Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Radíóstöðvar í skipum
Um 1880 sýndi Englendingurinn Maxwell fram á, fræðilega, að rafsegulbylgjur með nægilega hárri tíðni, geti farið milli tveggja staða þráðlaust.
Þjóðverjanum Hertz tókst þetta svo á tilraunastofu 1887.
1896 heppnaðist svo Ítalanum Marconi, sem starfaði mestan hluta ævinnar í Englandi, að senda þráðlaust nokkurra mílna vegalengd. 1901 tókst honum og samstarfsmönnum hans að senda skeyti þvert yfir Atlantshaf, frá Englandi til Ameríku.
1904 var svo fyrsta loftskeytastöðin sett upp í skipi.
Allar fyrstu stöðvarnar voru svokallaðir neistasendar og krystalviðtæki. Vegna þess hve viðtækin voru ónæm þurftu sendarnir að hafa feiknamikla orku og voru því bæði fyrirferðarmiklir og dýrir.
Rafeindalampinn
1904 gerði Englendingurinn Fleming fyrsta rafeindalampann, sem 1907 var mikið endurbættur af Ameríkumanninum Lee de Forest. Rafeindalampinn, eða útvarpslampinn eins og við köllum algengustu gerðir hans venjulega, hefur verið undirstaða allrar rafeindatækni nútímans og er því einhver merkasta uppfinning mannsandans.
Við tilkomu rafeindalampans minnkaði nauðsynleg sendiorka stórlega og hann gerði það kleyft, að nú gátu meðalstór og lítil skip fengið sínar loftskeytastöðvar.
Árið 1919 var svo fyrst farið að útvarpa tali og tónum í stað morsemerkja. Nú þurfti ekki lengur sérstakan loftskeytamann. Með aukinni tækni í framleiðslu tækjanna minnkaði fyrirferð og verð þeirra stórlega, þannig að nú var ekki lengur fjárhagslega ofvaxið vélbátaútgerðarmönnum að kaupa, eða leigja, radíótæki í báta sína.
Nú er svo komið, að ekkert skip, yfir 10 smálestir, má, lögum samkvæmt, fara úr höfn án starfhæfra radíótækja.
„Transistorinn“
Eftir síðustu styrjöld kom svo fram í Ameríku hinn svokallaði „transistor“, sem er á góðri leið með að leysa rafeindalampann af hólmi á mörgum sviðum. Það verður til þess að tækin minnka verulega, verða ódýrari og nota mikið minni straum. Og, það sem mest er um vert, bilanahættan verður sáralítil, miðað við það sem nú er. Það er skoðun mín, að öll radíótæki sem nú eru notuð í skipum, verði úrelt eftir mjög fá ár.
Öryggistæki
Frá því árið 1909, þegar 572 mannslífum var bjargað af gufuskipinu „Republic“ fyrst og fremst vegna loftskeytatækja skipsins, hafa radíótækin átt sinn stóra þátt í björgun óteljandi mannslífa. Ef tækin eiga að koma að fullu gagni, sem öryggistæki, þarf stöðuga hlustvakt á neyðar- og kallbylgjunni (2182 krið/sek fyrir talstöðvar) á öllum þeim stöðum, til lands og sjávar, sem hugsanlega geta veitt aðstoð. Á þessu hefur viljað vera misbrestur, sérstaklega hjá minni fiskiskipum, vegna þess að áhuginn fyrir aflafréttum situr í fyrirrúmi fyrir öðru, og er því viðtækið stillt á þær bylgjulengdir sem þeirra er að vænta.
Auk minnkandi öryggis fyrir sjófarendur almennt, veldur þetta miklum erfiðleikum fyrir landstöðvar að ná til fiskibátanna, þó á þurfi að halda. Með það fyrir augum að friða þær bylgjulengdir sem bátar nota sín á milli, er landstöðvum óheimilt að senda á þeim, nema í neyðartilfellum.
Eina heppilega og örugga lausnin er, að mínu áliti, að láta bátunum í té ódýr en örugg viðtæki, faststillt á neyðar- og kallbylgiuna. Þessi tæki hafa verið smíðuð hér heima og eru nú í öllum varðskipunum og mörgum millilandaskipum. Þau eru með „transistorum“ og eru því fyrirferðarlítil, straumspör og örugg í notkun.
Blindsendingar
Annað atriði í sambandi við viðskipti fiskibáta og lands vil ég minnast á. Það eru hinar svokölluðu „blindsendingar“. Þ. e., formenn senda upplýsingar um komutíma og annað sem viðkomandi aðilar í landi þurfa að vita, blint, í þeirri von að það heyrist í landi. Flestum formönnum þykir þægilegra að senda skilaboð sín þannig, auk þess sem það sparar viðskiptagjöld.
Margir annmarkar eru þó á þessum afgreiðsluhætti, aldrei er vissa fyrir því að skilaboðin nái réttum aðila óbrengluð og milliskipabylgjur bátanna yfirhlaðast af óviðkomandi viðskiptum.
Ég legg til að samtök útgerðarmanna og póst- og símamálastjórnin geri með sér samning um hóflegt, fast viðskiptagjald á ári fyrir hvern bát, en síðan fengi báturinn öll sín viðskipti við land, skeyti, samtöl og skilaboð, án reiknings.
Ég álít að báðir aðilar geti hagnazt á þessu fyrirkomulagi, strandstöðvarnar fengju nokkuð auknar tekjur, miðað við það sem nú er, og það sem meira er um vert, losnuðu við mikla skriffinnsku. Bátarnir fengju mikið öruggara samband við land, án verulegs aukakostnaðar. Það er einnig talsvert aukið öryggi í því, að bátarnir hafi sem oftast samband við landstöð.
Flugvélum er gert skylt að hafa samband við landstöð ekki sjaldnar en á kortersfresti meðan á flugi stendur. Þetta er gert til að landstöðin fylgist sem bezt með ferðum flugvélarinnar og viti, nokkurn veginn, hvar hún er stödd, ef eitthvað ber út af. Að sjálfsögðu er óþarfi fyrir báta og skip að hafa svo oft samband við landstöð, en það þyrfti þó að vera mikið oftar en nú tíðkast.
Að endingu vil ég svo láta þá ósk í ljós, að allir viðkomandi aðilar, bæði á sjó og landi, vinni að því að gera radíótækin sem öruggust og ódýrust og að því að þau komi að sem allra mestum notum.