Saga Vestmannaeyja I./ III. Kirkja, 3. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




III. Kirkja
(3. hluti)


Örnefnið Skrúðabyrgi er mjög líklegt að stafi frá þeim tímum, er útlendir ránsmenn rændu hér. Getur vel verið, að þá hafi menn komið kirkjuskrúða og gripum kirkjunnar fyrir t.d. uppi í Skrúðabyrgi, til þess að forða þeim frá ræningjahöndum. Svipað átti sér oft stað í Færeyjum, að menn komu kirkjugripum fyrir í fjallafylgsnum vegna ræningja.
Er þeir Gissur og Hjalti reistu kirkju sína í Vestmannaeyjum árið 1000, hafa þeir fyrst helgað henni grundvöll eins og venja var til. Í för með þeim mun hafa verið Þormóður prestur, er getur síðar við kristnitökuna á Alþingi, og að líkindum hafa fleiri prestar verið með þeim frá Englandi eða Noregi, svo eigi hefir verið vant presta til að framkvæma kirkjuathöfn þessa, og mikið haft við, er þessari fyrstu sóknarkirkju hér á landi var helgaður grundvöllur²⁶) .
Kirkjan mun hafa verið trékirkja, með torfþaki ef til vill. Að líkindum mun kirkjan hafa verið stafkirkja. Hún hefir staðið í austur og vestur og kirkjugarður umhverfis. Hún hefir verið kölluð Klemensarkirkja, af því að hún hefir verið helguð hinum heilaga Klemens, annars finnst eigi sérstaklega getið um nafndýrling eða verndardýrling þessarar kirkju. Klemensarmessa er 23. nóv. Sjófarendur dýrkuðu hinn heilaga Klemens. Akkeri var einkunn hans, af því að honum var drekkt og sökkt með akkeri. Ólafur konungur Tryggvason helgaði hinum heilaga Klemens kirkju þá, er hann lét reisa hjá konungsgarði í Niðarósi²⁷).
Kunnar eru aðeins tvær aðrar kirkjur á Íslandi, er helgaðar voru dýrlingnum Klemens, Akrakirkja á Mýrum og Hofskirkja í Öræfum²⁸).
Eins og áður segir, hefir það verið kirkjan „fyrir ofan leiti“, að Ofanleiti, sem byggð hefir verið næst sem sóknarkirkja, þó eigi alllöngu á undan Kirkjubæjarkirkju. Staðurinn á Ofanleiti hét og áður Kirkjubær fyrir ofan leiti. Seinna var og Ofanleiti stundum kallað á Bæ (Bey), eins og kemur fram í kirkjureikningum Landakirkju á 17. öld. Þótt Ofanleitiskirkja muni þannig vera eldri, er samt máldagi þeirrar kirkju, sem varðveittur er, miklu yngri en máldagi Kirkjubæjarkirkju, sem er elzti kirkjumáldaginn í Vestmannaeyjum, sem geymzt hefir. Máldagi Nikulásarkirkju í Vestmannaeyjum, er Árni biskup Þorláksson setti 1269 og tekinn var orðréttur upp í Vilkinsmáldaga²⁹), hljóðar svo: „Nikulásarkirkja í Vestmannaeyjum á Kirkjubæ á land á Bílustöðum, kú og vi ær. Búning sinn: Tjöld umhverfis, klukkur tvær, glóðarker, kertisstika mikil af járni og önnur af messing, glerglugga og guðvefjaraltarisklæði, silfurkaleik og messuföt öll nema hökul, róðukrossa 2. Þar skal vera heimilisprestur og veita allar heimilistíðir, messa jafnan er gjör er til, annan hvern dag um jólaföstu lj messur, en hvern dag langaföstu, vigilia hvern aftan um langaföstu, 3 lektiur. Þangað liggja til preztkaups fiskatíundir hálfar, og svo annars veiðiskapar, þess, sem þar er tíundað. Þangað liggja til kirkjutíundir allar að helmingi og svo vaxtollur, enn helmingur til Péturskirkju þeirrar, er fyrir ofan Leiti er. Þaðan skal syngja til helminga til Clemenskirkju. Kirkjudag skal skylt hvorrar tveggju graftrarkirkju öllum mönnum í Vestmannaeyjum að halda og Clemensarkirkjudag eftir því sem þar er máldagi til“³⁰). Þegar kirkja var vígð var árdagur sá haldinn helgur sem stórhátíð þar í sókn og nefndur kirkjudagur³¹).
