Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Hvað er fram undan?

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
RUNÓLFUR JÓHANNSSON:


Hvað er fram undan?


Vetrarvertíð sú, sem nú er á enda, vekur að vonum marga til hugleiðinga um það, hvað fram undan sé, hvort fiskurinn sé að hverfa af miðum Eyjamanna, eða hvort hér sé aðeins um stundarfyrirbæri að ræða.
Gagnvart þessum spurningum standa flestir jafnir, þeim verður ekki svarað með neinni vissu. Getgátur manna og framtíðarspár eru með ýmsum hætti, þó munu þeir fleiri, sem bölsýnir eru þessa stundina, og þeim það vart láandi.
Fiskitregðan undangengnar tvær vertíðir kemur flestum á óvart, en þó sérstaklega það, að aprílmánuður (hrygningarmánuðurinn) brást verulega í báðum tilfellum, en þennan mánuð hefur yfirleitt mátt telja tryggan með fisk.
Ég, sem þessar línur rita, ætla ekki að spá hér neinu um, en hjá mér, sem og hverjum þeim, sem eitthvað hefur fengizt hér við veiðiskap, vakna upp ýmsar hugleiðingar um hvað þessu valdi, og hvað í vændum sé. Skoðun margra er, að fiskinum sé alltaf að fækka, dragast saman. Þeir rökstyðja það með því, að á árunum um og eftir síðustu aldamót hafi fiskigengd verið miklu meiri en nú, og satt er það, að afli var þá oft og einatt mjög góður, með tilliti til þeirrar tækni, sem þá var, bæði hvað snerti báta og veiðarfæri, og sem á engan sambærilegan hátt var í líkingu við það, sem nú tíðkast.
En eitt er vert að hugleiða í þessu sambandi. Hafa ekki alltaf verið áraskipti á fiskigengd við strendur landsins? Ég held það. En væri þetta öruggt, þá gæti verið hér um tímabil að ræða, sem er neikvætt eins og er, en breyttist svo fyrr en varði til hins betra.
Fyrir nokkrum árum las ég grein, sem þýdd var úr færeysku dagblaði, þar sem rætt var um fiskigöngur við Færeyjar um nálægt aldartímabil. Greinarhöfundur taldi, að á þessu tímabili hefði skiptingin verið þessi. Í 4—5 ár hefði fiskazt vel, en í 15—17 ár lítið. Þetta hefði nokkurn veginn haldizt í hendur umrætt tímabil og á þessum 4—5 árum hefði venjulegast fiskazt meira en á hinum 15—17.

Þeir sækja súlu af krafti.

