Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Minningarorð: Einar Jóelsson
Minningarorð
Okkur sem ung erum finnst jafnan að tíminn sé lengi að líða, og þó . . . þegar ég lít um öxl og minnist vinar sem var mér einkar kær, þá finnst mér ég varla geta trúað því, að nú um þessar mundir sé um hálft ár liðið síðan hann var kvaddur burt af þessu sviði lífsins.
Einar Jóelsson, sem ég vildi minnast hér með fáum orðum, dó hér í bæ þann 13. janúar þessa árs. Mér finnst bæði langt og stutt síðan hann hvarf, langt sökum þess að ég sakna vinar, en stutt sakir þess að hann stendur mér svo ljóslifandi fyrir hugskotssjónum, eins og hann sé nýgenginn á burt. Þar sem Einar var, var aldrei deyfð né drungi, hann var síkátur og ræðinn og hafði frá mörgu að segja, ekki sízt er hann fór í siglingar og sigldi þá víða um höf. Þegar hann sagði frá, var hann af lífi og sál í frásögu sinni, svo að mér fannst sem ég væri sjálfur með í viðburðrásinni. Annars var Einar sérlega lifandi, ekki aðeins þegar hann sagði frá, heldur í öllum sínum störfum. Hann var mikill og góður verkmaður og sérlega viðbragðsfljótur og frár í öllum snúningum, enda var honum viðbrugðið hér áður fyrr fyrir hve góður leikfimismaður hann var. Og sannaðist það á honum, að margur er knár þótt hann sé smár, því Einar var ekki hár maður vexti, en stæltur vel.
Einar var sjómaður frá unga aldri og það af lífi og sál, og kunni jafnan bezt við sig þegar hann var á sjónum. En þegar hann var í landi, átti hann fáa vini betri en bækur og var víðlesinn og margfróður. Mér fannst alltaf standa ævintýraljómi af Einari, sem ég kynntist barn að aldri, og var hann óþreytandi á að segja mér frá viðburðum úr ævi sinni, eða úr bókum er hann hafði lesið. Með okkur var alltaf góð vinátta þó að ár og aldur skildi á milli. En Einar var barngóður og sannur félagi, vinatryggur og drengur góður.
Nú er þessi sjómaður og góðvinur minn horfinn yfir móðuna miklu og er skarð fyrir skildi í röðum vestmanneyskra sjómanna sem og í röðum vina hans. Mér finnst ég hafa misst mikið, en er ríkur að hafa kynnzt honum og átt hann að vini. Þessar fáu og fátæklegu línur eiga í senn að vera kveðja og þakklæti til Einars, minningarnar um hann eru geymdar en ekki gleymdar og blessa ég þær af hlýjum og þakklátum hug.
Guð blessi minningu hans.