Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957/ Ferðasögukorn
Landsýn
Þegar farið er frá Reykjavík til suðausturs í góðu skyggni fljúgandi, blasir við auga hið fegursta útsýni, til norðurs jöklar hálendisins og suður undan hinar fögru gresjur suðurlandsundirlendis, með stórum vatnsföllum, hin sérkennilega strandlengja sandanna og úti í hafsauga grænir kollar Vestmannaeyja á rauðbrúnu standbergi.
Áður en varir er komið austur um Hornafjörð, og hátign landsins, Öræfajökull, að hverfa í blámóðu norðurs og vesturs.
Snöggvast sér yfir hin reglulegu og meitluðu fjöll Austfjarðanna með spegilsléttum lygnum lónum á milli og svo hverfa Austfirðirnir von bráðar; en áður en varir, máske hefur manni runnið blundur á auga, í mjúku hægindi við væran vélaklið, þarna eru þá hin formföstu fjöll Austfjarðanna komin aftur.
Þá var kallað upp, að þar væru Færeyjar. Það voru alveg samskonar berglög og á Austfjörðum, enda mun um samtíma og samskonar bergmyndanir að ræða á Færeyjahryggnum, sem einu sinni náðu til Íslands, en Atlantshafið nú skolar yfir mestan hlutann af.
Hér var um það bil hálfnuð leið til Noregs.
Þessi ferð var að vísu farin í janúar, en þó var sumarlegt um að litast í Færeyjum og á Íslandi, enda hitinn að morgni þessa dags í Reykjavík 8 eða 9 stig á Celsíus.
Noregur
En þegar nálgaðist strendur Noregs var farið að kólna í veðri.
Þó var að sjá snjólétt yfir útnesjum í Noregi á slóðum Haugasunds, þar sem flogið var yfir, en þar var nú vetrarsíldveiðin að hefjast, en Norðmenn binda eins og áður miklar vonir við þá vertíð.
Nú er flugið hækkað að mun og haldið inn yfir hálendið sunnanvert við Harðangursfjöllin, þar sem vetur konungur ríkir í öllu sínu veldi, og sér hvergi á dökkan díl svo langt sem augað eygir.
Þegar halla tekur niður af hálendinu og komið er yfir Naumudalinn austan fjalls, verða trjátopparnir snjónum yfirsterkari, því að nú er komið yfir hin miklu skógarsvæði Norðmanna, sem eru þeirra mesta auðlind, sem byggir upp, með rafvæðingunni, geysilegan iðnað, auk þess, sem hér hefur lengi verið um að ræða öruggan og verðmætan timburútflutning.
Það er atvinnuvegur, sem getur bætt upp eina og eina misheppnaða vertíð, án þess mikið komi við kaunin.
Þegar á þessar slóðir er komið austan fjalls, er allt einn samanhangandi skógur, í dölum, yfir fjöll og hálsa. Það sjást aðeins snjóaslóðir þar sem skógurinn er höggvinn fyrir vegi, þar sem hinir miklu rafstrengir eru lagðir milli héraða og þar sem meiriháttar skíðabrautir eru gerðar.
Hér eru hin ákjósanlegustu skilyrði fyrir skóginn, skógarfuruna og grenið. Miklir sumarhitar, samfelldir vetrarkuldar, blotalausir með snjóum meðan vetur er, en vorinu hægt að teysta, og síðast en ekki sízt hægviðri og staðviðri sumar og vetur, svo að sjaldan blaktir hár á höfði, og þekkist varla að snjó dragi í skafl.
Osló
Og þarna kemur Osló út úr frostþokunni. Það er farið að skyggja, því að við höfum misst úr 2 klukkustundir, vegna þess að flogið var frá vestri til austurs. Á flugvellinum var 15 stiga frost, og eru það töluverð viðbrigði frá Íslandi, eða um 25 stiga munur, enda loðhúfurnar vetrarþjóðbúningur hér.
Osló liggur eins og skeifa um skógi klædda ása fyrir botni fjarðarins, feikilega víðáttumikil, en raunar með minna stórborgarsniði en systur hennar á Norðurlöndum.
