Sjómannadagsblað Vestmannaeyja/ Hugleiðing á sjómannadegi

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Séra Jóhann S. Hlíðar:

Hugleiðing á Sjómannadaginn 1988


Þar sem sóknarpresturinn okkar, séra Kjartan örn Sigurbjörnsson, verður kominn í ársorlof á sjómannadaginn, þótti við hœfi að fá þann sem leysir hann af fyrstu þrjá mánuðina til að rita hugleiðinguna. Séra Jóhann S. Hlíðar mun leysa af í þrjá mánuði, en hann var hér þjónandi sóknarprestur 1954-1972. Jóhann er fœddur 25. ágúst 1918 og verður því sjötugur á þessu ári.

Þeir fóru um hafið á skipum - Þeir hafa séð verk drottins og dásemds hans á djúpinu - því hann bauð og þá kom stórviðri, sem hóf bylgjur þess. Þeir hófust til himins, sigu niður í djúpið. Þeim féllst hugur í neyðinni. - Og öll kunnátta þeirra var þrotin.
Þá hrópuðu þeir til Drottins í neyð sinni. Hann leiddi þá úr angist þeirra. Hann breytti stormviðrinu í blíðan blæ, svo að bylgjur hafsins urðu hljóðar.
Þá glöddust þeir, af því þær kyrrðust, og hann lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu." (Davíðssálmur: 107, 23-30).
Þessi orð úr Sálmi Davíðs, draga upp eina af ótalmörgum raunsönnum myndum Heilagrar Ritningar um mannlega lífsreynslu, svo að við stöldrum við um stund og hugleiðum orðin og mynd þeirra.
Verk Drottins, hvert sem litið er, eru eilíft undrunarefni. Og þá fyrst og fremst það verk, sem hann hefir opinberað og fullkomnað í sínum elskaða syni Jesú Kristi.
Hann er hjálpráð Guðs öllum til handa, sem féllst hugur í neyðinni. Og neyð okkar birtist í mörgum myndum, þegar öll kunnátta okkar er þrotin. Hvað sem tækniþróun allri líður og skal þó enganveginn gert lítið úr henni.
Um þetta einasta bjargráð okkur til handa, þegar öll kunnátta okkar er þrotin, segir Postulinn Pétur: „Og ekki er hjálpræðið í neinum öðrum, því að eigi er heldur annað nafn undir himninum, er menn kunna að nefna, er oss sé ætlað fyrir hólpnum að verða".
Að verða hólpinn, er í því fólgið að taka á móti og ná tangarhaldi á bjarghringnum, sem til okkar er varpað að ofan, þegar straumþunginn er að bera okkur burt og niður í myrkur djúpsins - burt frá Guði.
Við vitum, að Guð var alvara að leiða okkur úr angist okkar og neyð. er hann sendi son sinn í heiminn til þess að samtengjast okkar kjörum, að ganga fram í dómnum til þess að taka á sig okkar sekt og neyð svo að við skyldum hljóta sýknudóm. Þetta verk Guðs er grundvöllur allrar huggunar í lífi og dauða.

Í dag er sjómannadagurinn, dagur helgaður dugmiklum mönnum, dagur sem geymir ríkar minningar og mikla sögu, sem er í órofa tengslum við baráttu þjóðar okkar fyrir lífsafkomu fyrr og nú. Í dag standa sjómenn sem einn maður í þeirri baráttu, líkt og þeir hafa staðið í einni skipshöfn í baráttu fyrir afkomu heimila sinna.
Hættum er boðið byrginn, æðrulaust og af þörf og af köllun er ýtt úr vör.
Og bæn hefir fylgt hverju fleyi frá brjósti elskandi ástvina í landi og bæn hefir stigið upp frá hraustu sjómannshjarta til gjafarans allra góðra gjafa um vernd, liðveislu og feng og farsæld á hættuför.
Sjómenn eiga margan vitnisburð um nálægð Drottins. Lof sé Guði, fyrir hvern þann sjómann. sem fyrirverður sig ekki fyrir trú sína á Drottni Jesúm Krist.

Ég hitti gamla sjóhetju, endur fyrir löngu, sem kunni frá mörgu að segja. Hann sagði mér frá atburði, sem ég mun aldrei gleyma. Þeir voru að koma úr róðri, með björg í bú. Báturinn var lítill sem þá var títt. Er þeir nálguðust Heimaey, skall á blindbylur. Þeir fundu það á sjólaginu, að þeir voru undan Urðunum, skammt frá innsiglungunni í höfnina, en á hættusvæði sakir þungra strauma og blindskerja.
Formaðurinn kallaði á mannskapinn aftur í stýrishús og sagði: „Drengir. nú er aðeins eitt til bjargar, biðjum saman."

Eins og einn maður tóku þeir ofan sjóhattana og spenntu greipar. Formaðurinn leiddi í bæn. Er hann hafði lokið henni og þeir litu upp, rofaði til eitt andartak. Þeir sáu ljósin við innsiglinguna, þeim var borgið. ,,Nú er aðeins eitt til bjargar." Orð máttugs vitnisburðar trúartrausts og trúarreynslu, er fokið var í Öll skjól og mannlegur máttur mátti sín ekkert, öll önnur kunnátta þeirra var þrotin.
En þarna var lífsreynsla barmafull af huggun og von, byggð á hellubjargi sannleikans eina, um nálægð kærleikans Guðs, sem er hljóðnæmur á bænir barna sinna í neyð þeirra og er hjálparhraður, er leitað er til hans í einlægni.
Huggun, sem dugar í lífi og í dauða. Hún brást ekki í gær, hún dugar í dag og allt til enda. Sannleikur þeirrar reynslu er eini sannleikurinn, sem engan svíkur, og er sá sannleikur, sem þjóð okkar þarfnast framar öllu í dag, að kunna að reikna með Guði.
Það eina sem dugar er að hafa séð ljósið, Jesúm Krist, í myrkrinu og hafa séð ljósið er rofaði til, svo að stefnan yrði óbrygðul, þó syrti að.
Þetta er vitnisburður um góðan Guð, sem lét þá komast í höfn þá, er þeir þráðu. Vitnisburður, sem við og þjóð okkar í heild þörfnumst í dag og alla daga.
Guð blessi íslenska sjómannastétt og heimili allra sjómanna.

Með bróðurkveðju, Jóhann. S. Hlíðar