Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1951/ Öryggismál sjómanna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Runólfur Jóhannsson:
Öryggismál sjómanna.

Sjómannadagurinn, hinn nýi lokadagur, er vel til þess fallinn, að litið sé um öxl, og skyggnst yfir farinn veg.

Við slíkt yfirlit hlýtur augað fyrst að stanza við það, sem hæst ber á. Eða við þá atburði sem valdið hafa breytingum, og stutt að framfaramálum sjómannanna, á einn eða annan hátt.
Aðalmál sjómannanna á hverjum tíma hljóta að verða öryggismálin.
Það á því vel við að rifja upp að litlu leyti afstöðu Vestmannaeyinga til þeirra mála, og má með sanni fullyrða, að hana beri hærra, og sýni betur starfsemi hins bjartsýna brautryðjanda, heldur en í öðrum hérlendum veiðistöðvum á sama tíma.
Lífsafkoma Vestmannaeyinga hlýtur ætíð að verða háð sjónum, og þeim feng, sem hann lætur í té.
En sá fengur hefur ekki ávallt verið auðfenginn. Átökin við hin snöggu og hörðu veður, sem hér geysa oft að vetrinum til hafa verið hörð. Afleiðingar þeirra verða alltof oft slysfarir og bátstapar, einkum þegar fleiturnar voru smáar og veikbyggðar.
Af þessum ástæðum var það ekki óeðlilegt að áhugi vaknaði fyrir bættu öryggi. Brautryðjendur á sviði þessara mála hér í Vestmannaeyjum, má vafalaust telja stjórnendur Skipaábyrgðarfélagsins, sem stofnað var árið 1862.
Í sögu þessa félags, segir svo: Eina hina merkilegustu framkvæmd félagsins má þó telja það, er samþykkt var á aðalfundi 30. janúar 1887. Að fara fram á það við eigendur áttæringsins Haffrú og julsins Blíðu, að þeir hefðu skipin til taks í hrófunum, með öllum fargögnum frá því skipin væru tekin úr hrófunum á hausti og þangað til þau væru sett aftur í hrófin, í byrjun vertíðar. Svo fljótt yrði gripið til þeirra ef slys bæri að höndum.
Varð þetta að samkomulagi, millum skipseigendanna og félagsstjórnarinnar, og ábyrgðist félagið þeim greiðslu á öllu tjóni og skemmdum, sem skipin kynnu að verða fyrir. Og greiddu þeim auk þess 1% af virðingarverði þeirra, sem þóknun.
Þetta munu vera fyrstu björgunarbátarnir hér á landi. Hélst þetta síðan, meðan opin skip gengu, með sama hætti, nema hvað breytt var um skip við starfið, þegar hin eldri gengu úr sér.
Þegar vélbátarnir komu til sögunnar árið 1906, lét þetta sama félag mjög til sín taka, er sést bezt á því, að árið 1910 ræður það mann, til þess að hafa eftirlit með því, að ekki vantaði á vertíðinni, eða útgerðartímanum, í bátana þau fargögn sem fyrirskipað var að hafa í sjóferðum. Og var Hannes Jónsson lóðs kosinn til starfsins, og samþykkti félagið að greiða honum eina krónu í þóknun fyrir hvern vélbát sem gengi til fiskveiða. Hvort sem báturinn væri í tryggingu eða ekki, hjá félaginu.
Hafði Hannes þetta starf á hendi um nokkurra ára skeið, og gaf félagsstjórninni árlega skýrslu um starf sitt.
Þrátt fyrir ýmsar öryggisráðstafanir gagnvart vélbátunum og útbúnaði þeirra, urðu slysfarir æði tíðir viðburðir og þurfti því önnur og betri ráð.
Árið 1918, er Björgunarfélag Vestmannaeyja stofnað, og árið eftir var með ötulleik safnað fé til kaupa á björgunarskipinu „Þór“.
Stofnun Björgunarfélagsins, og kaupin á björgunarskipinu, eru til orðin fyrir ötulleik, og framlag margra manna. En að flestra dómi gekk þar fremstur Sigurður heitinn Sigurðsson lyfsali, sem með þrautseigju og dugnaði, gekk þarna nokkurskonar berserksgang, og eirði eða hlífði engu, þar til fullum sigri var náð.
Við getum hugsað okkur þann stórhug, sem til þess hefur þurft, fyrir ekki stærra byggðarlag en Vestmannaeyjar voru þá. Að kaupa, og bera síðan kostnað af útgerð björgunarskipsins. En svo ötullega var að þessum málum unnið, að þrem árum eftir að Björgunarfélagið er stofnað, er skipið keypt hingað, eða árið 1921 og tekur þá strax til starfa.
En það var ekki nóg að fá skipið, á það þurfti einnig góða skipshöfn, og þetta tókst með ágætum, strax í byrjun.