Kirkjan á Kirkjubæ mun sett af Árna biskupi Þorlákssyni sennilega sama ár og máldagi kirkjunnar þar var staðfestur, 1269. Þá var erkibiskup í Niðarósi Jón biskup hinn Rauði³²).
Í máldaganum segir, að kirkjan eigi land á Bílustöðum. Nafn þetta þekkist ekki framar og ekkert vitað um hvar Bílustaðir hafi verið. Í sóknarlýsingu séra Brynjólfs Jónssonar segir, að Bílutættur hafi verið kallað tóttarbrot í Kirkjubæjartúni, setur höfundur þetta í samband við hina fornu Bílustaði. Mestar líkur eru og fyrir, að Bílustaðir hafi verið hluti af jarðatorfunni í Kirkjubæ, og hefir bærinn sjálfur staðið ef til vill utan við sjálfa bæjarþyrpinguna, og því með sérheiti eins og tíðkaðist, er bæir voru fluttir úr bæjaþorpunum. Nöfnin Býla, Býli eru dregin af nafninu ból. Hafa flestar jarðir með þessum nöfnum verið litlar og sumar þeirra hjáleigur³³).
Af kirkjusamþykktinni 1606 má sjá, að þá á Landakirkja enga jörð eða land. Þetta kemur og heim við umboðsreikninga Vestmannaeyja frá lokum 16. aldar. Þá eru allar jarðir og lendur hér konungseign. Bílustaðir munu hafa verið komnir undan Kirkjubæjarkirkju áður en kirkjan var lögð niður sem sóknarkirkja. Er sennilegast, að konungur hafi tekið þessa jörð eins og aðrar undir sig, er Eyjarnar urðu konungseign. Þó Bílustaða sé getið í seinni máldaga Kirkjubæjarkirkju 1491—1518, verður eigi hægt að leggja verulegt upp úr því, og full ástæða til að ætla, að setningin „kirkjan á land þar í eyjunum, sem heitir á Bílustöðum“ sé tekin upp úr máldaganum án athugunar. Hugsanlegt er, að ekki liggi það allt til kirkju, sem henni er eignað í máldögum eða máldagabók, og að önnur skjöl geti sýnt það, sömuleiðis, að margt geti verið gengið undan kirkju síðan eldri máldagabækur voru samdar³⁴). Þess ber að gæta, að mikill ruglingur hefir komizt á ýmislegt af því, er snertir málefni Kirkjubæjarkirkju. Nægir að benda á misskilning þann, er víða er getið um umráð Skálholtsbiskupa yfir jörðum hér, er helgast átti af kirkjugjöfinni. Samkvæmt hinum gömlu jarðaskrám og seinni heimildum um jarðir í Vestmannaeyjum virðist því sem kirkjan í Kirkjubæ hafi eigi átt neitt land, minnsta kosti eigi arðberandi, er seinni máldaginn var staðfestur. Eigi má láta það villa sig, að getið er smágreiðslu eða afhendingar héðan, þó aðeins í eitt skipti, til klaustursins í Björgvin, er eigi getur hafa verið jarðarafgjald.
Kirkjurnar hér áttu nokkra kvikfjáreign og bendir það til þess, að þær hafi fyrrum átt nokkra jarðeign. Gripaeignin er undan kirkjunni gengin seint á 16. öld.
Bílustaða er getið í Resol. 21. apríl 1777 um laun prestanna í Vestmannaeyjum. Segir hér, að það sé álit manna, að jörðinni Bílustöðum, er kirkjan hafi átt, hafi verið skipt undir land annarra jarða, en enginn viti nú, hvar jörð þessi hafi verið³⁵). Í rentukammerbréfi 28. sept. 1799 um rekaréttindi í Vestmannaeyjum er gert ráð fyrir því, að kirkjan á eyjunum geti sem landeigandi, Bílustaða, gert tilkall til rekaréttinda. Þessi réttindi kirkjunnar voru að vísu engin til og Bílustaðir fyrir ævalöngu gengnir undan, en samt var þessu hreyft og sýnir það, hversu þessum málum var lengi ruglað saman. Eimdi eftir af þessu lengi, sbr. tilkall Ofanleitisprests til reka í Vík og Brimurð löngu seinna.
Kirkjubæjarkirkja hefir verið lénskirkja, en eigi bændakirkja, og eigandi hennar Skálholtskirkja, þá og eigandi Vestmannaeyja. Nokkru eftir að kirkjan hefir verið reist varð sá atburður í sögu hennar, að biskupinn Árni Þorláksson gaf kirkjuna klaustri í Björgvin í Noregi til eignar og kirkjugjöfin innt af hendi í þakklætisskyni við klaustursbræðurna „Caritatem vestram nolumus ignorere“, eins og segir í gjafabréfinu. Með kirkjunni fylgdu öll réttindi hennar og eignir, „salvo pontificali, jure in omnibus et parochiali“, og þar með að líkindum land það eða jörð, er kirkjan hefir átt, þó þess sé eigi getið sérstaklega. Með svofelldu móti hafði og gjöfin nokkurt fjárhagslegt gildi, og má ætla, að það hafi og verið tilgangurinn með henni, því af kirkjutíundunum einum og ef til vill smáræðis leigum var lítils arðs að vænta, þar sem þetta hlaut að ganga til þarfinda kirkjunnar sjálfrar, og í Vestmannaeyjum gekk minnsta kosti seinna kirkjutíundin óskipt til hlutaðeigandi prests, er svo sá fyrir kosti kirkjunnar að mestu. Kirkjan hefir auðvitað þrátt fyrir umgetið eignarafsal haldið áfram að vera undir umsjón hinna andlegu valdsmanna hér á landi (Skálholtsbiskupa). Getið er þess, að biskupum hafi verið falið að innheimta tíund klaustursins af kirkjunni. Þannig hafði Árni biskup Ólafsson umboð klaustursins af Munklífi um tíund í Vestmannaeyjum. Sá misskilningur slæddist hér inn í skrifum um þessi mál seinna, að í gjöfinni hefðu nær allar Vestmannaeyjar verið innifaldar, sbr. ritg. 1793. 1463 telur Mikjálsklaustur í Björgvin, sér af Vestmannaeyjum „j stykke Klædhe“. Hér ef til vill um að ræða afhendingu á kirkjumun.
Um það verður eigi sagt með neinni vissu, hversu lengi Kirkjubæjarkirkja var eign Björgvinjarklaustursins. Má vera, að það hafi minnsta kosti að nafninu til verið fram undir siðabót.
Gjafabréfið, er Árni biskup Þorláksson gaf út til handa Mikjálsklaustri í Björgvin anno M.CC.LXXX pridie Kalendas Augusti (31. júlí 1280) fyrir Nikulásarkirkju á þeim stað, er heitir Kirkjubær í Vestmannaeyjum („eclesiam beatam nockolæi . . . in loco qui dicitur kirkjubör i vestmanna ey), er svohljóðandi, bréfið útgefið á latínu:
„Universis sancte matris ecclesie filiis quam subditis presenta litteras inspecturis vel autituris Arnesius dei gracia scalothensis episcopus salutem in domino sempiternam. Caritatem vestram nolumus ignorere nos ecclesiam beati nockolæi archiepiscopi et confessoris in loco qui dicitur kirkjubör i vestmanna ey fundatum auctoritate et consensu venerabilis patris Johannis dei gracia Nidrosiensis archiepiscopi monasterio sancti michaelis circa bergensem civitatem constituto temporibus possidendam salvo pontificali, jure in omnibus et parochiali. In cujus rei testimonium sigillum nostrum presentibus duximus opponendum. Datum bergis gracie M.CC.LXXX pridie kalendas augusti“³⁶).
Máldagi Kirkjubæjarkirkju staðfestur einhvern tíma á árunum 1491—1518:
„Kirkjan á Kirkjubæ er helguð allsvaldanda guði, jungfrú Maríu og hinum heilaga Nicolai. Kirkjan á land þar á eyjunum, sem heitir á Bílustöðum, og þar til uj (2) kýr, xuj (12) ær, hest og hross. Messubók de sanctis per annum et de tempore frá páskum og til adventu, og önnur messubók frá jólaföstu og til páska, samsett með guðspjöllum og pistlum og oratium (orationes). Óttusöngvabók samsett og að öllu alfær og með messum de tempore frá páskum og til adventu. Óttusöngvabók de sanctis per annum, de sanctisbók með guðspjöllum og pistlum og orationes per annum. Sekvensiubók per annum. Salltare alfær. Kanonembók alfær. Processionall alfær. Dextera pars in norrænu. Messudagakver. Efstu vikuorða. Óttusöngvabók de tempore frá sunnudaginn eftir xllj dag og til páska. Nikolas saga og önnur vond. Kiríall gamall, tvenn altarisklæði, tvenn messuklæði, alfær serkur og 3 höklar og að auk sloppur og kápa. Forn fonzumbúningur, brík yfir altari, gamall kross með undirstöðum, Nikulásarskrift, Þorláksskrift, Maríuskrift, Antóníusskrift, koronatío Maríu, Kristoforus skrift, Pálsskrift, Barbáruskrift, Gabriels skrift. X (10) koparstikur, ij (2) glóðarker, bakstursjárn, ij kistur læstar og hin þriðja vond, ij klukkur, 1 bjalla, 1 silfurkaleikur og annar koparkaleikur. Item iij (3) keröld með ij skjólum, ij hogsetur vond, uj (2) skálar, iiij (4) diskar, ij tinföt, ij tunnuhróf, ij sængurslitur, 1 hálfkanna, eitt saltker³⁷).
Um bækur, kirkjugripi og áhöld kirkjunnar í Kirkjubæ samkvæmt máldaganum skal hér frekar greint³⁸):
Eins og máldaginn ber með sér, er bókakostur kirkjunnar allgóður. Bækur voru þá mjög dýrar, svo kirkjur gátu oft eigi eignazt algengustu messu- og tíðabækur sökum fátæktar. Bækur voru oft í pörtum, eins og hér má sjá, og náðu aðeins yfir nokkurn hluta af árinu, en margar bækur þurfti, þar til komin var heil tíða- eða messubók. Þeim var skipt niður á vissa árshluta og oft eftir innihaldi í de tempore-, de sanctis- og commonsbækur. De temporebækurnar náðu yfir stórhátíðirnar og þær messur, sem eftir þær fóru (sunnudagar). De sanctisbækurnar náðu yfir helgra manna messur. Í messubækurnar voru skráðir helgisiðir þeir, er viðhafðir voru, er altarissakramenti var viðhaft, og var sú athöfn kölluð messa. Messubók táknar og hverja þá bók, er messupartur er í.
Kiríall (Kyriale). Á honum voru þeir partar messunnar, er voru kórsungnir (Kyrie, Gloria, Sanctus, Agnus dei)³⁹). Guðspjöllin fjögur voru á textum (textus evangeliorum) og tónuð í messu, svo og einnig messusvör. Sequentiubókin (sequentiæ, sekvenzíur) hafði að geyma ljóð eða háttbundið mál, er var sungið. Kanabók (canonembók) innihélt hinn svokallaða lágsöng, er hafður var yfir í hljóði, og var sá partur messunnar, er geymdi innsetningarorðin, introitus.
Í tíðabækurnar, óttusöngvabækurnar, voru skráðir helgisiðirnir fyrir bænastundir dagsins, er nefndust tíðir, lat. horæ. Psaltarinn hélt Davíðssálma, er var skipt niður á daga til söngs. Processionall er nefndur meðal bóka kirkjunnar, á honum var leiðarvísir um prócessíur, skrúðgöngur. Nefndur er og dextera pars í norrænu og mun þar átt við kirkjulög, er Clemens páfi V. safnaði, Corpus juris canonici.
Kirkjan átti tvenn messuklæði, föt, er klerkar notuðu við heilaga messu. Þau voru: höfuðlín, serkur, lindi, stóla og handlín. Serkurinn var skósíður og mjög víður, úr líni eða lérefti og hvítur. Lindinn var úr líni eða silki, honum var ætlað að halda saman serknum. Stóluna báru prestar um hálsinn og krosslögðu hana á brjóstinu. Sloppar voru hafðir utan yfir. Hökullinn var yfirhöfn, er prestarnir létu yfir sig, er þeir voru skreyttir messuklæðum. Höklarnir gátu verið með öllum litum, en voru oftast hvítir, rauðir eða svartir. Fonzumbúningur, fontklæði, var utan um fontinn. Á laugardaginn fyrir páska vígði prestur skírnarvatn til ársins og var það geymt í fontinum allt árið. Var vandlega gætt að því, að eigi kæmist óhreinindi í vatnið og hefir til þess verið vafið klæði utan um fontinn. Tjöld voru eigi í þessari kirkju eins og í Ofanleitiskirkju, og má því ætla, að veggir kirkjunnar hafi verið pentaðir eða skreyttir með öðru móti. Í eldri máldaga kirkjunnar, frá 1269, segir, að kirkjan eigi tjöld umhverfis og gæti þetta bent til þess, að þá hafi kirkjan verið torfkirkja, en timburkirkja reist síðar. Tjöldin voru höfð til að prýða með kirkjuveggi, einkum á hátíðum, svo framarlega sem veggirnir voru eigi sjálfir skreyttir, sem lítið mun hafa verið um hér á landi. Tjöldin voru ýmist úr líni, ull eða silki. Þá telur máldaginn og guðvefjaraltarisklæði, er kirkjan átti. Það, sem á þessum tímum kallaðist guðvefur, var bómullarvefnaður, en ólíkur því, er nú tíðkast. Kirkjan átti einnig tvo róðukrossa. Kristlíkneskið á krossinum er róðan. Máldaginn nefnir 10 kertastikur, er kirkjan átti, og voru þær allar úr kopar. Kertastikur voru hafðar á altari til lýsingar, fyrir líkneskjum og á kórgólfi. Þær voru ýmist úr kopar, járni, messing, blýi og tré. Kirkjan átti glóðarker og bakstursjárn. Glóðarkerin voru höfð til að brenna á þeim reykelsi og bakstursjárnin til að baka oblátur. Þær voru bakaðar á kirkjustöðunum, en prófastar fengu afhent hveiti hjá biskupi og útbýttu því handa prestum sínum. Í báðum máldögunum er talað um silfurkaleik kirkjunnar og mun það vera sami kaleikurinn, í seinni máldaganum er og getið um koparkaleik kirkjunnar, og er það einkennilegt, því kaleikar máttu eigi vera af kopar, er því sennilegt, að hér sé eitthvað málum blandað. Af keröldum átti kirkjan 3 og 2 skjólur og 2 pípur. Vatn var mjög notað í kirkjum í katólskum sið við altaris- og skírnarsakramenti. Vígðu vatni stökktu menn á sig, er þeir komu í kirkju eða fóru, og á helgum dögum stökkti prestur vígðu vatni á kirkjugólfið og á fólkið. Óvígt vatn var notað við handþvotta prestanna. Vatnsáirnir eða keröldin stóðu á sínum stað í kirkjunum og þangað sótti fólkið sér vígt vatn, en katlar og skjólur voru notaðar til að stökkva með vatni. Þessar skjólur voru oftast úr messing eða kopar. 2 kistur átti kirkjan til að geyma í skrúða sinn, 2 klukkur og 1 bjöllu. Klukkurnar voru notaðar eins og nú til þess að kalla kirkjufólkið saman til guðsþjónustu. Klukkurnar voru ýmist í stöpli, klukknahúsi eða utan á austurgafli kirkjunnar. Smábjöllum var hringt, þegar prestur gekk upp að altari og frá.
Signingar voru mikilvægur þáttur í helgisiðum kirkjunnar í katólskum sið. Krossar voru tvenns konar, róðukrossar með Kristlíkama festan á krossinn og krossmörk.
Kirkjan átti margar skriptir heilagra manna. Skript merkir hið sama sem máluð dýrlingsmynd. Sumar myndir sýndu og viðburði úr helgisögum. Í pápiskri tíð máttu munir þeir, er hafðir voru til helgra athafna, eigi vera eign manna⁴⁰). Af veraldlegum hlutum telur máldaginn skálar, diska, tinföt, saltker, sængurföt o.fl. Þessir munir hafa verið notaðir við gestakomur af landi. Hefir Kirkjubæjarprestur tekið á móti yfirboðurum kirkjunnar, er þeir gistu eyjarnar, svo sem biskupar til kirkjuvígslu og til að vísitera. Frá pápiskum tímum og síðar er alloft getið komu Skálholtsbiskupa til Vestmannaeyja.
Kirkju að Ofanleiti, „Péturskirkju fyrir ofan leiti“, getur í máldaga Kirkjubæjarkirkju frá 1269. Prestsetur hefir verið lengi og kirkja á Ofanleiti, en eigi verður um það sagt, hvenær þar er fyrst reist kirkja, en líklegt að það hafi samt verið nokkru áður en kirkja var reist á Kirkjubæ. Í Biskupasögum segir frá því, er Páll biskup Jónsson skyldi vígja kirkju í Vestmannaeyjum, er þar var smíðuð. Þetta hefir verið um 1197. Er hér annaðhvort að ræða um kirkju á Ofanleiti og þá fyrstu kirkjuna þar eða endurbyggingu Klemensarkirkju, sennilega á nýjum stað. Í kirknaskrá Páls biskups frá því um 1200 segir: Kirkja í Vestmannaeyjum, b.v. í seinni afskrift 1750 Landakirkja⁴¹). Hefir seinni afskrifandi ruglað saman af ókunnugleik Landakirkju og gömlu kirkjunum á Kirkjubæ og Ofanleiti. Svo er að sjá eftir kirknaskránni, að eigi hafi verið nema ein kirkja með prestsskyld hér um 1200 eða nokkru fyrir. Athugandi er, að verið getur, að ný kirkja hafi bætzt við 1197, sbr. það, er áður segir, eða hér hafi verið ein eða tvær hálfkirkjur.
Máldagi Ofanleitiskirkju er eigi til eldri en frá 1491—1518. Um annan máldaga er eigi fullkunnugt. Að vísu talar séra Jón Högnason á Ofanleiti í bréfi til prófasts 1823 um máldaga Ofanleitiskirkju, er Oddur biskup hafi sett, og að eftir þeim máldaga hafi verið farið við úttektir. Ekkert er kunnugt um þennan máldaga, en til hans vitnuðu Ofanleitisprestar lengi um rekatilkall Ofanleitiskirkju í Vík og Brimurð⁴²).
Samkvæmt máldaganum 1491—1518 er Ofanleitiskirkja nú helguð hinum heilaga Andrési postula, bróður Péturs, dýrlingi sjómanna, og mun kirkjudagur hennar hafa verið 30. nóv. á Andrésarmessu⁴³).
Samkvæmt máldaganum á Ofanleitiskirkja:
„llj (3) kýr, lj (2) hross, xx (20) ær og einn hestur veturgamall, VI (6) trog, IX (9) keröld, II pípur, Viij (8) tunnuhróf, eina barkróka, nafar, pál, X fjórðungaketil og annan X fjórðungaketil nýjan, forna öxi, ljábrýni, V (5) öngla, klavliord, þrenn messuklæði og að auki sloppur, graduale per annum circulum, missalebók de sanctis et de tempore frá adventu til passione domini, de sanctis matuinale um XII mánuði, óttusöngvabók með lese og hymnum frá advent til sunnudagsins eftir geisladaginn, óttusöngvabók frá níuviknaföstu og til páska, óttusöngvabók frá ad vincula petri og til adventu, de sanctis et de tempore, ij óttusöngvabækur um páska, de sanctis bók um veturinn, messubók frá páskum og til trinitatisdags með dominicum á sumarið. Professionall alfær. Kiriall alfær. Canonembók með ymnum og orationibus votidianis og önnur vond. Psaltare. Capitularius með ymnum. Lesbók frá páskum de tempore og fram á sumarið og er öll rotin. Andreas skrift, trinitatisskrift, ij Maríuskriftir, Önnuskrift, Stepanusskrift, Laurentiusskrift. Silfurkaleikur, ij koparkrossar. Guðssonarlíkneski. Katrínarlíkneski, Margrétarlíkneski, gömul brík yfir altari, kross með undirstöðum, eitt glóðarker, iij klukkur, vatnsberi og ij altarisklæði, ij glitaðir dúkar, iiij koparstikur smáar, tjöld vond, skrúðakistuhróf vont, ij hjálmar, ein lítil kanna vond, salt ker“⁴⁴).
Ofanleitiskirkja átti þannig góðan bókakost í messu- og tíðabókum, og bækur í heilu lagi, sem þó var fremur fágætt. Kirkjan átti nótnabækur, syngjandi tíðabækur, en tíðabækur voru kallaðar syngjandi, er þær voru með nótum. Kirkjan átti klavicord. Það er hljóðfæri, er var nokkuð í notkun hér á landi frá byrjun 16. aldar til 18. aldar, lítið og ófullkomið, svo það var aðeins 7 strengir. Framan á því var nótnaröð og með því að styðja á nótu að aftanverðu, slóst hún upp undir strenginn. Klavicordið er sem fyrsta byrjun að slaghörpu (klaver eða fortepíanó). Að kirkjan átti klavicord bendir fremur til þess, að söngmenntaður prestur hafi verið að Ofanleiti og hann útvegað hljóðfærið til kirkjunnar, eða það hefir verið gefið henni af útlendum kaupmönnum, en hljóðfæri hafa á þessum tímum verið mjög fátíð hér á landi. Prestarnir sungu eins og kunnugt er í pápiskri tíð sjálfir að mestu tíðasönginn eða djáknar með, nema þar sem voru fastir söngflokkar eða kórar. Hljóðfæri þetta, er hér getur, var eigi stærra en svo, að það gat staðið á altari.
Graduale (grallari) hafði að geyma hina ýmsu messusöngva (kórsöngva), en þeir voru introitus, hymni, er sunginn var að byrjun messu. Graduale var og einn þáttur sjálfs messusöngsins, næstur á eftir lesi, alleluja, var haft um söng með þessu orði og voru þau mest sungin um páskatíma. Með graduale (gradualia fleirt.) í víðari merkingu var og talið tractus, er var söngur, er sunginn var milli pistils og guðspjalls og offertorium og communio. Var offertorium sungið, er offrað var, og communio við sakramenti. Capitularius hafði að geyma smákafla úr ritningunni. Óttusöngvabók með lesi (lectio), það eru les þau í tíðunum, er voru í óttusöng og prima, og var lesið úr ritningunni, kirkjufeðrunum og helgra manna sögum. Hymni, hymnar (hymnarius) voru lofsöngvar og andleg kvæði, er svara til orðsins sálmur. Hymnar voru viðhafðir við alla guðsþjónustugerð í pápiskri tíð eftir vissum reglum. Í hymnunum er tilbeiðsla til guðs, heilagrar þrenningar, Maríu meyjar og heilagra manna.
Ofanleitiskirkja á 3 líkneskjur. Þær hafa sennilega verið af tré, og málaðar (pentaðar) með ýmsum litum og gull- eða silfurfargaðar, ef til vill. Kirkjubæjarkirkja átti engar líkneskjur, en 9 dýrlingaskriftir. Þær átti Ofanleitiskirkja 8, þar á meðal 2 skriftir hinnar helgu Maríu meyjar, skrift Ólafs konungs helga, Andreasar verndardýrlings kirkjunnar, hinnar heilögu Önnu o.fl. Skriftir gátu verið af tré og upphleyptar og líktust þá líkneskjum, voru málaðar og gylltar. Einnig átti kirkjan 2 hjálma, er hafa lýst upp kirkjuhvelfinguna og 4 kertastjaka úr kopar.
Máldaginn telur 8 tunnuhróf og 2 tíu fjórðunga katla. Eigi er víst að þessa muni alla bera að skoða sem kirkjuleg áhöld. Líkindi þykja nokkur til þess, að saltbrennsla eða saltgerð, sennilega í Vík suður, hafi tilheyrt staðnum að Ofanleiti og umgetin áhöld þá notuð til þessa. Á kirkjunni hvíldi t.d. sú kvöð um 1270 og líklega fyrr, að greiða árlega til Oddastaðar 4 saltbelgi auk fiskgjalds⁴⁵).

Heimildir og umfjöllun neðanmáls í þessum hluta:
26) Safn t.s. Ísl. IV, 719.
27) Bang: Den norske Kirkes Historie, Safn t.s. Ísl., Árb. 1913, sbr. og Laxdælu.
28) Safn t.s. Ísl. V (Dómkirkjan á Hólum í Hjaltadal), 29—58, skrá um kirkjur á Íslandi og dýrlinga þeirra.
29) Vilkin (Vilhjálmur Henriksson, biskup í Skálholti 1392—1405).
30) Fornbr.s. II, 23.
31) Sjá Ísl. kirkjurétt, Jón Pétursson.
32) Fornbr.s. II, nr. 83, Árb. 1913. (Staða Árni biskup Þorláksson 1269—1296).
33) Safn t.s. Ísl. IV, 426. — Svo hefir verið talið, að Bíluklettar hafi heitið vestur í Hrauni. Þess má geta, að haustið 1940 fann Ólafur Guðmundsson í Oddhól hér, er hann var að grafa fyrir kálgarði uppi í háhrauni norðaustur af Norðurgarðsklettum, fornar rústir, er sérfræðingar töldu vera af smábýli frá 13. eða 14. öld. Þarna fundust ýmsir munir, svo sem margar steinkolur, mjög fornt brýni, snældusnúður af biksteini o.fl. Ekki er líklegt, að þarna hafi verið jörðin Bílustaðir, heldur mun hér um lítið grasbýli að ræða, án eiginlegra jarðarnytja, svo sem rekaréttinda og úteyjaafnota.
34) Kirkjuréttur Jóns Péturssonar.
35) Lovs. IV.
36) Fornbr.s. II., nr. 83, bls. 191-92.
37) Fornbr.s. VII, nr. 80, bls. 42-43.
38) Vísast til ritgerðar Guðbrandar Jónssonar í Safn t.s. Ísl. V, bls. 7—413, Árbókar Háskóla Íslands 1923—24, fylgirit, upptök sálma og sálmalaga í lúterskum sið eftir Pál E. Ólason, Illustreret Musik Historie, H. Panum og W. Behrend, 1905.
39) Sbr. Antiphonarium, tíðasöngsbók.
40) Ísl. kirkjuréttur, J. Pétursson.
41) Fornbr.s. I, XIX, bls. 1-15.
42) Sýsluskjöl V.E.
43) 16 kirkjur hér á landi voru helgaðar Andrési postula, en miklu fleiri Pétri.
44) Fornbr.s. VII. 41, eftir gamalli máldagabók frá Skálholti.
45) Fornbr.s. II, 88.


4. hluti

Til baka


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit