Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1956/ Kraftur guðs
Það er eftirtektarvert, er vér rýnum í sögu mannsins allt frá fyrstu tíð, um hvað hugur hans og strit hefur snúizt. Vér orðum þetta með ýmsu móti, en segja má, að samnefnari þess alls sé að gera sér alla hluti undirgefna. Framan af var þessi stefna fálmkennd og tilviljunum einum háð, og svo er í ýmsu tilliti enn. En eftir því, sem reynslan og þar með þekking eykst verður stöðugt auðveldara að ná settu marki.
Eins og í mjög smækkaðri mynd má, ef vel er að gáð, sjá þróunarsögu mannkynsins í þroskastigum mannsævinnar. Sem einstaklingar förum vér ýmist ótroðnar leiðir eða troðnar, í fangbrögðum vorum við efni og anda, bíðum ósigur og fáum sigur.
Afleiðing þessa verður sú, sem er ofureðlileg, að oss aukast kraftar við sérhver átök. Stæling hugar og handar er stórkostleg gæði lífsins, en því aðeins að þau lífsgæði séu rétt notuð. Veraldarsagan er svo sorglega auðug frásagna um misskilning kraftarins. Orsaka hins neikvæða í sögunni, sem og neikvæðra viðbragða í lífi einstaklinga er oftast að finna í tignun mannsins á eigin kröftum, eigin getu, þar sem hann í gegnum það eygir möguleika til þess að öðlast auð, vald og virðingu.
Kraftur mannlegrar getu er orðinn sá guð, sem vér tilbiðjum. Svo var og hlýtur alltaf að vera í guðlausri tilveru. Hann er sá mælikvarði, sem vér erum vegin og metin eftir. Hann er kröfuharður og óvæginn húsbóndi, sem gerir menn að þrælum miskunnarlausrar samkeppni, hampar þeim á meðan hægt er að nota þá, en kastar þeim út á hjarnið, þegar ekki er lengur gagn af þeim.
Í nútímanum sjáum vér kraftinn taka á sig myndir margar og fagrar á sviði tækninnar og margt er þar lofsamlegt. Það veit sjómaðurinn ekki hvað sízt, sem frá ómunatíð hefur háð, að því er virtist vonlausa baráttu við höfuðskepnurnar, er þær voru í sínum ferlegasta ham og þurfti þó ekki til. En nú fyrir aukna tækni smjúga menn æ oftar úr helköldum greipum þeirra, þó að oft muni mjóu, sem áður fyrr hefði reynzt ógjörningur með öllu.
En kraftur vorrar eigin getu má þó aldrei verða til þess, að vér hreykjum oss upp og gleymum því, að vér erum aðeins duft. Hættan liggur ávallt nærri, að vér á tímum meðlætis lifum og hrærumst á vélrænan hátt, hugsunarlítið eða hugsunarlaust. Hroki og andvaraleysi leiða til falls. Verum þess minnug, á góðu dögunum og gleðistundunum, hversu kraftar vorir eru rýrir, er andstreymi og þungbær reynsla mæta oss og með ofurþunga sínum knésetja oss. Minnumst þess öllum stundum til þess að vér séum ekki varbúin reynslunni, er hún kemur. Því að reynsla þeirrar staðreyndar nær oss öllum fyrr eða síðar, að kraftar mannlegrar getu stoða ekki.
Er ekki undir slíkum kringumstæðum fokið í öll skjól? Svo spyr aðeins sá, sem í hjarta sínu segir: „Enginn Guð.“
Vér, sem kristnir menn, vitum að ofar mannlegum krafti er kraftur Guðs. En vér vitum líka ofur vel, að með hans krafti reiknum vér alltof sjaldan. Kraftur Guðs opinberast oss í Kristi Jesú. Það er í trúnni á hann, sem vér öðlumst kraft kærleikans, þann kraft, sem leitar ekki síns eigin. Það er kraftur Guðs í Kristi, sem ljær oss líkn í þrautum, sem huggar syrgjandi sál, sem styður þann sem ætlar að hníga, sem gerir lífið bjart og gefur von andspænis dauðanum. Það er fyrir kraft Guðs í Kristi að vér getum sagt: „Allt megna ég fyrir hann, sem mig styrkan gjörir.“
Þess vegna nefni ég þetta á ykkar degi, kæru sjómenn, að þið öðrum fremur mætið þeirri reynslu á starfsvettvangi ykkar, þar sem reynir á þrek og þor þeirrar karlmennsku sem er sívökul á vaktinni, þið mætið þeirri reynslu, sem oft er ofvaxin mannlegum krafti eða getu að sigrast á. Hvað er það annað en kraftur Guðs, sem stríðir með ykkur? Sú vissa er óendanlegt þakkarefni um leið og hún er ótæmandi íhugunarefni á einverustundum næturvökunnar sem og við dagleg störf. — Kraftur Guðs, hjá mér, með mér, mér til heilla — það veitir frið, sem er æðri öllum skilningi, bæði ykkur, sem sjóinn sækið og þeim, sem bíða ykkar heima. Á sjómannadaginn bið ég ykkur sjómönnum þeirrar bænar, að kraftur Guðs megi ætíð hjá ykkur búa og að þið mættuð reikna með honum í logni og stormi lífsins, þá gefur leiði í friðarhöfn.
Guð blessi íslenzkri sjómannastétt daginn og framtíð alla.
- Jóhann S. Hlíðar.
- Jóhann S. Hlíðar.