Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Sjálfsævisaga séra Tómasar á Oddsstöðum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


SJÁLFSÆVISAGA


SÉRA TÓMASAR FRÁ ODDSSTÖÐUM


GRÁTMESSU mína byrjaði ég undirskrifaður, Tómas Sigurðsson, á Oddsstöðum í Vestmannaeyjum, nótt þess 14. maí 1768, þá móðir mín, Ásta Sigurðardóttir frá Holti í Önundarfirði, fæddi mig á skaut manni sínum, mínum sáluga föður, Sigurði sýslumanni, sama staðar.
Hjá móður minni lifði ég á þriðja ár, þá hún deyði þann 11. marz, og hafði kvatt mig þeim orðum, þá ég síðast var af skauti hennar tekinn:
„Það mun sannast, guð mun verða með þessu barni.“
Man ég enn legstað hennar í þeirrar gömlu Vestmannaeyja Landakirkjugarði.
Ólst ég svo upp í téðum eyjum, án mikillar umhirðingar, með miklu fjörlífi. En minn elskulegi faðir var oft í ýmsum ferðum milli Danmerkur og Íslands. Ævi mín fram leiddist undir guðs sérdeilislegri aðgæzlu, því ég minnist þess, að ég einu sinni í flasfjörvi mínu fór með Vestmannaeyingum í þar svonefnda Elliðaey að rýja kindur og taka bjargfuglaegg, hvar ég í fjarveru þeirra gekk upp á hæsta gafl eyjarinnar, er heitir Háubæli, leit ofan í bjargið, hvar svo nefnd langvía (á vestanmáli svartfugl) verpir, langaði að ná egginu, seildist ofan fyrir og fram af hillunni í bjarginu og festist á snaga sauðgrá peysa ný, er ég var í, svo ég hékk þar fastur, hljóðandi og spriklandi af ofboði dauðans tilhugsunar, í langan tíma, þar til maður kom ofan til mín í vað og hafði með sér annan vað lausan, hverjum hann hnýtti um mig, svo ég varð upp dreginn af mönnum þeim, er á bjarginu, brúninni, stóðu. Var ég þá tólf ára gamall.
Árið 1784, að mig minnir, kom faðir minn mér til læringar að Flókastöðum í Fljótshlíð, til núverandi prests að Holti undir Eyjafjöllum, prófasts séra Þorvalds Böðvarssonar. Dvaldi ég hjá honum til eftirkomandi hausts, og var af honum konfirmeraður 16da sunnudag eftir trinitatis.
Það haust fór ég aftur til Vestmannaeyja. Næsta vor fluttist ég með föður mínum til Hvanneyrar í Borgarfjarðarsýslu, seint á þorra. Veturinn eftir þáði ég fyrstu tilsögn í þeim latínsku artibus (listum) af prestinum séra Arngrími á Melum. Svo aftur á 1½ vetri naut ég upplýsingarkennslu hjá hinum mannorðsgóða, lipra gáfumanni, séra Sigurði Jónssyni á Ökrum, hvaðan ég fyrir beztu umönnun míns móðurbróður, lögmanns Björns Markússonar, fékk ½ ölmusu (12 bankóseðla) við Reykjavíkur latínuskóla.
Velnefndur lögmaður burtkallaðist í marzmánuði þennan vetur, en hafði áður deyði undirbúið við stiftamtmann Ólaf Stephensen, á hverju tímabili hann dó, að ég fengi alla skólaölmusu framvegis, hvers ég naut mína þarverutíð á eftir, í fimm ár, til vorsins 1796, á hverjum tíma ég erfiðaði í kaupavinnu á sumrum, mér til léttis að vetrinum, því bankóseðlarnir, sem í ölmusuna gáfust, urðu mjög ónógir til forsorgunar, fata, þjónustu, húsaleigu og lærdómsbókakaupa skólapiltunum.
Síðastnefnt vor var ég af biskupi dr. Hannesi dimmitteraður (útskrifaður). Fór ég þá strax til míns góða, áðurnefnda, séra Sigurðar á Ökrum, dvaldi þar eitt ár og síðan af honum kallaður til kapelláns sóknarkirknanna: Kolbeinsstaða, Krossholts, Akra og Hjörseyjar, til hverra ég þá vígður var 2. sunnudag eftir trinitatis 1797 af stiftsprófastinum Markúsi Magnússyni á Görðum. En síðasta prestsverk biskups, herra Geirs, var að lýsa vígslu minni, og vera vígsluvottur. Sama vor tók ég við prestssetrinu Hvítanesi og þann 17. júní giftist ég Guðrúnu Sigurðardóttur, fyrrnefnds prests á Ökrum, að Hítardal. Nótt þess 21. ágúst næst eftir burtkallaðist velnefndur séra Sigurður, öllum harmdauði. Voru þá Hítarnesþing veitt Stafholtskapeláni, séra Birni, nú sáluðum, Sigurðssyni. Varð ég þá á næsta vori að skila staðnum með átta kúgildum, eftir að í sjóinn hafði misst 53 rosknar sauðkindur um vorið.