Heimildir fyrir þessu taldi hann öruggar, og teknar upp úr verzlunarbókum dönsku einokunarverzlunarinnar. Og svo spyr hann að lokum, hvaðan kemur fiskurinn, og hvert fer hann? Margt bendir til þess, að hér við land hafi ekki ávallt verið gnægð fiskjar, og kemur þá fyrst til að landnámsmenn lögðu aðaláherzlu á landbúnað, þrátt fyrir erfiðar aðstæður á allan hátt, en fiskveiðar voru minna stundaðar. Þeir höfðu þó flestir góð skip til umráða, á þeirra tíma mælikvarða, og komu frá landi þar sem fiskveiðar voru mikið stundaðar, og kunnu því að sjálfsögðu góð skil á öllu, er að sjóferðum og fiskiríi laut. Slíkt þarf ekki að efa, sbr. er segir í Egils sögu Skallagrímssonar: „Þórólfur sópast mjög um föng þau, er þá váru á Hálogalandi, hafði menn sína í síldveri, og svá í skreiðfiski.“ Það er vitað með vissu, að iðulega komu hér aflaleysisár, að ekki sé nú minnzt á þau árin, er eldar voru uppi, og fiskurinn hvarf með öllu af landgrunninu vegna öskufalls.
Þótt fiskveiðar væru nokkuð stundaðar til forna á vissum árstímum, eru þær lengi vel ekki taldar til sérstakrar atvinnugreinar, aðeins sem nokkurs konar búsílag.
Það er ekki fyrr en á síðari hluta 14. aldar, að fyrst er getið um skreið til útflutnings, og árið 1563 er fyrsti fiskimannaskatturinn lögfestur, svonefnt sætisfiskgjald. Það ár gefur Páll Stígsson höfuðsmaður út þá skipan, að allir þeir sem rói úr Einarslóni og Dritvík, eða þar eigi heima, skuli gjalda einn fisk árlega til Lónskirkju.
Sætisfiskgjaldið var mjög illa þokkað af vermönnum og borgaðist bæði illa og treglega.
Fjölda mörgum árum seinna er sætisfiskgjaldinu einnig komið á í Gullbringusýslu, og átti aðeins að borga sætisfisk til Hvalsneskirkju og Útskálakirkju.
Aðeins utanhéraðsmenn áttu að gjalda þennan skatt, þó því aðeins, að þeir fengju ekki undir 100 fiska í hlut yfir vertíðina. Nafnið sætisfiskur er talið stafa af því, að talið hefur verið, að vermenn keyptu sér sæti í kirkju verstöðvarinnar með þessu gjaldi.
Hér hefur nú lítils háttar verið skyggnzt yfir til liðinna tíma, en þó lítið sé, gefur það okkur dálitla vísbendingu um það, sem hér var minnzt á í byrjun þessarar greinar, að fiskitregða og aflaleysisár komu hér oft og iðulega.
Að vísu voru tækin ófullkomin og ekki hægt að sækja langt út. En þar á móti kom það, að fiskurinn gat gengið óhindraður inn á landgrunnið, engar botnsköfur eða aðrar tálmanir voru þá til fyrirstöðu.
Árið 1895 kemur botnvarpan til sögunnar. Víst er um það, að full þörf var á betri veiðiskipum, en veiðitækið eða botnvarpan sem þessi skip notuðu, varð víst helzt til frek á fiskstofninn. Fyrir henni lágu landgrunnið og hrygningarsvæðin opin að heita mátti, og illa varið, það sem lagalegrar friðunar skyldi njóta.
Árangurinn kom fljótt í ljós, því ekki höfðu liðið meira en 15—20 ár frá því togararnir komu, þar til heil svæði, firðir og flóar, var allt upp urið, og fjöldi verstöðva lögðust með öllu niður. Á eftir þessum aðgerðum togaranna komu svo bæði útlendir og innlendir bátar með dragnótina, sem hafði sitt að segja.
Um líkt leyti og veiði erlendra togara hófst hér við land, breyttust einnig veiðitæki bátanna frá handfærinu til línuveiða, sem talið er að hér í Vestmannaeyjum hafi verið byrjað með 1897, og svo þorskanetin nokkru eftir aldamót, en þau höfðu þá verið notuð um langt árabil í Faxaflóa.
Þessi veiðitæki, sem bátarnir notuðu, voru í stöðugri hættu vegna togaranna, en þó sérstaklega netin. Það var fyrst og fremst vegna þessarar hættu, að menn neyddust til að leggja þau á hraunin, en áttu þá aðra hættu yfir sér, eða þá að tapa þeim í þau.
Hraunafiskirí hefur af mörgum verið gagnrýnt, aðallega nú í seinni tíð, vegna hrygnunnar, sem þar veiðist, frekar en á leirbotni. Sá reginmunur er þó á þorskanetum og botnsköfu eða trolli, að í netin veiðist aðeins fullvaxinn fiskur.
Það eru nú nærri 60 ár síðan Danir byrjuðu hafrannsóknir hér við land, og sem kunnugt er var það gamli Þór, sem valinn var fyrst til þeirra rannsókna árið 1903.
Í þessu sambandi þykir mér hlýða að taka hér upp smáglefsu úr grein, sem birtist í mánaðarritinu Ægi í júlí 1931, með eftirfarandi fyrirsögn: „Fiskirannsóknir. Selvogsbanki er „miðstöð“ þorsksins í Norðurhöfum.“ Grein þessi er eftir dr. Táning, sem var foringi á rannsóknarskipinu Dana á þessum árum, og segir hann meðal annars:
„Ég tel það nú fyllilega sannað, að Selvogsbanki og sjórinn milli Vestmarmaeyja og lands sé vagga þorsksins og aðalmiðstöð í Norðurhöfum, að vísu hafa sannindi fengizt fyrir því, að þorskur hrygnir víðar hér við land, svo sem fyrir Norðurlandi og Austurlandi, en það er alveg hverfandi lítið á móts við þá óskaplegu og ótrúlegu viðkomu, sem er á Selvogsbanka og þar í grennd.“ Þetta var sagt um miðin okkar árið 1931. Getum við endurtekið og undirstrikað þetta nú, 30 árum seinna? Við skulum vona það.
Stór hluti landgrunnsins hefur nú öðlazt lagalega friðun, yfir því gleðjast allir a. m. k. í orði.
Fiskirannsóknir eru efldar og tækninni fleygir stöðugt fram. Þetta er allt mjög ánægjulegt, og þó.
Háværar raddir heyrast, aldrei meiri nauðsyn á að fá leyfi. — Já, þær þóttu löngum góðar skófirnar. Ég minntist á landnámsmanninn og bóndann. Bóndanafnið hefur haldið velli vel og lengi, að vísu óx þar af grein, með fimmtándu öldinni — „útvegsbóndinn“.
Fyrsti bóndinn okkar lét til að byrja með fénað sinn naga skóg og annan gróður, meðan til entist. Þessar aðfarir urðu þó ekki haldgóðar, og leiddu víða til landauðnar. En á seinni hluta síðustu aldar hefst vakning til breyttra búskaparhátta. Hún var að vísu hægfara í byrjun, en mætti þó skilningi fjöldans. Nú er svo komið, að algjör bylting hefur átt sér stað, sem felst í friðun og ræktun landsins, og svo að sjálfsögðu bættum vinnutækjum.
Hvað svo með útvegsbóndann, hefur hann farið eins að? Tækni og nýjungar hefur hann tekið í sína þjónustu og stendur sízt að baki hinum á því sviði. En friðun og ræktun fiskimiðanna, hvernig stendur hann gagnvart því? Þeirri spurningu, hvað framundan sé, verður að þessu sinni ósvarað. En beri Íslendingar gæfu til að friða landgrunnið og haldi botnsköfunni og öðrum skaðlegum veiðitækjum utan þess, liggur svarið nær.