Saga Vestmannaeyja II./ VI. Afgjöld og skattar, 4. hluti
Jarðir hér munu frá öndverðu hafa verið byggðar að venjulegum hætti og leigðar til fiskiafgjalda, miðað við gildan harðfisk. Greiðsla í lýsi hefir og átt sér stað að einhverju leyti. Sennilega og í fugli og fiðri fyrr á tímum. Fyrirkomulag og skipun um byggingu eyjajarðanna í margar smærri nær jafnstórar ábúðir er kunnugt um frá öndverðri 16. öld, og virðist hin sama eftir fyrirliggjandi gögnum frá því um miðja 15. öld, en mun þó vera töluvert eldri. Jörðunum Kirkjubæ og Vilborgarstöðum er þannig skipt niður hvorri í 8 samábúðir, og hinum smærri jörðum í 2 samábúðir hverri. Kostir þessarar jarðaskiptingar eru auðsæir fyrir landsdrottinn, eins og getið er hér að framan, vegna aukinna jarðaafgjalda. Og með því að auka búendatöluna var og stefnt að meiri fiskframleiðslu í eyjunum. Vannst með þessu hvorttveggja í senn, að betur var tryggð afgjaldsgreiðslan eftir smábýlið, og landsdrottinn, er gat skipað leiguliðum og tómthúsmönnum niður í skiprúm, fékk umráð yfir auknum útvegi, er var landsdrottni til mikilla hagsmuna. Landskyldir af eyjajörðunum, sem kunnugt er um frá ofangreindum tíma, eru óbreyttar að mestu undir lok 16. aldar, sbr. jarðabók 1586, og einnig síðan fram á vora daga. Er svo að sjá sem afgjöldin hafi þegar í upphafi verið sett svo há, sem með nokkru móti var unnt, og aldrei þótt fært að hækka þau seinna. Enda munu og jarðirnar eigi hafa verið bættar síðar og fremur gengið úr sér, eins og bezt virðist koma heim við tölu kýrfóðra fyrrum á jörðunum og eins og hún raunverulega varð síðar. Lægsta afgjaldið af jörð var 100 fiskar, stór hndr., er hið sama og hélzt ætíð síðan.
Skrá um landskyldir í Vestmannaeyjum 1451 í tíð Torfa hirðstjóra Arasonar, er hafði eyjarnar að léni: In primis. lest j hofn, lest a ofanleite, lest hia jone waldasyne og halsteine, half lest hia ellende, half lest hia kat(l)e, fjogur hundrud hia Helga, halft annat c hia sira Þorlake, þrir c hia jone þorkelssyne, c af dolum, c af steinstodum, halft annat (c) hia jone gudlaygssyne, tvo c hia kolbeine, ij hia Magnuse oc xxx betur, c hia fusinvsyne oc xx betur, c hia kutzsyne, xii fiskar hia fusinvsyne.¹)
Þótt eigi séu tilgreind nöfn nema á fáum jörðum, virðist þó mega sjá, að taldar eru til eftirgjalds sömu jarðir og í skránni frá 1507.
Landskyldir eftir síðasttaldri skrá²): Í þollaugargerdi (Þórlaugargerði) ij c, af steinstoden (Steinsstöðum) c, af ofanleite lest, af nordurgarde (Norðurgarði) cc, I dolum (Dölum) c, I hofn 1/2 lest, af midhusum ij c, af giabacka (Gjábakka) iij c, af villborgarstodum (Vilborgarstöðum) viij c og xx fiskar, af vesturhusum lj c, I gierde i 1/2 c og xl fiskar, af bofastodum (Búastöðum) ii 1/2 c, af oddastodum (Oddsstöðum) iij c, af presthusum (Presthúsum) j c, af kirkjubæ ix c, summa v lestir iij c lx fiskar. Eftir skránni frá 1451: 5 lestir og tæp 9 hndr. fiskar. Þess ber að gæta, að umræddar upphæðir eru eigi hreinar jarðalandskyldir, heldur mun hér og innifalin leiga eftir tómthúsin. Leignanna er ekki sérstaklega getið, en auðsætt er af hinu háa eftirgjaldi eftir jörðina Höfn, að þar er talin leiga eftir tómthúsin í Höfn eða í Hafnarlandi, kringum elzta verzlunarstaðinn, og ef til vill af öðrum tómthússvæðum. Afgjald af Höfn virðist rétt að miða við afgjaldið, er tekið var eftir jörðina samkvæmt jarðabókinni 1586, 130 fiska; þá eru 6 tómthús í Höfn, en tala þeirra er ætíð mjög breytileg. Landskyldir að frádregnum tómthúsleigum 1451 og 1507: 5 lestir rúmar hið fyrra og tæpar 5 lestir hið seinna ár.
Landskyldir, „Landgilde“, af Vestmannaeyjaumboði eru undir lok 16. aldar, sbr. umboðsskilagreinir 1586—1601, 5½ lest og 3 hndr. fiskar, eða um 175 vættir. Vallarstærð jarðanna, eins og hún kemur fram í elztu jarðabókinni 1586—1587,³) helzt ætíð síðan óbreytt. Jarðirnar eru allar taldar með jafnri kýrfóðratölu, kýrgrös, 2 fyrir hverja jörð og hver jörð 1/2 völlur.
Landskyldarupphæðin í heild af eyjunum er lægri eftir að komið er fram á 17. öld, vegna þess að nokkrar jarðir komast nú undir afgjaldalausa ábúð. Umboðsjörðin Kornhóll — áður Höfn — frá því um 1621, og hélzt svo fram á 19. öld, og prestssetursjarðirnar Ofanleiti og Kirkjubær eftir Tyrkjaránið, og loks eftir 1727 sýslumannsjörðin í eyjunum. Yztiklettur var heldur eigi talinn til afgjalda.
