Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957/ Sjómenn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


SJÓMENN


Ræða eftir séra Halldór Kolbeins


BÆN


Faðir og Drottinn, þú, sem lætur anda þinn svífa yfir vötnunum og ert uppspretta að öllu ljósi og lífi. Heyr þú bæn vora. Vér tignum þig og þökkum þér vorsins ljómandi dýrð og jarðarinnar ríka gróðurmagn. Vér vegsömum þig fyrir auð hafsins, fegurð þess og tign. Vér biðjum þig. Blessa þú með heilögum anda kærleikans og trúarinnar hvern sjófaranda, lát þú ljóskraft þinn gjöra bjart í huga hvers sjómanns. Gjör þú orð þitt að leiðarljósi sjómanna, svo að stéttin göfgist og hreinki í hug og hjartanu gefist dýrðarflug um ómæli andans landa til eilífra manndómsstranda.
Faðir, blessa þú atvinnuvegi vor Íslendinga. Blessa þú fiskifleyin umhverfis strendur landsins og gef af náð þinni, að þau beri mikla björg að landi. Blessa þú hvern bát, sem siglir úr höfn, varðveit hann á miðunum og lát hann koma heilan til hafnar aftur. Blessa þú sjómenn þá, sem sigla milli landa, og lát þá hvarvetna reynast sómi Íslands; sverð þess og skjöldur. Blessa þú fiskiflotann íslenzka, haltu verndarhendi þinni yfir stóru eimskipunum og smáu segl- og róðrarbátunum, og lát þú hverjum mótorbát farnast vel um fjörð og mið. Gef oss stærri og fleiri skip og lát verzlun vora blómgast, svo að sjái ávöxt djarfrar sóknar sjómannanna. Blessa þú þjóðir þær, sem vér skiptum við, leið þær á vegi friðar og kærleika, og teng djúpa og hreina vináttu milli þjóðanna, sem æðri er öllum viðskiptasamböndum. Lát þú ljós íslenzkra anda skína bjart út yfir hafið til annarra þjóða. Og gef þú oss móttökuhæfileika fyrir allt það göfugasta, fegursta og bezta, sem kemur til vor handan um höf.

Séra Halldór Kolbeins.


Drottinn vor og frelsari, Jesús Kristur. Vér biðjum þig. Vak þú yfir heill og hamingju heimila sjómannanna. Vert þú hjálp og líf, ljós og kraftur konunnar, sem horfir tárvotum augum til hafs, vonar og bíður. Heyr þú bæn hennar og barnanna og bæg frá slysunum. Gróðurset þú kærleiksanda þinn í hjörtum vorum, svo að einstakir menn og þjóðfélag gjöri allt, sem unnt er, til þess að hjálpa þeim, sem bera sár í brjósti af því að hraustir drengir hafa horfið í ægisarma. — Guð heilagur andi, andi lífsins, andi vorsins, andi menningarinnar. Gagntak þú hugi allra sjómanna, og lát þú menningu og fegurð ríkja um stéttina og lyft henni ávallt til hærri og hærri menningar í sannleika, kærleika og hreinleika. Blessa þú eilífi andi samlíf kirkjunnar og sjómannastéttarinnar. Lát þú ljós og kraft fagnaðarboðskaparins sameina oss öll. Hjálpa þú kirkjunni til þess að mynda allsherjarbræðralag sjómanna um víða veröld. Heyr bæn vora í nafni kærleikans. Heyr bæn vora. Kristur. Amen.

