Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1959/ Í mörgum myndum: Ræða flutt á styrjaldartíma

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Séra HALLDÓR KOLBEINS, Ofanleiti


Í mörgum myndum


Ræða flutt á styrjaldartíma.


Séra Halldór Kolbeins.


Algóði og eilífi faðir. Varðveit og vernda þú sjómennina. Lát þú heilagan anda þinn fylla hug þeirra og gjöra þá sannhugrakka og drenglynda. Drottinn, lát þú allar athafnir þeirra farsælast. Blessa þú allan árangurinn af starfi þeirra. Haltu þinni almáttugu hendi yfir heimili þeirra. Ver þú líf og ljós barnanna. Kristur, meistari vor og Drottinn. Vak þú yfir hafinu. Lækna þú undir þeirra, sem hafa misst ástvini sína í votu sængina. Bæg frá slysunum. Veit þú meira öryggi.
Læg þú öldur ófriðarins. Sundra öllum myrkrum. Gef oss heilagt bjart ljós. Meira ljós sökum kærleika þíns.

Amen.

1. Kor. 13. 13. Þeirra er kærleikurinn mestur.


Í dag rís mynd hafsins í hugum þjóðarinnar, í öllum kirkjum landsins, því að íslenzk kirkja hefur borið gæfu til að skilja, að hún verður að sama skapi ríkari sem hún túlkar betur kenningu sína í samræmi við lífið og atvinnu þjóðarinnar. Og allar hátíðir kristinnar kirkju eru upprunalega miðaðar við atvinnulífið, atvinnulíf þeirrar þjóðar, sem Kristur birtist meðal líkamlega á jörðu. Það var þess vegna gæfuspor, er einn helgidagur kirkjuársins var helgaður umhugsun um sjómannalífið. Og þá mun kirkjan rísa með miklum blóma, er atvinnustörfin skipa þann sess í huga hennar, sem þeim ber með réttu. Og kirkjan hefur borið gæfu til þess að skilja, hvernig hver fáni á íslenzku skipi bendir til himins og allt sjómannalífið er heilagt í eðli sínu. Því að hvar og hvenær er beðið heitar en í sjávarháska og hvenær verður sterkara samband milli himins og jarðar, en er þjóðin öll sameinar sig í bæn fyrir þeim, sem eru á hafinu? Mig brestur nú skilning til þess að tala um þessi efni, svo sem efni standa til. En ég vil gjöra orð vinar míns, sem um mörg ár hefur verið formaður á fiskiskipi, ég vil gjöra orð hans að mínum. Og samstilla orð mín orðum hans.
Sjómannadagurinn, það er sá dagur, sem eingöngu er helgaður sjómanninum. Þeirra stétt, sem eitt sinn, það er auðvitað nokkuð langt síðan, var álitin lítils virði í mannfélaginu. Sem betur fer er nú hugur manna að breytast.
Í dag er dagur sjómannastéttarinnar, stéttarinnar, sem hefur barizt móti stormum og stórsjóum, sem hefur barizt fyrit land og lýð. Sú stétt á sannarlega heiður skilið af öllum.
Sjómannalífið er margbreytilegt. Það er blítt og það er strítt. Sjómenn hefja stríð móti vindi og sjó. Fyrir hverja berjast þeir? Þeir berjast fyrir sjálfa sig, heimili sín og ástvini. Þeir berjast fyrir land og þjóð og margir þeirra láta lífið úti á hafinu kalda, þar sem öldur hafsins, brotsjóar hafsins og stormar stríðir, æða áfram með ógurlegum hamagangi. Þeir eru ofurseldir morðtólum styrjaldarþjóðanna. þeir eru hafðir að skotspóni fallbyssunnar og hríðskotabyssunnar. Þeir sigla út á hafið öruggir í blíðu veðri, deyja svo á tundurduflum stríðsþjóðanna. — Því miður eru dæmin mörg og átakanleg frá ýmsum liðnum árum. Þessum mönnum er ekki þakkað sem skyldi.
