Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960/ Eyjólfur Jónsson, frá Garðsstöðum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Eyjólfur Jónsson


frá Garðstöðum


F. 27. marz 1922. D. 6. okt. 1959


Við vinnufélagar Eyjólfs Jónssonar — Eyja á Garðstöðum eins og hann var oftast kallaður — gleymum áreiðanlega seint þeim októberdegi í fyrra haust er við fréttum lát hans, því Eyi var hvers manns hugljúfi og sérstakt lipurmenni í allri viðkynningu. Það var því höggvið stórt skarð í okkar fámenna hóp.
Eyjólfur Jónsson var fæddur á Garðstöðum 27. marz 1922, og var því aðeins 37 ára gamall er hann lézt. Hann missti mjög ungur móður sína, en móðurbróðir hans Ólafur á Garðstöðum og kona hans Auðbjörg tóku hann og ólu upp, og er óhætt að segja að þeim færist það vel, því að Eyjólfi þótti eins vænt um þau og væru þau foreldrar hans.
Eins og að líkum lætur með dreng, sem alinn er upp svo að segja niður við flæðarmál, fór hann ungur að vinna að sjómannsstörfum, og kom þá fljótt í ljós hve allt lék í höndum hans sem að sjónum vissi. Hann var því mjög eftirsóttur bæði sem sjómaður, vélstjóri og beitumaður, eins og raunar við hvert það starf sem hann tók sér fyrir hendur síðar.
Eyjólfur var mjög félagslyndur maður og stefnufastur. Hann gekk ungur í Knattspyrnufélagið Tý og starfaði þar mikið, ekki eingöngu sem íþróttamaður, heldur miklu fremur sem starfandi félagi, og þau eru áreiðanlega ótalin öll þau dagsverk er hann lét því félagi í té.
Þá var Eyjólfur og mikill afreksmaður í sundíþróttinni. Var hann sundkóngur Vestmannaeyja um langt skeið og hélt þeirri nafnbót til æviloka. Leikfimi iðkaði hann líka og þótti ágætur, en vegna bæklaðs handleggs sýndi hann ekki með, en sjálfkjörinn þótti hann til að halda uppi merki félagsins, meðan íþróttasýningar fóru fram.
Ég held að ég hafi aldrei unnið með ósérhlífnari manni en Eyjólfi að íþróttamálum, og sama er að segja um öll þau störf, er við unnum saman síðar. Hann var verklaginn og verkséður í bezta lagi, enda hefði hann aldrei getað skilað jafnmiklu starfi og raun varð á, ef svo hefði ekki verið, því að hann var aldrei vel hraustur — gekk aldrei heill til skógar —, en aldrei kvartaði hann samt.
Ég átti því láni að fagna að kynnast Eyjólfi sérstaklega vel gegnum langt samstarf, bæði við íþróttir og vinnu, og verð að segja það að betri félaga er ekki hægt að fá. Ég veit að þetta er ekki aðeins mín reynsla, heldur og líka allra þeirra er kynntust honum. Þess vegna veit ég að hans er saknað af heilum hug.

Blessuð sé minning hans

Karl Jónsson