ctr
Björgunaræfing á sjómannadaginn.
(Ljósm.: Ing. Guðjónsson)

Vestmannaeyingar munu lengi minnast með hlýjum huga þessara manna Og ekki sízt þeirra Jóhanns P. Jónssonar og Friðriks Ólafssonar, sem voru fyrstu stjórnendur skipsins.
Mörg fleytan hefur flotið hér fyrir ströndu, bæði fyrr og nú, en mjög má draga það í efa, að nokkur þeirra hafi verið í eins miklu uppáhaldi, sem gamli Þór, enda varla ástæða til, því svo mikill bjargvættur var þetta skip og starfsemi þess nauðsynleg fyrir þetta byggðarlag, meðan þess naut við. Þar var öryggi sjómannanna, og stolt þeirra.
Við höfum nú um stund flett upp í minningarblöðum liðins tíma. En þess tíma þó, sem hátt ber á, ef ekki hæst í öryggismálum byggðarlagsins.
Margt hefur breytst og sumt af því til batnaðar. En er ekki eitthvað sem við höfum vanrækt nú í seinni tíð? Að því ber vel að gá, og sé svo þá minnumst þess dugnaðar, sem fyrirrennarar okkar sýndu, með framtaki sínu og fórnfýsi, og fylgjum dæmi þeirra.
Hvernig búum við t.d. að sjómannaefnunum okkar, þeim mönnunum, sem við eiga að taka, af þeim sem heltast aftur úr lestinni.
Er undirbúningsstarfi þeirra ekki að ýmsu leyti ábótavant? Jú því ber ekki að neita. Bókfræðslan er flutt úr byggðarlaginu, hana geta menn aðeins fengið í höfuðstaðnum gegn dýru gjaldi. Og sem mörgum er helzt til um megn að greiða. Af þessu leiðir það, að menn reyna á allan hátt að losna við nauðsynlegt nám, og fara undanþáguleiðina sem illræmd er orðin, og að sjálfsögðu eykur á öryggisleysi.
Á verklega sviðinu má einnig finna margt ábótavant, sem úrbóta þarfnast.

Björgunaræfing.

Til þess að ungi sjómaðurinn, sem hyggur á skipstjórn, a.m.k. öðlist þá þekkingu, bæði bóklega og verklega, sem honum er nauðsynleg, þarf þetta byggðarlag að eignast, eða fá til fullra afnota „björgunar og skólaskip“. Að þessu marki ber að keppa í náinni framtíð.
Um borð í slíku skipi eiga ungu sjómannaefnin okkar að vaxa að þekkingu á framtíðarstarfinu og öðlast þá reynslu sem nauðsynleg er, á öllum þeim öryggistækjum, sem að gagni mega koma, og ekki sízt því, að kunna að stjórna skipi, og allri tilhögun þess.
Þeir eiga, í slíkum skóla, að öðlast áhuga og gleði, fyrir því lífsstarfi, sem þeir hafa valið sér, og feta í fótspor þeirra manna sem hæst bar á, og helzt að gera betur. Verði slíku takmarki náð, er öryggismálum sjómanna stefnt í rétta átt.