Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Undrafiskar og sjóskrímsli

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Undrafiskar og sjóskrímsli.


Það var ekki ótítt áður fyrri að undrafiskar og sjóskrímsli gengi á land í Vestmannaeyjum, Heimaey eða úteyjunum.
Í annálum Björns Jónssonar á Skarðsá er sagt frá því, að árið 1635 hafi komið þar á land undrafiskar margir, og er frásögn Björns á þessa leið: „Komu á land í Vestmannaeyjum fiskar, sem engir höfðu fyrr slíkir sézt, nær hundrað að tölu, voru með tveimur höfðum, emjuðu upp og ýldu með aumlegum hljóðum. Væri til þeirra járnum lagt eða höggvið, beit ekki á, fóru í sjó aftur.“ Síðsumar eitt bar það við í Elliðaey, að lundamenn vöknuðu nótt eina við mikinn hávaða úti fyrir bólinu. Heyrðu þeir undirgang mikinn og hávaða, ekki ólíkan því, að skrjáfaði í skeljum og fór þetta vestur yfir eyna og dó út. Töldu menn víst, að sjóskrímsli hefði verið þarna á ferðinni, en enginn þorði að líta út. Veður var hið versta, austanrok með rigningu.
(Annálar Bókmenntafélags I. 243 og sögn Kjartans Jónssonar á Búastöðum).