Svipað má segja um aðrar borgir austanfjalls í Noregi, þær líkjast meira þéttbýlum sveitum en kaupstöðum, eins og við eigum að venjast þeim. Hér hefur landslag og gróður ráðið nokkru um, en þetta fyrirkomulag á vel við skapferli Norðmanna, sem aldrei hafa þolað kúgun eða ófrelsi, allt frá dögum Haraldar hárfagra, en vilja hafa vítt til veggja og hátt til lofts, jafnt andlega sem efnislega.
Þótt ekki sé meiningin að staldra lengi við í Osló að þessu sinni, þá verður að minnast þess sem þar er markverðast að finna, og ekki á sinn líka annars staðar, en þar á ég fyrst og fremst við víkingaskipin, sem grafin hafa verið úr jörð, og komið fyrir í miklum sýningarsölum í útjaðri borgarinnar, á Bygðeyju. Skipin eru 3, öll fundin við Osló-fjörðinn, og lýsa betur en mörg orð fá gert víkingaöldinni, og vekja að sjálfsögðu Íslending til margvíslegra hugleiðinga um fortíð síns eigin lands og sambandið við Noreg.
Á Bygðey er einnig að finna hið fræga pólarfar Friðþjófs Nansens, Fram, svo og Kon-Tiki flekann, og má því segja, að á þessum stað sé heiðri Norðmanna sem siglingaþjóðar vel á loft haldið og ekki að óverðskulduðu.
„Ja, vi elsker dette landet ...“
Loks verður þess að geta, að Norðmenn eru með afbrigðum listelskir menn, og kemur það hvað ljósast fram í skreytingu borgarinnar, og í gerð nýrra eða nýlegra bygginga, og nægir í því sambandi að nefna ráðhúsið, sem er ein samfelld ævarandi listsýning, bæði utanhúss og innan.
Listasöfn Vigelands bæði úti og inni eiga hvergi sinn líka, þar sem norski myndhöggvarinn Gustav Vigeland fékk áratugum saman tækifæri til að vinna að sköpunarstarfi sínu. Og eru t.d. í einum garðinum, sem tekur yfir 30 hektara lands, um 150 stórbrotin listaverk, sem þó mynda eina samræmda heild.
Þótt stórborgarbragur sé minni á Osló en t.d. Stokkhólmi og Kaupmannahöfn, þá hefur þó tekizt vel og myndarlega með uppbyggingu miðbiks borgarinnar, þar sem konungshöllin og stórþingshúsið standa við Stórþingsgötu og Karls Jóhanns-götu.
Norðmenn eru ættjarðarvinir meiri en tíðkast um aðra menn, en þeir eru það á víðfelldinn hátt, sem er í ætt við „holt er heima hvat“. Þeir eru ættjarðarvinir frá alþjóða-sjónarmiði, eins og mönnum er títt sem mikið ferðast, enda eru Norðmenn mesta siglingaþjóð heims, og kunna að meta það að koma heim. Landið er líka fagurt og stórbrotið og gott til ábúðar dugmiklum mönnum, og náttúruauðlegð mikil, bæði skógar, vatnsföll og námur, að ógleymdum fiskveiðibönkunum vestan fjalls, allt norður í Dumbshaf.
Gautaborg
Það var kallað, að nú yrði komið til Gautaborgar eftir 15 mínútur. Menn néru stírurnar úr augunum eftir óværan nætursvefn í hraðlestinni frá Stokkhólmi.
Ferðalagið hafði tekið alla nóttina um snævi þaktar merkur Austur-Gautlands og Vestur-Gautlands. Hér leyfði skógurinn enga útsýn, nema rétt upp í alstirndan himininn, nema sæi yfir akurrein og bændabýli í rjóðri.
Það var uppi fótur og fit í lestinni, enginn vildi verða of seinn að komast út, menn tróðust um pakka og pinkla, töskur og kistur, og svo var komið með rjúkandi kaffið á bakka, áður en síðasta áfanganum lauk.
Gautaborg liggur við ósa Gautelfar, hinnar miklu móðu, sem rennur úr stórvatninu Vänern, en í henni ofanverðri er Tröllhettan, sem gefur þessum héruðum rafmagn.
Gautaborg er næststærsta borg Svíþjóðar og mesta hafnarborg.
Í gamla daga var Gautelfur og næsta nágrenni hennar eina sambandið, sem Svíar höfðu vestur á bóginn. Fyrir sunnan áttu danskir Skán. Halland og Bleking, en fyrir norðan Norðmenn Víkina, sem nú kallast Bóhúslén.
Á þessum slóðum var því oft róstusamt, sænskir reyndu að stækka fleyginn út að ströndinni, en danskir stóðu í móti.
Þessi héruð bera bardögum og hermdarverkum vitni enn þann dag í dag, því að víða hafa skógar verið brenndir, og standa þar enn eftir berar jökulnúnar granítklappir, þar sem áður voru blómlegar gróðurlendur, jafnvel stórir eikarskógar.
Greinarhöfundur hefur farið þessa ferð til þess að kynnast sem bezt, hvernig afla megi og hreinsa neyzluvatn og sjó við erfið skilyrði, og þess vegna verður viðstaðan ekki löng í Gautaborg, en þegar haldið norður í Skerjagarðinn, þar sem einu sinni var mikil síldarútgerð, og er enn nokkur, auk þorskveiða o.s.frv.
Hér hefur síldin verið kenjótt eins og víðar.
Í gamla daga voru uppgrip af síld í Eyrarsundi og Kattegat, en síðari árin sárlítið. Fiskibæirnir hafa bætt sér þetta upp með því að flytja til sín síld af Íslandsmiðum, og halda áfram í krafti þess innflutnings að vera mestir framleiðendur síldarflaka og gaffalbita um gjörvöll Norðurlönd, og þótt víðar væri leitað, enda vel til framleiðslunnar vandað, og ekkert til sparað að hreinlætið mætti verða sem mest; en þar er grundvallaratriðið nóg og gott rennandi vatn, sem hér var þó erfitt að afla, þurfti að flytja um langan veg yfir fjöll og firði, en rafhreinsaður sjór notaður þar sem vatnið þraut til þvotta.
Víkin
Eins og áður var sagt heitir Víkin nú Bóhúslén, og var löngum þrætuepli Svía og Norðmanna, eða Svía og Dana. Hér er hinn svokallaði Skerjagarður. Það er fjöldi af smáeyjum, með djúpum sundum á milli við ströndina, og því hin ákjósanlegustu hafnarstæði fyrir smáskip, gömlu víkingaskipin, engu síður en fiskibáta nútímans.
Inni í landinu voru samfelldir skógar um lága hálsa og hæðir allt frá Gautelfi norður til Noregs. Hér voru og eikarskógar, sem sköpuðu fyrstu víkingunum úr Víkinni sjósóknarskilyrði.
Lysekil
Það er lagt af stað með lestinni í bítið um morguninn frá Gautaborg og eigi komið til Lysekil fyrr en laust eftir hádegi, enda víða komið við, meðal annars í hinni ört vaxandi skipasmíðaborg Uddevalla, svo og Munkadal.
Leiðin liggur fyrst til hafrannsóknarstöðvarinnar, sem hér er staðsett, en þar starfar ágætur doktor í efnafræði, Lundborg að nafni, sem fundið hefur upp aðferð til að hreinsa sjó.
Eftir að Lundborg hefur sýnt mér aðferð sína á fræðilegan hátt ráðleggur hann mér að fara norður til Gravarna, fiski- og fiskiðnaðarbæjar nokkurs, sem liggur norðar í skerjagarðinum, en þar hafa tæki þessi til sjóhreinsunar lengst verið í notkun við hina frægu Abba-gaffalbitaverksmiðjur.
Áður en ég skil við Lysekil má ég til með að geta þess, að borgin, þar sem búa um 7000 íbúar, var einu sinni aðalsíldveiðibær Svíþjóðar; það var á síldarárunum 1747—1808, en svo hvarf síldin af þeim slóðum, en borgin lifir enn af síldar- og öðrum fiskiðnaði, þótt þar sé nú orðið engin útgerð, en ekki litið við öðru en Íslandssíld í hina dýrmætu gaffalbita og síldarflök, sem Svíar eru frægir fyrir um öll lönd. Þarna er allt neyzluvatn leitt um langan veg, sumpart á hafsbotni yfir djúpan fjörð, en rafhreinsaður sjór notaður í fiskiðnaðinum.
Skerjagarðurinn
Um eftirmiðdaginn er farið með flóabátnum frá Lysekil norður á bóginn. Þar sem aðeins er farið innan skerjagarðsins, þarf ekki að gera ráð fyrir miklum ágjöfum, enda farangur allur á dekki, en mikil yfirbygging á skipinu, þar sem farþegar höfðu hinar skemmtilegustu vistarverur. Það eru ekki margir farþegar með í þessari ferð, enda farið daglega um þessar slóðir, og lítið um ferðafólk að vetrinum, en að sumrinu sækir hingað margt ferðafólk víðs vegar að.
Farið er um smáeyjar og fiskveiðabæi svo sem Malmön, Tången, Smögen, Hasselösund og Gravarna.
Siglingaleiðin virðist hrein á milli eyjanna, en þó mun vandratað um sundin og firðina. Eyjarnar eru ótrúlega gróðurlausar, sést ekki stingandi strá, aðeins rauðleitar klappirnar heflaðar af ísaldarjökli. Hér var einu sinni allt skógi klætt, en þegar spurt er, hvað valdi, þá er svarið: Það var „danskarinn“. Þetta eru sem sagt þögul vitni þeirra tíma þegar danskir og sænskir þurftu að hafa stríð sín á milli eigi sjaldnar en annað hvert ár, og þá var rænt og ruplað og öll verðmæti brennd, sem ekki var hægt að komast með sem ránsfeng, og þannig fóru skógarnir.
En þessar gróðursnauðu eyjar og nes hafa fundið aðra atvinnuvegi til lífsbjargar fólkinu, sem sé fiskveiðar, og jafnvel þótt fiskurinn hyrfi frá landinu, þá var síldin veidd annarsstaðar, eða keypt frá fjarlægum stöðum og flutt inn og breytt í margfalt verðmætari afurðir, skipasmíðar teknar upp o.s.frv.
Grarvarna
Í Gravarna er að vísu nokkur útgerð, en þar lifa þó flestir á síldariðnaði, og er eingöngu notuð þar Íslands-síld.
Það er unnið úr saltsíldinni frá Siglufirði og Raufarhöfn. Það gefur fjölda manns stöðuga atvinnu allt árið og verðmæta framleiðslu, en Siglfirðingum aðeins atvinnu 1—2 mánuði að sumrinu og mjög verðlítinn útflutning, miðað við möguleika.
Hér eru stærstu gaffalbitaverksmiðjur Svíþjóðar, sem kallast ABBA. Þær eru um allan útbúnað til fyrirmyndar, en ekki leyfist ókunnugum að koma þar mjög nærri. Þó fékk ég fyrir tilmæli vinar míns frá Lysekil að skoða sjóhreinsunartækin, sem þarna voru í notkun, en þau eru hin stærstu sinnar tegundar.
Eftir ferðalagið um skerjagarðinn með ferjunni, sem stóð allt til kvölds, er komið aftur á fastalandið og haldið til baka með bifreið og járnbraut til Gautaborgar, sem aðeins var áfangi á lengri leið, en það væri efni í annað ferðasögubrot, sem ekki verður skráð að sinni.
Það er gott að ferðast og sjá háttu annarra þjóða, og Norðmenn og Svíar eru okkur Íslendingum svo skyldir um margt, að þess er frekast að vænta að þangað megi sækja fyrirgreiðslu og upplýsingar um mörg viðfangsefni, sem ofarlega eru á baugi hjá oss hér á Íslandi.
- 15. maí 1957.