Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1956/ Til athugunar í framtíðinni

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


HRÓLFUR INGÓLFSSON


Til athugunar í framtíðinni


Í Vestmannaeyjum á svo að segja hvert mannsbarn afkomu sína undir sjósókn og aflabrögðum. En aflamagnið er ekki einhlítt, hitt er ekki síður mikilvægt hvað fyrir aflann fæst á hverjum tíma.
Að svo miklu leyti sem aflamagnið er á okkar valdi, þurfum við ekki að óttast, því að hér er mikið af duglegum sjómönnum og góður og síbatnandi og stækkandi bátafloti. Hitt er svo annað mál, að þorskurinn á það til að vera dálítið brellinn í viðskiptum, en um „viðskiptahætti“ hans erum við of fáfróð.
Að vísu kynnast menn þorski eins og öðru af reynslunni, en nútímatækni getur samt bætt þar mörgu við. Þess vegna finnst mér það vera mikilvægt hagsmunmál fyrir sjómannastéttina og reyndar þjóðina í heild, að haf- og fiskirannsóknir verði stórum efldar í framtíðinni.
Þetta atriði ættu samtök sjómanna að láta til sín taka. Nefni ég þetta m.a. með það í huga hvað fiskigöngur hér við Eyjar virtust haga sér öðruvísi nú í vetur en mörg undanfarin ár, þar sem nú fiskaðist tiltölulega lítið í aprílmánuði, sem áður hefur verið bezti tími vertíðarinnar. Ætti slíkt eftir að endurtaka sig, er það tvímælalaust mikilvægt fyrir sjávarútveginn, að það verði rannsakað til hlítar.
Annað mikilvægt atriði í sambandi við útgerðarmálin er útflutningur sjávarafurðanna, en þar finnst mér ríkja nokkuð mikil kyrrstaða og jafnvel afturför.
Tökum t.d. saltfiskinn. Hann hefur í áratugi verið fluttur á erlendan markað, að mestu leyti til sömu landanna og yfirleitt í samskonar 50 kílóa strigapökkum. Þó hefur hér orðið sú afturför, að áður var allur fiskur fluttur út fullverkaður sem kallað er, en nú er mestallt selt óverkað. Það þýðir minni atvinnu í landinu og minni gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.
Oft hefur það hvarflað að mér hvort ekki væri hægt að gera hér einhverja breytingu á til bóta, þó ekki væri nema umbúðirnar, t.d. einhvers konar neytendapakkningar, líkt og á sér stað um freðfiskinn. Fleira kemur eflaust til greina, þó þetta eitt sé nefnt, en það sem máli skiptir er það, að við flytjum afurðir okkar út sem næst því að vera í því ástandi sem neytandinn vill hafa þær í pottinn eða á pönnuna.
Hraðfrystingin var á sínum tíma merkilegt spor og giftudrjúgt. Þarf ekki að lýsa því fyrir fólki hér í Vestmannaeyjum, svo snar þáttur sem frystihúsin eru fyrir afkomu alls almennings hér. Hins vegar er það staðreynd, að allverulegrar sölutregðu gætir í sambandi við freðfiskinn.
Þetta sannar okkur, að þörf er að leita fleiri leiða og gera framleiðsluna sem allra fjölbreyttasta, svo að ekki komi oftar til þess, að allt ætli í strand ef markaður lokast fyrir einni tegund, eins og átti sér stað þegar saltfiskmarkaðurinn lokaðist á Spáni á tímum borgarastyrjaldarinnar þar í landi.
Hér í landi er til vísir að niðursuðuiðnaði, en honum virðist harla lítill sómi sýndur, og er ekki annað að sjá en að Íslendingar séu mjög fákunnandi á því sviði. Þennan iðnað á að efla eftir megni og m.a. stuðla að því, að efnilegir menn afli sérmenntunar á þessu sviði.

ctr


Róðrarsveit unglinga, austurbær. Sigurvegarar 1955.


Í mörgum löndum er niðursuðuiðnaður á háu stigi og allt bendir til þess, að fyrir hendi séu miklir markaðsmöguleikar fyrir niðursoðnar sjávarafurðir. Í hinni hörðu samkeppni á heimilsmarkaðnum þýðir hins vegar ekki að bjóða nema góða vöru, en enn sem komið er erum við þess ekki umkomnir hvað snertir niðursuðuvörur.
Ég tel það tvímælalaust hagsmunamál þeirra er á sjávarútvegi lifa, að unnið verði að rannsókn og eflingu niðursuðuiðnaðarins, með það fyrir augum að stórauka niðursuðu sjávarafurða með útflutning fyrir augum.
Skreiðarverkun hefur átt sér stað í allstórum stíl undanfarin ár. Er það vel, þar eð það eykur fjölbreytni framleiðslunnar og gerir sitt til að skapa öryggi í þessum málum.
Yfirleitt verður þjóðin að fylgjast sem bezt með öllum nýjungum á sviði matvælaframleiðslunnar og reyna á hverjum tíma að tileinka sér það bezta sem völ er á. Fólk ætti einnig — ekki sízt sjómennirnir — að fylgjast betur en verið hefur með útflutningsverzlun með sjávarafurðir.

––– ––– –––

Þó að hér hafi lauslega verið drepið á ýmislegt sem betur hefði mátt fara eða ógert hefur verið látið, þá er slíkt ekki gert í ádeiluskyni á einn eða neinn, heldur eru þetta aðeins þankabrot, sett fram í því skyni að vekja til almennari umhugsunar um það, á hvern hátt unnt sé að gefa fiskinn, sem sjómennirnir færa að landi, og sem þjóðin raunverulega lifir á, hvernig hann gefi orðið sjómönnunum sjálfum og þjóðinni allri sem verðmætastur og skapað sem mesta hagsæld og hamingju á hverju íslenzku heimili.
Að endingu óska ég sjómönnum til hamingju með hátíðisdaginn.