Saga Vestmannaeyja I./ XIII. Herfylking Vestmannaeyja, 1. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




XIII. Herfylking Vestmannaeyja
(1. hluti)


Stofnandi hennar var sýslumaður Vestmannaeyinga, Andreas August von Kohl. Hann var fæddur í Rönne á Borgundarhólmi í Danmörku 1814. Tók kandídatspróf í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1839 með 2. einkunn í báðum prófum. Varð síðar aðstoðarmaður í íslenzku stjórnardeildinni í Kaupmannahöfn, og fékk svo vorið 1853 veitingu fyrir Vestmannaeyjasýslu og kom hingað og tók við embætti sínu hér samsumars.¹) Það er eigi alls kostar rétt, er segir í Sýslumannaæfum, að Kohl hafi verið aðstoðarskrifari nefndrar stjórnardeildar í Kaupmannahöfn. Um þennan merka sýslumann eru aðeins fáeinar línur í Sýslumannaæfunum.²)
Þegar kapteinn Kohl, en svo var von Kohl sýslumaður venjulega nefndur hér með því að hann og hafði herkapteinsnafnbót, kom til eyjanna var þar flest í sínu aldagamla horfi. Þar eimdi ennþá eftir af ótta fólks við sjóræningja, einkum Tyrki. Útlendir duggarar fóru stundum með ránskap og sýndu yfirgang og ofstopa á fiskimiðum, og við eggver og fuglabjörg voru þeir einatt nærgöngulir. Var og talið, að þeir myndu stundum seilast eftir sauðfé í úteyjum. Kom það og miklu seinna fyrir, að útlendir sjómenn voru staðnir að því að ræna sauðfé í Elliðaey. En ræningjar þessir náðust, því að til þeirra sást úr landi, og voru mönnuð út tvö stórskip, fullskipuð mönnum með vopn og verjur, þar með ljáir, hákarlahnífar og fýlakeppir sem barefli. Ræningjarnir urðu fyrir stórum fjárútlátum, en var síðan sleppt. Hefir ekki komið fyrir, svo að menn viti, að rænt hafi verið sauðfé hér. Þjófanef heitir í eynni Álfsey. Er sagt, að það beri nafn af því að þar hafi ræningjar farið upp í eyna og rænt fé. Eftir miðja síðastliðna öld voru miklar umkvartanir héðan af landi til stjórnarinnar í Kaupmannahöfn yfir ofstopa og yfirgangi erlendra sjómanna, og skrifaði dómsmálastjórnin í Kaupmannahöfn sjóliðsstjórninni um sendingu herskips til Íslands til verndar fiskimiðum.³)
Andreas A. Kohl sýslumaður hafði að vísu unnið í ráðuneytinu í Kaupmannahöfn áður en hann fékk Vestmannaeyjasýslu, en hann hafði og jafnframt lengi lagt fyrir sig hernaðarstörf. Hann hafði þegar á stúdentsárunum gengið í „Kongens Livkorps“ (nú „Akademisk Skytteforening“) í Kaupmannahöfn og varð undirliðsforingi. Liðsforingjanafnbót (Premierlöjtenant) hlaut hann 1840, og var gerður að kapteini í hernum og flokksforingja 1843. Í Slésvíkurstríðinu hafði hann á hendi þjálfun nýliða og hélt uppi heræfingum. Hann var af gömlum hermannaættum og hermennska honum í blóð borin. Faðir hans, Johan Hendrik August Valentin von Kohl, var kapteinn í danska sjóliðinu og yfirforingi á Kristiansö. Varði hann eyna af mikilli hreysti í dansk-enska stríðinu 1807. Var von Kohl af gömlum aðalsættum frá Bæheimi, en ættin dreifðist víðsvegar út um Evrópu og staðnæmdist ein grein ættarinnar í Danmörku og greindist þar í tvær aðalkvíslir.⁴) Móðir sýslumanns Andreas Kohl var K. Janessine Christine, f. Arboe, og var hún seinni kona föður hans. Kona A. v. Kohl hét Pauline Marie Baltzartine, f. Christensen. Hún kom aldrei til Vestmannaeyja.
Andreas A. v. Kohl gerðist röggsamlegt yfirvald í Vestmannaeyjum, svo að lengi var í minnum haft. Það var að vísu svo í fámenninu hér þá, að störfin voru eigi mikil og verksviðið þröngt, svo að gott færi gafst til tómstunda, og hér gat Kohl sinnt hugðarmálum sínum, heræfingum og herþjálfun, og samrýmt þetta störfum lögreglustjóra. Hann var eigi búinn að vera lengi í Vestmannaeyjum, og hafði kynnt sér þar hagi manna og háttu, er hann hugði á stofnun hersveitar í eyjunum, í líkingu við það, er fyrrum hafði tíðkazt, er heræfingum var haldið þar uppi. Ætlaðist hann til, að allir verkfærir menn gengju í eina liðsveit, Herfylkingu Vestmannaeyja, af frjálsum og fúsum vilja. Var þá fengin með þessu varnarsveit gegn árásum útlendinga, ef á þurfti að halda, og lögreglusveit til að halda uppi aga innanhéraðs. Hersveitin átti að aðstoða og hjálpa til að halda uppi aga og reglu á vertíðinni einkum og á kauptíðinni, er fjöldi manna safnaðist til eyjanna. Að ætlun kapteins Kohl skyldi samfelldur agi og þjálfun koma eyjamönnum sjálfum að gagni í atvinnu þeirra, sjósókn og úteyjasókn, sem var innt af hendi í samfélagi með samvinnu bænda. Helztu formennirnir í Vestmannaeyjum urðu flokksstjórar í Herfylkingunni. Aðalmarkmiðið með stofnun Herfylkingarinnar var samt að koma upp fullkomnu landvarnarliði hér, er væri til taks, ef á væri ráðist. Þótt Kohl að vísu muni ekki hafa talið, að óttast þyrfti eiginlega sjóræningja, sem margir hér voru samt hræddir við, mátti samt búast við illdeilum og yfirgangi af hendi erlendra fiskimanna, er oft voru nærgöngulir fiskimiðum og spilltu veiðarfærum manna. Kohl vildi herða betur samtök manna og átökin til að hrinda af sér árásum, ef til kynni að koma, en sökum legu eyjanna og fjarlægðar frá öðrum héruðum máttu eyjamenn eingöngu treysta á sig sjálfa. Sem dæmi um ótta þann og ugg, sem sumu eyjafólki ennþá stóð af erlendum skipum, og stundum ekki að ástæðulausu, skal tilfærð frásögn gamallar konu hér í stuttu máli. Um 1850 var kona þessi, sem þá var unglingur, í þangfjöru fyrir húsbændur sína, það er að rífa þang til eldsneytis í vík einni suður á eynni, alllangt frá bæjum. Sá hún þá, hvar bátur stefndi að landi frá erlendu fiskiskipi, er þarna lá fyrir utan. Taldi hún víst, að þarna væru ræningjar á ferð, er myndu ætla að hernema hana. Hljóp hún þá sem fætur toguðu upp á fjall, og komst í hellisskúta uppi í hömrum. Þar beið hún til kvölds. En hinir leituðu hennar og fundu ekki, og fóru síðan aftur við svo búið um borð í skipið. — Stórskip, er sást til af hafi, héldu menn vera ræningjaskip og forðuðust að koma nálægt þeim. Þannig var sagt, að skipverjar á hákarlaskipi frá Vestmannaeyjum hefðu séð skip á reki vestur við Dranga, en forðuðust að nálgast það, ef það kynni að vera ræningjaskip. Raunar var þetta skip með timburfarm, er rak að landi nálægt Jökulsá á Sólheimasandi seinna. Var timbur svo mikið í skipinu, að talið var, að gengt myndi hafa verið á timburplönkum úr því álíka vegalengd og frá Jökulsá að Hjörleifshöfða. Í allfersku minni voru og ýmis konar reyfaraskapur, er útlendir sjómenn höfðu gert sig seka um hér við land fram á næstliðna öld. Aðfarir Jörundar hundadagakóngs og förunauta hans höfðu og sýnt landsmönnum, hve varbúin þjóðin var gegn árásum útlendinga fyrir vankunnáttu í vopnaburði og samtakaleysi.
Með stofnun Herfylkingarinnar var og miðað að því að reyna að stemma stigu fyrir hinum sívaxandi drykkjuskap í eyjunum og búðarslangri og stöðum manna. Skyldi og með auknu félagslyndi og samstörfum efld snyrtimennska og háttprýði manna á meðal. Einn þátturinn hér í var og með þjálfun, er heræfingarnar veittu sem íþróttir og líkamsiðkanir, er mjög var nauðsynleg mönnum, er hlaðnir voru einhæfum störfum, að efla líkamshreysti. Einnig að því, er hið opinbera líf eyjabúa snerti, skemmtanir og uppfræðslu, átti Herfylkingin hlutverki að gegna.
