Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1956/ Sjómannadagurinn og tilgangur hans

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Sjómannadagurinn og tilgangur hans


Að sjómannadeginum hér í Vestmannaeyjum standa, eins og flestum er kunnugt, sjómannafélögin hér í bæ. Þau skipa hvert um sig fimm menn í sjómannadagsráð og skal það svo sjá um allan undirbúning sjómannadagsins og framkvæmd hans. Sjómannadagsráð kýs sér stjórn og skiptir með sér hinum ýmsu störfum, sem að sjómannadeginum lúta.
Sjómannadagurinn á nú orðið allmiklar eignir svo sem: kappróðrarbáta, bátaskýli, flaggstengur og fána o. m. fl., sem sjómannadeginum er samfara.
Allverulegar tekjur hafa verið af deginum ár hvert og hefur þeirri spurningu oft verið varpað fram meðal almennings, hverjar tekjur dagsins væru hverju sinni og hvernig þeim værið varið.
Eins og menn munu sjá af reikningsyfirliti sjómannadagsins 1955, sem birt er á öðrum stað hér í blaðinu, tekur dagurinn sjálfur í sínar eigin þarfir allverulegan hluta af tekjum sínum. Efnahagsreikningur sýnir að mikið fé hefur þurft á undanförnum árum til þess að afla þeirra áhalda, sem dagurinn þarfnast og koma yfir þau húsi.
Um hitt, hvernig verja skyldi fé því, sem dagurinn ekki þarfnast til eigin fóðurs, hafa frá fyrstu tíð komið fram innan sjóinannadagsráðs margar tillögur.
Sjómannadagurinn hefur t.d. lagt fram rífleg fjárframlög til menningarmála þessa bæjar svo sem til Elliheimilisins og minnisvarða drukknaðra og hrapaðra, svo að eitthvað sé nefnt.


ctr
Aldraðir sjómenn heiðraðir.


ctr
Skrúðganga sjómanna að hefjast.


Snemma kom fram áhugi manna innan ráðsins um það að leggja fé það, sem aflögu verður af deginum í einhvers konar heimili þar, sem aldnir sjómenn þessa bæjar gætu átt höfði sínu að halla og eytt síðustu árum ævi sinnar, annaðhvort hér í Vestmannaeyjum eða í herbergi sem sjómannadagurinn hér eignaðist í hinni veglegu dvalarheimilisbyggingu fyrir aldraða sjómenn, sem sjómannadagsráð Reykjavíkur hefur látið reisa. Var á tímabili starfandi innan sjómannadagsráðs fjáröflunarnefnd, sem safna skyldi fé máli þessu til framdráttar.
Árið 1951 er svo ákveðið á fundi sjómannadagsráðs 1. maí að öllu fé sem safnaðist skyldi varið til byggingar dvalarheimilis fyrir aldraða sjómenn innan lögsagnarumdæmis Vestmannaeyja.
Síðan er hljótt um þetta mál fram til 1953 að skipuð er nefnd innan sjómannadagsráðs til þess að semja lög fyrir söfnunarsjóð til byggingar dvalarheimilis hér í bænum og eru þau birt á öðrum stað hér í blaðinu.
Í lögum þessum kveður svo á, að það skuli vera sjómannadagsins æðsta hugsjón að gera dvalarheimili fyrir aldraða sjómenn í Vestmannaeyjum að veruleika.
Sjómannadagsráð hefur nú ákveðið að skrifa bæjarstjórn Vestmannaeyja nú á þessum sjómannadegi og fara fram á við hana, að hún í samráði við sjómannadagsráð, útnefni lóð á hentugum stað undir veglega byggingu, sem í framtíðinni skuli vera samastaður fyrir aldna sjómenn þessa bæjar.
Enda þótt sjóður sá, sem standa á straum af byggingu þessa heimilis sé ekki gildur að vöxtum og langt sé í land, að hægt sé að hefjast handa um framkvæmdir, þykir sjómannadagsráði rétt að sækja um lóð, þar sem bærinn er í mjög örum vexti og óðum fækkar þeim lóðum, sem hentugar eru fyrir byggingu sem þessa og er það því einlæg ósk sjómannadagsráðs, að bæjarstjórn bregðist nú vel við og hraði afgreiðslu þessa máls eftir föngum.
Eins og allir munu sjá, mun heimili þetta seint taka til starfa eða byggt verða af fé því einu saman, sem sjómannadagurinn einn gefur af sér og eigi að takast að hrinda máli þessu í framkvæmd verður sjómannadagsráð að finna einhverjar nýjar leiðir til fjáröflunar og hefur það nú á prjónum ýmsar hugmyndir í þá átt og er ákveðið að hefjast handa á næstu vertíð. Prentaðir verða fjáröflunarlistar, sem lagðir verða í hvern bát og í fiskvinnslustöðvarnar í þeirri góðu trú, að menn láti eitthvað af hendi rakna málefni þessu til stuðnings.
Vonar sjómannadagsráð að listum þessum verði vel tekið og biður menn að muna, að margt smátt gerir eitt stórt.
Ennfremur er í ráði að reyna að halda skemmtanir á vegum sjómannadagsráðs og vanda til þeirra svo sem kostur er á.
Ég hef reynt með þessum línum að skýra frá sjómannadeginum og tilgangi hans. Nú, góðir Vestmannaeyingar, heitir sjómannadagsráð á alla íbúa þessa bæjar að taka höndum saman í þeirri baráttu sem fram undan er í þessu máli og leiða það farsællega í höfn. Samtök fólksins hér í Vestmannaeyjum hafa lyft Grettistaki fyrr, þegar velferðarmál sjómannastéttarinnar eiga í hlut, samanber björgunarskipið „Þór“ o.m.fl.
Við sem að sjómannadagsráði stöndum ýtum þessu máli úr vör í þeirri bjargföstu trú, að allir Vestmannaeyingar leggist á eitt og sýni það í verki, að þeir láti ekkert tækifæri ónotað til þess að þeir menn, sem dvalið hafa mestan hluta ævi sinnar á sjónum, oft við erfiðar aðstæður, geti eytt síðustu árum ævi sinnar í vistlegum og velbúnum sölum dvalarheimilis aldraðra sjómanna í Vestmannaeyjum, við góða umönnum og stytt sér stundir við ýmiss konar störf, sem að sjónum lúta.
Að lokum vil ég fyrir hönd sjómannadagsráðs þakka hr. Karli Kristmannssyni stórkaupmanni fyrir framlag hans í dvalarheimilissjóðinn.
En hann færði sjóðnum á síðastliðnum sjómannadegi 500 krónur með þeim ummælum, að það mundi verða sitt árlega framlag í þeirri von, að aðrir stéttarbræður hans fylgdu á eftir.
Einnig þakkar sjómannadagsráð öllum þeim, sem áður hafa fært sjóðnum gjafir og öllum þeim, sem á einn eða annan hátt hafa veitt aðstoð sína við undirbúning og framkvæmd dagsins.
Ennfremur biður sjómannadagsráð velvirðingar á öllu sem miður kann að fara í sambandi við hátíðahöld sjómannadagsins og óskar öllum góðrar skemmtunar.

F. h. sjómannadagsráðs
Sigurgeir Ólafsson.