Sigurður Jónsson Árness

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sigurður Jónsson Árness ættfræðingur fæddist 26. ágúst 1878 á Kópsvatni í Hrunamannahreppi, Árn. og lést 14. ágúst 1968 á Sólvangi í Hafnarfirði.
Foreldrar hans voru Jón Gíslason bóndi, f. 24. sept. 1812 á Sóleyjarbakka, d. 5. febr. 1897 og barnsmóðir hans Sigríður Eyjólfsdóttir vinnukona, f. 28. febr. 1841 í Hvítárholti, d. 5. febr. 1897.

Sigurður ólst upp hjá vandalausum, lengst hjá Sigurði Jónssyni bónda á Jaðri og konu hans, Ingibjörgu Jónsdóttur. Sigurður flutti úr átthögum nítján ára. Hann settist að í Eyjum og sótti sjó, var sjóróðrarmaður og sláttumaður að Ofanleiti 1901. Hann fór til Austfjarða og var þar sjómaður, fyrst var hann í Borgarfirði, en síðan í Neskaupstað, þar sem hann dvaldi í 20 ár, en flutti svo aftur til Eyja, en síðan í Grindavík. Hann tók sér eftirnafnið Árness. Með aldrinum varð hann fræðimaður og talinn vera gæddur merkilegum dulrænum gáfum.
Hann var snemma hneigður fyrir þjóðlegan fróðleik, þannig skrifaði hann „Þætti úr Hrunamannahreppi“ fimmtán ára.
Hann var mjög ættvís og er eini maðurinn, sem tók próf í ættfræði, þá hjá Hannesi Þorsteinssyni og þeim Jóhanni Kristjánssyni og Pétri Zóphoníassyni, líklega á árunum 1905-1909. Stóðst hann prófið með ágætum og fékk rétt til að kalla sig ættfræðing.
Sigurður skrásetti þjóðsögur, ýmist munnmæli, sem hann safnaði eða frásgnir af dulrænni reynslu hans sjálfs.
Frásagnir hans birtust í Lesbók Morgunblaðsins 1959-62, í blaðinu Lögbergi í Winnipeg 1960, í Sagnagesti II 1954. Handrit hans eru geymd í Landbókasafni (Þjóðarbókhlöðu).
Sigurður var ókv. og barnlaus.
Hann lést 1968.


Heimildir

  • Byggt á grein Guðjóns Óskars Jónssonar í Fréttabréfi Ættfræðifélagsins í október 2005.
  • Manntöl.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.