Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Sjáðu auga mitt, hve rautt það er

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Sjáðu auga mitt, hve rautt það er.


Einhverju sinni fyrir alllöngu, hafði verzlunarstjóri sá, sem þá var fyrir verzlunarstaðnum Garðinum í Vestmannaeyjum, boð inni fyrir kunningja sína og vini, alla helztu menn, er þá voru í Eyjum. Þetta var að vetrarlagi og sátu þeir að drykkju lengi kvölds. Var um margt talað og meðal annars myrkfælni og draugagang. Sagði verzlunarstjóri gestum sínum, að vinnustúlka, sem þá var í vist hjá honum, væri við ekkert hrædd, og léti sér í engu bregða. Þótti þá reimt mjög í Garðinum, eins og jafnan síðan. Gestir verzlunarstjórans létu í ljós efasemdir um, að það gæti átt sér stað, að stúlkan væri svona órög, eins og hann vildi vera láta. Urðu um þetta nokkrar orðahnippingar. Lauk svo deilu þeirra, að þeir gengu til veðmála. Urðu þeir ásáttir um að biðja stúlkuna að fara upp í Landakirkjugarð, og drógu gestirnir í efa, að hún mundi þora að fara þangað að svo áliðnu kvöldi. Lét verzlunarstjóri gera boð eftir stúlkunni, og spurði hana, hvort hún mundi þora að fara núna upp í kirkjugarð. Spyr hún þá, hvort á nokkru standi um för hennar upp eftir, og hvað hún eigi að gjöra þangað. Segir verzlunarstjóri þá, að sig skipti það dálitlu, vegna þess að hann hafi slegið veðs á því, að hana brysti ekki kjark til þess, og mundi ekkert verða um. Svarar stúlkan, að sér sé ekkert að vanbúnaði, nema hvað sér þyki veðrið slæmt, þar sem bæði sé austanrok og rigning. Féllst hún samt á að fara upp eftir, og var henni fengið úr verzlunarstjórans, og átti hún að skilja það eftir í miðjum kirkjugarðinum til sannindamerkis um að hún hefði verið þar. Leggur hún síðan af stað. Eftir allskamma stund kemur hún aftur, og er þá nokkur asi á henni og rjóð í kinnum.
Ekki vildu gestirnir trúa því, að hún hefði aflokið erindi sínu, og spyrja hana, hvort nokkuð hafi komið fyrir, en hún neitaði því eindregið, og sagði þeim að vitja úrsins þangað, sem hún átti að koma því. Þegar gestirnir voru farnir, gengu verzlunarstjórinn og kona hans á hana, því þau höfðu séð að henni var brugðið, þegar hún kom heim aftur úr förinni. Þá sagði hún þeim frá því, að hún hefði farið inn í kirkjugarðinn að norðanverðu, yfir vegginn, og inn í miðjan garð til þess að skila af sér úrinu. En þegar hún var að fara út af veggnum aftur, heyrir hún sagt með draugalegri rödd bak við sig inni í garðinum: „Sjáðu auga mitt, hve rautt það er.“ Sagðist hún þá hafa svarað, án þess að líta við: „Sjáðu rass minn, hve svartur hann er.“ Hélt hún síðan leiðar sinnar, og varð ekki vör við neitt annað.
Daginn eftir var farið upp í kirkjugarð, og fannst úrið, þar sem stúlkan hafði til þess vísað.
(Sögn Guðríðar Bjarnadóttur)