Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Við sjóinn
BÆN
Guð, faðir vor, þú, sem hefur skapað himin og jörð, hafið og allt, sem í því er. Heyr þú bænir vorar. Lát þú alla hluti og alla viðburði verða oss tákn um elsku þína. Kenn oss að horfa á hafið í vitund um almætti þitt og algæzku. Og kenn oss að treysta þér og lyfta huganum til þín í öllum raunum lífsins og á þess gleðistundum. Ver þú með oss á úthafi lífsins, og vernda þú bát vorn gegn blindskerjum og brimboðum. Faðir, vér biðjum þig, blessa þú sjómannastéttina. Haltu þinni almáttugu verndarhendi yfir henni. Og lát þú orð þitt vera ljós á vegum hennar. Blessa þú og vernda þú konur sjómanna og börn. Gef þeim náð til þess að elska þig og treysta þér og biðja þig, svo að bænir þeirra verði blessun yfir hafinu. Blessa þú sjómannastéttina og göfga. Ger hana hughreina og djarfa til sóknar í andans heimi. Blessa þú oss, almáttugi Guð, á leið vorri yfir lífsins sæ. Gjör oss öll samhuga, og að einu bræðra- og systrafélagi, svo að hver styrki annan og vér öll elskum hvert annað, hvort sem vér störfum á sjó eða landi. Gjör þú bjart og sólríkt á úthafi lífsins. Heyr þú bæn vora í Jesú nafni. Amen.
Sálm. 95, 5. Hafið er Guðs og hann hefir skapað það.
Amen.
Ég geng til vinar míns og spyr hann: Hvað segir þú mér um hafið? Hann svarar: Ég hef staðið á háum kletti og horft hugfangin á æðandi öldurnar, sem byltast hvítfextar upp að berginu. Mér fannst öldunum þykja vænt um klettinn, og þó hömuðust þær eins og þær vildu brjóta hann undir sig.
Undursamlegt er hafið og margbreytilegt. Það tekur sál mína sterkum tökum. Engin bára er eins. Sumar eru dimmar, en aðrar bjartar. Og þegar sólin skín í öldufaldinn, þá ljómar hann í óendanlegu litskrúði. Ég hef hlaupið eins og barn í sandinum og látið mjúkar öldurnar svala berum fótum mínum. Þá hefur mér fundizt þær kyssa mig eins mjúklega eins og móðir kyssir barn sitt, og ég hef elt sjávarlöðrið, sjávarfroðuna, mér sýndist það vera glitrandi perlur, og ég greip þessar perlur, himinglöð, en sjá ég stóð á eftir með tvær hendur tómar. Ég hef staðið að kvöldlagi og horft yfir spegilsléttan sjóinn, þegar sólin hefur verið að setjast við hafsbrún og frá mér hefur legið eins og glitrandi eldbrú inn í gullhliðið, dýrðina. — Hafið hefur gefið mér margt og mikið, björg og blessun, auð og allsnægtir, í heim efnis og anda. Það hefur blessað feður mína og forfeður, mæður og formæður, bræður og systur, því að auð hefur það veitt mér og þeim og lífsnæringu. Ég hef fylgt vinum mínum til sjávar og hugur minn hefur fylgt þeim um hafið margar nætur og daga árum saman og þessir vinir mínir komu heim aftur heilir af hafinu. Og ég hef fagnað vinum mínum heimkomnum, glöðum og ríkum af björg. Og ég hef fylgt öðrum vinum mínum til sjávar, einkavinum, ég vafði þá í faðm mér, og ég bað Guð að blessa þá og gefa að þeir kæmu aftur heilir heim, en aldrei sá ég þá aftur. Svo að ég hef grátið og kveinað vegna hafsins. Hafið hefur gefið mér gleði og sorg, það hefur gjört mig ríka og fátæka. Undursamlegt er hafið. Sæll er sá, sem dvelur við hafið.
Nú hef ég tilfært orð konu, sem alla sína ævi hefur dvalið við hafið, er fædd við sjóinn, hefur alizt upp við sjóinn og lifir við sjóinn. Nokkuð líkt og hún hef ég sjálfur stundum hugsað. Og ég geng þess eigi dulinn, að eitthvað með líkum blæ hafið þér hvert og eitt oft hugsað, þér sem hafið dvalizt og dveljizt hér á eyju sævigirtri, og konan bætir enn við í umsögn sinni um hafið, sem er kvæði líkust: Sjórinn hefur kennt mér að hugsa um Guð og skilja lífið. Hve sárt sem sjórinn hefur leikið mig, hef ég aldrei óskað, ég vildi að það væri enginn sjór. Og hvernig sem lífið horfir við þá óska ég aldrei, ég vildi að það væri ekki líf.
— Hafið kennir mörgum að hugsa þannig um dásemdir lífsins, sorgina og gleðina, og um blessun Guðs og það er einmitt þetta, sem sjómenn og vinir þeirra eiga að læra af hafinu, því að hafið er Guðs, hann hefur skapað það. Og vér skulum láta orð vinar míns kenna oss öllum að hugsa einnig um Hafið í andlegum skilningi. Tilveran er rík efnalega og andlega. Hún er eins og úthaf ótæmandi uppsprettu. Það er öllum mönnum rétt að líta þannig á líf sitt, vita að þeir eru við sjóinn og á sjónum í fegurstu merkingu þessara orða.
— Því að ótæmandi máttur og ótæmandi fegurð og ótæmandi blessun er fyrir hvers manns dyrum, eins og úthafið við landsins strendur. Nú á tímum reisir hver heilbrigður maður bæ sinn við sæ menningarinnar. Það, sem fegurst hefur verið hugsað, það, sem viturlegast hefur verið sagt, ótæmandi menningarmöguleikar eru þeim til boða, sem eru við sjóinn, sem lifa á tímum upplýsingar nútímans. Og einnig má líkja fagnaðarerindinu við úthaf. Ótæmandi er boðskapur þess um lífið og ljósið, óteljandi eru litbrigði þess og litskrúð. Virðum fyrir oss mannlífið og viðburði þess, fornaldir, nútímann og framtíð og horfum á þúsundir miljónanna, sem lifað hafa og lifa nú á jörðunni. Sjáum ómælið í lengd og dýpt. Og skiljum hvílika kenningu þessi orð fela í sér.
Við sjóinn.
En í hverjum skilningi sem vér erum á sjónum eða við sjóinn, þá er líf vort ekkert líf, nema vér finnum það, að vér erum vernduð af hinum guðdómlega krafti, og að Kristur er með oss. Og í ljósi þessara orða skuluð þér nú lesa ræðuna aftur og höndla það, sem bak við orðin felst, höndla það í andlegri merkingu.
Helga, Drottinn, hafsins þegna; heill þeim veit og lát þá sjá blessast alla iðju sína. Elsku vora bæn og þrálát sem engla ljóssins vaka. Líkn þú veit. Bæg slysum frá. Skip lát koma heil til hafnar. Heilags anda styrk oss ljá.
Ástvinunum yfir vak þú. Allar bænir sjómanns heyr. Blessa þú hans börn og konu. Birt þeim alltaf meir og meir af þinni náð og þinni vizku. Þeim veit gjafir blessunar. Send þeim allar auðnu sólskin eilífbjartrar miskunnar.
Amen.