Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1952/ Færeyjar og Færeyingar
- Mót norðri þær rísa og hika ekki hót
- við hretanna hvin eða sjávarins rót,
- því svipur og eðli og ættarmót
- er allt saman stórfellt og norrænt að kyni.
- Þeim senda enga blessun hin suðrænu lönd
- þar signdi ekki Grikkja né Rómverja hönd
- en einmitt í norðri, við Íslands strönd,
- þeir áttu hina beztu og tryggustu vini.
- JÓN TRAUSTI
Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því, fyrr en s.l. sumar hve stutt við þurfum að fara til að heimsækja minnstu norrænu frændþjóðina, Færeyinga. Færeyjar eru aðeins í 250 sjómílna fjarlægð frá Íslandi, en það er skemmri leið heldur en sjóleiðin milli Reykjavíkur og Hornafjarðar.
Færeyjar rísa úr hafi, hömrum girtar og mikilúðlegar. Jarðfræðingar telja, að á þriðju jarðöld (tertier-tímabilinu) hafi verið samfellt land allt frá Skotlandi til Grænlands, Færeyjar séu leyfar hins forna lands ásamt Íslandi, Orkneyjum og Hjaltlandi. Þegar komið er af hafi sýnast eyjarnar eða aðalþyrping þeirra samfellt land, en svo kemur í ljós að mjó sund skera landið í sundur. Í sundum þessum eru víða afar harðir straumar. Eyjarnar eru 18 alls og aðeins ein er óbyggð.
Við, Vestmannaeyingar kvörtum stundum um einangrun, en hvað myndi okkur finnast, ef við ættum að búa við einangrun þá, sem sumir Færeyingar gera sér að góðu. Til sumra eyjanna kemur póstur einu sinni til tvisvar á ári. Í Stóru Dímon er eitt stórbýli, en þar verður vart lent að vetrarlagi.
Eins og áður er sagt, eru Eyjarnar sæbrattar, sumsstaðar eru standbjörgin allt að 800 m. há.
Færeyingar eru bjargmenn góðir, enda þurfa þeir oft á þeirri íþrótt að halda. Oft verður þar slys í bjarggöngum. Flestir ábúendur Dímonar hafa farist í björgunum þar. Þegar gengið er á eyna verður að feta sig eftir einstigi, þar sem komið er fyrir boltum og köðlum til stuðnings. Þungavöru og gripi verður að draga upp í vindu. Uppi á Eynni er slétt grund og með afbrigðum grösugt. Annars er byggðin víðast við firði og sund í dalskvompum inn á milli fjallanna í hlíðum og láglendi meðfram sjó. Landið er hrjóstrugt, bert, skóglaust, nema þar sem hann er ræktaður í görðum. 97% af landinu er óræktað. Þó er það ekki ónytjað með öllu, því sauðfé gengur sjálfala á heiðunum árið um kring. ,,Seyða ull er Förja gull“ segir gamalt máltæki. Myndi þó ekki gull hafsins vera þeim öllu dýrmætara? Óþarft er að fara mörgum orðum um aðalatvinnuveg Færeyinga, fiskveiðarnar. Hitt er kannske ekki öllum kunnugt, að Færeyingar höfðu fyrir fáum áratugum auðug fiskimið heima fyrir. Um 6o sjómílum vestur af Suðurey er Færeyjabanki, er var ágætt fiskisvæði. Nú er hann uppurinn að kalla. Færeyingar sögðu mér líka, að enskir togarar hefðu togað upp við landsteina umhverfis Eyjarnar, þar sem áður var jafnan sæmileg aflavon. Þeir voru að vísu stundum sektaðir, en upphæðin var svo óveruleg, aðeins um 300 kr., að þá munaði svo sem ekkert um að greiða þetta lítilræði. Er ekki sagan að endurtaka sig hér við land, fiskstofninn að ganga til þurrðar vegna ágangs Færeyinga og annarra fiskveiðiþjóða, er hafast við á Íslandsmiðum?
Sauðfjárrækt er talsverð í Færeyjum, eins og áður er sagt, beitiland gott og féð harðfengt. Talið er, að 70.000 fjár gangi sjálfala á heiðunum, svo auðsætt er að tilkostnaður við fjárræktina er ekki mikill. Fjárskaðar geta hinsvegar orðið miklir við snjóflóð; eða þá að ofviðri kastar fénu fram af björgunum tugum saman.
Ekki hefur verið unnt að fullvinna ullina heima vegna skorts á vinnuafli. Kjöt er ekki flutt út en saltað heima eða vindþurrkað, og þykir herramannsmatur.
Hvalveiðar hafa jafnan verið mikið stundaðar í Færeyjum og eru hvalveiðistöðvar allmargar á ýmsum stöðum á Eyjunum.
Þá er grindadrápið mikill búhnykkur. Hvalir þessir fara í flokkum 50-1000. Þegar grindin kemur, fara allir til veiða, sem vettlingi valda. Róa þeir út fyrir vöðuna og reka hópinn á land. Fornar heimildir geta um grindadráp árið 1270. — Fuglatekja er mikil í Færeyjum.
Færeyingar hófu kolavinnslu á Suðurey í heimsstyrjöldinni fyrri. Var það gert. þegar örðugt reyndist að útvega annað eldsneyti. Kol þessi þykja ekki góð, í þeim er mikil aska en þau sóta ekki. Þó námurekstur þessi gefi ekki mikinn arð, eða jalnvel tap, skora stjórnarvöldin á íbúana að nota færeysk kol til að spara útlendan gjaldeyri. —
Þótt framfarir hafi orðið miklar í Færeyjum á síðari tímum, verður ekki annað sagt en að samgöngur við Eyjarnar séu í lakasta lagi.
Gufuskipaferðir þangað hófust árið 1858 og liggur við að þróunin hafi orðið öfug síðan. Áður héldu tvö skip uppi ferðum til Eyjanna, og skip í Noregs- og Englandsferðum höfðu reglubundna viðkomu. Færeyingar létu sitt skip „Tjaldur“ (nú gamli Gullfoss okkar) sitja fyrir öllum flutningum. Það varð til þess, að nú hefur aðeins „Dronning Alexandrine“ viðkomu í Þórshöfn á leið til Íslands.
Bretar byggðu flugvöll á eynni Vogar. Aðstaða til flugs er þó ærið erfið, og er talið að kostnaður við að gera fullkominn flugvöll muni nema nokkrum milljónum króna.
Færeyingar og Skotar hófu áætlunarf|ug í sameiningu, en urðu að hætta eftir nokkrar vikur vegna halla á rekstrinum.
Talið er að Færeyjar hafi byggst nokkru fyrr en Ísland. Grímur Kamban hét maður sá norskur er þar nam land. Hrökk hann undan ofríki Noregskonungs. Það var því sami þjóðstofninn er byggði Færeyjar og Ísland, enda eru tungur beggja þjóðanna svo líkar enn þann dag í dag, að hvorir tveggja geta ræðst við hindrunarlaust, þó ekki hafi þeir numið mál hvor annars sérstaklega.
Færeyingar eiga ekki fornbókmenntir eins og Íslendingar. Fræðimenn segja þó á því engan vafa að Færeyingasaga hafi verið til, en nú eru til slitrur einar og munnmæli úr fornum sögum. Í Flateyjarbók er frásögnin um Þránd í Götu er bjó í Austurey og réði mestu um allar eyjarnar og Sigmund Brestisson. Sigmundur var kappi mikill og átti jafnan í útistöðum við Þránd.
Sigmundur var mikill vin Hákonar Jarls og var með honum löngum, Þrándur hinsvegar varðist ásælni konungsvaldsins.
Samt er það svo, að Sigmundur var og er dáður af Færeyingum sem tákn hins mikla og góða, en allt öðru máli gegndi um Þránd, enda hefur hann trúlega verið nokkuð harðdrægur. — Mörgum öldum síðar kemur svo Nólseyjar-Páll við sögu, (f. 1766). Hann var sæfari mikill og byggði haffært skip hið fyrsta í Færeyjum.
Páll reyndi að brjóta hlekki hins danska einokunarvalds, m.a. með því að flytja vörur til Færeyinga á eigin skipi. En hér var við ramman reip að draga; Danir beyttu öllum hugsanlegum ráðum til að hindra viðreisnarstarf Nolseyjar-Páls.
-Færeyski þjóðdansinn og þjóðkvæðin er merkilegt menningarfyrirbæri. Um aldir hefur sá siður haldist, að þegar löngu dagsverki var lokið kom heimilisfólkið saman í reykstofunni svokölluðu. Kvöldseta, kvæðalestur hófst og sögur voru sagðar. Nú er þessi aldagamli þjóðarsiður að hverfa. Þó dönsuðu Færeyingar Grettisljóð í Sjónleikarahúsinu í sumar. Þótti það in bezta skemmtun.
Kirkjubær á Straumey mun vera merkasti sögustaður Færeyja. Þegar Færeyjar voru gerðar að sérstöku biskupsdæmi árið 1100 var reistur þar prestaskóli. Þar var og biskupssetrið. Þjóðsögur herma að Sverrir konungur hafi fæðst í Kirkjubæ. Einn biskupanna hét Erlendur (1269-1308). Hann lét reisa dómkirkju að Kirkjubæ. Henni varð þó aldrei lokið. Lagðir voru á þungir skattar svo fólkið fékk vart undir risið. Gerðu Suðureyingar uppreisn gegn biskupi og drápu hann í Mannfallsdal. Tóttin stendur enn og eru múrar hennar ærið þykkir og rammgerðir, enda hefur tímans tönn lítt á þeim unnið.
Leiðin frá Þórshöfn til Kirkjubæjar er aðeins 11 km. Við ökum í þægilegum bíl um hrjóstrugt heiðaland, brátt blasir við reisuleg bygging, Kirkjubær. Það vekur fyrst eftirtekt okkar, að hérna er eini staðurinn í Færeyjum þar sem notaðar eru nýtízku vinnuvélar, enda mun hér vera einskonar bændaskóli.
Elzti hlutinn af húsakynnum Kirkjubæjar er safnhús. Þetta er bjálkabygging ramger, hefur staðið hundruð ára og getur vafalaust staðið langan aldur enn. Hér eru geymdir gripir ýmiskonar, margir þeirra aldagamlir.
Þegar okkur ber að garði, stendur miðaldra maður fyrir dyrum úti og býður okkur velkomin að Kirkjubæ. Hann er meðalmaður á hæð, nokkuð feitur, festulegur í fasi og skarplegur. Hann er klæddur færeyskum þjóðbúningi af vönduðustu gerð. Maður þessi er Páll Patursson, sonur Jóhannesar Paturssonar, er mest barðist fyrir frelsi Færeyja. Páll er nú kóngsbóndi að Kirkjubæ og hefur komið nokkuð við sögu í frelsisbaráttu þjóðarinnar. Hann skar t.d. eitt sinn niður danska fánann, er frægt var á sinni tíð. — Við skoðuðum svokallaða biskupsstofu, er okkur var sagt að væri 810 ára gömul. Þar var allmikið safn fornra rita færeyskra og íslenzkra, einnig var þar allmargt merkisrita íslenzkra frá síðari árum.
Kirkja gömul er á staðnum, átti hún gnótt fornra gripa, en Danir rúðu hana að fornum munum og höfðu á brott með sér.
Biskupsstóll í Kirkjubæ var lagður niður um miðja 16. öld, en jörðin komst undir dönsku krúnuna. Síðan hafa búið þar leiguliðar krúnunnar — kóngsbændur.
Þegar maður dvelur í Færeyjum, er varla hægt að hafa þá tilfinningu að þetta sé nokkurt útland. Landinu svipar að mörgu leyti til Íslands og málið er harla skylt.
Helzt gæti maður sagt, að Þórshöfn t.d. væri allt í senn, íslenzkur, danskur og færeyskur staður. Dönsk áhrif eru hér hvarvetna auðsæ, enda eru Færeyjar að nafni til danskt land. Danskir embættismenn skipa og margar stöður. Í stíl bæjarins gætir hinna furðulegustu tilbrigða. Þar eru fallegar beinar götur með nýtízku húsum, næsta gata er svo kannske frá 18. öld, lítil hús, óhrein og óásjáleg á allan hátt, gatan þröngt húsasund, öll í hlykkjum og krákustígum, eftir því hvernig byggt var upphaflega. Einkennilegt þótti okkur að sjá mörg hús með torfþökum í hinni færeysku höfuðborg miðri.
Varla verður sagt, að Þórshöfn sé fallegur bær, en hann er ekki óviðkunnanlegur, og ekki er ysinn og hávaðinn. Þórshöfn er hljóðlátur bær, og þar virðast fáir þurfa að flýta sér. Íbúar bæjarins virðast hafa nægilegt að bíta og brenna, en lítið þar fram yfir. Litum við svo til, að þeir mundu vera nægjusamir, jafnvel úr hófi fram.
Verzlanir hafa gnægð vara á boðstólum, en þær eru dýrar, t.d. mun lítill verðmunur þar og hér á fatnaði, skóm og lúxusvörum. Atvinna er nægileg, sem ráða má af því, að 3 Íslendinga hittum við í Þórshöfn er höfðu atvinnuleyfi þar.
Mér varð gengið eitt sinn að stórum húsgrunni þar sem nokkrir menn voru að verki kl. nærri 9 að kvöldi (8 eftir „færeyskum“ tíma). Ég spurði þá hvort þeir ynnu eftirvinnu við húsbyggingar. Nei, við vinnum frá 8-8. Ég spurði hvort þeir hefðu hátt kaup. Það er kr. 3,25 um tímann eða sem svara til kr. 7,58 í ísl. peningum. Þeir sögðu þetta viðunandi kaup, en ekkert meira.
Táknrænt um offiskið við Færeyjar var það, að þar sást varla fiskibátur á ferð. Þó sá ég eitt sinn trillubát koma að landi. Ég gekk niður á bryggju og spurði um aflabrögð. Aflinn var um hálf lest, en hásetar voru 4. Ég spurði þá, hvort hlutur væri ekki rýr af ekki meiri afla. Æjú, en þetta væri þó betra en ekki. Verðið þótti mér allhátt, en það var 65 aur pr. kg. eða 1,54 ísl. Fannst mér mikill munur á fiskverði þar og hér.
— Nú kveðjum við frændur vora Færeyinga að sinni. Heimsókninni til minnstu norrænu þjóðarinnar var lokið.
- Sigurvegarar í kappróðri 1949 og 51, m.b. Gullveig. Form. Kristinn Sigurðsson.
- Metsali á síðasta ár, Birgir Pálsson. (Ljósm. H.S.)