Ég sé sjómann leggja á djúpið til fiskimiðanna. Glaður er hann í anda og léttur í lund. En svo sé ég hann koma aftur með lemstraða limi og brotin bein og hann verður því að vera farlama maður alla sína ævi eftir þetta. Hvað hefur valdið meiðslunum? Það er margt, sem kann að hafa gjört það. Stundum valda vond veður slíkum meiðslum. Stundum slasast sjómenn af því að lenda í vírum veiðarfæranna, eða spilum þeim, sem veiðarfærin eru dregin inn með. Ég sé sjómenn fara á hafið í góðu veðri. Það er ýmislegt að sigla um hafið, þegar gott er veður.
En það er ekki alltaf gott veður á sjónum. Það dimmir í lofti, það syrtir að. Það er kominn bylur. Það sést ekkert út frá skipinu. Það hvessir meira, sjó er farið að brjóta, það er komið náttmyrkur og fárviðri. Hvað skal gjöra? Á að leggja árar í bát og gefast upp? Nei og aftur nei.
. Nú kemur til þekkingar, stjórnar og afburða yfirmannsins eða yfirmannanna. Nú er reynt að verja skipið áföllum, það er ekki gott vegna myrkurs. (En hve oft erum við ekki í myrkri?). Brotsjórinn brýtur yfir skipið. Sjórinn skolar út og tekur með sér allt sem lauslegt er á þilfarinu. Happ ef hann brýtur ekki skipið meira eða minna. Skipið stynur undan þunga hafsins eins og það væri lifandi vera. Það brestur í hverri spýtu. Skipinu er stjórnað og stýrt af skipstjóranum. Hann reynir af allri sinni getu og öllum sínum vísdómi að verja skipið áföllum. Hann biðst fyrir. Hann hlýtur að biðja til Guðs, að allt fari vel og að hann með aðstoð Drottins vors og frelsara, sem er æðsta og bezta hjálp í lífi voru, leiði skip og skipshöfn farsællega í höfn, þar sem sjómannanna bíða konur og börn, feður og mæður, systur og bræður að taka á móti þeim með opnum örmum.
Hvað hugsa þessir menn? Þessir sjómenn, þegar svona stendur á? Um það getur enginn sagt. Við getum hugsað okkur líðan þeirra, sem á landi eru, þegar stormur geysar um höfin með ógn og skelfingu, og það er beðið eftir sjómönnunum fram á nætur. Það hljóta að vera ömurlegar stundir, þótt ekki sé látið á því bera.
Vér biðjum Guð að blessa þessa stétt, sjómannastéttina. Þessa stétt, sem hlaðin er ótal erfiðleikum.
Þið ungir sjómenn, sérstaklega, og allir sjómenn. Varizt tálsnörur þær, sem lagðar eru að fótum ykkar. Áfengið, sem er rót þess illa, það getur eitrað líf ykkar, bæði andlega og líkamlega. Þið vinir mínir, sem eldri eruð og reyndari í lífinu, varizt fyrir alla muni, varizt að bjóða ungum, óreyndum sjómönnum vín eða áfenga drykki, því að það er ykkar stærsta synd að leiða aðra menn í freistni.

