Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Formáli

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


FORMÁLI.


Við lestur þjóðsagnasafna þeirra, sem prentuð hafa verið, hnaut ég við það, hve lítið var þar af sögnum úr Vestmannaeyjum. Varð það til þess, að ég tók að grennslast eftir því, hvort enn lifði ekki í munnmælum eitthvað af því tagi. Á síðastliðnu ári kom fyrir almenningssjónir megin þorri þess, sem mér hafði áskotnazt. Með þessu hefti má því heita lokið, sem mér hefir tekizt að safna saman. Upphaflega var tilætlunin, að ekki yrði prentað nema eitt hefti, en vegna þess að nauðsynlegt þótti, að efnisyfirlit fylgdi, var horfið að því ráði að safna hér því, sem enn væri eftir af áður prentuðum sögnum, og léta fylgja því það, er enn væri í fórum mínum. En þess hafði ekki verið kostur, að efnisyfirlit fylgdi fyrra heftinu.
Við söfnun þessara sagna hefi ég komizt að raun um, að þjóðsagnasöfnun í Vestmannaeyjum hefði þurft að fara fram fyrir að minnsta kosti 30—40 árum, til þess að bjarga frá glötun hinum eldri munnmælum. Er vafalaust, að mikið hefir farið forgörðum með þeirri kynslóð, sem stóð í blóma lífsins á síðustu áratugum 19. aldar. Nú þekkjast ekki nema að nafninu ýmsar sagnir, sem þá voru sagðar. Þannig er um Svíradrauginn. Enginn kann nú að segja frá upphafi hans eða þeim skráveifum, sem hann gjörði mönnum, meðan hann var enn í fullu fjöri. Það eitt vita menn, að hann gekk ljósum logum í Svíranum og fjárhúsum Eyjólfs bónda á Eystri-Vesturhúsum. Á Kornhússloftinu í Garðinum hafði verið skæð afturganga, hauslaus kerling, og mikill reimleiki í öðrum húsum þar, en nú vita menn ekki skil á því. Þannig mætti lengi telja. Ég vil þó taka fram, að ég geng þess ekki dulinn, að enn kunna að vera menn eða konur, sem eiga í fórum sínum góðar sögur, enda þótt ég hafi víða borið niður. Væri vel farið, ef kver þessi yrði til þess að vekja meiri áhuga fyrir rækilegri söfnun alþýðlegra fræða hér en verið hefir, svo að sem flest það varðveittist frá glötun, sem sýnir hvernig háttað hefir verið andlegu lífi héraðsbúa á þeim tímum, meðan atvinnulíf og lifnaðarhættir voru enn í hinu forna fari eða síðar. Þess er þó tæplega að vænta, að í leitirnar komi eldri sagnir en frá 19. öld, vegna hins sérstaka ástands, sem hér er. Hér munu vera teljandi þeir menn, sem geta rakið ætt sína óslitið í Vestmannaeyjum í meira en tvo til þrjá liði.
Þá hefir verið tekinn upp í kver þessi ýmiskonar fróðleikur, kveðskapur og sögur, sem ekki er hægt að telja til þjóðsagna. Þó flest af því hafi ekki bókmenntalegt gildi, hefir það verið látið fljóta hér með, til þess að gefa sem bezta yfirlitsmynd af andlegu lífi héraðsbúa og hugsunarhætti þeirra, jafnframt því, sem um er að ræða heimildir að ýmsum venjum í lífi og atvinnuháttum Vestmannaeyinga.
Kverunum hefi ég skipt í tvo kafla: Eldri og yngri sagnir. Í fyrri kaflanum eru eingöngu sögur, sem áður hafa verið prentaðar, og hafa þær verið teknar hér til þess að safna á einn stað öllum sögnum úr Vestmannaeyjum, eða sem koma þar við að einhverju leyti. Í síðari kaflanum er nær eingöngu efni, sem ekki hefir áður verið prentað.
Að endingu vil ég þakka öllum, er hafa stutt að því, að safn þetta hefir orðið til, bæði með því að leggja því til sögur, sem ekki hafa áður verið skráðar, og með því að leyfa endurprentun sagna úr þjóðsagnasöfnum.

Vestmannaeyjum í október 1939.
Jóhann Gunnar Ólafsson.