Saga Vestmannaeyja II./ I. Vestmannaeyjar verða konungseign
Í eigu einstakra manna eða ætta hafa eyjarnar verið, minnsta kosti að miklum hluta, fram undir miðbik 12. aldar. Magnús Einarsson Skálholtsbiskup 1134—1148 keypti nær allar Vestmannaeyjar undir stólinn smám saman, að því er ætlað er, og hugði biskup að setja þar upp klaustur.¹) Líklegt er og, að Skálholtskirkja hafi með frómum gjöfum eignazt jarðir í Vestmannaeyjum. Sagnir hafa verið um jarðagjafir í Vestmannaeyjum til Skálholtsstóls, án þess tilgreint sé, hvaða jarðir hafi verið gefnar. Eru jarðagjafirnar tengdar við konu, er sagt er að hafi átt mestallar jarðeignir í eyjunum, og á að hafa heitið Halldóra. Ekkert verður um það sagt, hvað hæft er í þessu. Getur verið, að hér sé málum blandað um Halldóru Ormsdóttur Herjólfssonar og Halldórur þær tvær, húsfreyjur í Vestmannaeyjum, er getur í jarteiknasögu Þorláks biskups helga,²) og munu hafa verið heldri konur, líklega skyldar. Um aðra þeirra, er lengi hafði verið sjúk, og flutt hafði verið til Skálholts, þar sem hún hlaut lækningu fyrir heit á hinn helga Þorlák, en helgi hans var komin upp um þessar mundir. Skömmu fyrir 1200, segir, að hún hafi verið gift ættstórum manni, Torfa presti. Höfðu mörg heit verið gerð fyrir konu þessari áður, en eigi komið að gagni.
Magnús biskup Einarsson lézt áður en klausturstofnunin komst á í Vestmannaeyjum; fórst í brunanum mikla í Hítardal 30. sept. 1148 ásamt 72 mönnum. Eftirmaður Magnúsar biskups, Klængur biskup Þorsteinsson, 1152—1176, sýnist eigi hafa haft neinn áhuga fyrir klausturstofnuninni, né heldur seinni biskupar. Klængur biskup hafði jafnan mikinn tilkostnað á staðnum. Hann lét reisa nýja dómkirkju í Skálholti. Afgjöldin frá Vestmannaeyjum hafa hér sem oftar komið í góðar þarfir, en klausturmálið dagaði uppi.
Mikinn skaða má það telja andlegu og menningarlegu lífi í eyjum yfirleitt, að klaustrið komst þar ekki á stofn, svo sem fyrirhugað hafði verið.
Eignarumráðum Skálholtskirkju yfir Vestmannaeyjum lauk með því, að þær urðu konungseign. Óljóst er sumt um þessi efni og málum blandað. Víst er, að eyjarnar hafa verið opinber eign í um það bil 8 aldir samfleytt.
Hvenær eyjarnar urðu konungseign eða á hvern hátt, verður eigi sagt um með vissu. Þó virðist eigi geta skakkað miklu, að því er tímaákvörðunina áhrærir, er flestir telja að þetta hafi gerzt. Hin ríkjandi skoðun í þessu efni er sú, að konungur hafi eignazt Vestmannaeyjar á öndverðri 15. öld³) með makaskiptum eða kaupum, eða með þeim hætti jafnvel, að eignayfirfærslan á jarðagóssi eyjanna til konungs hafi átt sér stað um leið og konungi voru afhentar eignir Árna Skálholtsbiskups Ólafssonar, vegna skulda, er Árni biskup, er gegnt hafði æðstu embættum, verið umboðsmaður Hólakirkju, vísitator og hirðstjóri yfir öllu Íslandi, var kominn í við konung. En Árni biskup hafði eignazt fjölda jarða, bæði með kaupum og á annan hátt. Eignaskiptin, ef þessu hefir verið þannig varið, hefðu þá helzt átt að fara fram um það leyti eða skömmu eftir að Árni biskup fór alfarinn héðan af landi burt til Noregs sumarið 1419. Lét biskup í haf úr Vestmannaeyjum og lenti í Björgvin.⁴) Árni biskup kemur við bréf í Noregi 1420, og á því sama ári lézt hann þar.⁵)
Það hefir verið skoðun sumra, að Vestmannaeyjar hafi komizt undir eignarumráð konungs í tíð einhvers hinna norsku eða dönsku biskupa, er á Skálholtsstóli sátu frá því skömmu fyrir miðja 14. öld eða frá 1339, er Jón biskup Halldórsson í Skálholti lézt, og fram á öndverða 15. öld, er Árni biskup Ólafsson tók við biskupsdæminu.⁶) Vígslubréf Árna er dagsett 10. okt. 1413.⁷) Hér er yfirfærslan miðuð lengra aftur í tímann og við stærra bil. Hvað réttast er í þessu efni, verður ekkert fullyrt um með vissu. Skal þetta athugað nánar. Þess er nú fyrst að geta, að vart virðist vafi geta leikið á því, að eyjarnar hafi verið orðnar konungseign að mestu leyti í tíð Árna biskups Ólafssonar, áður en hann fór af landi burt. En eignaskiptin geta og verið eldri, og eru jafnvel meiri líkur fyrir því um allmikinn hluta af jarðagóssi eyjanna. Verður nú gerð grein fyrir þessu við athugun þeirra gagna, sem að vísu eru fá og ónóg, er geta komið til greina.
Að umráð konungs yfir Vestmannaeyjum á fyrsta fjórðungi 15. aldar hafi verið fjárhagslegs eðlis og miðuð við eignar- og afnotarétt, og því víðtækari en þau, er beinlínis felast í stjórnarfarslegum yfirráðum einum, og verzlunarumráðin þó meðtalin, virðist með réttu mega ráða af orðalagi því, er kemur fram í kærumálum Hannesar hirðstjóra Pálssonar, sem miðuð eru við árin 1420—1425, er hann flutti fyrir ríkisráðinu í Englandi vegna Danakonungs út af yfirgangi og ásælni enskra kaupsýslu- og útgerðarmanna í Vestmannaeyjum og framferði þeirra ýmsu þar, frá því þeir fyrst hófu siglingar sínar hingað til lands. Höfðu málin áður verið rannsökuð af sérstökum trúnaðarmönnum í Björgvin.⁸) Í upphafsorðum þessara kærumála segir: „Westmannö pertinet ad regem norvegie specialiter omni jure ita quod non habet ibi aliquis nisi solus rex norvegie“. Hér segir beinum orðum, að enginn eigi neitt tilkall til eyjanna eða nokkurs þar nema konungur einn. Hér kemur og margt fleira til, er bendir til þess, að konungur hafi hér eignarhagsmuna að gæta, svo sem þar, er getið er um ýmsar athafnir Englendinga hér í óleyfi umboðsmanna konungs. Þá segir og, að þeir hindri brottflutning úr eyjunum á fiski konungs, og eru mest líkindi til, að með þessu sé átt við landskyldar- eða afgjaldafisk konungs og að konungur, Danakonungur, hafi þá verið eigandi jarðanna hér. Annálar herma og frá því, að enskir hafi rænt skreið konungs í Vestmannaeyjum 1415. Mun hér og vera átt við afgjaldafisk. Um komu enskra kaupskipa til Vestmannaeyja er fyrst getið 1413, en líklegt er, að siglingar útlendra kaupsýslumanna, enskra eða þýzkra, hafi hafizt fyrr og sennilega fyrir 1400. Annálar herma frá því, að útlendir kaupmenn hafi vegið Þórð bónda í Vestmannaeyjum 1397. Þórður þessi, sem kallaður er bóndi, sem þá var valdsmannstitill, gæti hafa haft vald eða konungsumboð í eyjunum og átt að gæta þar hagsmuna konungs gegn útlendingum.
Erfitt er að hugsa sér afhendingu Vestmannaeyja, jafn arðsamar og þær voru á umgetnum tímum, sem og síðar, undan kirkjunni til konungs öðruvísi en kirkjunni í óhag, hvort sem téðir gerningar hafa farið fram sem hrein sala eða með makaskiptum. Það er því eðlilegt, að menn hafi fremur hugsað sér það, sem hér gerðist, sem eins konar þvingunarráðstöfun og sett í samband við eignaskipti eða skuldaskil Árna biskups. En hafi framsalið hins vegar átt sér stað, eins og að framan getur, fyrir tíð Árna biskups Ólafssonar, sem þykir öllu líklegra, að minnsta kosti um allverulegan hluta eyjajarðanna, ætti sú ályktun að fá vel staðizt, að hér hafi einmitt að verki verið einhver hinna erlendu Skálholtsbiskupa frá 14. öld, er ætla má, að hafi verið verkfæri í hendi konungsvaldsins og þegið sín laun fyrir. Mikael hinn danski Skálholtsbiskup, 1383—1390, segir Finnur biskup Jónsson í kirkjusögu sinni, að hafi verið óþarfastur allra biskupa hér í katólskum sið, „episcoporum inutilissimum fuisse“. Mikael biskup fór af landi burt 1389, og var þá enginn biskup í Skálholti og mikil óreiða á mörgu í stiftinu. Biskupslaust var og í Skálholti eftir dauða Vilkins biskups 1405 og breytingar á mörgu eftir Svartadauða, og hefir þá verið auðveldara fyrir konung að ná undir sig jarðeignum stólsins í Vestmannaeyjum, hafi eignaskiptin eigi verið um garð gengin áður.
Fiskkvöð til Þykkvabæjarklausturs, sextigir skreiðar, hvíldi á prestssetursjörðinni Ofanleiti í tíð Jóns biskups Halldórssonar.⁹) Þessarar kvaðar getur ekki síðar. En það þykir mega telja nokkurn veginn víst, að meðan þessi kvöð hélzt hafi eyarnar ekki verið orðnar konungseign. Báðar prestssetursjarðirnar munu hafa fylgt með í framsalinu frá öndverðu.
Um þessi mál hefir mikils misskilnings gætt og margt verið á reiki, eins og greinilega kemur í ljós í skrifum. Eins og þegar fræðimenn hafa haldið því fram, að Árni biskup Þorláksson í Skálholti hafi með gjafabréfinu 31. júlí 1280 gefið klaustrinu af Munklífi í Björgvin, Mikjálsklaustri, mestallar Vestmannaeyjar, og þær hafi síðan verið klaustursins eign og eigi komið undir konung fyrr en hann eftir siðabót tók klaustur í Noregi.¹⁰) Þessi frásögn er vitanlega á fullum misskilningi byggð. Ekkert er hægt að færa fram til stuðnings því, að allar eyjarnar hafi nokkurn tíma tilheyrt Björgvinjarklaustrinu, og af sjálfu gjafabréfinu, sem prentað er í Fornbréfasafninu og er á latínu, verður eigi heldur séð, að annað hafi verið gefið klaustrinu en Kirkjubæjarkirkja sjálf í Vestmannaeyjum, að vísu með réttindum hennar, tekjum og tíundum: „Ecclesiam Kirkjubæ in insulis Westmannicis... Salvo pontificali, jure in omnibus et parochiali“.
Þannig segir og í ritgerð frá 1593 um Skálholtsbiskupa fyrir og eftir siðaskiptin, að Vestmannaeyjar hafi legið til Skálholtsstóls 1518, er Stefán biskup Jónsson andaðist.¹¹) Þetta hefir síðar verið tekið upp og talið, að eyjarnar hafi fyrst orðið konungseign með öðrum stólseignum eftir siðaskiptin.¹²) Hér hefir verið villzt á og blandað málum að því er snerti greiðslu afgjalda af eyjajörðum og greiðslu hluta af prestatíundum frá eyjunum, er um tíma var tekinn frá eyjaprestum og lagður til Skálholts sem tillag til endurbyggingar dómkirkjunnar í Skálholti, en látið og standa óbreytt áfram um nokkurt skeið eftir að búið var að byggja kirkjuna, eða að minnsta kosti frá 1526 og fram að siðaskiptum. Hefir þetta valdið ruglingi á þessum málum sökum ókunnugleika þeirra, er um þetta hafa fjallað, á jarða- og tíundamálum Vestmannaeyinga. Að sumu leyti hefir þetta og stafað af misskilningi, er slæðzt hefir inn seinna í sambandi við umboðsheimtur Skálholtsbiskupa fyrrum, sem sést getið um, fyrir klaustrið af Munklífi í Björgvin á tíund frá eyjunum. Hér mun þó, eins og annars staðar er sýnt fram á, aðeins hafa verið um kirkjutíund að ræða eða hluta af prestatíund Kirkjubæjarprests. Jarðeign hefir kirkjan enga átt eftir að eyjarnar voru orðnar konungseign.
Að setja það í samband við kirkjugjöfina til Björgvinjar-klaustursins, að norrænn tíundarmáti komst á í eyjunum, þar sem hann hélzt mjög lengi, fær eigi staðizt.¹³) Eins og sýnt verð ur fram á hér síðar er margt annað, sem til greina kemur í þessu efni.
Konungur hefir snemma selt Vestmannaeyjar á leigu með árlegum landskyldum og tollum sem lén. Vegna fisktollanna voru eyjarnar mjög eftirsóttar til leigna, en þar hafa gjöld öll, landskyldir og leigur, verið greidd í fiski eða fiskafurðum, skattfiskur, landskyldarfiskur, er verið hefir hin eina og sjálfsagða landauragreiðsla hér. Landsdrottni var arðsamari greiðslan í fiski en í nokkurri annarri vöru, einkum ef hann gat komið fiskinum á erlendan markað, og þá oft teknir tveir peningar fyrir einn. Útgerðarrekstur á eigin skipum höfðu þeir og, er fengu eyjarnar að léni, og eyjabændur skyldir að róa á útvegi þeirra. Eyjarnar voru stundum léntar höfuðsmönnum til fisktollaafgjalda. Þeim, sem höfðu eyjarnar af konungi eða umboð yfir þeim, var eyjamönnum skylt að bjóða fyrstum varning sinn, það er fisk eða fiskafurðir með tilskildu verði. Eyjamenn máttu sjálfir færa á sinn kostnað fiskinn í hvern þann kaupstað, er leigutaki vildi selja hann í, en væri selt í eyjum, áttu þeir að færa góssið allt inn á land. Þessarar kvaðar getur í leigusamningi Torfa hirðstjóra Arasonar, er hafði konungsumboð eða lén í eyjunum, er Heinrich Kepken hafði veitt honum, um miðja 15. öld. Torfi hirðstjóri dó 1459. Þetta er elzta lénsleiga eyjanna, sem kunnugt er um.¹⁴) 1456 lénti Kristján Danakonungur I. Marcellusi Skálholtsbiskupi eyjarnar, með „öllum rétti og rentu, tekjum og tíundum“¹⁵): „Insulam nostram Westmanoer in terra nostra Islandia situatam cum omnibus suis juribus“. 1481 fékk Þorleifur hirðstjóri Björnsson hjá ríkisráðinu í Noregi Ísland „og Vestmannaeyjar“ að léni um 3 ár, „med konunglighe rentthe och rettighet uppa kronenns vegne i Norighe“.¹⁶)
Í konungsbréfum og tilkynningum frá fyrri tímum er svo að sjá sem Vestmannaeyjar hafi verið skoðaðar á stjórnarfarslegan mælikvarða sem annað en sjálft Ísland.¹⁷ „Í Voru ríki Íslandi og í Vestmannaeyjum“, „Wort og Norges Kronenns land Wespenö hoes Wort land Island liggendis“, sbr. konungsbréf um leigu á Vestmannaeyjum um miðja 16. öld.¹⁸) „Alt Wort land Ísland og Vestmannaeyjar“.¹⁹) Mætti að vísu segja um þennan sérstaka landshluta, Vestmannaeyjar, er voru persónuleg eign konungs, að þær væru í fyllsta máta heimalenda konungs. Lutu og eyjarnar ýmsum öðrum boðum og lagafyrirmælum en aðrir landshlutar lengi. Umboðsmenn konungs og fógetar, forstöðumaður konungsverzlunarinnar, síðar einokunarkaupmennirnir, voru hæstráðendur um flest í málefnum eyjabúa. Í skrifum voru eyjarnar oftast nefndar Vespenö eða Westpanö, einnig Vespensö, Westpenö, Westmandö, Vespeann og Vepeny í fjarða- og hafnatali frá 1568. Í bók Arents Berntsens frá 1665 eru Vestmannaeyjar, Vespenö, taldar sem sérstakt land²⁰): Iszland og Westmanöe, sbr. bréf 12. júlí 1662. Konungur hafði virki í Vestmannaeyjum, líkt og á kóngsjörðinni Bessastöðum. Þegar 1515 gaf konungur hirðstjóra sínum, Sören Norby, skipun um að byggja vígi á Bessastöðum og í Vestmannaeyjum. Þetta komst þó eigi til framkvæmda fyrr en seinna.
Heimildir neðanmáls í þessum kafla:
1) Biskupasögur I—II, útg. af hinu ísl. Bókmenntafél., Khöfn, I, bls.
77: Historia Ecclesiastica Islandiæ I, 278.
2) Biskupas. I, 321 og 352.
3) Páll E. Ólason: Menn og menntir III.
4) Nýi annáll.
5) Gottskálksannáll; Ísl. fornbr. safn nr. 340 og 345.
6) Árbók Fornl.fél. 1913, bls. 57—60.
7) Ísl. fornbr.s. 626; Nýi annáll.
8) Kongens Strömme, Kristiania 1912, bls. 71—72 og 139; Ísl. fornbr.s. IV, bls. 324 og 34.
9) Ísl. fornbr.s. nr. 1340.
10) Sjá ísl. fornbr.s. I, bls. 484, sbr. Safn t.s.Ísl. II, bls. 401, Hist. Eccles. Isl. II, 39—40.
11) Sjá Biskupas. II, 235, sbr. Safn t.s.Ísl. I, 640.
12) Tilsk. 21. apríl 1777, Lovs. IV; Hist. Eccles. Isl. II, 523 og IV, 225.
13) Safn t.s.Ísl. II, 401; Hist. Eccl. Isl. II, 39.
14) Ísl. fornbr.s. VIII, 179—180.
15) Ísl. fornbr.s. V, 138—139.
16) Ísl. fornbr.s. VI, 397—399; Árb. 1913; Smæf. IV, 523.
17) Sjá Canc. Brevb. 16. og 17. aldar.
18) Ísl. fornbr.s. XII, nr. 254 og 476.
19) Sjá dóm 1643, Alþ.b. VI, 1.
20) Landfr.saga Ísl. I, 140 og 254, II, 182.