Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1962/ Kveðja til samstafsmanna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
ÁRNI ÁRNASON FRÁ GRUND:


Kveðja til samstarfsmanna


Hreinræktaðir landkrabbar geta orðið svo samgrónir starfi sjómannsins, að þeir telji sig jafnvel heyra sjómannastéttinni til. Þannig er þessu varið með mig. Ég hef lifað og hrærzt i starfsemi svo nátengdri sjómönnunum, að mér finnst ég hafi heyrt þeim til allt síðan 1919 til 1961, að ég varð að láta af störfum á ritsíma og loftskeitastöðinni vegna heilsubrest.
Starf mitt hefur verið það gagnvart sjómannastéttinni öll þessi ár að koma af stað ásamt Björgunarfélagi Vestmannaeyja og |Bátaábyrgðarfélaginu hinu þekkta hjóli björgunarstarfseminnar, ef svo mætti að orði komast, vera einn af þeim, sem að þeirri miklu starfsemi hafa stuðlað. Ég miklast yfir því að hafa mjög oft orðið þess megnugur að verða að einhverju liði, geta verið einn liður milli björgunarskipanna og nefndra félaga í landi einsvegar og annarsvegar hinna nauðstöddu sjómanna.
Ég minnist að sjálfsögðu margra atvika í sambandi við þessa starfsemi. Sum þeirra eru þrungin sorg í þeim tilfellum, þegar enginn mannlegur máttur megnaði að veita umbeðna eða umvitaða þörf um hjálp, þrátt fyrir ítrustu tilraunir. Sumar minningarnar, og sem betur fer flestar, eru bundnar við gleði, og ánægju yfir farsælum endalokum alvarlegra hættustunda fiskimanna Eyjanna, er bæði mönnum og bátum varð bjargað á síðustu stundu í ógnarafli Ægis gamla.

Þessi mynd er af Rangæingum, sem drukknað hafa við Vestmannaeyjar frá 1906 til 1950, að undanskildum einum manni, sem drukknaði við Langanes.

Þótt allt viðkomandi björgunnarstarfseminni hafi tekið hinum ótrúlegustu breytingum til batnaðar, þá orka þær ekki að má úr huga mér þá feikna erfiðleika, sem þessu starfi, þ. e björgunnarstarfinu, var samfara í ótrúlegum ófullkomleika fyrstu áranna, þegar einasta samband okkar í landi, sem unnum við stjórnarvöl björgunarstarfseminnar, var eitt lítið vasaljós eða morselukt. Það gerði okkur þó mögulegt að komast í samband við íslenzk og erlend skip og beiðast aðstoðar þeirra við leit að bátum í sjávarháska. Þetta heppnaðist oftast ágætlega, svo mönnnum og bát varð í flestum tilfellum bjargað, þótt með sanni megi segja að stundum hafi verið skammt milli líf og dauða. Þegar svo vel tókst til, að mannbjörg varð, annaðhvort með eða án báts, urðu sannkallaðir gleðidagar sem gerðu það að verkum að vökunæturnar gleymdust í fögnuði velheppnaðra aðgerða björgunarstarfseminnar frá landi.
Er ég nú lít yfir farinn veg, minnist ég margra mætra einstaklinga, fyrr og síðar, sem auk sjómannanna sjálfra sýndu óbilandi þrek og dugnað til að yfirbuga aðsteðjandi erfiðleika á sjó og landi. Sú góða samvinna er nær einstæð og gleymist aldrei.
Fyrir þær sérslæðu samvinnustundir og aðar venjulegar gegnum starf mitt, mér liggur við að segja við sjómannastéttina þótt margt annað hafi að sjálfsögðu tilheyrt starfi mínu á ritsíma og loftskeytastöðinni, vil ég hér með færa sjómönnum Eyjanna sem og Bátaábyrgðarfélaginu og Björgunarfélagi Vestmannaeyja fyrr og síðar, mínar beztu þakkir.
Eg hafði vonað, að mér auðnaðist að starfa með ykkur, starfa að heill og velferð ykkar allra, enn um mörg ár. En því miður, heilsa mín leyfði þetta ekki lengur en fyrrnefnd 42 ár. Það má segja að það sé alllangur starfsdagur. en hann hefði gjarna mátt verða enn lengri.
Þessvegna vildi ég nota þetta tækifæri, sjómannadaginn, til þess að kveðja alla fyrinefnda samstarfsfélaga mína frá fyrstu tíð til þessa dags, þakka þeim langa og góða samvinnu og alla vinsemd er þeir hafa auðsýnt méir innan starfssviðsins og utan.
Ég óska ykkur öllum guðs blessunar í starfsemi ykkar á sjó og landi, sjóslys heyri aðeins fortíðinni til og sjómannadagurinn megi verða ykkur öllun til verðskuldaðrar gleði og ánægju.
Mætti ásannast hverjum Eyjanna farmanni fyrrort:
„Þú ert víkingur enn
svo að vanhugsa menn
fá ei veg þínum spillt
yfir mannlífsins dröfn.
Þér er létt um að sjá
hverri leiðinni á
muni liðugust sigling
í örugga höfn.“