Hélt ég síðan til brauðlaus á vesældarkoti, Einholtum í Akrasókn, sjö ár, og þar eftir tvö ár á Hrísum í Helgafellssveit. Erfiðaði mér með eigin höndum á landi og sjó brauð handa konu og fimm börnum, og hefi ég róið til fiskjar alls í átján verstöðvum.
Á þessum árum gáfust mér þrjú brauð af stiftsyfirvöldunum, nefnilega Dvergasteinn og Mjóifjörður, Kolfreyjustaður í Múlasýslu, ásamt Kálfafell á Síðu í Skaftafellssýslu, hverra ég ómögulega gat notið, vegna þá yfirstandandi harðinda og skepnufellis. Varð ég þá úrkula vonar um prestakalls að njóta framar, þá neitað hafði þessum öllum og aftur skilað kollationunum. En vorið 1807 kom ég heim frá Dritvíkurróðrum um morguntíma til minnar elskulegu konu, er afhenti mér bréf frá biskupi Geir Vídalín, í hverju stóð meðal annarra góðra orða þetta:
„Ég hefi skipað prestinum Þorkeli Guðnasyni undir Múla á Skálmarnesi, að taka yður fyrir kapellán. Hafið ráð mín, bregðið við strax, og gangið að því.“
Flutti ég mig þá til Flateyjar með konu og þrem börnum sama vor, samt einni stúlku og einni kú, er þá var mesta aleigan. Þar komin hittum við, af guði okkur sendan, þann alkunna kaupmann E. P. Kúld, sem strax sama dag og þangað komum, uppbyrjaði það góða við okkur, er hann með staðfastri föðurdygð framhélt meðan þar dvöldum, ásamt þeir allir lofsverðu Flateyjar sóknar menn, þó einkum inneyjamenn, hverja ég sérdeilis nefni til í þessu mínu litla ævihlaupi: Bóndann Jón Eggertsson í Hergilsey, hreppstjórann Þorlák Grímsson á Látrum, vitring og gæzkumann, nú orðinn dannebrogsmann herra Eyjólf Einarsson í Svefneyjum, samt dánumanninn Einar Ólafsson í Skáleyjum. Við hverja bættist minn síðari þarverutíma, nefnilega í Flatey, hinn lipri og fjöllesni gáfumaður og í góðra manna þokka kunnugi, studiosus Ólafur Sívertsen, er við mína burtför, að guðs ráðstöfun, prýddi þar mitt prestlegt sæti í söfnuðum Flateyjar og Múla. Með hverra helzt þeirra áðurnefndu, góðu og nafnfrægu inneyjarmanna, ég hefi lifað ánægðastur ævistunda minna. Hafði ég aldrei í huga fengið að fara frá þeim lifandi, eftir að mér, við fyrrnefnds prests séra Þorkels burtför að Stað í Hrútafirði, veittist Flateyjarprestakall þann 10. janúar 1809, allt að árinu 1815, þegar fyrir forlaganna vendingu sendist til eyja hjólhvikull, margbreytinn, æru- og fégirndarmikill gáfumaður, sem mínum þarveru viðunandi kjörum leitaðist við svo að þrúga, að ei sá annað hollara en sækja um, eftir 16 ára veru í Flateyjarþingum (hvar af 14½ ár sem sóknarprestur), fátæka, en hæga brauðið Garpsdal, hvert ég strax fékk þann 3. maí 1823 og hefi nú dvalið þar í þrettán ár, notið hægðar og rósemi þeirra minna frómu, fátæku, en mér þægu sóknarmanna. Á þeim tíma oft aðnotið velgerða, liðsinnis, minna meðan lifi þráðu eyjamanna. Hvíli yfir þeim lífs og liðnum friður og farsæld.
Nú á árinu 1836 hefur guði þóknazt fyrir þau háu Íslands stiftsyfirvöld þann 23. apríl, að gefa mér minna feðra 92 ára fastan stöðustað, Holt í Önundarfirði, að nú fráliðnum 72 árum síðan ættmenn mínir voru þar.
Í þetta mitt allra stytzta ævihlaup hefi ég ekkert él né boða, sem yfir og aðkomið hafa, áhrært, því handleiðsla hins alvalda hefur allt lífsvegarins klungur (nú á 68. aldurs ár kominn) að sléttum vegi gert. Einasta minnist ég þess, að til Flateyjar kom ég að meðallagi fjörmaður, að þekkingu margra, en hún og Múlaflói linuðu í mér kjark.
Þetta mitt litla en sannferðuga æviágrip innfæri ég nú sjálfur í Flateyjarkirkju ministerialbók og enda með minni eigin undirskrift og orðum Svetonii:
Ibant quo poterant, quo non poterant ibi stabant. Deus providebit.

T. Sigurðsson mppria.


Gísli Konráðsson sagnaritari segir þannig frá síðustu árum séra Tómasar í viðauka við æviágripið í prestsþjónustubók Flateyjar og lýsir honum þannig:
„Þegar séra Tómas var kominn að Holti, veiktist hann skömmu síðar, svo að hann varð ringlaður í greindarkraftinum og talaði mest öfugyrði. Gat því ei gegnt embættisverkum og þegar sonur hans var einnig ófær til þess, varð hann að afsala sér kallinu, er þá var veitt stiftamtmannsskrifara Lárusi Johnsen. Tók hann séra Tómas, sem fékk 1/3 af tekjum brauðsins, að sér og konu hans, árið 1848, til þess séra Tómas dó um veturnætur 1849, 81 árs gamall.
Séra Tómas var meðal stærstu manna á vöxt, herðamikill og hraustmenni, dökkleitur á hár og ærið brúnamikill, dökkeygur og holmikill í máli og rómi. Lærdómsmaður þótti hann eigi, en sagnafróður í landsins sögu, því hann las helzt sögubækur.
Gekk honum treglega allur skólalærdómur, en alúðarsamur var hann í embættisverkum mörgum og þótti alþýðu hann sæmilegur kennari. Hann var fram yfir sjötugs aldur ölkær mjög og þótti þá svaðamenni.
Búnaðarhagir hans voru jafnan örðugir og eyddist fé fyrir honum, þó hann fengi síðulínu arfa.
Gestrisinn var hann og góðhjartaður og fús til að eiga þátt í framkvæmdum og atorkusemi með öðrum. Var hann því kallaður grjótpáll sumra athafna- og uppgangsmanna í samlífinu.“
(Séra Tómasi misminnir það um Háubæli, að þau séu þar sem Elliðaey er hæst. Þar heitir Hábarð og er það nyrzt á eynni. Háubæli eru á útsuðurenda Elliðaeyjar og voru sig í þau talin vera erfið og hættuleg, eins og segir í vísunni: Hörð eru sig í Háubæli og hættuleg.
Maður sá, er séra Tómas sneiðir að í æviágripinu, var Guðmundur Scheving agent, kaupmaður og útvegsmaður í Flatey).