Saga Vestmannaeyja II./ Verzlun Dana. Konungsverzlunin í Vestmannaeyjum, fyrri hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Verzlun Dana. Konungsverzlunin í Vestmannaeyjum.
(Fyrri hluti)


Næsta sporið í verzlunarmálunum var það, er Kristján konungur III. seldi borgarstjórn Kaupmannahafnar á leigu til verzlunar Ísland „með Vestmannaeyjum“, með öllum sköttum og skyldum um næstu 10 ár, og var ársleigan ákveðin 1000 Lübeckmörk. Áskilið var og, að konungur mætti hækka leiguna, ef hann kæmist að raun um, að hann gæti haft meiri ágóða af landinu með öðru móti. Þúsund Lýbikumörk eru 1551 talin jafngilda í dölum 5 hndr. og 16 dölum og 4 skildingum.¹) Verzlun landsins var nú látin í hendur borgarstjórninni í Kaupmannahöfn, er árlega skyldi senda vöruskip til Íslands. Einnig skyldi borgarstjórnin senda til Íslands vel hæfan mann til að halda þar uppi lögum og rétti, þ.e.a.s. fara með hirðstjóravald. Varð fyrir valinu Laurentius Mule. Kom hann til Íslands og með honum Kristján skrifari, er var umboðsmaður Mule og fógeti á Bessastöðum. Fjandskapur gerðist brátt með hinum nýja hirðstjóra og Hamborgarkaupmönnum og gengu mörg kærumál þeirra í millum. Tók konungur af borgarstjórninni hirðstjórnarvaldið, en verzlun mátti hún reka framvegis hér á landi sem aðrir kaupmenn.
Konungur lénti 1552 borgarstjórninni í Kaupmannahöfn Vestmannaeyjar með öllum sköttum og skyldum um ótiltekinn tíma fyrir 200 rdl. (Joachimsdali) árlegt afgjald, og fylgdu ýms fríðindi, er verzlun borgarstjórnarinnar voru til hagsbóta, svo sem vetursetuleyfi.²) Joachimsdalur mun þá hafa jafngilt um 411 aurum í voru fé, að silfurverði. Verzlun borgarstjórnarinnar gekk illa, einkum vegna samkeppninnar við Englendinga, sem þessi árin ráku fiskveiðar við Vestmannaeyjar af miklu kappi og launverzlun við eyjabúa. Hafði konungur gefið út bann við ólöglegum fiskveiðum 1552, en lítinn árangur mun þetta hafa borið.³) Borgarstjórnin hætti verzlun í Vestmannaeyjum og afsalaði sér eyjunum í árslok 1557. Tók konungur þá sjálfur við verzluninni.
Aflaár munu hafa verið góð um þessar mundir, og hefir forstöðumaður konungsverzlunarinnar, er hann fór að kynnast atvinnumálum eyjabúa, talið það arðvænlegast, að verzlunin tæki og útgerðina í sínar hendur. En til þess að geta notið fullrar gagnsemi af verzlun sinni og útgerð í eyjunum, varð konungur eða forstöðumaður fyrir hans hönd að taka upp ósleitilega baráttu við enska kaupmenn og útgerðarmenn, er hér ráku viðskipti og stunduðu fiskveiðar á nærmiðum. Þegar árið 1559 sendi konungur flotaforingja sinn með herskip hingað, til þess að halda enskum duggum, er stundað höfðu veiði sína á heimamiðum, í skefjum og til þess að vernda verzlun sína og koma í veg fyrir launmakk og viðskipti milli eyjamanna og enskra kaupmanna. Er auðsætt, að konungsmenn hafa verið búnir að ganga fyllilega úr skugga um það, að launverzlunin yrði eigi heft, nema með því að framfylgja verzlunar- og fiskveiðabönnunum með valdi, og veitti fullerfitt samt, eins og nú verður lýst, svo föstum tökum höfðu Englendingar náð á verzlun og fiskveiðum við eyjarnar.
