hendur. M. ö. o. hendur þeirra, sem starfa að framleiðslu þjóðarinnar. Enda er það til marks, að allir þeir, er saman safna gæðum og gjöfum náttúrunnar inn til dala og út við strönd, skapa grundvöllinn að starfi allra hinna, sem vissulega einnig eiga sínar vinnandi hendur, sem einnig eru jafn nýtar og jafn nauðsynlegar, ef þjóðarbúið á að geta skilað fullkomnuðu verki, sem vel er af hendi leyst og samkvæmt kröfu hvers tíma.

Varðskipið Albert og Lóðsinn við björgun b/v Trave frá Kiel.

Við Vestmannaeyingar eigum að geta skilið og viðurkennt þetta manna bezt. Ef nokkur bær á landinu getur heitið fiskveiðibær, þá er það bærinn okkar. Ég sé ekki betur en hér séu allstaðar hinar vinnandi hendur. Hér eru allir, sem heilsu hafa, vinnandi menn og konur. Hér sést enginn, sem sezt hefur í iðjuleysi til að njóta náðugra daga og sleikir sólskinið. Allt starf fólksins byggist beint á útgerðinni; enginn, sem talizt getur sníkjudýr á framleiðslunni. Verzlanirnar eru við hæfi og þarfir hins vinnandi fólks. En hér er velsæld meiri og almennari en annarsstaðar þekkist og það byggist allt á hinum vinnandi höndum. Og hvað er virðingarverðara?
En það er einmitt sjómannastéttin, sem hefur lagt grundvöllinn að þessu öllu.

Ég lít stórt á sjómannastéttina og bændastéttina í sameiningu. Og hvaða Íslendingur hlýtur ekki að gjöra það? Við erum öll af bændum og sjómönnum komin. Það er heldur ekki langt síðan við vorum nálega ein stétt, sem erjaði jörðina og sótti sjóinn jöfnum höndum. Sem fullvalda þjóð hljótum við að líta stórt á okkur, án þess að þurfa að ofmetnast. Hitt er vanmat á sjálfum sér, sem nálgast uppgjöf, yfirlýsing um að við séum ekki jafnokar annarra.
Og hvar sjáum við að sjómenn okkar reynist ekki hlutgengir menn með mönnum? Mér vitanlega sjást þess engin dæmi.
Mér er oft í minni atvik frá mínum ungu dögum. Við vorum í landafræðitíma í Menntaskólanum. Það var einmitt verið að tala um Noreg, siglingar Norðmanna og fiskiveiðar. Sagði kennarinn okkur, að Norðmenn væru taldir beztu sjómenn veraldar.
„En hversvegna ekki íslenzkir sjómenn?“ spurði þá einn, sem hélt að enginn stæði þeim á sporði að hreysti, dugnaði og áræði.
Kennarinn sagði okkur þá, að ekki væri eingöngu metið eftir því, heldur hversu mikið afhroð skipakostur þjóðarinnar biði árlega. Hér væri vogskorin strönd með boðum og blindskerjum, en allt of fáir vitar, svo að skipskaðar væru hér tíðir. Ef hinsvegar vitum og siglingamerkjum fjölgaði, kæmust Íslendingar vafalaust mjög bráðlega í tölu beztu sjómanna Veraldarinnar, enda væri munurinn þegar orðinn smár.
Ég man vel þá hrifningu, sem gagntók bekkinn við þessar upplýsingar kennarans; fann þjóðarstoltið brenna í okkar ungu æðum bekkjarsystkinanna - já, brenna með hreinum skærum loga.
Ég man líka vel, hve andrúmsloftið varð þrungið djúpri og þögulli bænarangan, sem bað þess eins, að vitum og ljósmerkjum mætti fjölga, svo að sjómennirnir fengju það öryggi, sem þeim bar, til þess að verða metnir að verðleikum. Hverjir áttu það líka fremur skilið en þeir?

Síðan þetta gjörðist hafa mörg vötn fallið til sjávar. Skipum hefur fjölgað, þau hafa einnig stækkað og allur öryggisútbúnaður fullkomnazt og vitum fjölgað.
Með öllum þessum framförum minnkar ekki virðingin, sem þjóðin ber fyrir sjómönnum sínum. Það er sönnu nær, að þetta hefur allt gjörzt vegna þess, að sjómannastéttin er vanda sínum vaxin um úthald og aflabrögð, svo að ekkert má telja eftir þessari stétt, sem henni og þjóðinni kemur að gagni.
Ég sagði fyrr um hinar vinnandi hendur, að þær væru einn hinn mesti fjársjóður, sem nokkur þjóð ætti. Þessvegna er það ávallt mikið áfall, þegar menn verða skipreika og farast á hafi úti, og mikil sorg í landi þeim ástvinum, sem snögglega eru sviptir stuðningi lífsförunauta og feðra, svo að sumar fjölskyldur bíða þess aldrei bætur. Enn á sjálfsagt vitum eftir að fjölga og öryggisútbúnaður á einnig eftir að verða fullkomnari, og væri vel farið að það yrði sem fyrst og sem fullkomnast. Það er sjálfsagt engum nýr né óvæntur sannleikur, að vitar og önnur ljósmerki, sem forða eiga siglingu frá voða og fjörtjóni, þurfi að lýsa út til hafsins. Hitt dylst aftur á móti mörgum, að hin dugmikla og ötula sjómannastétt Íslands þarf einnig aðra vita og ljósmerki, sem lýsa inn yfir landið. Í landi leynast nefnilega margar hættur fyrir sjómanninn, er hann kemur af hafi eftir volk og einangrun. Ungur og gamall sem er langdvölum fjarri heimilum sínum á þá oft í fá hús að venda. Þessum mönnum er oft hætta á að verða skipreika á þurru landi, einmitt af því, að ekki hefur verið hugsað fyrir ljósmerkjum þar. Og á þann hátt hefur líka margur góður drengur steytt á boðum og farizt. Fullkomin sjómannastofa er sá viti, sem ég tel, að geti lýst inn yfir landið hér í Eyjum og geti verndað frá ævilöngum hrakningum og fjörtjóni.
Gjörum nú að kjörorði þessa sjómannadags, að hver, sem á hér hlut að máli, vinni heilagt heit um það, að fullkomin sjómannastofa verði risin hér upp í síðasta lagi að tveim árum liðnum. Þá verður sjómannadagurinn 1963 meira en fögur viðurkenningarorð til sjómannastéttarinnar.
Guð gefi Vestmannaeyingum gæfu til þess, gefi sjómönnum okkar að ýta úr vör með Guð í hjarta og Guð í stafni. Megi þeim lánast að sigla sinn sjó með hann innanborðs, við höpp og fiskisæld.
Fylgi þeim svo farsæld og handleiðsla hans, er þeir snúa heilir til hafnar og heim.