Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1957/ Aflakóngur Vestmannaeyja 1957

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Aflakóngur Vestmannaeyja 1957


Aflakóngur Vestmannaeyja 1954, 1955, 1956 og 1957, Benóný Friðriksson frá Gröf.


Í fjórða sinn í röð hefur hinn landskunni dugnaðar- og aflamaður, Benóný Friðriksson frá Gröf, hlotið titilinn aflakóngur Vestmannaeyja.
Ég er í mikinn vanda settur, ekki ritvanari maður en ég er, þegar mér er falið að skrifa um hann greinarstúf þennan, sem hlýtur að miklu leyti að verða endurtekning á því, sem áður hefur verið um hann rætt og ritað. En vandi fylgir vegsemd hverri, og sjómennskuferill Binna frá Gröf er efni í heila bók.
Benóný er fæddur í Gröf í Vestmannaeyjum 7. janúar 1904, sonur merkishjónanna Oddnýjar Benediktsdóttur og Friðriks Benónýssonar. Binna frá Gröf þarf raunar ekki að lýsa fyrir Vestmannaeyingum eða rekja ættir hans. Bezta lýsinguna hefur hann gert sjálfur með sínum óslitna frægðarferli á sjónum, allt frá blautu barnsbeini. Nei, hittir þú mann, sem ekki þekkir Binna frá Gröf og hans afrek, þá er hann ekki frá Vestmannaeyjum.
Ungur byrjaði Binni að fást við sjóinn og ekki hafði hann náð fermingaraldri, þegar hann hafði að baki sér þann feril á sjónum, sem margur jafnaldrinn mun hafa öfundað hann af. Síðan má segja, að glíma hans við ægi hafi verið ein óslitin kappglíma með mörgum sigrum og stórum. Oftast hefur Binni annazt stjórn þeirra skipa, sem hann hefur verið á, og má með sanni segja, þótt ótrúlegt sé, að hann hafi aldrei verið háseti.

Það er oft nóg að gera um borð hjá aflakóngnum. Þegar búið er af dekkinu, eru 70 tonn í lestinni.


Ég, sem þessar línur skrifa, lagði í dag leið mína heim til aflakóngsins og sat að rabbi við hann góða stund um hina nýafstöðnu vertíð, sem sennilega er ein sú misjafnasta, sem hér hefur komið í mörg ár.

M.b. Gullborg.


Í vetur sem og þrjár undanfarnar vertíðir stjórnaði hann hinu góða skipi sínu, m.b. Gullborgu, sem hefur reynzt honum sannkallað metskip og afladrottning, af því harðfylgi og dugnaði, sem honum er svo mjög í blóð borið. Valinn maður skipaði hvert rúm nú sem endranær. Enda betra að geta tekið til hendi, því að illa spái ég stjórnaranum líki öll vettlingatök í þeim dansi, sem hann á til með að stíga við dætur Ægis konungs.

Það er ekki alltaf gott að halda aflakóngnum í stýrishúsinu.


Bað Benóný mig um að flytja skipshöfn sinni sínar beztu þakkir fyrir vel unnin störf og margar góðar samverustundir.
Það þarf samstilltar hendur til að flytja á land 1017 tonn, eins og gert var á Gullborgu í vetur, þegar meðalafli er um 500 tonn, og ekki eru handtökin oflaunuð, þótt aflahluturinn sé 44 þúsundir.
Þetta mun vera þriðja vertíðin í röð, sem Benóný skilar tvöföldum meðalafla. (Afli þessi er miðaður við óslægðan fisk.)
Þótt aðeins sé nú rúm vika liðin síðan vertíð lauk á Gullborgu, liggur hún nú albúin til þess að hefja nýjan veiðiskap. Og nú skal fanga silfur hafsins, síldina, með svonefndri Larsens-vörpu, sem er tveggja báta varpa af danskri gerð og hefur lítillega verið reynd hér áður. Við þetta veiðarfæri bindur Benóný mjög miklar vonir. Telur hann, að það eigi eftir að skapa þáttaskil í haust- og vetrarsíldveiði okkar Íslendinga, aðeins ef tilraunum verður ekki hætt of snemma. Telur hann, að stjórnarvöldunum beri skylda til að leggja tilraunum þessum lið með fjárveitingum, þar sem mjög lítið vanti á, að fullkominn árangur náist.
Eins og áður er getið, hefur Binni nú aðeins stanzað rúma viku í landi. Það skildi nú margur ætla, að hann ætti það skilið að taka það rólega í svo sem mánaðartíma og láta sér líða vel eftir erfiða vertíð. En því er nú ekki svoleiðis varið með manninn þann, sjórinn er hans líf og yndi með öllum sínum ótæmandi viðfangsefnum, og brátt mun hann aftur verða kominn í sjóarapeysuna, óskandi þess, að hann fari nú að lygna austanbrælunni, svo að ekki bætist önnur vika við í landi.
Eins og ég gat um í upphafinu á þessu stutta rabbi mínu um Binna frá Gröf, er sjómennskuferill hans ábyggilega efni í heila bók. En það verk læt ég eftir mér færari mönnum og vil ljúka þessum línum með því að óska honum til hamingju með aflakóngstililinn og vona, að hann eigi enn eftir að bera það sæmdarheiti um mörg ókomin ár, sem enginn að öllum ólöstuðum ber með meiri sóma en hann.
Að lokum óska ég þér, Binni, heimili þínu og þinni happasælu skipshöfn góðrar skemmtunar á sjómannadaginn og gæfu og gengis um öll ókomin ár.

Vestmannaeyjum, 13. maí 1957
Sigurgeir Ólafsson.