Fyrsti forstöðumaður konungsverzlunarinnar í eyjunum var Simon Surbech (Surbikar), er var af þýzkum kaupmannaættum. Hann er nefndur borgari í Kaupmannahöfn, sbr. leiðarbréf hans til Vestmannaeyja 22. apríl 1558.⁴) Simon Surbech varð bæjarfulltrúi í Kaupmannahöfn 1577 og borgarstjóri þar 1579 og var það þar til hann deyði 1583. Sem forstöðumaður konungsverzlunarinnar í Vestmannaeyjum var Surbech og umboðsmaður konungs og fógeti, er innheimti skatta og skyldur. Konungsfógeti var og eins konar lögreglustjóri. Umgetin störf mun þó forstöðumaður jafnan hafa falið undirmanni sínum, er honum var fenginn sérstaklega af konungi, undirkaupmanninum eða skrifaranum, er hafði fast aðsetur hér. Var það venjan seinna, að undirkaupmaðurinn væri og fógeti. Í opnu bréfi til „þegnanna“ í Vestmannaeyjum 15. apríl 1561 segir, að standa beri Simoni Surbech skil á öllum tíundum og skyldum, er konungi tilheyri. Með téðu bréfi leggur konungur og bann við því, að eyjamenn selji fisk sinn öðrum, fyrr en Simon Surbech hafi fengið svo mikinn fisk, sem hann þurfi.⁵) Mun þar vera átt við fullfermi á skip það, er Simon hefir komið með hlaðið vörum og síðan siglt með aftur hlaðið fiski, að endaðri sumarkauptíð. Mun verzlunarmátinn hafa verið þannig á fyrstu árum konungsverzlunarinnar og að minnsta kosti þar til konungur tók að stunda útgerð í sambandi við verzlunarreksturinn, er verið hefir um 1570, en þá hefir orðið að breyta rekstrinum og auka hann, bæta við þjónum og stækka verzlunarhúsin, og hefir verzlunarreksturinn þá komizt í svipað horf og var lengi síðar á dögum einokunarinnar og seinna. Er eigi annað að sjá en erlendum kaupmönnum hafi á fyrstu árunum verið heimilt að kaupa fisk með sérstöku leyfi og svo framarlega sem það fór eigi í bága við fiskkaup forstöðumanns konungsverzlunarinnar. En fyrir þetta var tekið með konungsbanni 15. apríl 1561. Þetta bann vakti mikla gremju hjá eyjamönnum, sem sættu miklu betri kjörum hjá Englendingum en hjá dönsku verzluninni, og gátu, með því að fiskur og fiskafurðir voru þeirra eini gjaldmiðill, orðið aðnjótandi betri viðskipta með lægra vöruverði. Sama gilti um landmenn, er hér stunduðu útræði og vanir hafa verið að láta fisk sinn í verzlanir sem greiðslu fyrir vöruúttekt sína. Var með banni þessu hart gengið að mönnum, því að óhagræði hefir það verið mikið að verða að bíða með fisk sinn þar til konungsskipið hafði fengið nægilegt fermi, og mega alls ekki ráðstafa þeim fiski, er menn höfðu afgangs landsskyldum og tíundum og öðrum greiðslum, á þann hátt, er mönnum hentaði bezt. Þó versnaði mjög seinna, er konungsverzlunin fór að færa meira út kvíarnar og hafði nú fleiri kaupskip í förum, er ætlað var fullfermi til baka, svo að nú var setið um hvern ugga.
Banninu gegn fiskkaupunum vildu enskir kaupmenn heldur eigi lúta. Töldu þeir það brot á fornum samningum við sig. Að bægja þeim frá fiskkaupum var að mörgu leyti sama og að banna þeim verzlun. Enskir kaupmenn létu reiði sína bitna á Simoni Surbech og gerðu aðsúg að honum í húsum hans, Dönsku-húsum hér, og munu hafa veitt honum allþungar búsifjar. Var þetta ekki í fyrsta sinn, er þeir höfðu átt í brösum við umboðsmenn konungs hér. Um þessar mundir var Páll lögmaður Vigfússon á Hlíðarenda sýslumaður í Rangárvallasýslu og með þeirri sýslu munu Vestmannaeyjar hafa fylgt. Simon Surbech hefir kært aðfarir Englendinga við sig fyrir Páli sýslumanni Vigfússyni og krafizt þess, að hann refsaði hinum ensku og að hann sæi um að banni konungs væri hlýtt, og landmenn hefðu ekki viðskipti við Englendinga. En Surbech þótti sýslumaður vera aðgerðalítill í málum þessum og mislíkaði mjög, og taldi hann vera á bandi kaupmanna. Kærði Surbech sýslumann fyrir konungi og var Páli Vigfússyni (Puel Viigfussen) stefnt utan á konungsfund, sbr. konungsbréf 27. marz 1563,⁶) að viðlagðri útlegðarrefsingu. Páli Vigfússyni var gefið það að sök, að hann hefði hvatt enska kaupmenn til að verzla í Vestmannaeyjum á sumrum og þar með auðvitað til að kaupa fisk áður en skip konungsverzlunarinnar voru fullfermd, og að Páll hefði skipað fiskimönnum sínum að halda fyrir konungsfógeta tíund, er honum bar vegna konungs. Með tíund mun hér vera átt við prestatíundina, er goldin var hér og konungur hafði einn þriðja hluta af. Útgerðarmenn og sjómenn af landi yfirleitt og eins sjómenn þeir, er réru hér á útvegi Páls Vigfússonar, munu hafa tregðazt við að greiða tíundina, að minnsta kosti að einhverju leyti, eins og oft vildi verða hjá mörgum. Þetta gæti og bent til þess, að skipverjar hafi á vorvertíð afhent afla sinn í ensk skip úti á sjó og því eigi þótzt þurfa að greiða tíund af aflanum, er þeir komu eigi með hann í land.
Eigi er fullkunnugt um það, hversu þessum málum lyktaði. Hefir því verið haldið fram, að Páll lögmaður hafi misst lögmannsdæmið fyrir þessi mál, verið dæmdur frá embættinu. Engin áreiðanleg skilríki munu samt fyrir því, og líklega réttara, að Páll lögmaður hafi haldið embætti sínu þar til hann deyði 1570.⁷)
Hæg voru heimatökin fyrir konung, er hann stofnsetti verzlun sína og útgerð í Vestmannaeyjum, er voru eign konungs. Forstöðumaður konungsverzlunarinnar var sem einvaldur í eyjunum. Var þess eigi lengi að bíða, að úti væri um allt athafnafrelsi og sjálfstæði eyjabúa, bæði í verzlunarmálum og atvinnumálum yfirleitt, og þeir færðir undir það ok, er eigi var af þeim létt, fyrr en eftir að einokunin var upphafin, og raunverulega, að minnsta kosti hvað verzlunarmálin snerti, eigi fyrr en um aldamótin síðustu, er nýtt viðhorf hófst í verzlunarmálunum í Vestmannaeyjum með því, að þar reis innlend verzlun, er brátt efldist og útrýmdi hinni erlendu, er þar hafði verið ein ráðandi fram til þess tíma.
