Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1951/Rýmkun landhelginnar

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
JÓN EIRÍKSSON:
Rýmkun landhelginnar.


Þegar erfið og vandleyst mál bíða úrlausnar, vinnst þeim brautargengi með að endurtaka sífellt kröfuna um að þau verði leyst á þann hátt, sem æskilegt er. Krafa okkar Íslendinga um rýmkun landhelginnar er nú eitt hið veigamesta vandamál, sem á döfinni er. Framtíð okkar er að mestu komin undir því hvernig það leysist. Það er ánægjulegt að vita til þess, að margir hafa nú þegar gert þessu máli skil, en þó tel ég þar fremstan Júlíus Hafstein, sýslumann, sem hefir ritað um þetta mál gagnmerkar greinar.
Mér er ljóst, að ég er ekki fær um að gera þessu máli þau skil, sem skyldi, m.a. vegna þess, að ég hefi ekki við hendina nægilega góð heimildarrit. En skoðun mín er sú, að krafa okkar Íslendinga um lausn þessa máls sé rödd þjóðarinnar, rödd, sem við eigum sífellt að láta hljóma þegar tækifæri gefst. Ég held einmitt, að sú eining okkar Íslendinga verði veigamestu rökin í baráttu okkar fyrir viðunandi lausn þessa máls. Hér er um að ræða mál, sem við getum stutt hvar sem við búum og hvar í flokki, sem við stöndum.
Í fornsögum okkar er talað um Ísland sem veiðistöð. Af þessu er ljóst að hér hefir verið talið óvenjulega fengsælt. Af þessu má einnig draga þá ályktun, að landið hefir byggzt mönnum sem komu hingað í þeim tilgangi m.a. að stunda hér veiðar. Gera má að vísu ráð fyrir, að átt hafi verið einnig við aðrar veiðar en fiskveiðar í sjónum, svo sem veiði í ám og vötnum, sela og fugladráp o.fl. Fiskveiðar í sjó voru orðnar vel þekktar í Noregi á landnámsöldinni. Landnámsmenn hafa því flutt þá kunnáttu með sér til nýja landsins. Á þrettándu öldinni hefir veiðiskipafloti Íslendinga verið töluverður. Þeim Þórði kakala og Kolbeini tókst að safna álitlegum flota á Vestfjörðum og Norðurlandi til Flóabardaga. Lýsing þeirra skipa bendir til þess að þar hafi mestmegnis verið um að ræða fiskiskip. Á þessum tímum hafa Íslendingar verið einir um hin íslenzku fiskimið. Tækni þess tíma leyfði ekki, að hægt væri að fara langar leiðir til fiskveiða.
En tímarnir breytast. Norðurálfumenn fara að byggja betri og betri skip. Siglingaþjóðirnar sjá sér fært að fara að senda skip þessi til fjarlægari miða, svo sem til Íslands. Íslendingar fara að tala um það, að erlend skip spilli veiði þeirra, og hinar erlendu þjóðir fara að deila um fiskveiðarétt sinn hér við land. Hafið umhverfis Ísland verður einn vettvangur deilu stórþjóðanna um yfirráð hafsins. Sumir halda því fram að hafið umhverfis Ísland sé eitt hinna frjálsu hafa, en aðrir segja hið gagnstæða. Íslendingar voru þá lítils megnugir og gátu lítið tekið þátt í þessum deilum. Þeir voru þá kúgaðir af Dönum og voru heimsóknir annarra þjóða fiskiskipa þeim oft kærkomnar vegna hagkvæmrar verzlunar.
Á tímabili urðu Danir mikil siglingaþjóð. Héldu þeir fast á rétti sínum til hafsins umhverfis Ísland. Reyndu þeir eftir því sem þeir gátu að meina annarra þjóða fiskiskipum að stunda hér fiskveiðar og verzlun. Þessi viðleitni bar þó oft lítinn árangur og var þá oft samningaleiðin reynd, sem gafst þá enn betur.
Þessar fiskveiðar annarra þjóða hér við land á fyrri öldum munu þó ekki hafa haft nein veruleg áhrif á fiskistofninn hér við land. Almennt mun hafa verið litið svo á að hann væri óþrjótandi. Á 15. öld fer notkun lóða að tíðkast hér. Er talað um að sú aðferð spilli fyrir færaveiðum. Seinna fara þorskanet að tíðkast og síðast botnvarpan.
Með því að taka í notkun stórvirk veiðitæki hins seinni tíma, hefst nýr þáttur í fiskveiðasögu Íslands. Betri útbúnaður skipanna, betri vistarverur skipverja, bætt veiðarfæri skapar allt möguleika fyrir stórauknum austri af fiski úr sjónum. Seinni tíminn hefir fært okkur heim áþreifanlegar sannanir fyrir því, að sjórinn er ekki óþrjótandi og sjórinn þolir ekki slíkan gegndarlausan austur. Hér við Eyjarnar voru mið, sem töldust góð og örugg. Nú er talið þýðingarlaust að sækja þau. Farið er að sækja fjarlægari mið en áður en búast má við að fiskurinn hverfi þaðan áður en varir. Ef engar raunhæfar breytingar eru gerðar mun fiskurinn meir og meir ganga til þurrðar.
Í íslenzkum lögum, svo sem „lögum um fiskveiðar“ nr. 33 frá 1922 og ýmsum öðrum er gert ráð fyrir því, að umhverfis Ísland sé svæði, sem nefnist „landhelgi“. Þetta örmjóa belti er það eina svæði, sem Íslendingar geta kallað hafið sitt. Á þessu svæði mega aðeins íslenzk fiskiskip stunda veiðar og löggjafi Íslands má einn setja reglur um það hvernig veiðum skuli hagað á þessu svæði, hvaða veiðarfæri skuli nota og hvaða veiðarfæri skuli ekki nota. Íslendingar telja sér aðeins fært að meina annarra þjóða fiskiskipum fiskveiðar innan þessa svæðis. En þetta svæði er aðeins örlítill hluti grunnsævisins, sem er umhverfis landið.
Landgrunnið er landfræðilega séð beint áframhald af sjálfu landinu og tilheyrir engu landi frekar en Íslandi. Nágrannaþjóðir okkar hafa ekki viljað viðurkenna rétt okkar til þess.
Bandaríkjamenn og Rússar hafa kastað eign sinni á víðáttumikil hafsvæði út frá löndum sínum. Þeir hafa mátt til að halda þeim og verja þau. Er því ekkert talið við því að segja. Við Íslendingar erum hinsvegar fáir og smáir. Okkur eru ekki færar þær leiðir sem hinir stóru fara. Við getum aðeins farið leið samkomulagsins, að sannfæra nágranna okkar um það, að okkur sé lífsnauðsyn að fá umráðarétt yfir hafinu okkar umhverfis landið.
Lífæð íslenzks atvinnulífs eru fiskveiðar. Íslendingar þurfa að flytja inn fleiri lífsnauðsynjar en flestar aðrar þjóðir heims. Þar af leiðandi þurfum við einng að flytja meira út en aðrir. Fiskafurðir er langstærsti útflutningsliður okkar.
Fari svo, að fiskimiðin hér við land eyðist, sem óhjákvæmilegt virðist með þeim austri sem nú er, bíður okkar vá fyrir dyrum. Eins og atvinnuháttum nú er háttað myndi þá ekki vera hægt og klæða og fæða þjóðina. Við gætum ekki vænzt þess að geta flutt inn þau tæki, sem teljast ómissandi. Hið sorglega er, að margt bendir til þess, að þeir tímar séu nærri.
Hafið umhverfis landið er gullkista, sem ekki tæmist ef hóflega er af tekið.
Við lifum í þeim tíma, sem viðurkennir samkomulagsréttinn sem hina einu leið, sem hæfir menningarþjóð. Tuttugustu aldar menn hafa fengið dýrkeypta reynslu af ósamkomulagi. Skoðanir manna ganga yfirleitt í þá átt, að hver þjóð eigi að búa að sínu og fá að vera óáreitt af öðrum þjóðum. Hagsmunir annarra þjóða af hafinu umhverfis landið eru smáir og jafnvel hverfandi í samanburði við hagsmuni okkar Íslendinga. Aðrar þjóðir hafa í fyrsta lagi sín eigin höf þar sem þær geta stundað fiskveiðar. Þá hafa þær einnig aðra möguleika t.d. vegna suðlægri legu sinnar.
Við Íslendingar búum það norðarlega að ýmsir telja að hér séu takmörk þess, að hægt sé að lifa menningarlífi. Eins og ég gat um hér áður byggðist Ísland m.a. vegna þess að það var veiðistöð. Það var meðal annars þess vegna, að landnámsmenn töldu æskilegt að setjast hér að. Fiskveiðarnar eru einmitt það, sem gerir okkur Íslendingum kleyft að lifa menningarlífi. Verði þetta frá okkur tekið getum við búizt við að þurfa að taka upp frumstæðan lifnað norðurhjaraþjóða.
Aðrar þjóðir, sem hingað halda fiskiskipum sínum, auðgast ekki á miðunum eftir að þau eru þurrausin. En þær hafa aðra möguleika, sem gerir þeim kleyft að lifa sínu menningarlífi eftir sem áður. Við Íslendingar munum þeim mun meira verða varir við hina týndu auðlegð.
Það er að vísu spor í rétta átt, samkomulag, sem náðst hefur um friðun ákveðinna svæða. En takmark okkar verður að vera alger yfirráð yfir landgrunninu okkur Íslendingum einum til handa. Það er krafa allra Íslendinga til stjórnarvalda sinna að gera allt sem í þeirra valdi stendur til þess að svo megi verða. Það er einnig skylda allra Íslendinga að styrkja stjórnarvöld sín, með því að halda máli þessu sívakandi.

Jón Eiríksson.