Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Guðmundur eldri og Guðmundur yngri

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


Guðmundur eldri og Guðmundur yngri.


Á fyrra hluta 19. aldar bjuggu tveir menn á Vilborgarstöðum, sem báðir hétu Guðmundur. Til aðgreiningar voru þeir nefndir Guðmundur eldri og Guðmundur yngri. Þegar saga þessi gjörðist, var Guðmundur eldri hniginn að aldri. Guðmundur yngri var enn á bezta skeiði og nýbyrjaður formennsku. Guðmundur eldri var mjög einkennilegur maður. Eins og aðrir setti hann skip sitt í hróf um Kyndilmessu, en þegar því var lokið, keypti hann sér hálft anker af brennivíni og lagðist í drykkjuskap meðan vínið entist. Hugsaði hann ekki til róðra á meðan á því stóð, þó aðrir fiskuðu vel.
Eina vertíðarbyrjun var góður afli, og hreyfði Guðmundur sig ekki til róðra að heldur. Leiddist hásetum hans að liggja í landi, og gjörðu þeir samtök með sér um það, að heimta af Guðmundi, að hann byrjaði róðra, eins og aðrir. Fóru þeir til hans, og báru fram kröfu sína við hann. Lét hann til leiðast, og sagðist mundi róa fyrir þeirra orð. Þegar kom út á Vík, sagði Guðmundur þeim að snúa skipinu við og halda aftur í land. Hlýddu þeir skipun hans orðalaust. Þegar þeir höfðu sett skipið í hróf, sagði Guðmundur: „Nú hafið þið róið, piltar. Nú getið þið verið ánægðir!“ Guðmundur var mikill aflamaður, og frábærlega heppinn í sjósókn. Hlekktist honum aldrei á sína löngu formannstíð. — Sagt er, að hann hafi alltaf, þegar hann fór í róður, látið leggja upp árar, er komið var út fyrir Leið, og hafi hann þá sagt, eins og við sjálfan sig: „Nú rétt. Látum þennan bát ráða, rétt.“ Tók hann síðan þá stefnu til miða, sem báturinn hafði, þegar ferðin var af honum.
Mikið kapp var með þeim Guðmundunum bæði um aflabrögð og sjósókn. Einkum var Guðmundi yngra kappsmál, að fá hærri hlut en Guðmundur eldri. Báðir voru þeir formenn fyrir sexæringi með jafnmargri skipshöfn. Vertíð eina gekk mikill fiskur í Þríhamradjúpið. Sóttu þeir þangað Guðmundarnir, eins og aðrir formenn. Dag nokkurn aflaði Guðmundur eldri einum fisk meira í hlut heldur en Guðmundur yngri. Tók hann sér þetta mjög nærri, og furðaði mjög á því, hvar Guðmundur eldri hefði haft þennan eina fisk, en bæði voru skipin þrauthlaðin. Lét Guðmundur yngri svo um mælt, að þetta skyldi ekki henda aftur.
Daginn eftir réru þeir Guðmundarnir enn í Þríhamradjúpið. Þann dag ofhlóð Guðmundur yngri, og sökkti undir sér skipinu. Drukknuðu þeir þar þrettán saman, Guðmundur yngri og hásetar hans allir. Eftir drukknun þeirra brá svo við, að aldrei varð fisks vart í Þríhamradjúpinu, og hélzt það þangað til skömmu áður en fiskveiði hófst með línu í Vestmannaeyjum, rétt fyrir síðustu aldamót. Renndu menn oft fyrir fisk þar, er þeir komu úr Leddarforum eða frá Ledd, en urðu aldrei varir.
(Sögn Hannesar Jónssonar hafnsögumanns)