Hvað er það, sem heillar menn til veiðiskapar á sjónum og siglinga? Það er margt, það er hagnaðarvonin og það er karlmennskuraunin, og það er víðsýnin og tignin, sem hvarvetna ríkir um ómælileg höfin. En fyrst og fremst hygg ég þó, að það sé einhver óskiljanleg, dulræn og djúp þrá, sem gagntekur unga menn og menn á öllum aldri, án þess að það sé neitt eitt sérstakt. Það er vafalaust að margur ungur drengurinn, sem tók í blíðri bernsku þá ákvörðun að verða sjómaður, getur lýst tildrögunum með orðum færeyska skáldsins, Trond Olsen:
Svo brosandi blítt, svo blikandi frítt, og freyðandi, seiðandi fimbulvítt. Með boppandi, hoppandi bárur smá, og brakandi skakandi föllin há — Þú hreifst mig í æsku, er ég horfandi lá og hverfula, töfrandi leikinn þinn sá. Þú ert mér ætíð í minni, svo oft þú gladdir mig og oft með sorg í sinni ég sat og horfði á þig. Með hönd undir kinn og hugfanginn í hvamminum fríða við fjörðinn minn, ég sat á kvöldin, er kyrrt var á strönd og kominn upp máni víð heiðarrönd. Þá gekk hver bylgjan hinni á hönd, sem hnýtt væru eilíf tryggðabönd. Þá festi ég yndi við ögur, því kvöldgolan kvað við raust, og bylgjurnar sögðu mér sögur um allt, sem er endalaust.
Þannig horfir alltaf hafið við og töfrar oss, sem erum í landi, en líka er það ljóst, að um hitt mætti yrkja engu síður, hvernig fiskur á miði fer með skriði og halur frá borðstokk bendir færi. Hvernig hugurinn allur hnígur að veiðinni. Það er eldfjör í augunum, það er tindur í taugunum. Og happ sá hlýtur, sem af hreysti stundar veiðiskap með öngul að vopni, eða leggur vörpu að víðum botni. Það er eitthvað göfugt, stórmannlegt og karlmannlegt við veiðina, þegar hún er stunduð af drengskap, og þess vegna er æfinlega eitthvað sálrænt og sólrænt um huga hvers þess manns, sem er í raun og veru mikill sjómaður. Það er tækifæri fyrir hvern sjómann, að leggja með starfi sínu þann skapgjörðargrundvöll, sem er bezti jarðvegur fagnaðarerindisins, og þetta veit kirkjan afarvel, þess vegna eru sjómennirnir henni svo sérstaklega hugþekkir. Því að hún minnist jafnan, er hún sér sjómann, fyrstu lærisveina Krists. — Eins eiga líka sjómenn að láta starf sitt minna sig á þá mestu forverði fagnaðarboðskaparins um guðstrúna og bræðralag kærleikans.
Og í mörgu öðru getur sjómennskan orðið töfrandi og göfgandi hug þeim, sem leitar ljóss og fegurðar. Það eykur fegurðarkenndina og vekur að sjá skipi vel stýrt, sjá það renna lipurlega um æstar öldur, sjá stafninn kljúfa og kjölinn rista, skutinn öruggan hvíla og vita skipið koma heilt til hafnar, stundum einungis fyrir snilld þess manns, sem stendur við stjórnvölinn. Það er konungleg íþrótt að standa við stjórnvöl og stýra knerri. Það er ljósheima list að leggjast á árar og knýja fram fleytuna, í takt árarnar, samtaka með réttu lagi.


Björgunarskýlið á Faxaskeri.



Sjómenn og sjómanna vinir. Hvers vegna er ég nú í nafni kirkjunnar að lýsa sjómannalífinu, sem þér hljótið að þekkja miklu betur en ég? Er það nokkur fagnaðarboðskapur, að lýsa sjómannalífinu, svona yfirleitt. Sannarlega, því að það, sem ég vildi sagt hafa, er þetta. Sjómannslífið er fagurt líf og sjómannsstarfið er göfugt starf, þegar það er rétt skoðað. — Þér vitið öll, hvernig það getur orðið rangsnúið. Því þarf ekki að lýsa. Ég á við, hvernig það getur, siðferðilega séð, fengið yfir sig óheilbrigðan blæ, svo að orðfæri og framkoma minni ekki á lærisveina Jesú Krists. En sjómannslífið er samt helgað Guði. Það er heilagt starf. Og Guð er með yður á vötnunum. Það, sem ég vildi lýsa var þetta, hvernig vér sjáum Guð í lífi og starfi sjómanna. Því að Guð er í fegurðinni, Guð er í tigninni, Guð er í kjarkinum, sem birtist á sjónum. Guð er í stormunum og báruföllunum og Guð er í lognsléttum sjónum. Allir, sem sjá eitthvað fagurt og göfugt við sjómannslífið, sjá þar Guð að starfi. Sjómannslíf í herrans hendi, helgast fósturjörð, segir skáldið.
Og einnig. Feður lands á sætrjám svámu sína lengstu tíð. Andi þeirra er Ísland námu okkar hvetji lýð. Þó að flestir þessir forfeður vorir hétu heiðnir menn, var líf þeirra á sjónum í mörgum skilningi vottur um Guðs almættis kraft og þann anda skaparans, sem svífur yfir vötnunum. Því að allur góður andi er andi Guðs. Og það er að verða kristinn að tileinka sér þennan sannleika. Og fyrir mér er sérhver sannur lofsöngur um hafið lofsöngur um Guð. Og eins þessi: Svo brosandi blítt, svo blikandi frítt og freyðandi, seiðandi fimbulvítt.
En enginn getur í raun og sannleika talað um sjómannastarfið, án þess að hugurinn líka hvarfli til starfs sjómannskvenna og mæðra og allra ástvina. Skáldkona ein segir svo:

