Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1963/ Minningar úr gömlum hugarfylgsnum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
JÓHANN PÁLSSON:


Minningar úr gömlum hugarfylgsnum


Árið 1942, aðfaranótt sunnudagsins 1. marz. Vekjaraklukkan hringir á tilsettum tíma, engin grið gefin um að vakna. Í svefnrofunum er hlustað eftir vindgnauði, en alll er hljótt, ætlar hann aldrei að geta hvesst núna, búið að róa stanzlaust í fleiri daga og sunnudagur á morgun. Hvað sem mér væri núna boðið af þessa heims gæðum mundi ég helzt kjósa mér að mega leggjast aftur útaf og sofna svefni hinna réttlátu, að minnsta kosti til næsta hádegis, nú nú hringir þá ekki hin klukkuskömmin. Þá er að tína á sig spjarirnar, þó öll skilningarvitin bókstaflega neiti að starfa á eðlilegan hátt.

Jóhann Pálsson, kunnur skipstjóri og aflamaður úr Vestmannaeyjum.

Þá er næst að skoða veðrið, hann er dauðhægur og heiðríkja. Eftir að hafa dregið nokkrum sinnum djúpt að sér hreint og tært næturloftið, kemst líkamsvélin í eðlilegt ástand og virðist nú starfa með eðlilegri vinnslu á öll skilningarvit.
Þá er að fá sér kaffisopa með tilheyrandi í flýti, grípa bitakassann með sér um leið og snarazt er út úr dyrunum. Þá þekktist ekki að hafa kokka um borð í landróðrarbátum, þess vegna varð bitakassinn allsherjar mælikvarði á húsmóðurina hjá sjómönnunum, væri hann góður varð hún í þeirra augum hreinasta fyrirmynd í öllu, en þætti hann yfirleitt lélegur heyrðist oft sagt: „Það er eins og vant er, andskotans kerlingin er lík sjálfri sér í dag, aldrei ætur biti í kassafjandanum“, og oft bættu þeir við: „Það vildi ég, að allt stæði öfugt í henni, bölvaðri truntunni.“ Annars var góður kassi sá algengasti. Því miður eru allar slíkar tækifærisræður nú glataðar, svo kröftugar sem margar þeirra voru.
Nóttin er hljóðlát, allur bærinn sefur, margir formenn þurfa að ganga um allan bæinn að ræsa sína menn, sem dreifðir eru, einkanlega, ef um heimamenn var að ræða, varð þá að guða á glugga hvers og eins. Mjög var misjafnt hvað framleiða þurfti mikinn hávaða hverju sinni, fór það eftir hvað menn sváfu fast, einnig ýmsum aðstæðum.
Á þessu rölti, er var góður ábætir á komandi róður, bar það oft við að menn hittu kollega sína og sjómenn er voru að ganga til skips. Við og við glumdi í húsum er verið var að ræsa í; mikill hávaði varð að vera á undirbúningi róðursins ef ekki átti að tapa af tímanum, en það var eitt af því versta er fyrir gat komið, enda vel passað að slíkt kæmi ekki fyrir, nema um ófyrirsjáanleg atvik væri að ræða.
Á fyrirfram ákveðinni mínútu var róðrarmerkið gefið. Ákveðin lína var hugsuð og mátti enginn fara út fyrir hana. Allir vildu vera fremstir, spenningurinn var mikill, ganghraðinn réði hvort plássið náðist fyrir línuna eða ekki, bátslengdin á undan þeim næsta réði úrslitum, útstíminu mátti helzt líkja við geysi fjölmennar kappreiðar á víðum völlum. Allir kappkeyrðu eins og mögulegt var. Þeim sem síðastir voru í ár keyptu sér bara nýjar vélar og urðu þá fyrstir næsta árið á miðin, og svo koll af kolli. Þetta var og er stórfengleg sjón fyrir þá er ekki hafa hana séð. Æsispennandi eins og kappreiðar eru sagðar.
Svipað þessu gekk allt þetta til aðfaranótt 1. marz er þessar línur eiga að leysa. Í nokkra daga hafði ég sótt vestur á Selvogsbanka, afli var góður. en langt þótti þetta sótt.
Eins og áður segir var veður hið fegursta á ræsinu, en SA-kaldinn fór þó vaxandi meðan verið var að koma sér á stað. Á austurloftinu voru sléttar skýjaklær er við nánari athugun virtist vera vindur á. Stórstreymi var, flestallir bátar réru. Þó voru einhverjir í landi. Flestir fóru NV-slóðina. Ekki var ég allskostar ánægður með veðurútlitið og ákvað að keyra 1/4 tíma styttra en undanfarna daga. Auk þess að beygja þvert út með 6 síðustu bjóðin. Hvort tveggja var þetta gert til tryggingar því að fara ekki með línuna vestur á hraunið ef hann hvessti, en þá voru ekki dýptarmælar til að teikna upp fyrir mann botninn eins og seinna varð. Útstímið var hið ákjósanlegasta, því betra veður því lengra sem keyrt var NV.
Við vorum tveir, sem fórum töluvert lengst V þennan dag. Línan var svo öll lögð og sett ljós á endabaujuna, til að andæfa bátnum við meðan legið var yfir eins og venja var, baujuvaktinn sett og skyldi ræsa eftir 2 1/2 tíma.
Venjulega fengu menn sér kaffisopa og smábita er búið var að leggja: þarsem veðrið var gott var það gert í þetta skiptið, síðan fóru allir í koju nema baujuvaktmaðurinn.
Eitthvað varð ég var við að báturinn var farinn að velta mikið á baujuvaktinni, en slíkt var svo alvanalegt, að það hafði engin áhrif á svefndrukkna menn.
Á tilsettum tíma um það leyti sem næturmyrkrið var að víkja fyrir dagsbirtunni og kallað er orðið baujubjart, kemur vaktmaðurinn niður í lúkar að ræsa, segir hann að komið sé versta veður og alltaf að versna. Allir fá sér hressingu og klæðast sjógöllum sínum. Valinn maður var í hverju rúmi í bátnum. Var nú farið að draga línuna. Veðrið var geysilega hart og jós upp miklum sjó. Oft þurfti að kalla: „út á dekkið, verið klárir,“ en það þýddi að brotsjór væri að nálgast. Lítið náðist inn af fiski vegna veðurofsans. Oft slitnaði línan, en alltaf var keyrt í næsta hól unz öll línan hafði verið dregin inn í bátinn. Var þá orðið mjög áliðið dags, en tafsamt hafði verið að ná inn línunni. Þá var næst að gera sjóklárt fyrir heimstímið, öllu lauslegu var komið fyrir í lestinni og vel frá öllu gengið, segl strengd yfir lestarlúgu og hún skálkuð með þar til gerðum útbúnaði. SA 24—26 mílur voru heim. Segja mátti að varla væri stætt á dekkinu vegna veðurofsans og sjórinn eftir því mikill. Ég held að formennirnir hafi ætíð staðið sjálfir við stýrið í vondum veðrum á landstími, að minnsta kosti gerði ég það ævinlega og stóð þá vélstjórinn ætíð sjálfur líka.
Ekki heyrðist æðruorð í neinum manni, enda voru þeir slarkinu vanir, fóru allir nema við vélstjórinn niður í lúkar, er gert hafði verið klárt. Þegar farið var að keyra heim, en veðrið var beint á móti, fann maður bezt hvað beið manns næstu klukkutímana. Hvað átti nú að stýra heim til að koma réttur? Hvað selti mikið af í þessu veðri? Ca.1 1/2 strik. Það mátti segja að ekki sæist nema í næstu öldur. Alltaf varð að rýna fram og hafa auga með brotsjóum. Rétt áður eu þeir skullu á bátnum var dregið af vélinni, svo báturinn yrði mýkri og lyfti sér betur í öldubrotinu. Þetta varð oft að endurtaka með nokkurra sjóa millibili. Þrátt fyrir alla varúð kolfyllti oft í brotunum. Þá var gefin full olía á vélina áfram og við það reif báturinn sig upp úr sjónum. Með þessu lagi var keyrt klukkutíma eftir klukkutíma, allaf mjakaðist í áttina heim, klukkan langt gengin ellefu um kvöldið var komið beint upp undir Eiðið. Þar voru nokkrir bátar í vari, en áfram var samt haldið. Við Faxa mættum við 3 bátum, er ætlað höfðu austur fyrir, en snúið við.
Undir Eiði höfðum við tekið talsverðan slatta af olíu upp í stýrishúsið, ef á þyrfti að halda við innsiglinguna. Var nú slóað austur í flóann, og er nógu langt var komið austur, var tekið lag til að snúa bátnum undan. Var nú lónað með hægustu ferð beint undan. Við og við var olíu hellt á stýrishúsgólfið, er svo rann út, aðallega utan við hafnarmynnið.

Jón Í. Sigurðsson hafnsögumaður stjórnar björgun b/v Trave frá Kiel. Nánar verður sagt frá atburðinum í næsta blaði.

Klukkan rúmlega 11 var lagzt að bryggju heilu og höldnu. Margir bátar voru þá komnir í höfn, en við vorum sá síðasti, er inn kom um kvöldið.
Fjölda marga báta vantaði; var vitað um suma, en aðra ekki. Vitað var, að um daginn hafði einn báturinn sprengt sig og sokkið, en tilviljun og snarræði annars báts varð til þess að öllum mönnunum varð bjargað um borð í þann bát. Leið svo af nóttin með óbreyttu veðri. Um morguninn lægði veðrið svo mikið og gekk heldur suðlægari, að bátarnir komust inn. Höfðu margir legið undir Eiðinu um nóttina, en aðrir ekki náð landi fyrr en um morguninn. Þrjá báta vantaði, er ekki hafði spurzt til, einn af þeim rak á land næsta dag við Grindavík og björguðust allir mennirnir.
Einn af svo mörgum hörmungardögum, er rekja má langt aftur í tímann, hafði gengið hér yfir, 4 bátar tapaðir, þar af tveir með manni og mús. Ægir konungur hafði teflt fram öllu sínu harðsnúnasta liði svo að eitthvað hlaut undan að láta. Engin skip hafa enn verið smíðuð svo slór eða sterkbyggð, að hann hafi ekki unnið á þeim. Öll hjálpar- og öryggistæki, er nútíminn hefur fundið upp, reynast harla gagnslítil í hamförum sem þessum.
Öll él styttir upp um síðir, segir máltækið, svo var og með þetta veður, þó stóð það uppihaldslítið í hartnær vikutíma, að vísu ekki eins hart og fyrsta sólarhringinn, en sífelldir stormar og sjógangur, svo aldrei varð komizt á sjó.
Hér hefur stuttlega verið lýst einum degi í harðsóttri verstöð, en þeir eru ótal margir dagarnir á liðnum áratugum, er hafa verið þessum líkir, og það þó tjón hafi ekki orðið.
Mörgum árum seinna lentum við þrír bátar í útileguveðri og mældist þá vindhraðinn lengi nætur 17 vindstig. Er það mestur vindhraði, sem ég veit að hér hefur verið mældur, en sú nótt er önnur saga.
Ekki get ég skilið svo við þessar línur, að minnast ekki á þá merkilegu ákvörðun, er hér var tekin í sambandi við 1. marz veðrið 1942.
Menn höfðu tekið eftir því í gegnum árin, að sjóslysin hér báru lang flest upp á sunnudaga. Ræddu margir um að hætta ætti sunnudagaróðrum. Málið var þegar tekið upp í Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi og voru um það skiptar skoðanir eins og ávallt er þegar um nýmæli er að ræða. Þeir sem á móti voru töldu að slík ákvörðun sem þessi jafngilti styttingu á vertíðinni um sjöunda hlutann, einnig þegar landlegur vegna veðurs væru búnar að vera í vikunni, en kæmi gott veður á sunnudag, og þá ætti líka að vera í landi. Nei, slíkt gat ekki komið til greina. Hinir sem með voru töldu að fyrst og fremst ætti að taka tillit til slysfaranna á þessum dögum, einnig að friðun miðanna þessa daga gæfi aukinn afla hina dagana, einnig að skipshafnir ættu það eingöngu undir veðri hvort nokkur hvíldardagur yrði alla vertíðina. Málið var afgreitt með algeru róðrabanni á sunnudögum meðan róið væri með línu. Svo heitt varð þetta mál, að menn sögðu sig úr félaginu, og einn eða fleiri fluttust burt héðan.
Síðan breiddist sunnudagahelgihaldið út yfir nær allar verstöðvar sunnanlands vegna þeirrar góðu reynslu, er það hafði gefið hér. Nú vildi áreiðanlega enginn missa þennan ákveðna hvíldardag í hinu erfiða starfi. Í yfir 20 ár hefur enginn hér átt við sorgir og trega að beygjast vegna sjóskaða og slysa er voru svo tíð í sunnudagsróðrunum á línuvertíðum.
Heill sé þeim mönnum er voru svo lánsamir að koma þessari fögru hugsjón á þeim tíma í þá friðarhöfn, er reynslan hefur sannað, að rétt var að gera.

Koddaslagur á Sjómannadaginn.