Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1960/ Ágúst Ármann Markússon

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Ágúst Ármann Markússon


F. 26. júlí 1943. D. 10. júlí 1959


Sjálfsagt hefur fæsta þeirra, er horfðu á mb. Þórunni leggja frá bryggju áleiðis norður til síldveiða í fyrrasumar, órað fyrir því, að fáum dögum síðar bærist þeim fregnin um andlát eins skipverjans, hins yngsta, Ágústs Ármanns Markússonar. En svona er lífið, fullt óvæntra atvika, örlögin fyrirbúin við næsta fótmál. Því er ekki að leyna, að flesta bæjarbúa setti hljóða við helfregn þessa unga manns. Glaður og reifur, í blóma síns unga lífs, og framtíðin heillandi fögur og björt, ýtti hann frá landi. Því er raunar svo farið með flesta unga menn, að hið ókunna, það, sem enginn sér né veit, hvernig er, einmitt það seiðir, löngunin til að sjá, heyra og þreifa á leiðir manninn áfram til vaxandi þroska. Einmitt þetta var að gerast i huga Ágústs. Hann var að leggja út á ókunnar slóðir, sem hann hefur að vísu heyrt eitthvað um, en ekki fengið að reyna sjálfur né þreifa á. Og einmitt leitin á þessum ókunnu slóðum varð honum að aldurtila.
Þess er varla að vænta, að 16 ára unglingur skilji eftir sig djúp spor eða sérstaklega mikilla áhrifa gæti frá honum með samtíð hans. En alla jafnan fara þá fyrst að koma í ljós, hvaða hæfileikum maðurinn býr yfir, hvers má af honum vænta í framtíðinni, enda vart náð nema hálfum þroska á þeim aldri. Ágúst heitinn hafði ekki stundað sjóinn lengi, en þó nægilega til þess, að af honum mátti mikils vænta. Að sögn fróðra manna var honum margt vel gefið varðandi ýmis verkleg störf. Hann var ótrauður að taka til hendi, þar sem þess þurfti með, og má eflaust telja, að hefði honum enzt aldur, hefði hann orðið hinn liðtækasti maður. Ágúst Ármann Markússon var sonur hjónanna Auðar Ágústsdóttur, Jónssonar, frá Varmahlíð, og Markúsar, skipstjóra, Jónssonar, Gíslasonar, frá Ármóti. Ágúst ólst upp á heimili foreldra sinna og hlaut þá skólagöngu, sem fyrir er mælt með lögum, og lauk námi við Gagnfræðaskólann hér. Að því loknu hóf hann störf með föður sinum við sjóinn, og með honum var hann, er hann hlaut höfuðhögg mikið, sem dró hann á skömmum tíma til dauða.
Ágúst heitinn var hvers manns hugljúfi og hinn prúðasti í öllu dagfari. Hann lét ekki mikið yfir sér, enda var hann sýnilega alinn upp við að látast ekki, heldur vera, koma til dyranna, eins og hann var klæddur, en ekki búast fölskum skrautklæðum. Að honum er mikil eftirsjá. Enginn fær framar umflúið þá staðreynd, að hann er og verður horfinn sjónum mennskra manna. En huggun felst í þeim orðum skáldsins, að honum sé fyrirbúið „meira að starfa guðs um geim“. Sú fullvissa, að hann var kvaddur til starfa á æðri sviðum, er nokkur huggun í sárum harmi og trega.