1704 eru landskyldirnar, sem nú eru reiknaðar af 40 jörðum, 20 völlum, 80 kýrfóðrum, samtals 5860 fiskar eða 146 og 1/2 vætt. Að meðreiknuðum afgjöldum eftir hinar fríu lénsjarðir, eins og þau voru áður, væru afgjöldin 176 og 1/2 vætt fiskjar.⁴) 1788—1789 nema jarðarafgjöldin 5720 fiskum eða 143 vættum, nú eigi talið með afgjaldið af sýslumannsjörðinni, Oddsstöðum. 1823—1824: 154 vættir.⁵) 1861 nema þau 6040 fiskum, samtals 151 vætt.⁶) Nú er Kornhóll kominn aftur í tölu leigujarða og afgjaldið eftir hann 4 vættir og 20 fiskar.
Afgjaldið af fríjörðunum, sem ekki er fært í umboðsreikningunum, var sem hér segir (reiknað í stórum hundruðum):
Af Ofanleiti | 4x130 fiskar | 15 vættir |
Kirkjubæ | 3x116 — | 10 — rúml. |
Kornhól | 160 — | 4,5 — |
Oddsstöðum | 160 — | 4,5 — |
Samtals | 34 vættir rúml. |
1866—1867 er afgjaldaupphæðin 151 vætt. 1893—1894: 3020 álnir = 1553 kr. 60 au.
Auk landskyldanna af jörðunum guldust landsdrottni og leigur eftir fiskigarða og tómthús. Tómthúsleigurnar guldust með 60 fiskum árlega eftir tómthús hvert, eða 7 lpd. og 8 pd. = 1 og 1/2 vætt. Þetta sama háa gjald er reiknað frá fyrstu tímum, sbr. jarðabókina 1586, og hélzt óbreytt fram á síðasta hluta 19. aldar. Fiskigörðum var skipt í reiti og 5 fiskar goldnir fyrir hvern reit. Hlutföllin milli sjálfra jarðaafgjaldanna og jarðabókarteknanna í heild virðast hafa verið svipuð frá fornu, sbr. 9 lesta töluna fyrrum, og þar með skipstollar og hafnarleiga.
Hér hafa aðeins verið taldar hreinar landskyldir af jörðum, er á síðari hluta 16. aldar voru rúmlega helmingur af hinum eiginlegu jarðabókartekjum af eyjunum. Sjá hér eftirfarandi skrá:
1589—1590 | 1593—1594 | 1600—1601 | |||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Lest | hndr. | fiskar | Lest | hndr. | fiskar | Lest | hndr. | fiskar | |
Landskyldir | 5½ | 3 | 51 | 5½ | 3 | 54 | 5½ | 3½ | 2 |
Tómthúsleiga | 9½ | 13½ | 17 | ||||||
Fiskigarðaleiga | 1 | 36 | 1½ | 1½ | 10 | ||||
Hestaleiga | 1 | 50 | 1 | 35 | 1 | 40 | |||
Skattur | 2½ | 2½ | 30 | 3½ | 30 | ||||
Lausamannstollur | 0 | 0 | 0 | 50 | 50 | ||||
Sakeyrir | 6 | 1½ | 6 | 40 | |||||
Tíund | 2 | 3½ | 2½ | 3 | 36 | 14 | 39 | ||
Auk þessa eru skipshlutir |
14 | 2 | 12 | 11 | 9 | 36 | 9 | 3½ | 56 |
Ýmislegt fleira kemur og hér til greina, svo sem beitartollar o.fl. Að meðaltali náðu vissar og óvissar jarðabókartekjur konungs af Vestmannaeyjum á þessum árum um 10 lestum árlega. Svona háar hafa jarðabókartekjurnar af Vestmannaeyjum eigi verið áður, en gera má ráð fyrir, að þær hafi fyrrum náð um 7-9 lestum fiskjar árl., sbr. það, er áður segir um sjálfar landskyldirnar, er að jafnaði voru nokkru meira en helmingi hærri en aðrar jarðabókartekjur, og fór þetta mjög eftir tölu tómthúsanna. Sögn Stranda-Kols um að 9 lestir fiskjar samfengnar hafi að fornu verið afgjöldin af eyjunum, eiginleg afgjöld, leigur og tollar m.m., virðist því koma allvel heim hér við. Þá er og að telja tolla af erlendum skipum, 16 rd. af hverju skipi og 2 rósenóblur, 8 rd., af duggu. Sum árin, meðan Paul Pedersen veitti verzluninni forstöðu, var og mikið af upptækum fiski.
Jarðarafgjöldin hér voru, eins og að framan segir, öll greidd í harðfiski og líklega stundum í lýsi. Hver gildur afgjaldsfiskur skyldi vega 2 pund, vættin 40 fiska. Þetta mat á harðfiskinum hélzt óbreytt hér, meðan afgjaldsgreiðslan var miðuð við harðfisk, og er sama mat og ákveðið er í gömlum norskum lögum og
síðar um góðan og gildan harðfisk frá Íslandi. Í kaupsetningunni um verzlun enskra í Vestmannaeyjum frá öndverðri 15. öld er talað um 4 marka fisk og 5 marka. Greiðsla á jarðarafgjöldum með blautfiski hefir og oft átt sér stað, einkum hjá hinum fátækari, og þessa sést oft getið í umboðsreikningum frá síðasta hluta 18. aldar. Þegar greitt var með blautfiski jafngiltu 4 vættir af blautfiski einni vætt af harðfiski. Var í því efni fylgt gömlu mati, er lengi gilti í eyjunum um slíkar greiðslur. Um og eftir miðja 19. öld greiða margir eyjabændur ennþá gjöld sín með harðfiski, en sumir þó með peningum eftir verðlagsskrárverði harðfiskjar. Hér er farið eftir ákvæðum seinni byggingarbréfa, eftir 1845.⁷) Fer tala þeirra, er greiða með peningum, smám saman vaxandi undir miðja öldina. Um 1860 greiða 3/4 hlutar eyjabænda með peningum afgjöld sín. Greiðsla landsskuldar með peningum sést og að hefir átt sér stað þegar á síðari hluta 18. aldar, sbr. umboðsreikninga og úrskurð stjórnarvalda 29. júlí 1779. Þeir, sem eigi gátu greitt í peningum eftir harðfiskstaxta, máttu greiða afgjöld sín í öðrum landaurum, t.d. fiðri, lýsi og saltfiski, sbr. bréf dómsmálaráðuneytisins til stiftamtmanns 3. marz 1863.⁸)
Það tíðkaðist um miðja síðastliðna öld, að gjaldafiskurinn eða landsskuldir af hinu konunglega jarðagóssi í Vestmannaeyjum, sem eftir byggingarbréfum skyldu greiðast in natura eða miðuð þar við, voru á opinberu uppboði seld hæstbjóðanda. Voru það kaupmenn einir, er buðu. Á afgjaldauppboðunum var ekki einasta leitað tilboða í sama árs afgjöld, heldur og fyrir seinni árin, í senn allt að 5 árum.
Árin 1860—1870 voru afgjöld af eyjajörðum og tómthúsum miðuð við verðlagsskrárverð á harðfiski, talið í heilum rd., sem hér segir, og athugast, að fram til 1863 er af nokkrum jörðum ennþá goldið in natura samkvæmt byggingarbréfum, en af öllum þorra með peningum, þ.e. innskrift í verzlanir:
1860—61: 16 skpd. 10 pd. in natura, 127 vættir; greitt í peningum samkv. verðlagsskrá 1860—61: 1114 rd. Þar með talið festugjald: 167 rd.
1861—62: 13 skpd. 81 lpd. 2 pd. in natura, 138 v.; í peningum, festugj. meðt., samkv. verðlagsskrá s.á.: 1087 rd.
1862—63: 12 skpd. 8 lpd. 2 pd. in natura, 140 v. rúmar; í peningum, festugjald meðtalið, samkv. verðlagsskrá s.á.: 1255 rd.
1863—64: Hér eftir eingöngu greitt í peningum, 189 v., samkv. verðlagsskrá s.á.: 1308 rd.
1864—65: | 189 vættir, | samkv. verðlagsskrá | sama ár.: | 1105 rd. |
1865—66: | 189 vættir rúmar, | - | 1055 — | |
1866—67: | 188 - | - | - | 1150 — |
1867—68: | 188 - | - | - | 1465 — |
1868—69: | 184 - | - | - | 1278 — |
1869—70: | 184 - | - | - | 1503 — |
Afgjald er hér eigi talið af Yztakletti, umboðsmanns- eða sýslumannsjörð, 28,9 hndr., Ofanleiti 32,3 hndr. og þrem jörðum í Kirkjubæ, 18,47 hndr. Umboðslaun eru 1/6 af afgjöldum hvers árs. Af umboðinu greiðist alþingisskatturinn.
Af 5 jörðum, Gjábakkabæjunum báðum, Oddsstaðajörðum og Kornhól, nær afgjaldið á þessu tímabili: 4 v. 20 f.: 36 rd. 53 sk. Af Vilborgarstaðajörðum, Ofanleitisjörðum og Álfseyjarjörðum: 30 v. 30 f.: 30 rd. 53 sk. Af Kirkjubæjarjörðum: 3 v. 16 f.: 27 rd. Hæsta afgjald er af Miðhúsum, 1/2 kýrvelli: 48 rd. 82 sk., og er þar tvíbýii þessi ár, 1/4 kýrvallar hvor hálflenda, jafnhá til afgjalda og hvor Norðurgarðsjarða.
Samkvæmt álitsskjali Landsnefndarinnar (þingnefndarinnar) í skattamálum 1875, er afgjaldið af hverju jarðarhundraði í Vestmannaeyjum talið kr. 7,48, sem reiknað var eftir harðfisksverði, og var það lægri upphæð heldur en náðst hefði, ef fylgt var 5 ára meðaltali af afgjöldum síðustu ára, sem náði 8 kr. 68 au. á jarðarhundrað. Samkvæmt matinu frá 1851 var hvert jarðarhundrað í eyjajörðum metið á 45 rd. að meðaltali. Ef greiðsla landskyldanna var hins vegar miðuð við meðalverð allra meðalverða eftir verðlagsskrá í stað verðsins á harðfiski, varð jarðarafgjaldið kr. 6,11 miðað við jarðarhundrað. Mælt á þennan mælikvarða voru afgjöld annars staðar miklu lægri, sums staðar meira en helmingi lægri. Væru tómthúsleigurnar teknar með, varð útkoman ennþá verri.
Með hinum nýju peningalögum frá 23. maí 1873 var lögleidd ný reikningseining, þannig, að öllum tollum og gjöldum skyldi eftir 1. jan. 1875 jafnað niður eða breytt í krónupeninga. Voru með lögum ákveðnar 2 kr. fyrir hvern ríkisdal og fyrir 48 skildinga 1 kr.⁹)
Tómthúsleigan, 60 fiska ársleiga eftir hvert tómthús, hefir verið svo frá fornu; hélzt svo fram á síðasta hluta 19. aldar óbreytt. Sjá þó um tómthús með timburþaki hér síðar. Tómthúsatalan var mjög breytileg. Aðstreymi hefir verið töluvert af fólki til eyjanna, þegar árferði var gott. Hinum ströngu búðsetuskilyrðum hefir eigi tekizt að beita hér til fulls vegna einræðis kaupmanna og umboðsmanna, sjá t.d. kærumálin frá 1583. Samkvæmt Vilborgarstaðadómi 5. júní 1528 var búðsetuskilyrðið bundið við hálft fjórða hundraða eign eftir lögum.¹⁰) Búðsetuskilyrði Píningsdóms um 3½ hndr. kvikfjáreign til að fæðast við hefir eigi komið hér til greina af eðlilegum ástæðum. Eftir Tyrkjaránið mun lítið hafa verið hirt um búðsetuskilyrði að lögum. Kvarta leiðandi menn eyjanna þá mjög yfir því, að eyjarnar séu nú skálkum skjól, er þangað flytjist alls konar landshornalýður.¹¹)
Á 16. og 17. öld hafa tómthúsin náð hæst að vera um 36, og næst svo há tala tómthúsa ekki hér fyrr en eftir 1900.
Um greiðslu afgjalda eftir tómthúsin gildir hið sama og fyrir jarðirnar. Lækkun á hinu háa afgjaldi eftir gömlu tómthúsin, sem var líkast því, er stundum sést greitt eftir smájörð eða jarðarpart, l½ v.,¹²) komst fyrst á frá fardögum 1888, og var þá talið 16 álnir, er var allhátt, en þó nær helmingi lægra en til forna. Sjá ráðh.br. 14. jan. 1888 og 25. maí 1880 um breytingu afgjaldsins í meðalálnir.
Tómthúsin voru eign landeiganda (konungs). Stjórnin setti þau skilyrði fyrir byggingu nýrra tómthúsa, sbr. rentuk.br. 7. jan. 1837, að þau væru byggð af timbri eða að minnsta kosti með timburþaki. En þeir, er húsin reistu, máttu kosta þau sjálfir, og losnaði konungssjóður þannig við þennan kostnað. En af þessum nýju húsum var afgjaldið fært niður um 28 fiska.
Skömmu áður hafði stjórnin ákveðið, sbr. kans.br. 22. nóv., að stofnun nýrra tómthúsa í eyjunum skyldi lögð undir amtmannsúrskurð, að fengnum tillögum sýslumanns. Um miðja öldina höfðu sex tómthúsmenn komið sér upp nýjum húsum og fengið umrædda afgjaldalækkun, sbr. bréf dómsmálaráðh. 22. des. 1855.¹³) Sjá og bréf dómsmálaráðun. 3. des. 1863 og 5. des. 1872.
Undir lok 19. aldar var búið að jafna flest gömlu tómthúsin við jörðu, höfðu þau verið seld smám saman til niðurrifs. Söluandvirði, sem kunnugt er um, var frá 6 upp í 34 rd. Í húsinu Gamli Kastali var svo mikið grjót í veggjum og görðum, að það seldist meira en viðirnir.
Á seinni tímum var skilyrðunum fyrir þurrabúðarleyfum stranglega framfylgt, og engum veitt leyfi nema hann gæti keypt tómthús og væri hér sveitlægur og gæti eigi lengur verið við bú. Samkvæmt lögum frá 12. jan. 1888 skyldi 400 ferfaðma lóð fylgja hverju tómthúsi. Hér hlaut útmæling að fara fram úr sameiginlegu beitarlandi jarða, en þessu stóð sveitarstjórnin fast á móti, svo að engin leyfi voru veitt um langan tíma, en þeim fjölgaði stöðugt, er leystir voru undan vistarskyldu og fengu lausamennskuleyfi. Horfði til vandræða í þessum efnum með fólksfjölguninni, er hér var, og ungir menn gátu eigi stofnað sjálfstæð heimili. Var á þessum tímum töluvert um Ameríkuferðir héðan. Með amtmannsleyfi 12. maí 1900 var loks veitt leyfi fyrir 4 tómthúsum með útmældum lóðum. Nýja tímanum var með þessu loks rudd brautin.
Um greiðslu jarðarafgjalda hafa menn reynt að standa í skilum eftir beztu getu. Greiðslur allar og framlög voru hér mjög samtvinnuð verzlunarviðskiptunum. Bændur og búalið réri á útvegi landsdrottins, er hafði og af þeim sökum hag af því, að bændur héldust við jarðir sínar. Iðulega sést, að liðið hefir verið um hluta af afgjaldinu, er árferði var slæmt, í von um að borgaðist upp, er batnaði. Yfirleitt hefir reyndin orðið sú, eins og umboðsreikningar sýna, að mjög lítið hefir tapazt af landskyldum vegna vanskila. Vanskil, er þau bar að, munu hafa átt sér stað hjá mörgum í senn, þegar afli brást lengi, og því óhægara að beita fyllstu lagaákvæðum, enda hætta á, að jarðir leigðust ekki. Fjárnám hjá tómthúsmönnum og mörgum bændum árangurslaus vegna fátæktar aðilja. Um uppgjafir á landskyldum hefir eigi verið að ræða, fyrr en með öllu í nauðirnar rak, er fiskileysisár komu á löngu tímabili hvert eftir annað. Þannig voru bændum gefnar eftir 4 ára landskyldir eftir fiskileysisárin undir lok 17. aldar, sbr. kgbr. 16. maí 1691 og tilsk. 11. júní 1692.¹⁴) Var þetta alveg nýlunda, að eyjabændur gyldu ekki gjöld sín, og eigi komið fyrir síðan eftir Tyrkjaránið, en þá voru um nokkur ár engin afgjöld goldin. Var gert ráð fyrir, að Müller amtmaður færi til eyjanna til að rannsaka ástandið þar, en til þess mun þó eigi hafa komið. Nær hundrað árum seinna — á hörmungarárunum á síðasta hluta 18. aldar sökum algers aflaleysis — kom og til eftirgjafa, og þá kom það fyrir, sem eigi er kunnugt um áður, að nokkrir bændur yfirgáfu jarðir sínar og fóru til lands. Samt byggðust jarðir þessar öðrum þegar. Um aldamótin 1800 voru 2—3 jarðir, er eigi leigðust í nokkur ár, og mátti telja slíkt einsdæmi hér. Eftir 1860 voru hér fiskileysisár. 24 leiguliðum var birt fjárnám 1865.¹⁵) Leituðu eyjamenn til Alþingis með bænarskrá 1865 um eftirgjöf á landskyldum bænda þeirra, er verst voru staddir og hætta var á að myndu falla sveitinni til byrði. Nú var búið að taka frá sveitinni spítala- og fuglafiskinn, en eigi lögfestir nýir gjaldstofnar. Varð það úr, að stjórnin samþykkti uppgjöf á landskyldum fyrir árin 1865—1867, er nam 500 rd., sjá bréf dómsmálaráðun. 28. okt. 1868.¹⁶) Í nýnefndu bréfi til reikningsstjórnardeildar konungsríkisins segir, að það verði að vera á valdi umboðsmanns að ákveða, eftir öllum atvikum, hvenær fjárnám skuli gert fyrir ógreiddum jarðarafgjöldum, einasta að hið lögboðna 2 ára tímabil sé eigi umliðið, og sömuleiðis að umboðsmaður ráði af, hversu hag landsdrottins sé bezt borgið í hverju einstöku tilfelli. En mest hætta var á, ef að fjárnámi væri beitt almennt, að mikill hluti leiguliða yrði að fara burt af jörðum sínum, ef mörg fiskileysisár kæmu í senn. Þegar gert var fjárnám fyrir ógreiddum jarðarafgjöldum var það venjulega gert í heyi á töðuvelli á sumrin. Í skoðunargerð yfir konungsjarðir hér 1861¹⁷) er vikið að efnahag eyjabænda og segir þar, að 29 þeirra eigi meira en fyrir skuldum, 5 fátækar ekkjur og 1 gjaldþrota.
Nokkru fyrir miðja 19. öld var hér tekinn upp sá siður, er legið hafði niðri um tíma, en mun hins vegar hafa tíðkazt hér á einokunartímunum,¹⁸) að bjóða jarðir upp, er þær losnuðu úr ábúð, og leigja þær hæstbjóðanda. Var boðið miðað við greiðslu hæsta festugjalds eða tilgjafar, er fékkst á uppboði um byggingu jarðarinnar. Áður hafði að vísu tíðkazt uppboð á manntalsþingi um leigu á jörðum, en aðeins þegar jarðir fengust eigi leigðar með venjulegri landsskuld og landsdrottinn varð að sætta sig við að leigja jarðirnar fyrir lægri landsskuld um tíma, eins og átti sér stað á hinum erfiðu árum undir lok 18. aldar. Nú, er fólki var farið að fjölga í eyjunum fyrir miðja 19. öldina og meira kapp um jarðirnar, var hægara að koma að aukaskatti þeim, er fólst í festunum. Fyrst, er farið var af stað með festurnar eða tilgjafir í jarðir, voru þær lágar, sbr. umboðsreikninga Vestmannaeyja 1846, en hækkuðu þegar á næstu árum, eftir að farið var að nota tvennar aðferðir, sem sé að bjóða viðsemjanda jörðina fyrir hæsta festugjald og síðan að bjóða jörðina upp, ef festutilboðið þótti eigi nógu hátt, sbr. rentuk.br. 16. maí 1846.¹⁹) Festur tíðkuðust og annars staðar hér á landi um þessar mundir, og þótti hart undir að búa. „Héldu Skagfirðingar fund 5. maí 1849 við Karlsá utan Heiði í Gönguskörðum, fyrir því, að menn þóttust eigi mega undir rísa álögum Gríms amtmanns Jónssonar, einkum á klausturjarðabyggingum, því að jafnskjótt og hver jörð losnaði, var hún uppboðin á söluþingi til landsskuldar og festu, og var þá oft boðið í meðaljarðir yfir 200 dali og stundum af gambran einni og litlum búmönnum,“ segir Gísli Konráðsson í æfisögu sinni.²⁰)
Með áðurnefndu rentuk.br. frá 16. maí 1846 var svo ákveðið, að fyrst um sinn skyldi festugjaldið vera 10 rd. fyrir heila jörð, 5 rd. fyrir hálfa og 3 rd. 32 sk. fyrir 1/3 úr jörð. Var þessu framfylgt við þær jarðir, er voru byggðar 1846.²¹) Við þetta lága festugjald, sbr. fyrrn. rentuk.br., stóð eigi lengi, og gekk sýslumaður, sem þá var Johan Nikolai Abel kammerráð, rösklega fram í því, að leita sem hæstra tilboða um festurnar, með því að bjóða upp jarðirnar, svo að á tímabilinu frá 1847—1850, meðan uppboðin voru haldin, voru greiddir rúmir 160 rd. á ári að meðaltali eingöngu í tilgjafir í jarðir. Hæsta festu á jörð greiddi þá Magnús stúdent Austmann, 130 rd. fyrir Nýjabæinn.
Festuuppboðin hættu 1850 samkvæmt fyrirlagi í ráðh.br. 23. maí s.á.²²) En festu-eða tilgjafirnar héldu samt áfram, enda var sýslumanni í niðurlagi téðs ráðh.br. gefið undir fótinn með að sjá konungssjóði sem bezt borgið að þessu leyti. Eftir að uppboðunum var hætt 1850, auglýsti sýslumaður þær jarðir, er losnuðu úr ábúð. Mátti sá eða þeir, sem föluðust eftir ábúð jarðar hjá sýslumanni (umboðsmanni) sætta sig við að greiða það festugjald fyrir jörðina, er sýslumaður setti upp. Frá 1850—1861 voru í Vestmannaeyjum greiddir rúmir 1300 rd. í festur. Komu á 10 ára tímabili rúmir 43 rd. á jörð eða jarðarpart að jafnaði, eða 1300 rd. á 31 jarðaskipti. Dæmi voru til þess, að festugjaldið náði langt upp í matsverð jarðarinnar. Daníel Magnússon bóndi í Þorlaugargerði greiddi 106 rd. fyrir hálflendu annarar Þorlaugargerðisjarðarinnar, 1/4 vallar. Öll jörðin var, sbr. matið frá 1851, metin á 290 rd. Sami maður er fám árum seinna, 1863, talinn gjaldþrota.²³) Með hinu háa festugjaldi rýrnaði gjaldgeta bænda að sama skapi. Mun þetta hafa átt þátt í því, hversu mjög ber á vanskilum um greiðslu jarðarafgjalda eftir 1860. Um þessar mundir var og fiskafli rýr.
Með greiðslu festugjaldanna var í bili fundin upp leið til þess um skeið að auka drjúgum tekjurnar af Vestmannaeyjajörðunum. Víðast annars staðar var, er hér var komið sögu, búið að upphefja festuuppboðin á jörðum og með þeim festuheimturnar að mestu leyti, og aðeins teknar upp stöku sinnum við byggingu kostajarða.
Vestmannaeyingar snéru sér til Alþingis með þessi festumál sín 1859. Var þá þingmaður eyjanna sr. Brynj. Jónsson sóknarprestur að Ofanleiti. Hafði hann meðferðis bænarskrá til þingsins um að það „yfirvegaði og bæri fram fyrir konung“ málefni eyjabúa, er gengu í þá átt, að bættir yrðu leigumálar jarða, þannig að festa til hinna konunglegu jarða væri framvegis eigi krafin hærri en með 10—20 rd. af hverri jörð, eftir gæðum jarðarinnar. Töldu eyjamenn, að því fremur bæri að sinna þessari sjálfsögðu kröfu þeirra, þar sem beiðni þeirra fám árum áður um kaup á ábúðarjörðum þeirra, eða erfðabyggingu, hafði enga áheyrn hlotið hjá stjórninni. Í bænarskránni var lögð áherzla á það, að eigi væri festu krafizt á ný af seinni manni ekkju, er hafði ábúð á jörð og giftist aftur, eins og tíðkast hafði, og talið, að þetta hamlaði giftingu ekknanna.
Alþingi tók vel í þetta mál, enda viðurkennt, að aðaltilgangur þess væri að Vestmannaeyingar hefðu sama rétt og byggju við sömu kjör að þessu leyti og önnur héruð í suðuramtinu. Því var eiginlega talið sjálfsagt, að festugjaldið félli niður, sem væri útlendur vani, er slæðzt hefði inn, einkum við byggingu konungsjarða. Gerði nú þingið það að tillögu sinni með miklum meirihluta atkvæða, að festugjald af konungsjörðum í Vestmannaeyjum yrði með öllu aftekið, og vísaði málinu jafnframt til tilhlutunar og aðgerða háyfirvaldanna, þ.e. stifts- og suðuramtsins.²⁴)
Nú liðu svo enn tvö ár, að ekkert svar kom frá stiftsyfirvöldunum, og voru festugjöld heimtuð eins og áður. Þóttust eyjamenn verða hart úti, þar sem þeir, þrátt fyrir tillögur Alþingis, urðu að halda áfram að greiða festugjaldið, er hætt var fyrir allmörgum árum að heimta við byggingu konungsjarða annars staðar, að minnsta kosti í suður- og vesturamtinu. Mátti og segja, að hið síðara fyrirkomulag, er tekið var upp eftir 1850, væri ennþá viðsjálla heldur en uppboðin. Nú var býli aðeins látið falt þeim manni, er smám saman bauð mesta festupeninga fram, og voru gerð boð og yfirboð af fleirum í senn um festutökuna, án þess að einn vissi af öðrum. Eigi var látið þar við staðar numið, að gjaldið næði til jarðanna og hinna konunglegu tómthúsa í einu, heldur var einnig heimtuð festa, þegar jarðarbóndi og tómthúsmaður höfðu býlaskipti, urðu þá báðir aðilar að greiða festugjald af nýju.
Málið um afnám festugjaldsins var borið fram af nýju á Alþingi 1861 af þingmanni eyjanna, Árna Einarssyni á Vilborgarstöðum. Fékk það eins og áður ágætar undirtektir hjá þingmönnum. Undir umræðum upplýstist það, að málið væri nú komið á góðan rekspöl hjá stjórninni og myndi nú eigi daga þar uppi, heldur mætti bráðlega vænta úrskurðar um það. Þótti því þinginu rétt að taka málið aftur og bíða ályktunar stjórnarinnar.²⁵) Loks kom svar stjórnarinnar, sbr. bréf dómsmálaráðuneytisins til stiftamtmanns 6. sept. 1862, og hljóðaði á þá leið, að við byggingu jarða og tómthúsa í Vestmannaeyjum þyrfti að sjálfsögðu ekki að krefjast festugjalds. Var að öðru leyti vísað til hins áðurnefnda bréfs innanríkisráðuneytisins 23. maí 1850.²⁶) Var málið að miklu leyti lagt í hendur umboðsmanns; er notfærði sér og heimildina í áðurnefndu stjórnarbréfi frá 1850, sbr. og bréfið frá 6. sept. 1862, og hvarf með öllu frá festuheimtum, sem þó mun ekki hafa verið ætlazt til, studdist hann þar við álit Alþingis; var og risin upp sterk andúðaralda gegn þessari ranglátu kvöð. Festugjald til konungsjarða og tómthúsa var eigi heimt eftir 1863.²⁷)
Skattur, skattfiskur. Til forna munu skattgreiðendur hér hafa verið taldir til Rangárvallasýslu.²⁸) Sýslumenn þeirrar sýslu munu hafa innheimt skattinn og þingfararkaupið. Úr höndum sýslumanna er innheimtan samt komin löngu áður en eyjarnar fengu sérstakan sýslumann og í hendur konungsfógeta eða umboðsmanns. Af reikningum frá lokum 16. aldar sést, að skattgreiðendur hér greiða konungi árlegt gjald, 50 fiska. Gæti í þessu verið falið 10 áln., 20 fiskar, eiginlegur skattur, og þingfararkaup 10 áln. og sennilega gjaftollur, er hefir verið reiknaður hér með hæsta móti eða 5 áln. á 1—9 hndr. Um þessa aðgreiningu eða um 8 eða 16 álna skatt er ekki getið í reikningunum, og er því líklegt, að umgetið skattgjald, 50 fiskar, megi heimfæra til sérákvarðana konungs, að því er Vestmannaeyjar snertir, eftir að þær urðu konungseign. Á seinni tímum var skattgjaldið hér 40 fiskar, 80 pund.
Í góðu árferði var tala skattbænda hér 10—12 og mun sjaldan hafa komizt hærra á tímabilinu frá síðasta hluta 16. aldar og fram um miðja 18. öld. Árið 1761 er tala skattbænda 9, en kemst á harðærisárunum undir lok aldarinnar niður í 2—3. Eins og áður segir munu skattbændur hér fyrrum hafa verið taldir til Rangárvallasýslu. Má geta þess, að eftir skattbændatali frá 1311 teljast skattbændur sýslunnar 268. 1753 eru hlutföllin þau, að í Rangárvallasýslu eru 239 skattbændur, en hér 10. Árið 1840 eru skattbændur hér helmingi færri en 1753, en í Rangárvallasýslu hefir tala þeirra aukizt um 40%. Skattbændatalan, er var mjög lág hér undir lok 18. aldar, fer hækkandi eftir aldamótin. 1816 eru þeir 5. Á árunum 1831—1834, er voru góð fiskiár, komst skattbændatalan hér óvenjulega hátt, töldust þessi árin 17—20 skattbændur. Á þessum tímum mun hart hafa verið gengið að um skatta og tíundir. Framtal lausafjárhundraða náði þá viðlíka hárri tölu og fólkið var margt. Árið 1851 er fólkstalan orðin töluvert hærri, en tala framtaldra lausafjárhundraða fer lækkandi. Á árunum milli 1860—1872 eru skattgreiðendur ekki nema 2—3 hæst og sum árin enginn skattgreiðandi, og má af þessu sjá, að ekki hefir afkoma manna hér verið góð á þessum tímum og jafnvel með því lakasta. Gamli skatturinn svokallaði var afnuminn með lögum 14. des. 1877, en síðast var hann greiddur hér í Vestmannaeyjum 1872.²⁹)
Manntalsþingagjöld Vestmannaeyja: Skattur, lögjafnaðargjald, lögmannstollur o.fl.:
1831—1834 námu gjöldin hæst 2352 pd. fiskjar, blautf., eða rd. 13½
1859:.. rd. 11
1875:.. kr. 58,00
1880:.. — 206,00
1890:.. — 121,00
Gjaldskyldar eignartekjur námu á mann kr. 1,42 miðað við fólksfjölda, og var þriðja lægsta tala á landinu. En fyrir árið 1879 höfðu eignartekjurnar, er gjaldskyldar voru, numið kr. 0,63 á mann miðað við fólksfjölda árið eftir, og var lægst á landinu.
1910: kr. 192,00. Skiptist þannig: Af eignum kr. 70,00, gjaldendur 20; af atvinnu kr. 122,00, gjaldendur 11. Skattur var eigi greiddur af landbúnaði né sjávarútvegi.
1920: kr. 13.111. Af eignum greiða 43 gjaldendur kr. 1.569,00 og af atvinnutekjum 27 gj. kr. 11.542. Atvinnutekjur þá áætlaðar kr. 466.750. Breyting er mikil á sköttunum, enda gengin í gildi fyrir nokkru breyting á lögunum frá 14. des. 1877 um tekjuskatt, lög nr. 54 frá 26. okt. 1917. — Hér er eigi talinn fasteignaskattur, sbr. lög nr. 22 frá 3. nóv. 1915, né landsskuldir og lóðargjöld.
1933: kr. 23.380,35, tekju- og eignarskattur. Gjaldendur að skattinum eru 1786. Þinggjöldin alls kr. 59.113,19.
Lausamannstollur. Þetta var gjald fyrir lausamennskuleyfi og taldist meðal konungsteknanna hér fyrrum. Voru goldnir 50 fiskar fyrir hvert leyfi. Umboðsmennirnir munu fyrrum hafa veitt leyfin og mun eigi hafa verið krafizt fyllstu lagaskilyrða. Til forna mátti eigi veita slík leyfi öðrum en þeim, er áttu 10 hndr. eign á landsvísu, en breyttist síðar. Sjá má af skrifum valdsmanna eyjanna og biskups, að oft hefir verið kvartað yfir því, að menn fengu að setjast hér að, sem ekki fullnægðu lagaskilyrðum fyrir búðsetu. Sjá og dóma.³⁰)
Sakeyrir, sektarfiskur. Sakeyristekjurnar, er tilféllu konungssjóði, jarðabókarsjóði, og töldust meðal hinna óvissu tekna, námu samkvæmt umboðsreikningum frá 1—6 hndr. árl. Fyrir einfalt frillulífisbrot var greitt hér 30 fiskar. Einfalt hórdómsbrot, í fyrsta sinni framið, 2½ hndr., 30 f., framið öðru sinni 3½ hndr. Kona, er fundin var sek um hórdómsbrot öðru sinni, greiddi sektarféð með 14 sauðkindum, sbr. umboðsr. 1588.³¹)
Auk hinna almennu sektarbrota var og sekt gerð á hendur eyjamönnum fyrir ýms brot, fyrir mótþróa og óhlýðni við að inna af hendi kvaðir eða dagsverk; voru greiddir 10—20 fiskar í sekt fyrir slík brot. Á brotum gegn verzlunarbönnum konungs var og tekið mjög hart. Átta eyjamenn voru t.d. 1599 sektaðir hver um ½—1 hndr. fiska fyrir óleyfilega verzlun við skipsmenn á kaupskipum konungsverzlunarinnar. Háar fjársektir lágu og við því að draga fé undan lögboðinni skattgreiðslu til konungs eða þrefalt skattgjald.
Skipshlutir af konungs- eða innstæðubátunum. Þeir munu hafa náð árl. um 400—500 rd., reiknað með 6 rd. fyrir skpd.³²)
Hafnarleigur, skipstollar og duggaratollar: 16 dala tollur og 4 dala, duggaratollur. Þessir tollar náðu stundum allverulegum upphæðum, sbr. umboðsreikninga.
Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
1) Fornbrs. XII, 41.
2) Fornbrs. VIII, 180.
3) Niels Buscks og Mogens Nielsens Regenschaft auf Wespenoe, som er beregnidt fraa 5. Juli 1586 til Sancti Johannis Baptistedag Anno 1587, som er eet gandsche Aars Regenschaft.
4) Sbr. og umboðsreikninga 1714—1729 og 1761, Þjóðskjs.
5) Umboðsreikningar V.E., Þjóðskjs.
6) Specification over det Statskassen tilhörende Jordegods paa Westmannoe 1861, sýsluskjöl V.E., Þjóðskjs.
7) Sjá Specification over Jordegodset paa Vestmanöerne 1861, sýsluskjöl V.E., Þjóðskjs.
8) Isl. Kopieb. 1863, nr. 163; Tíð. um stjórnarmálefni Ísl. 1863; Lovs. XVIII, 511.
9) Lagasafn 1872—1886, III, bls. 38—45; Stjrt. 1874, B, 33, landsh.br.
10) Ísl. fornbrs. IX, 477—478.
11) Bréfabók Gísla biskups. Sjá og Hvítingadóm Kláusar Eyjólfssonar 16. apríl 1635, Dómabækur, Lbs. 68, 4to, sbr. Hvítingadóm 13. júní 1642, staðfestan á Alþingi s.á., Alþb. Ísl. VI, I. Bréf Kláusar til Gísla biskups 9. nóv. 1634.
12) 1 vætt = 8 fjórðungar, hver á 10 skálarpund.
13) Rentek. Copie- og Canc. Brevb.; Lovs. X, 1, XI, XVI, 382.
14) Norske Tegn. XIV, 388; M. Ketilsson III, 251; Lovs. I.
15) Umboðsreikn. V.E.
16) Copieb. 1868, nr. 865; Lovs. XX.
17) Sýsluskjöl V.E., Þjóðskjs.
18) Sjá A.M. Embedsskrivelser, bls. 165.
19) Kopieb. 16, nr. 18; Lovs. XII, 425—426.
20) Sögurit VIII, Rvík 1911—1914, bls. 229.
21) Þetta ár fékk Niels Bryde kaupmaður byggingu fyrir Kornhól, eftir að dánarbú Jens Benediktsens sleppti ábúðinni, og greiddi Bryde 10 rd. í festu.
22) Kopieb. 1850, nr. 342; Lovs. XIV, 464.
23) Sýsluskjöl Vestmannaeyja, Þjóðskjs.
24) Tíð. frá Alþ. 1859, 72, 228—232, 536—661, 777—790, 1921—1922.
25) Tíð. frá Alþ. 1861, 161, 263—268.
26) Kopieb. 1862, nr. 619; Tíð. um stjórnarmálefni Ísl. I, 601; Lovs. XVIII, 420.
27) Umboðsreikningar Vestmannaeyja 1862—1870, Þjóðskjs.
28) Um skattinn sjá Jónsbók, Þegnsklb.
29) B.M. Ólsen: Um skattbændatal 1311 m.m., Safn til sögu Ísl. IV, 295—384; Umboðsreikningar V.E. frá 16. og 17. öld; Manntalsþingabækur V.E., Þjóðskjs.
30) Bessastaðapóstur 1685; reglug. 3. júní 1746; tilsk. 19. febr. 1783.
31) Samkvæmt Alþingissamþykkt 2. júlí 1564, staðf. 13. apríl 1565, Stóri-dómur, varðaði einfalt frillulífisbrot 36 fiskum, 18 álnum. Einfaldur hórdómur fyrsta sinni hvoru 6 mörkum. Þung refsing var við legorðsbrotum með skyldum og mægðum.
32) Sjá A.M. Embedsskrivelser, 165.