Kohl fékk þegar fylgi helztu manna eyjanna til að koma fram áformum sínum um stofnun Herfylkingarinnar. Og meðal almennings fékk málið hinar beztu undirtektir. Byrjaði Kohl þegar skömmu eftir komu sína hingað að kenna mönnum vopnaburð. Stofnun Herfylkingar Vestmannaeyja með almennri þátttöku héraðsbúa í heræfingum er einsdæmi hér á landi, að fráskildum aðgerðum Magnúsar sýslumanns prúða, sbr. Vopnadóm hans, dæmdan í Tungu í Örlygshöfn 12. okt. 1581.⁵) Sjá og áðurnefndan vökudóm Odds Magnússonar.
Kohl skipaði niður í sveitir og vann að liðþjálfuninni af hinu mesta kappi. Einkennisbúninga höfðu menn eigi fyrst í stað og eigi vopn önnur en trévopn. En úr þessu rættist von bráðar. Þegar málið var komið vel á veg hjá eyjamönnum sjálfum, skrifaði Kohl dómsmálastjórninni dönsku 1855 og sendi jafnframt umsókn og beiðni eyjabúa til stjórnarinnar um að mega stofna herflokk (Militz) til varnar gegn útlendingum, ef á þyrfti að halda. Einnig til að halda uppi aga og reglu í eyjunum, og að vinna gegn áfengisbölinu. Kveðast eyjamenn þó eigi geta ráðist í stórræði þetta nema stjórnin samþykki stofnun flokksins og ljái lið með því að senda hingað nauðsynleg stríðsáhöld, eins og komizt er að orði. Sýslumaður, sem sjálfur stóð að þessu, lét auðvitað fylgja meðmæli sín. Tók stjórnin málið upp og leitaði umsagnar hermálaráðuneytisins. Í svari dómsmálaráðuneytisins danska hingað 19. maí 1855 segir, að hermálaráðuneytið hafi upplýst, að bæir og héruð, sem sjálf hafi æft vopnalið, fái eigi vopn úr vopnabúri konungs nema gegn fullri greiðslu. Venjulegar byssur (Geværer) kosti 6 rd. Samt lagði dómsmálaráðuneytið svo fyrir, að hermálaráðuneytið sendi til Vestmannaeyja eftir nánari tilvísun íslenzku stjórnardeildarinnar í Kaupmannahöfn 30 byssur með tilheyrandi skotfærum til Vestmannaeyja, fyrir reikning dómsmálaráðuneytisins.⁶) Með konungsúrskurði 17. júní 1856 var síðan ákveðið að veita skyldi 180 rd. af fé því, er ætlað var til óvissra gjalda Íslands, samkv. 9. gr. G. fjárl. 1856—1857, til greiðslu andvirðis áðurnefndra vopna. Í tillögum dómsmálaráðuneytisins er greint frá umsögn von Kohl sýslumanns um að heræfingum hafi verið haldið uppi í eyjunum og þær farið vel fram. Séu eyjamenn góðir hermenn. Síðan hersveitin hafi komizt á laggirnar, hafi stundvísi og reglusemi manna á meðal aukizt mjög, samfara ágætu félagslyndi. Kvaðst sýslumaður þurfa að fá 70 byssur handa hersveitinni. Ráðuneytið var þessu mjög hlynnt, og taldi eyjabúa heppna að hafa annan eins skörung og von Kohl sem herliðsforingja, er hefði getið sér ágætan orðstír í slésvíska stríðinu, og unnið mjög þarft verk með því að þjálfa nýliða. Kveður ráðuneytið sjálfsagt að styrkja þessa málaleitun eyjamanna, og að það myndi verða til þess, að önnur kauptún og kaupstaðir á Íslandi myndu fylgja þessu fordæmi Vestmannaeyinga og stofna sjálfir eigin hersveitir.⁷)
Vopnasendingin, 30 byssur, er stjórnin lét í té, var afhent frá vopnabúri Kaupmannahafnar, Arsenalet, frá herbirgðum ríkisins, og kom til eyjanna með póstskipinu, er lét frá Kaupmannahöfn áleiðis til Íslands 1. júlí 1856, eins og skýrt er frá í bréfi til stiftamtsins 28. júlí s.á. Kohl sýslumaður herti á því við stjórnina, að fá í viðbót fleiri byssur og meiri vopnaáhöld, þar á meðal 5 korða (Hirschfængere) handa yfirmönnum hersveitarinnar, bumbu og margt fleira, er hersveitin gæti eigi án verið. Segist honum svo frá, að nær allir vopnfærir menn hér myndu taka upp vopnaburð, ef hægt væri að sjá þeim fyrir nægilegum vopnum og skotfærum. Hingað til hafi aðeins helmingur hersveitarmannanna haft eiginleg vopn, en hinir hafi orðið að láta sér nægja trévopn og trébyssur, og líki þeim það miður, og sé hætt við, að þeir verði eigi eins fúsir að sækja heræfingar. Segir Kohl, að þessar æfingar auki samvinnuþelið og félagslyndi manna á milli og frjálsmannlega glaðværð. Nú leyti menn gleðinnar í útivist við heræfingarnar í hópi glaðværra félaga sinna, en eigi eins og jafnan áður í hópi Bakkusar. Stiftamtmaður lagði eindregið með því við stjórnina, að sinnt yrði að fullu málaleitun sýslumanns og eigi kippt að sér hendinni á miðri leið. Gekk síðan konungsúrskurður 29. júlí 1858 á þá leið, að af þeim 4000 rd., sem ætlaðar voru á fjárlögum til óvissra útgjalda, skyldi veita 200 rd. til Vestmannaeyinga til þess að vopnbúa herliðið þar. Þessi síðari vopnasending kom frá Kaupmannahöfn í september 1858. Átti hersveitin hér, sem kölluð var Herfylking Vestmannaeyja, nú 60 fótgönguliðsbyssur, riffla með stingjum (Bajonetter), og nokkra korða. Margs konar önnur áhöld og skotfæri, leðurtöskur o.fl.⁸) Herfylkingunni bárust og gjafir frá einstökum mönnum, fánastöng og stór silkifáni. Fánann gaf Niels Bryde kaupmaður. Kohl sýslumaður gaf sjálfur ýmsa muni.
Árið 1857 var Herfylkingin komin fyllilega á stofn. Voru þá samdar reglur fyrir Herflokk eða Herfylkingu Vestmannaeyja, og segir þar fyrst og fremst, að aðaltilgangurinn með stofnun Herfylkingarinnar sé að veita viðnám og hrinda af sér árásum útlendinga og einnig til að hjálpa til að halda uppi reglu og aga hér. Nokkuð vantaði á, að allir vopnfærir menn hefðu gefið sig undir merki Herfylkingarinnar. Brýndi Kohl menn nú ákaft og reyndi að sýna þeim fram á, hvílíkur álitsauki þetta væri fyrir Vestmannaeyinga, og enginn annar staður á Íslandi geti hrósað sér af því að hafa heræft vopnalið. Enda hafi og íslenzka stjórnin metið þetta við eyjamenn, þar sem hún hafi undirgengizt að styrkja herliðið hér með fjárframlögum. Kvaðst Kohl eigi vera ánægður nema hann fengi alla vopnfæra menn eyjanna á aldrinum 18—40 ára til þess að ganga í Herfylkinguna. Var áform hans að hafa liðið í 4 flokkum og 15 manns í hverjum flokki auk flokksforingja. Höfðu fundir verið haldnir í þinghúsi Vestmannaeyja til að ræða um stofnun Herfylkingarinnar og síðar aukningu hennar, og var síðasti fundurinn í þessu skyni haldinn í þinghúsinu 19. sept. 1858, og gekk þar allt að óskum. Herfylking Vestmannaeyja var stofnuð sem flokkur létt vopnaðra fótgönguliðsmanna undir stjórn fylkingarstjóra, sem æðsta yfirmanns hersins. Þá voru og skipaðir tveir liðsforingjar og einn yfirflokksforingi (Commandör Sergeant). Fjórir deildarforingjar (Sergeanter). Ennfremur fánaberi og bumbuslagari. Liðinu var skipt í fjórar deildir. Einnig voru tvær drengjadeildir eða flokkar, á aldrinum frá 8—16 ára, og hafði hvor drengjaflokkur sinn eigin flokksstjóra. Í flokkunum, sem skipaðir voru fleiri en 12 mönnum, skyldi og vera sérstakur undirforingi (Underkorporal). Liðsveitarmennirnir sjálfir áttu að kjósa sér foringja hverjir fyrir sína deild undir samþykki herfylkingarstjórans. Flokksforingjarnir kusu liðsforingjana, og hvorir tveggja skyldu í sameiningu kjósa yfirfylkingarstjórann eða höfuðsmanninn, en hann réði sjálfur vali yfirflokksforingjans, fánaberans og bumbuslagarans. Yfirflokksforingjann bar að kjósa úr flokki foringjanna. Þessi störf öll í þágu Herfylkingarinnar voru auðvitað ólaunuð. Rétt höfðu menn til að halda stöðum sínum, svo framarlega sem þeir brutu eigi af sér. En margs bar að gæta og margt til ávirðingar talið, svo sem ef menn reyndust tómlátir eða eigi nógu duglegir í starfinu, mættu óreglulega og þessleiðis. Herráðið skyldi dæma hér um. Jafnt voru yfirmenn og undirgefnir skuldbundnir til herþjónustunnar, er þeir höfðu gengizt undir.
Enginn var skyldur til að ganga í Herfylkinguna, en þeir, sem í hana voru komnir, voru skuldbundnir til að vera í henni minnst eitt ár í senn. Árið var miðað við 1. dag októbermánaðar og til jafnlengdar næsta ár, og áttu þeir, er úr gengu, að tilkynna það yfirfylkingarstjóranum áður en septembermánuður var liðinn. Þeim, sem úr gengu, bar að skila vopnum sínum og verjum aftur í góðu og gildu ásigkomulagi. Liðsmenn voru allir skyldir til að lúta heraga og hlýða kalli hvenær sem boðið var og sýna í öllu yfirmanni sínum tregðulausa hlýðni. Ábyrgð skipunarinnar hvíldi á þeim, sem gaf hana samkvæmt herrétti. Hér á landi giltu eigi herlög, en eigi er vitað, að neitt hafi hlotizt af þessu hernaðarfyrirkomulagi, er í bága kæmi við landslög og rétt.
Forföll skyldu tilkynnast yfirmanni í tæka tíð, og yfirmaður skera úr um lögmæti fjarvistar. Ef fjarvist dæmdist eigi lögmæt, skyldi sá, er hlut átti að máli, sóttur heim. Ítrekun fjarvistarbrots varðaði burtrekstri.
Lögð var mikil áherzla á, að æfingarnar og herþjónustan yfirleitt færi fram með kostgæfni, lipurð og fjöri. Vopn sín bar hermönnunum að fara vel með og sjá um að þau skemmdust eigi. Sjálfum var þeim ætlað að kosta viðgerðir á þeim.
Það var og eitt í samþykktum Herfylkingarinnar, að liðsmennirnir hegðuðu sér vel og sómasamlega í hvívetna, sýndu yfirmönnum sínum og hverir öðrum kurteisi. Drykkjuskap skyldu þeir forðast og alls konar óreglu. Sá, er í fyrsta sinn varð brotlegur, skyldi sæta alvarlegri áminningu, en brot öðru sinni varðaði brottvikningu.
Eins og áður er sagt fékk Herfylkingin vopnabúnað og skotfæri frá því opinbera. Gert var ráð fyrir, að menn fengju þóknun af opinberu fé, ef herþjónustan ykist til muna, eftir þeim reglum, er giltu um herlið í Danmörku.
Yfirstjórn Herfylkingarinnar var eins og áður segir hjá yfirfylkingarstjóranum. Hann gaf út í tilskipunarformi allar fyrirskipanir og var haldin dagbók, er tilskipanirnar voru færðar inn í (Paroljournal). Ritari var yfirflokksforinginn og undirritaði hann með yfirfylkingarstjóranum allar fyrirskipanir, er snertu Herfylkinguna og færðar voru inn í bókina.

Heimildir neðanmáls í þessum hluta:
1) Juridisk Stat, V. Richter, Khavn 1881, bls. 178.
2) Sýslumannaæfir Boga Benediktssonar IV, bls. 563.
3) Tíð. frá Alþingi Íslendinga 1863, II, bls. 13—14.
4) Genealogia over adelige og borgerlige Familier, J.E.F. Fengnick, Khavn 1851. Sjá einnig Haandbog over den ikke naturaliserede Adel ved Hauch-Faussböll. Einnig Dansk Biografisk Leksikon IX, v. C.F. Bricka, Khavn 1896. Ennfremur Kundgörelser for Hæren, Hærens Arkiv, 1837, Nr. 3, og 1840, Nr. 1, 1843, Nr. 1.
5) Saga Magnúsar prúða, J. Þorkelsson, Khöfn 1895, bls. 67.
6) Isl. Copieb. 1856, Lovs. f. Isl. XVI, 491.
7) Isl. Dep. Forst. og Resol. Protok. 1856, Lovs. f. Isl. XVI.
8) Skjalasafn stiftamtm., Þjóðskj.s. í Rvík, Copieb. 1858 og 1859, nr. 548, Lovs. f. Isl. XVII.

2. hluti



Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit