Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Sýnir
Haustið 1903 fór fram viðgjörð á Landakirkju. Að viðgjörðinni lokinni, skyldi vígsla fara fram á kirkjunni, og hafði tiltekinn sunnudagur verið ákveðinn til þeirrar athafnar. Guðmundur Ísleifsson, járnsmiður, á Vilborgarstöðum, var í kirkjusöngflokknum, og hafði hann haft orð á því, að sig langaði mikið til þess að vera við vígsluathöfnina, en daginn áður en athöfnin átti að fara fram, veiktist Guðmundur skyndilega í smiðju Péturs í Vanangri, þar sem hann var að smíðum, og var hann borinn inn í Vanangur, og síðan fluttur heim til sín. Var hann mjög þungt haldinn.
Kirkjuvígslan fór fram eins og ákveðið hafði verið. Eftir hátíðína sagði séra Oddgeir Guðmundssen Magnúsi Ísleifssyni frá því, að litlu hefði munað, að honum fataðist ekki í athöfninni. Þegar hann kom upp í prédikunarstólinn, varð honum litið á pallinn, þar sem söngflokkurinn stóð syngjandi. Sér hann þá, að á bekknum, sem þar var, sat Guðmundur Ísleifsson, en ekki söng hann með. Var hann mjög fölur yfirlitum, en að öðru eins og hann átti að sér. Varð presti mjög um þetta, því að hann hélt að sýn þessi mundi vita á lát Guðmundar, en honum var kunnugt um veikindi hans. Það reyndist svo, því að einmitt um það leyti að prestur sá hann, hafði Guðmundur skilið við. Gat séra Oddgeir þessa fyrirburðar í líkræðunni, sem hann hélt yfir Guðmundi. Aðrir segja, að það hafi verið á jóladaginn, sem séra Oddgeir sá Guðmund, og mun það réttara. Það er vafalaust að kirkjuvígslan fór fram 20. desember, en Guðmundur andaðist einmitt 25. desember 1903. Var prestur kominn í stólinn og í miðri ræðunni, er hann sá Guðmund koma inn í kirkjuna og fara upp syðri stigann, upp á loftið, og inn á söngpallinn. Að öðru leyti bar ekki á milli.
Daginn, sem Guðmundur andaðist, voru þeir Ólafur Sigurðsson á Strönd, Pétur Pétursson í Vanangri og einn maður enn, ónafngreindur, staddir úti í smiðju Péturs. Skyndilega sáu þeir allir, að Guðmundur kom eins og upp úr aflinum, og var hann allsnakinn. Sáu þeir hann allir greinilega örskamma stund, en svo hvarf hann þeim jafn skyndilega og hann hafði komið í ljós. Fréttu þeir síðar, að á þeirri sömu stund, sem þeir sáu hann, hafði Guðmundur tekið síðustu andvörpin.
(Eftir sögnum Magnúsar Ísleifssonar, Guðriðar Bjarnadóttur og Ólafs Sigurðssonar. Sbr. frásögn Brynjólfs Jónssonar í Dulrænum smásögum, bls. 38—40, en þar er málum blandað).