Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1951/ Ávarp ritstjóra
Í undanfarin 11 ár hefur Sjómannadagurinn verið haldinn hátíðlegur í Vestmannaeyjum. Aðilar að Sjómannadagsráði Vestmannaeyja eru: Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi, Vélstjórafélag Vestmannaeyja og Sjómannafélagið Jötunn. Allmikillar fjölbreytni hefur gætt í skemmtunum og dagskrárliðum Sjómannadagsins undanfarin ár, en sjómenn sjálfir hefðu óskað, að enn meiri glæsibragur hefði mátt vera yfir deginum.
Atvinnulífi okkar hér í Vestmannaeyjum er þannig háttað, að þann tíma ársins, sem helzt þyrfti að nota til undirbúnings Sjómannadeginum, eru allir önnum kafnir við störf, hér er þá aðalannatími ársins. Það er í raun og veru stórfurðulegt, hversu mikla vinnu sjómenn hafa lagt fram á undanförnum árum til undirbúnings þessum hátíðisdegi sínum, þegar þess er gætt að þeir koma frá samfelldu mánaða striti við Ægi á erfiðasta tíma árs.
Sjómennirnir setja markið hátt og nú bæta þeir við nýjum lið í sambandi við Sjómannadaginn, útgáfu blaðs. Blað þetta, sem hefur nú göngu sína, mun að öllu skaplegu koma út á hverjum Sjómannadegi. Undirbúningur að útkomu þessa fyrsta blaðs hefur verið stuttur og mun eflaust mega sjá þess mörg merki. Þess er vænzt að blaði þessu verði vel tekið. Í því eru rœdd, og svo mun verða framvegis, áhugamál sjómannastéttarinnar, en þau hljóta líka, ef rétt er athugað, að vera áhugamál íslenzku þjóðarinnar. Velgengni sjómannastéttarinnar þýðir velgengni okkar allra sem heildar.
Íslenzkir sjómenn búa nú við mikið betri kjör og aðstœður heldur en fyrirrennarar þeirra og hefur þar mikið áunnizt á undanförnum árum og áratugum, en þetta er ekki nóg, öll afkoma íslenzku þjóðarinnar byggist á sjómennsku og fiskiveiðum og er ekki sýnilegt að á því geti orðið nokkur breyting. Takmarkið verður því að vera, að það verði eftirsóknarvert fyrir hvern ungan mann að gerast sjómaður, ef það verður ekki, hlýtur að koma kyrkingur í þessa atvinnugrein, kyrkingur sem verður afdrifaríkur fyrir afkomu allrar þjóðarinnar. Á nœstu sjómannadögum munu sjómenn líta yfir hvað áunnizt hefur og setja ný mörk að keppa að og þessu blaði er ætlað það hlutverk að skýra málin og bera fram kröfur sjómannastéttarinnar.