Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957/ Flotinn stækkar – sjómönnum fækkar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
SIGURÐUR STEFÁNSSON


Flotinn stækkar - sjómönnum fækkar


Á sjómannadaginn láta menn gjarnan hugann reika yfir farinn veg, minnast gamalla atburða og bera saman vinnubrögð og vinnuskilyrði við sjómennsku þá og nú.
Eldri mennirnir mega muna tímana tvenna, frá litlum fleytum, vanbúnum að tækjum til öryggis og þæginda, til þeirra góðu báta og skipa, sem íslenzki fiskiskipaflotinn saman stendur af í dag.
Á síðari árum hefur vaxið mjög skilningur manna á því, að aðbúð sjómannanna á fiskiskipunum þarf að miðast við það, að þar sé þeirra annað heimili, enda má segja, að hver nýr bátur taki öðrum fram í smekklegum og vönduðum mannaíbúðum. Þá er flotinn orðinn vel búinn af björgunar- og fiskileitartækjum og ýms tækni tekin upp, sem léttir störfin, þótt hins vegar sé vinnudagur sjómannsins á vertíðarbátum ávallt að lengjast með aukinni veiðarfæranotkun.
Ef litið er til baka, þó ekki sé lengra en 15 —20 ár aftur í tímann, þá minnast menn þess, að sjómennskan var eftirsótt atvinna. Fjöldi manns var um hvert sæmilegt pláss, sem losnaði og langir biðlistar um hvert togarapláss.
Þegar höfundi þessa greinarkorns skolaði hér á land, 16 ára gömlum, óráðnum og ókunnugum, var aðkoman allt annað en glæsileg, alls staðar virtist fullráðið. Ef á loft komst orðasveimur um það, að á þennan bátinn eða hinn vantaði ef til vill mann, hafði viðkomandi formaður ekki frið næstu daga fyrir óráðnum mönnum, sem þrotlaust gengu um og föluðu skiprúm. Þegar svo greinarhöfundur loks eftir 10 daga leit að plássi réðst beitumaður á Litla-Glað hjá Magga á Hrafnabjörgum, var það talið sérstakt happ, sem helzt mætti þakka þeim munnmælum, að Austfirðingar væru fæddir með línukrókinn í annarri hendinni og beituna í hinni.
Á stríðsárunum minnkaði mjög, að menn flykktust hingað óráðnir, enda dró hernaðarvinnan út um allt land til sín mikið vinnuafl. Þó voru aldrei á þeim árum neinir sérstakir erfiðleikar á því að manna flotann íslenzkum sjómönnum.
Þeir erfiðleikar, sem nú eru orðnir á því að fá menn á sjóinn, eru ekki einasta áhyggjuefni þeirra, sem mennina vantar á bátana, heldur þjóðhagslegt vandamál, sem á einhvern veg verður að leysa, ef framleiðsla okkar og útflutningur á ekki beinlínis að dragast saman og svo og svo mikið af bátum, sérstaklega í hinum stærri verstöðvum, eiga ekki að vera bundnir í höfn allt árið.
Hér í Vestmannaeyjum munu nú vera gerðir út á vertíð um eða yfir 90 heimabátar, stórir og smáir. Á þennan flota þarf 750—800 sjómenn.
Í vetur voru hér 370 aðkomumenn á bátunum, þar af 200 Færeyingar, eða sem svarar 20 skipshöfnum.
Í bæjum og þorpum út um land er ötullega unnið að því að byggja upp atvinnulíf staðanna, enda fer innlendum sjómönnum, sem hingað koma á vertíð, fækkandi með hverju árinu.
Á vertíð 1955 voru hér í fyrsta sinn Færeyingar og voru þá 40, 1956 voru þeir 140 og í vetur 200.
Hver er þá hlutur Vestmannaeyinga sjálfra í því að manna sinn eigin skipastól?
Því mun ekki verða á móti mælt, að hér er fjölmenn sjómannastétt, þótt hún sé síður en svo svo fjölmenn sem eðlilegt væri í slíkum útgerðarbæ.
Eftir því, sem næst verður komizt, munu um 400 Vestmannaeyingar hafa stundað sjó í vetur. Fjöldinn allur af skipstjórunum, vélstjórunum og stýrimönnunum voru heimamenn, en hins vegar ekki nema rúmlega einn háseti á bát til jafnaðar heimamaður, eða 110 hásetar á 90 báta.
Á undanförnum árum hefur flotinn stækkað og íbúum bæjarins fjölgað, en á sama tíma hefur sjómönnunum heldur fækkað. Breyttir atvinnuhættir í landi með tilkomu hinna stóru vinnslustöðva soga til sín mikið vinnuafl. Unglingarnir úr skólunum fara beint í hraðfrystistöðvarnar til léttra starfa og ílengjast svo þar, en í auknum mæli þarf útgerðin að stóla á erlent vinnuafl á bátana, og sjá þá allir, hversu háskalega horfir fyrir þessum undirstöðuatvinnuvegi okkar.
Þá er spurt, hvað er hægt að gera til þess að örva unga menn til starfa á sjó?
Við þeirri spurningu er eflaust erfitt að gefa sæmandi svör, enda sýnist einum þetta, en öðrum hitt.
Oftast er á það bent, að sjómannsstörfin þurfi að vera það vel launuð ásamt ýmsum fríðindum og hlunnindum, að menn sæki á sjó teknanna vegna. Um þann þáttinn, sem að launakjörum sjómanna snýr, hefur verið svo mikið rætt og ritað, að ástæðulaust er við að bæta í þessari grein, aðeins skal undirstrikað það, sem raunar flestir eru sammála um, að seint verða sjómannsstörfin ofborguð.
En fleira þarf að koma til, og er þá eflaust brýnasta verkefnið að ala upp sjómannsefnin. Í því sambandi er eitt það nauðsynlegasta að bjarga þeim tápmiklu drengjum, sem inni sitja allan veturinn á skólabekk, frá því að loka sig inni í hraðfrystistöðvunum yfir sumarið. Þetta er hægt. Í fyrsta lagi með því að gera út báta til handfæraveiða, mannaða 14 — 15 ára strákum. Aflabrögðin skipta ekki máli og taprekstur af útgerðinni yrði það opinbera að greiða. Í öðru lagi væri mjög nauðsynlegt að gefa unglingum kost á því að vera á síldarbátum yfir sumarið, t.d. með því, að tveir drengir væru á bát og hefðu saman einn hlut.
Með þessum ráðstöfunum væri hægt að koma á sjó héðan í það minnsta 60—80 strákum yfir sumarið, og væri þá ekki ólíklegt, að einhverjir úr þeim hóp ílengdust við sjómannsstörfin.
Þá er mjög athyglisverð tillaga, sem fram hefur komið, um að gert verði út sérstakt skólaskip, þar sem unglingarnir geta notið verklegrar fræðslu í sjómannsstörfum. Í því sambandi væri athugandi, hvort varðskipin gætu ekki að einhverju leyti gegnt því hlutverki yfir sumartímann með því að gefa ávallt nokkrum drengjum kost á að vera á hverju skipi.
Eflaust mætti benda á ýmislegt fleira, sem verða mætti til þess að örva unga menn til starfa á sjó, en hvort sem menn velta þessum hlutum fyrir sér lengur eða skemur, hlýtur niðurstaðan ávallt að verða sú, að það sé harla ótraustur grundvöllur fyrir íslenzkan sjávarútveg að byggja á til frambúðar, að inn skuli þurfa að flytja um eða yfir 1000 erlenda sjómenn á ári hverju, svo að hægt sé að gera flotann út á vertíð.
Hér dugar ekki að fljóta sofandi að feigðarósi, einhverra aðgerða er full þörf.