Verzlunin og útgerðarreksturinn í Vestmannaeyjum hefir ætíð fyrrum verið nátengt hvort öðru. Um margar aldir réðu kaupmennirnir yfir útgerðinni með öllu, og lengi eftir að einokuninni var létt af í orði kveðnu, hafa þeir þar og ráðið mestu. Konungsverzlunin mun hafa byrjað útgerðarrekstur sinn hér fyrir alvöru um 1570. Útgerðin komst fljótt að mestöllu leyti í hendur konungsverzlunarinnar í Vestmannaeyjum. Í erindisbréfi Simonar Surbech, sem forstöðumanns konungsverzlunarinnar, er honum falið að halda úti fyrir verzlunina eins mörgum bátum eins og hann sjái sér fært að manna, og var svo ríkt eftir þessu gengið, að ná allri útgerðinni á eigin hendur, að sjálfum höfuðsmanni Jóhanni Buchholdt var jafnframt boðið að veita þá aðstoð, er þyrfti í þessu efni, sem sé að útvega fólk til útgerðarinnar lengra að, ef eigi fengist nægilegt í nærsveitunum og í eyjunum sjálfum. Herti Simon Surbech svo að um róðrarkvaðirnar, að kvöðin var eigi aðeins bundin við vetrarvertíð, heldur og við sumar- og haustvertíð, og var hér farið feti framar en venja hafði verið til hér á landi um kvaðir á leiguliðum. Um tómthúsmenn gilti þetta hér afarlengi.⁸) — Margs konar aðrar kvaðir hvíldu og á eyjamönnum. Mannslána - og róðrarkvaðirnar héldust hér að miklu leyti út allan einokunartímann og raunverulega töluvert lengur, sbr. skyldu leiguliða til að róa þar, sem umboðsmaður skipaði niður í skiprúm, ef leiguliði átti ekki skip sjálfur, en það hélzt hér fram um miðja 19. öld.⁹)
Erindisbréf Simonar Surbech er dagsett 25. apríl 1570.¹⁰) Í því eru taldar skyldur hans sem forstöðumanns. Hann skyldi sigla til eyjanna á hverju ári og hafa nægar vörur til sölu sumar og vetur. Sjálfur skyldi hann leggja til fjórðung varanna og bera kostnað og arð í sama hlutfalli. Honum var heimilt að lána skilamönnum, og skyldu lánin innheimt í kauptíð á sumrin, sennilega í júní, þegar harðfiskur var orðinn þurr og gild verzlunarvara. Kemur þegar hér fram, og er ef til vill af eldri uppruna, sami verzlunarmátinn, lánsverzlunin og tilhögun hennar, er átti sér stað í Vestmannaeyjum síðan fram á vora daga. Forstöðumaður skyldi stjórna útgerð konungs, halda skrár yfir bátana, ársafla hvers báts og kostnað. Hann skyldi og halda reikninga yfir landsskyldir konungs og tíundir og yfir allar tekjur hans hér, beinar og óbeinar, og semja fullkomna jarðabók. Þrjá verzlunarþjóna mátti forstöðumaður hafa, og valdi konungur sjálfur verzlunarfulltrúann, undirkaupmanninn. Í téðu erindisbréfi er ákvæði um það, að forstöðumaður skyldi koma í veg fyrir verzlun útlendinga í eyjunum og heimta toll af erlendum skipum, er þangað komu.
Með konungsbréfi 9. apríl 1570 var gefið út ítrekað og enn harðara bann gegn verzlun útlendinga og viðskiptum eyjamanna við þá. Var Simoni Surbech fyrirskipað að taka 16 rd. í toll af hverju útlendu skipi, sem kæmi til Vestmannaeyja til þess að reka þar fiskveiðar og leitaði hafnar þar, og skyldi hann sjá um, að eigi kæmu fleiri útlend skip á höfnina í senn en svo, að rúm væri fyrir konungsskipið. Af duggurum, sem stunduðu veiðar hér við land og forstöðumaður fékk náð til, skyldi hann taka 2 rósenoblur.
Með nefndri skipun voru lagðir tvennir tollar á enska útgerðarmenn og fiskimenn hér: annar á duggarana, er stunduðu haffiski, og hinn tekinn af fiskimönnum, er fiskuðu við landið og komu í hafnir, og hafði eigi verið venja áður að heimta toll af öðrum skipum. Breytingin var í því fólgin, að hinn gamli tollur, er var 2 rósenoblur af skipi, var nú lagður sem sértollur á þá, er stunduðu haffiskveiðar og dvöldu eigi í höfnum, en hinn tollurinn settur 16 ríkisdalir á skip þau, er fiskuðu við landið og dvöldu í höfnum. Orðið höfn er hér notað í víðari merkingu en nú er um hafnir, sem sé einnig um fiskimið, nærmið, við land.
Englendingar hafa nú þótzt hörðu beittir með þessum ákvæðum, er miðuðu að því að útiloka þá frá fiskveiðum við Vestmannaeyjar, en við eyjarnar höfðu fiskveiðar þeirra hér við land verið bundnar nær eingöngu síðustu áratugina, eins og kemur fram í svörum enskra kaupmanna við kærum Friðriks konungs II. 1564 til Englandskonungs út af ólöglegum siglingum Englendinga í Norðurhöfum. Kváðust kaupmennirnir hafa verið útilokaðir frá öllum íslenzkum höfnum síðustu 20 árin, og að þeir fengju ekki að fiska í friði við landið, að undanteknum Vestmannaeyjum, sem væri sá eini staður, er þeir væru á hverju ári við fiskveiðar og verzlun: „nec quiete ibidem pro piscibus capiendis super mare morare (sinuntur) une tautem loce Westmonæ vocato exepto et reservate ubi singulis annis piscandi et mercandisandi gratia conversantur“.¹¹)
Forstöðumaður konungsverzlunarinnar átti í ströngu að standa. Hann skyldi ekki einasta annast rekstur verzlunarinnar og þar með sigla með varninginn, harðfiskinn, til sölu á erlendum markaði í Englandi og Þýzkalandi, heldur skyldi hann og sem fógeti konungs og lögreglustjóri sjá um fullnægingu refsingar á hendur þeim, er brotlegir urðu við bann konungsins. Í ofannefndri skipun til Surbechs segir svo, að þeim enskum mönnum og öðrum útlendingum, sem staðnir séu að ránum og gripdeildum, skuli hann hegna með lífláti. Eyjamönnum var og bannað að viðlagðri hæstu refsingu að selja öðrum en forstöðumanni konungsverzlunarinnar afurðir sínar, en þeir, sem keyptu af eyjamönnum, hvort heldur voru innlendir eða útlendir, skyldu sæta aleigumissi. Hins vegar lofar konungur því, að nægar og góðar vörur skuli vera á boðstólum í verzlun hans í eyjunum, bæði sumar og vetur,¹²) en litlar efndir hafa orðið á þessu, sbr. kærumálin frá 1583.
Samkeppnin við Englendinga hefir verið hörð hin fyrstu ár konungsverzlunarinnar og arður hennar lítill. Mun konungur hafa haft hug á að leigja eyjarnar aftur, ef tök hefðu verið á gegn góðri leigu. Auðugur kaupmaður í Lundúnum, John (Johan) Foxal, er lánaði konungi fé, lagði nú fölur á að fá eyjarnar leigðar. Fól konungur Peder Oxe („Rigshovmester“) að semja við Foxal og leigja honum eyjarnar, sbr. konungsbr. 10. des. 1570.¹³) Úr þessu varð samt eigi, sennilega vegna þess, að Foxal hefir eigi boðið nógu háa leigu. En hér eftir fer konungsverzlunin að færa út kvíarnar með því að hefja stórútgerð, og munu það hafa verið ráð Simonar Surbech, er hefir séð það, að þá fyrst gat konungur vænzt þess að hafa fulla arðsemi af verzluninni, að hann tæki og útgerðina hér í sínar hendur. Hlaut nú að harðna baráttan við Englendinga, unz um lyki.
Vorið 1571 tók Simon Surbech toll af enskum mönnum frá bænum Ipswich, er komið hafa til Vestmannaeyja til þess að stunda þar fiskveiðar og verzlun. Seinna um sumarið, er Simon sigldi með konungsskipinu til Englands frá Vestmannaeyjum, er var hlaðið fiski þaðan, tóku Englendingar skip hans í hafi með öllum farmi og lögðu undir sig í hefndarskyni og hnepptu Simon í varðhald, og var honum eigi sleppt, fyrr en hann hafði sett þeim 2500 rd. að veði og lofað því að sigla eigi framar með vörur til Englands.
Þegar Simon kom aftur til Kaupmannahafnar, kærði hann þessar aðfarir fyrir konungi. Gaf konungur þá út skipun, sbr. bréf til yfirtollheimtumannsins í Helsingör, Henriks Mogensens, 21. apríl 1572, um að taka fasta alla enska kaupmenn og skipara frá bænum Ipswich, er færu um Eyrarsund, og leggja hald á skip þeirra og góss og sleppa þeim eigi, fyrr en Simon Surbech hefði fengið lausnargjaldið endurgreitt og honum leyft að sigla til Englands. Urðu af þessu miklar málalengingar og loks samningagerðir milli Friðriks II. og Elísabetar Englandsdrottningar 22. júní 1583, og var Englendingum með téðum samningi leyft að leita hafnar bæði í Noregi og á Íslandi, en bannað var þeim að reka þar kaupskap, nema sérstakt leyfi væri fengið.
Svo er að sjá sem verzlun konungs og útgerð í Vestmannaeyjum hafi gengið betur, er fram í sótti. Að minnsta kosti hefir forstöðumaður, en honum bar hlutdeild í arðinum, auðgazt drjúgum. Hann var bæjarfulltrúi í Kaupmannahöfn, eins og áður segir, og borgarstjóri þar 1579. Á því sama ári, eða um áramótin 1579—1580, hefir hann hætt að vera forstöðumaður konungsverzlunarinnar, en tók við henni aftur. Simon Surbech hefir verið harðdrægur í garð eyjabúa og haldið fast fram hlut landsdrottins, eins og sjá má af kærumálum eyjabúa frá 1583. Í þessum kærumálum, er prestarnir og helztu bændur eyjanna stóðu fyrir og send voru Alþingi, er með fullri einurð skýrt frá einræði því og ofríki, er eyjamenn voru beittir af umboðsmanni konungs, er tók undan jörðunum ýmsar nytjar, tók og aukahluti af skipum handa sjálfum sér, að því er helzt má ætla. Út yfir allt tók þó, er bændum nú var fyrirmunað að halda uppi útgerð á eigin skipum á vertíð og jafnvel á sumar- og haustvertíð.
Yfir verzlunarólaginu bera eyjamenn sig og mjög illa: „Item þykir oss kaupskapurinn alltíð harður, nú þó ei sízt, mjölstampur í hundraði, klæði létt og góð, færi og annað smákram alltíð dýrra og dýrra, verðið vex á þessu öllu, en þó XXX fiska á hvert C (hundrað), hversu góð skreið sem er, tóm tunna á XII fiska, en nú er mönnum forboðið, fjötrum og fangelsi fyrirheitið, ef menn nokkuð, smátt eða stórt, sér útvega hjá Eingelskum, þar sem menn mega fá þetta margt með hægu verði hjá þeim, sem er hogset fyrir lamb, mjóafæri fyrir sex fiska, stundum fyrir vettlinga (sjóvettlinga) og annað þessu líkt, og skuli þessar álögur eður þungur ásetningur svo til lengdar fara, sjáum vér ekki annað fyrir en að þessar Vestmannaeyjar sé svo sem í eyði, en hér sem annars staðar ganga öll aflabrögð til sjós og lands til minnkunar, en hér mikil fátækt fyrir höndum, svo að þeir eru fáir, sem sér geta borgið að heldur öðrum“. Einnig er undan því kvartað, að menn „fái ekki að taka upp á sína fiska á sumar, fyrr en umboðsmaður hafi selt vöru sína og kram inn á meginlandið“.¹⁴)
Umgetið ár kostaði mjöltunnan við konungsverzlunina 35 álnir eða 70 fiska, og var verðið þannig helmingi meira en eftir kaupsetningum þeim, er gengu hér á landi fyrir miðja 16. öld. En vöruverð hafði að vísu farið hækkandi erlendis frá þeim tíma, þó að eigi næmi svo miklu, sem verðið hækkaði hér. Í kaupsetningu Magnúsar prúða 1586—1588 var mjöltunnan t.d. ein vætt eða 40 fiskar. Hinar sáru umkvartanir eyjamanna yfir vöruverðinu munu samt eigi hafa borið mikinn árangur. Það er þannig ljóst samkvæmt verzlunarreikningum konungsverzlunarinnar frá lokum 16. aldar, að verðlag á mjöli hefir haldizt hið sama, sem sé 70 fiskar fyrir mjöltunnu. Hefir eigi verið á þetta bent fyrr en nú. Þetta verð var að vísu nokkru lægra en eftir taxta frá 1619. Ýmsar aðrar vörur sést og að hafa verið dýrari hér en ákveðið var í kaupsetningum, og verð svipað á þeim og seinna eftir einokunartaxtanum frá 1619. Yfirleitt voru verzlunarkjörin hörð og jafnvel lakari að ýmsu leyti en á einokunartímunum. Á dögum konungsverzlunarinnar fengu eyjamenn salt af mjög skornum skammti og aðeins gegn því að greiða það með fiðri. Að öðrum kosti fengu þeir það ekki, og saltið hafa þeir átt að nota að mestu til að salta með fugl, lunda og súlu. Þetta aðhald hefir verið til þess gert, að menn legðu inn þorskafla sinn blautan á vor- og sumarvertíð. En á þeim kaupum högnuðust kaupmenn vel. Verð á salti var og hærra en á einokunartímunum. Ein tunna af salti var látin hér fyrir hálfa aðra tunnu af fiðri. Fiður var þá flutt út í tunnum. Með þessum skorðum fyrir saltkaupum voru menn knúðir til að auka fuglatekjuna, til þess að geta fengið salt til að salta með trosfisk. Fiður var þá góð útflutningsvara og sótzt eftir því. Fiðurtunnan var borguð eftir saltverðinu, með 40 fiskum. Verð á lérefti var frá 3 fiskum al. upp í 6 fiska, strigi 2 fiska al. Gott klæði frá 20 f. al. upp í 40 f. al., Limpersklæði, enskt silkiklæði. Lítið sést getið um kaup á borðviði, skipaviði og árum á þessum tímum, sem var og eðlilegt, þar sem eyjamenn gerðu lítt út skip, og engin stórskip. Til aðgerða á húsum og smábátum var notaður rekaviður. Vöruverð allt var miðað við fiskgreiðslu, og úttekt hefir að miklu leyti farið fram í reikning, og reikningar og viðskipti jöfnuð með fiskinnleggi á sumrin, eins og hér hélzt lengi síðan.
Það er kunnugt, að eyjamenn nutu eigi þeirra kjarabóta að mega verzla í hundraðskaupi, heldur verzluðu þeir í einkaupi, eins og tíðkaðist frá fornu, en einkaup kallaðist það, er menn keyptu einhverja vöru í smákaupum. Um ástæðuna fyrir því, að eyjamenn máttu aðeins verzla í einkaupi, virðist sem þeim, er ritað hafa um einokunina, hafi eigi verið ljóst. Mín skoðun er sú, eftir því sem rannsókn hefir leitt í ljós um verzlunarástandið og hag almennings yfirleitt, að eyjamenn hafi verið útilokaðir frá hundraðskaupum með því, að almenningi þar hefir vegna fátæktar og skuldbindinga við kaupmenn eigi verið talið fært að greiða fyrir hundraðskaup í einu. Verzlunarreikningar gerðir upp á kauptíðinni og þá búið að taka smám saman í skuld fyrir aflanum, og er það sama sagan, er sífellt endurtók sig hér fram undir síðustu tíma. Efnabændum hefir sjálfsagt verið leyft að verzla í hundraðskaupi og yfirleitt hafa þeir oft notið betri kjara, eins og alltaf þekktist hér.
Simon Surbech barðist ósleitilega fyrir hagsmunum verzlunar þeirrar, er hann veitti forstöðu, en eigandi hennar var allt í senn: kaupmaður, landsdrottinn og sjálfur konungur landsins. Hinum ensku var Simon þungur í skauti, eins og sýnt hefir verið, og vel hafa eyjabúar fengið að kenna á hrammi verzlunareinokunarinnar og drottinvaldsins. Um 1580 lét Simon Surbech af forstöðu konungsverzlunarinnar. Hefir líklega verið farinn að þreytast á að standa í jafn stríðu. Þetta ár var hér kominn nýr forstöðumaður.
Jörgen Ködt tók við 1580.¹⁵) Í bréfi frá 15. febr. 1580 er tiltekið viðurværi handa honum á Kaupmannahafnarsloti og sveini hans. Voru kaupmönnum ætluð matföng og drykkjar á slotinu, svo og hirðklæðnaður.¹⁶) Í bréfi frá 28. des. 1580 er kaupmaður konungs í Vestmannaeyjum einmitt talinn meðal þeirra, er höfðu uppihald sitt frá Kaupmannahafnarsloti. Jörgen Ködt var kunnur kaupmaður og rak verzlun á ýmsum stöðum hér á landi. Bæjarfulltrúi varð hann í Kaupmannahöfn 1583.
Þess var eigi langt að bíða, er Simon Surbech hafði sleppt forstöðu verzlunarinnar, að umkvartanir tóku að heyrast frá konungi yfir því, að hann hafi ekki nægan hagnað af verzluninni, sbr. bréf til rentumeistara konungs, Christofers Walkendorfs, 5. apríl 1581. Felur konungur rentumeistara að reyna að leigja eyjaverzlunina kaupmönnum í Danmörku, er færir séu um að greiða fulla leigu og geti sent vörur eftir þörfum til eyjanna. Ekki tókst að leigja eyjarnar, eins og áformað var, og var því leitað á ný til Simonar Surbechs til þess að fá hann til að taka við verzluninni aftur.¹⁷) Kvartað hafði verið undan því, sbr. konungsbr. útg. í Krónborg, að Simon hafi eigi haldið skilmála þá, er honum bar, sem sé að greiða fjórðung kostnaðar af verzlunarrekstrinum, en hann tæki hins vegar fjórðung arðsins, en í kostnaðinum vilji hann engan þátt taka. Þetta kveðst konungur eigi geta þolað, og tjáir rétt að segja honum upp, ef hann fari sínu fram. Á þessu sama ári, 1583, andaðist Simon Surbech. Var hann þá enn forstöðumaður konungsverzlunarinnar hér.
Á skrá frá 11. febr. 1575¹⁸) er Simonar Surbech getið meðal þeirra mörgu lénsmanna í Danmörku, er eigi höfðu innt af hendi venjuleg reikningsskil við konungsfjárhirzluna í tæka tíð. Þarna á meðal er og höfuðsmaður landsins, Johan Buchholdt. Eigi getur Simonar á vanskilaskrá seinna, en tveggja forstöðumanna konungsverzlunarinnar getur þá. Reikningsárið er hér miðað frá miðsumri til miðsumars.
Níels Söffrensen tók við verzlunarforstöðunni eftir Simon Surbech. Erindisbréfið er gefið út 9. marz. Viðtakan miðuð við 1. jan. 1583. Ekki vantar það, að brýnt er fyrir kaupmanni í erindisbréfinu að viðhafa lögleg kaup, selja góðar og ósviknar vörur. Hann skyldi hafa fjórðungshluta af verzluninni og greiða fjórðung kostnaðar. Síðar sjöttungsskipti með sömu kjörum. Söffrensen hafði allvíðtækan kaupsýslurekstur utan Vestmannaeyja. Hann hafði tekið að sér að selja allan fisk konungs af Íslandi og þá fyrir það 50 rd. aukalaun. Hirðklæðum var honum heitið og viðurværi á slotinu fyrir sig og svein sinn.¹⁹) Söffrensen hefir fengizt við kaupskap eða útgerð í Noregi. Með bréfi 28. sept. 1584 var leyfi gefið út fyrir Níels Söffrensen borgara í Kaupmannahöfn til að salta, „bunkesalte“, tvo skipsfarma af síld í Noregi, til þess að selja á Niðurlöndum eða annars staðar. Níels Söffrensen hélt eigi lengi kaupmannsstöðunni í Vestmannaeyjum. Kaupsveinninn og fógeti þar, Povel Hansen, varð uppvís að því að hafa falsað reikninga verzlunarinnar og dregið sér 1000 rd. af fé konungs, sbr. konungsbréf til Johans Buchholdts höfuðsmanns 28. marz 1586.²⁰) Hefir mál Povel Hansens verið dæmt í Kaupmannahöfn, og hann eflaust dæmdur til að hengjast á hæsta gálga sem versti þjófur, en konungur leyfði að lífláta mætti hann með sverði, og skyldi Hansen sendur til Vestmannaeyja og hálshöggvinn þar öðrum til viðvörunar. Mun þessu hafa verið framfylgt eftir boði konungs.
Níels Söffrensen lét af forstöðu verzlunarinnar um þessar mundir og líklega fyrir nefndar sakir, og mun hann hafa orðið að standa konungi full skil á fjárreiðum við verzlunina og fé því, er stolið var. Hefir hann eigi verið búinn að lúka reikningsskilum, er hann deyði, því að á vanskilaskrá um fjárreiður til konungs 1594 er talinn erfingi Níels Söffrensens Hermand von Sellen, borgari í Kaupmannahöfn, í sambandi við reikningsskil Söffrensens af Vestmannaeyjum, er var þá enn eigi fullnægt fyrir tímabilið frá 1. jan. 1584 til 20. marz 1586, er Söffrensen var leystur frá verzluninni, sbr. bréf 20. des. 1594.²¹)
Næsti forstöðumaður við verzlun konungs hér var Oluf Madtzen, er verið hafði tollheimtumaður konungs við síldveiðarnar í Noregi. Er svo að sjá sem konungi hafi veitzt erfitt að fá dugandi mann fyrir eyjaverzlunina. Segir í bréfi til rentumeistara 17. marz 1586,²²) að Oluf Madtzen skuldi konungi nokkra fjárupphæð, eftirstöðvar af innheimtum tolli, en með því að svo hafi samizt með rentumeistara og Madtzen, að hinn síðarnefndi taki að sér að vera kaupmaður konungs og þjónn í eyjunum, skuli honum gefinn eftir helmingur af tollskuld hans, svo að hann verði því fúsari til að taka að sér þessi störf í þágu konungs og rækja þau vel. Erindisbréf Oluf Madtzens er gefið út í Krónborg 23. marz 1586.²³) Er hann í bréfinu nefndur bæjarfulltrúi í Kaupmannahöfn. Madtzen eru ætluð föst, árleg laun, 200 rd., en eigi hluttaka í verzlunararði. Einnig klæðnaður og viðurværi handa sér og skrifara sínum. Oluf Madtzen varð seinna borgarstjóri í Kaupmannahöfn.
Forstöðumaðurinn skyldi eins og áður sigla með erlendu vöruna á konungsskipunum til Vestmannaeyja á vorin og fékk hann vöruna afhenta hjá skrifara konungs á Kaupmannahafnarsloti, Níels Paaske. Var sú nýbreytni nú tekin upp, að konungur setti fastan verzlunarstjóra fyrir verzlunina í eyjunum. Átti forstöðumaður, er hann kom til eyjanna á vorin, að yfirlíta rekstur verzlunarinnar, vörubirgðir og reikninga verzlunarstjórans, kaupsveinsins, er bar alla ábyrgð á vörum eftir að búið var að taka á móti þeim í verzluninni. Kaupsveinninn var og umboðsmaður og fógeti. Þeir voru tveir 1886 og næstu ár á eftir. Reikningar verzlunarinnar og umboðsins í Vestmannaeyjum eru til frá árinu 1586, og ná yfir 15 ára skeið, til 1601, er verzlunin hætti. Kaupsveinunum mun hafa verið fjölgað eftir að svik Povel Hansens komu upp, og breyting þá gerð á rekstursfyrirkomulaginu 1586.
Íslenzka varan, fiskur og lýsi aðallega, svo og fiður o.fl., var seld af forstöðumanni sjálfum, eins og tíðkazt hafði, einkum í Englandi og Hamborg, og frá þessum stöðum keyptar erlendar vörur, svo sem vefnaðarvara og margt fleira, er verzlunin seldi í Vestmannaeyjum. Vörurnar voru fyrst fluttar til Kaupmannahafnar og þaðan með kaupskipum til eyja á vorin. Það mun hafa viðgengizt, að skipverjar á kaupskipum hefðu þau fríðindi að mega taka með sér ýmislegt kram til þess að selja, og sennilega haft vínföng til sölu, en nú var í erindisbréfi forstöðumannsins tekinn strangur vari fyrir þessu.
Í erindisbréfi Oluf Madtzens var og það ákvæði, að tilkynningar frá konungi til eyjamanna og enskra kaupmanna, er kæmu til eyjanna, skyldu birtar almenningi hér og lesnar upp í heyranda hljóði 3—4 sinnum. Mun hér vera átt við bönnin gegn verzlun Englendinga og viðskiptum við þá. Skyldu teknir gildir vitnisburðir um framkvæmd birtingarinnar. Birtingin mun hafa farið fram fyrir kirkjudyrum eftir messu, eins og lengi var siður hér að birta tilkynningar, er almenning varðaði. Ennþá kom fram bann gegn því, að Englendingar hefðu fiskibáta í eyjunum. Hefir útgerð Englendinga enn verið nokkur hér og launverzlun. Var í téðum tilkynningum, er forstöðumaður konungsverzlunarinnar lét birta, einnig lagt blátt bann við því, að Englendingar mættu hafa heimili í Vestmannaeyjum eða reka þar nokkra atvinnu.²⁴) Var lagt ríkt á við forstöðumann að sjá um, að þessum bönnum væri fullnægt, og ennfremur, ef Englendingar skildu báta sína eftir, þá bar kaupsveini konungs sem fógeta að láta hrinda bátunum út á sjó, þegar Englendingar væru sjálfir farnir burtu, og bátarnir síðan látnir reka til hafs.
Nöfn þeirra Englendinga, er sýndu fógeta mótþróa, skyldu skrásett og skráin send konungi. Refsa bar öllum þegnum konungs, bæði eyjamönnum og landmönnum, sem uppvísir urðu að því að verzla við Englendinga. Er gert ráð fyrir því, að kaupsveinninn kveði upp sektardóma í téðum tilfellum. Sektarupphæðin var innfærð sem sakeyrir í reikninga yfir óbeinar tekjur konungs.
Einn aðalþátturinn í baráttunni til útrýmingar atvinnurekstri Englendinga hér var það, er konungur sendi hingað Hans Holst sjóliðsforingja, til þess að koma hér upp virki með fallbyssum. Var hér nú tekin upp svipuð gæzla á skipum og við Eyrarsund, og eyjarnar sem næsta heimalenda. Virkið hafa eyjamenn verið látnir reisa í skylduvinnu. Frá virkinu var hægt að hafa full umráð yfir höfninni og engu skipi hleypt inn, sem ekki hafði vegabréf í lagi eða sérstakt leyfi frá konungi. Hafði virkisstjóri skipun um að skjóta á þau skip, er eigi sýndu fullnægjandi vegabréf, sjá opið bréf 18. apríl 1586.²⁵) Í téðu bréfi frá 1586 segir og, að mikið sé um sjóræningja í Vesturhafinu, og mundi því eigi duga annað en að taka til slíkra ráða til verndar þegnunum í Vestmannaeyjum. Þetta mun þó hafa verið haft að yfirskini, en aðrar ráðstafanir en hér greinir eigi taldar einhlítar gegn Englendingum hér. Eyjamönnum var og fyrirskipað að aðstoða Hans Holst í hvívetna, og koma hér nýjar dagsverkakvaðir, er lagðar voru á eyjabúa. Svo var ófrelsið mikið, er menn máttu búa við, að bannað var með öllu, að menn færu úr eyjunum sínar venjulegu ferðir til landsins, ef það gat heitið í kaupskaparerindum, svo sem vöruskiptaverzlunin milli landmanna og eyjamanna útheimti, nema sérstakt leyfi frá konungsfógeta væri fyrir hendi í hvert sinn og konungsskipin sjálf notuð til allra ferða í land. Svo var samt látið heita, að eyjamenn mættu fara frjálsir ferða sinna á sjónum til fiskjar, og sérstaklega tekið fram, að þeir mættu fiska á nærmiðum. En bannað var þeim harðlega að hafa nokkur mök við erlend skip, og hörðum refsingum hótað.


Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Ísl. fornbr.s. XI; P.E.Ó.: Menn og menntir III, 72.
2) Canc. Brevb., udg. v. C.F. Bricka 1885—1886, 1551—1555, bls. 195.
3) Tegnelser paa alle Landene IV, 47, Rskjs.
4) Canc. Brevb. 1556—1560. — Simon Surbech er talinn að hafa verið í ætt við Kortsættina hér, frá Skógum, sem svo margt manna er komið af og runnin var frá þýzkum kaupmönnum. Heinreks Surbikars getur í skilagrein frá 1521 um eignir dánarbús Vigfúsar Erlendssonar, og mun hann hafa verið kaupmaður í Hafnarfirði.
5) Canc. Brevb. v. L. Laursen, 1893—1895, 1561—1565.
6) Canc. Brevb. 1561-1565, bls. 243.
7) Smæf. IV, 422; P.E.Ó.: Menn og menntir III, 104.
8) Kærumál eyjamanna 1583.
9) Sbr. byggingarbréf fyrir eyjajörðum frá fyrri hluta 19. aldar.
10) Canc. Brevb. 1566—1570, bls. 578—579. Tegn p.a. L, II, 81.
11) Kongens Strömme, bls. 136.
12) Kans. Brevb. 1566-1570.
13) Kans. Brevb. 1566-1570.
14) Alþb. 1582—1594; A.M. Apogr., 5916.
15) Canc. Brevb. 1580—1583, bls. 26.
16) Rúgur, malt, 1/2 tn. af smjöri, 2 sláturuxar (Slagtenöd), 8 kindur og 4 svín. Einnig klæðnaður.
17) Canc. Brevb. 193—194, 254.
18) Canc. Brevb. 1571—1575.
19) Hin tilteknu matföng voru: malt, rúgur, 1 tn. smjörs, 2 uxar, 10 kindur og 20 gæsir.
20) Canc. Brevb. 1584—1588, bls. 120, 170, 482.
21) Canc. Brevb. 1595—1596, bls. 384.
22) Canc. Brevb. 1584—1588, bls. 472—473.
23) Canc. Brevb. 1584-1588, bls. 475.
24) Meðal bænda í Vestmannaeyjum á síðasta hluta 16. aldar eru 1—2, er bera ensk ættarnöfn.
25) Canc. Brevb. 1584—1588, bls. 495—496.

Síðari hluti


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit