Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1959/ Þorvaldur Guðjónsson, skipstjóri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Þorvaldur Guðjónsson, skipstjóri


Fæddur 10. Mars 1893. Dáinn 13. Apríl 1959.

Andlátsfregn Þorvaldar Guðjónssonar kom ekki þeim á óvart, sem til þekktu, fyrirfram var vitað að hverju dró.
Hann veiktist á s. 1. hausti og dvaldi þá svo mánuðum skipti á sjúkrahúsi, en fór heim nm áramótin og bjartsýnismaður eins og hann ávallt hafði verið, fór hann þegar að ráðgera um útgerð á komandi vertíð, en forlögin höfðu annað ákveðið og þó hann hefði lengst af fótavist, auðnaðist honum ekki að þreyta fleiri glímur við Ægi og andaðist 13. apríl, en var jarðsunginn frá dómkirkjunni í Reykjavík 18. apríl.
Þorvaldur Guðjónsson eða Valdi á Sandfelli, eins og hann var oftast nefndur hér í Vestmannaeyjum, var hár maður vexti og beinvaxinn, höfðinglegur í fasi og sópaði að honum hvar sem hann fór. Hygg ég að mjög hafi honum svipað til afa síns, Jóns Valdasonar um ýmislegt, en Jón þótti manna einarðastur og lítt fyrir að láta hlut sinn hvort sem sýslumenn eða aðrir höfðingjar áttu í hlut.
Guðjón, faðir Þorvaldar, var hraustmenni hið mesta og minnist ég þess enn. er ég á minni fyrstu vertíð við Suðurland sá þennan kempulega formann kasta upp fiski úr bát sínum í Sandgerði, þó einhentur væri, og er það víst, að enginn eftirbátur var hann hinna þó hefðu þeir báðar hendur. Trúað gæti ég að Þorvaldur Guðjónsson hefði orðið landskunnur íþróttamaður ef aðstaða hefði verið til iðkana, enda hafa þeir frændur margir gctið sér mikla frægð sem íþróttamenn.
Íþrótt Þorvaldar varð sjómennskan og þar reisti hann sér þann minnisvarða er halda mun nafni hans á lofti. Hann var afburða sjómaður, djarfur, en þó athugull svo af bar og aldrei hlekktist honum á eða henti slys á hans fleyi svo orð sé á gerandi. Yfirburðir Þorvaldar sem aflamanns eru löngu landskunnir og raunar erlendis líka, en hann virtist vera nokkurn veginn jafnvígur á veiðar í hvaða veiðarfært, sem hann bar við, en aðalsmerki hans kom einmitt hvað ljósast fram í því, hversu ótrauður hann var að fitja uppá nýjungum. Eitt var það sern einkenndi mjög sjómennskuferil Þorvaldar, en það var aldur skipshafnar hans. Alla jafnan var skipshöfnin ungir menn og ekki var hann ragur við að ráða til sín stráka og munu fáir skipstjórnarmenn hafa haft eins marga unglinga og byrjendur á sínum útvegi og hann. Þorvaldur fluttist hingað út til Vestmannaeyja með foreldrum sínum árið 1903 og byrjaði mjög ungur að róa með föður sínum á 8 tonna bát sem Ingólfur hét. Árið 1915 tók Þorvaldur við skipsstjórn á nýjum bát, er Silla hét, og varð einhver sá aflahæsti strax þá vertíð. Að aflokinni þessari fyrstu vertíð sem formaður, lét Valdi byggja fyrir sig bát, nimlega 9 tonn, úti í Færeyjum og sigldu þeir feðgar, Guðjón, Þorvaldur og Hallgrímur bróðir hans honum upp og fengu þeir aftaka veður. Ferðin tók rúma 3 sólarhringa. Þennan bát átti hann í 4 ár en gerðist síðan formaður fyrir ýmsa útgerðarmenn, lengst af þó fyrir Gísla Magnússon. Um 1930 kaupir Þorvaldur svo vélbátinn Leo og var hann með hann í mörg ár hér í Vestmannaeyjum, eða unz hann seldi hann. Eftir það var hann löngum búsettur utan Vestmannaeyja og skipstjóri ýmist á eigin skipum eða fyrir aðra.
Ekki verður þessi upptalning tæmandi, til þess skortir mig kunnugleika, en mér er kunnugt um að Þorvaldur var formaður á bátum frá Seyðisfirði, Langanesi, Sandgerði og víðar.
Ýmsar ferðir fór Þorvaldur á milli landa og sumar allsögulegar, þó ekki verði rakið hér. Hann var einn í hinni frægu Grænlandsferð á Gottu og minnaat þeir félagar hans, í þeirri ferð, á þann hátt að þeir telja hans skiprúm þar hefði verið vandfyllt af örum.
Foreldrar Þorvaldar voru þau hjónin Ingveldur Unadóttir og Guðjón Jónsson, bæði ættuð undan Eyjafjöllum og þar fæddist Þorvaldur. Hann var heitinn eftir Þorvaldi hinum ríka á Þorvaklseyri, þeim er þótti hæfilegt að narra Aagaard sýslumann með grjótinu. Systkini Þorvaldar voru alls 9, efnis- og atgjörvisfólk, sem alls staðar sópaði að, hafa þau systkyni erft harðfylgi föðurins, en jafnframt í ríkum mæli blíðu móðurinnar. Einkabróðir Þorvaldar var Hallgrímur, voru þeir bræður mjög samrýmdir og saknaði Þorvaldur hans mjög, þótt lítt léti hann á sjá, en Hallgrímur drukknaði af vélbát á leið frá Reykjavík til Vestmannaeyja.
Síðustu árin átti Þorvaldur heimili að Vitastíg 8 í Reykjavík og þar hafði kona hans, Klara Guðmundsdóttir, búið honum vistlegt heimili, og hennar umönnunar naut hann í ríkum mæli í erfiðleikum sjúkdómsins síðustu mánuðina. Þorvaldi Guðjónssyni varð ekki barna auðið, en kjördóttir átti hann, Hörpu að nafni, og reyndist henni sem bezti faðir, enda með afbrigðum barngóður. Þorvaldur Guðjónsson var höfðinglegur maður, höfðingi í lund og kunni vel með höfðingjum að vera, sem öðrum. Þjóðin oll, ástvinir hans og við samferðamennirnir stöndum í mikilli þakkarskuld við þennan síglaða og æðrulausa atgjörvismann. Hans er gott að minnast.

Páll Þorbjörnsson