Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Draumur Haralds Möller

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search


Draumur Haralds Möllers.


Þá er Haraldur Lúðvík Möller trésmiður var unglingur í Vestmannaeyjum, þekkti hann þar meðal annara hjón, Sigurð og Margrétu, er bjuggu á Steinsstöðum. Þau áttu tvö börn, er voru ung, þá er Haraldur flutti til Reykjavíkur. Á 2. ári eftir að hann kom þangað dreymdi hann, að hann þóttist vera staddur við lendinguna í Vestmannaeyjum og heyra líkhringing í kirkjunni. Þóttist hann ganga upp að kirkjunni og sjá, að þangað voru bornar tvær líkkistur ofan fyrir Hraun. Með þeim fór kona, er hann hafði þekkt, Margrét Hannesdóttir, og fylgdu henni tvö börn stálpuð, er hann þekkti eigi. Hann þóttist spyrja, hverja nú ætti að fara að jarða. Honum var sagt, að það væri Steinsstaðahjónin. Við það vaknaði hann. Litlu síðar fékk hann bréf úr Vestmannaeyjum. Var þar meðal annars sagt, að Margrét, kona Sigurðar á Steinsstöðum væri dáin, og að Margrét Hannesdóttir væri orðin bústýra hjá honum. Þetta var um vetur.
Um vorið var Haraldi skrifað, að Sigurður á Steinsstöðum hefði hrapað til bana úr fuglabjargi. Þóttist Haraldur þá skilja, að börnin, sem hann sá í draumnum, en þekkti ekki, hefði verið börn Sigurðar og hefði fylgt föður sínum til grafar, ásamt Margréti, því þau höfðu þroskazat svo síðan Haraldur hafði séð þau, að þá mundi hann ekki hafa þekkt þau aftur í vöku. Þannig stóð þetta heima, að því frá teknu, að í draumnum höfðu tvær jarðarfarir runnið saman í eina.
Haraldur sagði mér þetta sjálfur. Þennan draum hefði fullt eins vel mátt tilfæra undir: „Berdreymi“.
(Brynj. Jónsson: Dulrænar smásögur, bls. 47—48).
(Sigurður Árnason bóndi á Steinsstöðum hrapaði í Garðsendató í Stórhöfða, er hann var þar til lunda nokkru fyrir fýlaferðir 1880. — Blanda IV, 248).