Þessi eru orð reynda sjómannsins. Og í ljósi þeirra skiljum vér betur þungann í orðum skáldsins:

Hvar hljómar rödd svo hrikavillt
sem hafsins þrumugnýr?
Í byljum storms er brimið tryllt,
við björgin strengi knýr.
Hver syngur ómþýð unaðs ljóð,
sem öldukvikan smá?
Er máninn varpar mildri glóð
á marardjúpin blá.
Og hlusta þínu hjarta í.
Þú heyrir strengjaklið,
sem bergmál á af brimsins gný
og blíðum öldunið . . .
L.G.

Það eru margar myndirnar í sjómannalífinu, sem nú hefur lýst verið. Ég vil nema ofurlítið staðar við eina myndina. Um hvað hugsar sjómaðurinn? Um hvað hugsar hann í logninu á litla bátnum? Um hvað hugsar hann, er hann heyrir brotsjóana brjóta á súðinni? Um hvað hugsar hann, er hann stendur á þilfarinu og sjórinn er allur eins og einn hvítfyssandi brotskafl? Auðvitað getur enginn svarað þessu, því að það er svo margt sem um er hugsað. — En auk þess sem hann hugsar um starf sitt munu jafnan tvö umhugsunarefni eiga rúm í huga hvers sjómanns. Hann hugsar heim, og hann hugsar til Guðs.
Hann hugsar heim. Hann er að sækja gull í greipar ægis, til þess að leggja það í lófa ástvina sinna. — Hann hugsar til þeirra og þeir til hans. — Og sú hugsun er máttugur tengiliður. Sú hugsun er elska, sem heldur vörð í óveðrum og getur stundum bókstaflega bægt frá slysunum. Og verður æfinlega til blessunar. — Og ég bið nú í nafni heilagrar kirkju Guð að blessa heimili sjómannanna. Guðs auga og hönd hvílir yfir heimili ykkar, kæru sjómenn. Allt, sem er gott, göfugt og fagurt falli heimili ykkar í skaut. Guð blessi heimili sjómannanna. Blessi börnin og eiginkonurnar, systur og bræður, feður og mæður. Og Drottinn lægi stormsins öldur og ófriðarins. Friðarins og kærleikans Guð, láti engla sína halda vörð um heimilin og græða blæðandi undir, þar sem þær eru. Það er hetjunum á skipinn. Það er hetjulund á heimilinu. Guð helgi þá lund. Guð helgi hverja lífsins stund. Guð dreifi myrkrunum og sorgunum. Guð gefi að lánið verði með. Guð varðveiti sjómennina heila og hrausta og ástvini þeirra glaða og hressa. Guð auki yður öllum kærleikans kraft og láti vonarinnar og trúarinnar ljós lýsa yður.
Og sjómennirnir hugsa um Guð. Þeir hljóta eins og vinur minn sagði, að biðjast fyrir í óveðrunum. Og þeir hljóta að þakka Guði, er vel gengur. Þeir hljóta að þakka Guði, er þeir stíga heilir á land og eru umvafðir ástarörmum. Guð helgi líf sjómannanna. Láti trúarinnar ljós og vonarinnar birtu vera með þeim, vera yfir höfunum. Og kærleikurinn til Guðs gagntaki oss öll, því að hvað erum vér án elskunnar, vonarinnar og trúarinnar á Guð? — En ef Guð er með oss hver er þá á móti oss? Vér óttumst eigi, því að Guð er með oss. Hans armur nær um alla heima. Hann er með yður, sjómenn. Og um hvern yðar er vörður Guðs engla til þess að blessa yður, á öllum augnablikum og hvort sem mætir líf eða dauði. — Skip geta farizt og vonir brugðizt, en ég er þess fullviss, að varðhringur englanna verður ekki rofinn. Því að í þeim varðhring stendur frelsarinn sjálfur, vinur sjómanna, og segir: Friður sé með yður. Hann, Drottinn Kristur, gengur á hafinu og signir einnig heimili sjómannanna.
Hann er mitt á meðal yðar, þótt þér sjáið hann ekki. — Og þó hefur hann stundum verið séður. Ég hef heyrt um formann nokkurn, sem taldi er hann vaknaði af draumi, sem Kristur hefði vakið sig. Honum þótti sem hann sæi hann fyrir sínum jarðnesku augum, en síðan leystist sýnin sundur í ljósský og hvarf. En á augabragði fór hann upp á þilfarið til þess, eftir vísbendingu sýnarinnar, að bjarga skipinu frá blindskerinu, sem skipið hafði stefnt beint á. Margt getur breytzt og brugðizt. Og ótal orð og ræður gleymast. — En Kristur bregst aldrei. Minnizt hins einfalda boðskapar, sem mér er falið að flytja eins og öllum þjónum fagnaðarerindisins. Og þessi er boðskapurinn: Kristur elskar þig. Kristur elskar þig, elskar þig, sjómaður. Verði þessi orð varanlegur hljómgrunnur huga þíns á þessu sumri. Um hvað ertu að hugsa á hafinu? Það er svo margt. En eitt er nauðsynlegt, að þú hafir í huga: Kristur elskar þig. Hans náð og kraftur er með þér. Hann helgar hægri hönd þína og vinstri. Hann heyrir stormsins hörpuslátt, hann heyrir barns þíns andardrátt og hann heyrir sínum himni frá, hvert hjartaslag þitt á hafinu. — Víst er ég veikur að trúa. — En eitt er engum efa hulið: Kristur er kærleikurinn, og kærleikurinn er almáttugur.

Amen.