„Hve oft má sérhver sjómannskona
sorgarkjörin reyna hörð,
því ástin milli ótta og vona
í ofviðrunum heldur vörð.“

Það mun alls ekki ofmælt, að sjómannaástvinirnir lifi hálfu lífi sínu á hafinu. Og þess vegna eru sjómenn aldrei einir á miðunum. Því að ástin heldur þar vörð. Hún brúar djúpin, líka milli landa. Ég hefi oft hugsað um það, hve hlutskipti sjómannakvenna er erfitt. Þær sjá stundum ekki mennina mánuðum saman, eða jafnvel árum. Það er harmsárt, að svona þarf það að vera í sjómannslífinu. En hins vegar má líta á þetta mál frá björtu hliðinni. Það er verulega voldugur sjómannsskóli. Það kom hér á höfnina norskt eða sænskt fiskiskip. Ég tók mér far með því til næsta kaupstaðar. Skipstjórinn var önnum kafinn við skipstjórnarstörfin, svo að við töluðum lítið saman. Ég man því eftir fáu frá þessari ferð, nema mynd einni. Inni í káetunni var mynd af konunni hans. Hún var þar til þess að minna hann á skylduna til órofatryggðar. Hún var þar til þess að segja honum, að hreinleikurinn er ómetanleg gjöf. Og hún var þar til þess að vera honum túlkur um elskuna. Því að „Guðs miðill er elskandi ásthuginn“. Og hvar sem vér komum á skipum eru slíkar myndir, ekki æfinlega bókstaflega, en í hjörtum sjómannanna. Og sæll er sá sjómaður, sem aldrei gleymir, hvar sem hann siglir um höf eða leggur land undir fót, þeirri mynd elskaðrar móður. Því að ástin milli ótta og vonar í ofviðrunum heldur vörð. Og ástin heldur vörð, hvernig sem viðrar á sjónum. Því að móðurástin og kærleiki konu og barna heldur vörð um þig í ofviðri freistinganna. Og freistingarnar eru margar á vegum sjómanna. — Sjómaður, gleymdu aldrei mynd móður þinnar, hvort sem hún er lífs eða liðin. Því að hún á að halda vörð um þig og vernda þig gegn freistingunum. Gleymdu aldrei saklausu brosi barnsins þíns, það á að halda vörð um þig. Gleymdu ekki ásthlýjum faðmi eiginkonunnar, sem bíður heima, því að hún á að halda vörð um þig. Gleymdu ekki vinum þínum, því að á meðan þú manst, þá er Guð með þér. En ef þú gleymir þeim og leggur á óhreinleikans braut, þá ferðu af Guðs vegum. Mundu að vera hreinn, sannur og trúr. — Þess er ekki að dyljast, hverra freistinga hér er bent til. Það er áfengisnautnin, það er slark ýmiskonar. Það er gáleysisleg meðferð fjármuna. Að vísu er fjöldi manna, sem stenzt þessar freistingar, en Guð gefi íslenzkri sjómannastétt kraft til þess að vera sterk. Og Guð blessi heimili íslenzkra sjómanna og hjálpi ástvinunum til þess að vera bænheitir og trygglyndir og ljúflegir í viðmóti.

ctr


Hið forna vígi Vestmannaeyja - Skansinn.


Kærir sjómenn. Líf og hamingja íslenzkrar þjóðar er að miklu leyti yðar líf og hamingja. Og þjóðin á líf sitt og hamingju og velferð undir ykkur. Og það er ekki einungis svo, að hvert hérað og land eigi orðstír sinn og sæmd undir þeim sjómönnum, sem sigla milli landa. Heldur má og segja, að hver sveit eigi orðstír sinn undir drengilegri og fagurri framkomu sjómanna, er þeir koma í önnur byggðarlög. — En hér verða tveir aðilar saman að vinna. Því að í mörgu verður maðurinn eftir því, sem að honum er búið.
Íslenzka þjóð. Vinn þú af alhug að heill sjómannastéttarinnar. Hennar hamingja vaxi fyrir Guðs náð. Í Jesú nafni, Amen.