Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1958/ Kristine vill ekki: Smásaga

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Kirstine vill ekki


SMÁSAGA


Tveir aldurhnignir menn sátu á bekk í sólskininu og horfðu út á tjörnina. Þar syntu svanir á eftir brauðmolum, er hlæjandi börn fleygðu til þeirra.
„Það er víst uppboð í dag, Theódór,“ sagði annar og tottaði pípuna ákaft. „Jú, svo mun vera,“ svaraði hann, „ætlar þú ef til vill á uppboðið?“ „Nei, Jensen, ég er hættur að fara á uppboð.“ „Það verða víst margir góðir munir boðnir upp að þessu sinni.“ „Já, en ég endurtek það, að ég er hættur að fara á uppboð.“ „Jæja, hvers vegna er það?“ „Kirstine vill það ekki. Fyrir hálfum mánuði sendi hún mig á uppboð til þess að bjóða í Bornhólmsklukku þá, er slátrarinn átti. Þú kannast við hana. En ég var svo vitlaus að bjóða í legubekk og hreppa hann. Mig langaði ekkert til að eiga hann. Legubekkurinn kostaði 95 krónur. Ég mátti borga 20 krónur til þess að losna við hann. Kirstine sat við gluggann, er ég kom heim, og hún sá það í mikilli fjarlægð, að mér var brugðið. Ég var ekki kominn alveg heim að húsinu, er hún hóf lesturinn. Það var ljót demba. Ég gleymi ekki þeim degi.“ Ský dró fyrir sólina og stutt þögn varð.
Jensen mælti: „Heyrðu, Theódór. Það á að bjóða upp rauðu stólana hennar frú Markússen. Það eru prýðilegir stólar.“ „Jæja, einmitt það.“ Þögn. Jensen reykir ákaft. „Ég álít, að hann fari að rigna, Theódór. — Eigum við að fara og líta á uppboðið? Við þurfum ekki að bjóða í neitt.“ „Það er nú varasamt, Jensen.“ „Nei, það eru ekki hundrað í hættunni, þó að við förum.“
Það var húsfyllir á uppboðsstaðnum. Margir kinkuðu kolli til Theódórs og rýmdu til fyrir honum og félaga hans. Það var komið með 44 lampa, sem boðnir voru upp í einu lagi. Theódór dauðlangaði til þess að bjóða í þá. En hann sat á sér. Hann óttaðist Kirstine. Menn fóru sér hægt á þessu uppboði. Theódór var gramur yfir því að hafa ekki svo mikla peninga, að hann gæti boðið í svo sem hann girntist og boðið Kirstine byrginn. Svo komu þessir tveir fínu rauðu stólar. Þeir voru bólstraðir og mjög eigulegir. „Þarna koma þeir,“ hvíslaði Jensen. „Þeir eru laglegir.“ Theódór horfði græðgislega á stólana. Það væri ekki amalegt að eiga þá. Þeir yrðu mjög til prýðis dagstofunni. „Þrjátíu krónur,“ hrópaði maður fremst í mannþyrpingunni. — „Þrjátíu og þrjár,“ hrópaði Theódór. „Fjörutíu krónur.“ Það var boðið í án afláts. Stólarnir komust innan skamms í 85 krónur. Theódór var dálítið skjálfhentur, þegar hann kallaði: „Áttatíu og fimm krónur.“ Tvær konur buðu 86 krónur. Stólarnir voru meira virði. En hvað mundi Kirstine segja? „Fyrsta — annað og —“ Nei, hann varð að eignast stólana. „Hundrað,“ sagði hann. Uppboðshaldarinn mælti: „Hundrað krónur eru boðnar í þessa ágætu stóla, það er gjafverð. Býður enginn betur?“ Allir þögðu. Theódór fékk stólana. Hann hafði 100 krónur á sér. Þarna fór aleigan. Hann var aumingjalegur á heimleiðinni. Jensen gekk þegjandi á eftir honum. „Hún situr við gluggann, Jensen, vilt þú ekki fara og tala við hana?“ „Ekki langar mig til þess, Theódór minn. Ég er ekki góður fyrir hjartanu.“ „Ég skal borga þér fimm krónur fyrir þetta ómak. Þú mátt ekki neita mér um þessa bón. Jensen fór inn. Hann kom þegar aftur og var sigrihrósandi. Hann mælti: „Það er auður sjór, öllu óhætt, Theódór.“
Daginn eftir hittust þeir og settust á bekkinn við vatnið. Theódór mælti: „Hvernig fórstu að þessu, Jensen? Kirstine var eins og hugur manns, þegar ég kom til hennar.“ Jensen svaraði: „Getur þú varðveitt leyndarmál?“ Theódór kinkaði kolli, og Jensen sagði: „Kirstine gaf mér fimm krónur til þess að koma þér á uppboðið og láta þig kaupa stólana. Hún vissi, að það átti að bjóða þá upp, og hana langaði til þess að eignast þá. En hún gat ekki, eftir það sem á undan var gengið, beðið þig að fara á uppboðið.“ Og sagan endaði á þann hátt, að allir voru ánægðir.

(Endursagt af S.Ó. og A.S.).