Ritverk Árna Árnasonar/Viðlegukofinn

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Viðlegukofinn


Veiðimannakofinn er besta íbúðarhús miðað við allar byggingaraðstæður í úteyjum. Í kofanum er fyrst lítil forstofa, en úr henni er gengið inn í eldhúsið einsvegar og inn í svefnstofuna annarsvegar. Í henni eru 5-6 hengikojur með sama fyrirkomulagi og í skipum, þ.e. tvær kojur hvor yfir annarri. Gólf eru dúklögð og allt málað í hólf og gólf með ljósum litum.
Menn fara með hvít sængurföt með sér í útileguna og margt fleira til þess að gera sér lífið sem best og huggulegast. Í svefnstofunni er radio-talsendir og viðtökutæki til viðskipta við Heimaey og aðrar úteyjarnar, sem allar hafa sama fyrirkomulag á bústað veiðimanna og með öllum tækjum til þæginda fyrir veiðimenn. Allskonar eldhúsáhöld eru í hverjum úteyjakofa, hitunarofnar og prímusmaskínur til matargerðarinnar.
Fæði er yfirleitt mjög gott og kjarngott og sameiginlegur kostreikningur yfir veiðitímann.
Einhver einn tekur að sér matartilbúninginn, helst sá, sem eitthvað hefur kynnt sér í þeirri list, er hinir hjálpa þó til eftir bestu getu.
Hver dagur byrjar með kaffi kl 5 til 6 og þá er einhver matarbiti með. Síðan er farið til veiða, ef aðstæður leyfa og verið úti til hádegis. Þá er farið heim og borðað og gert að veiðitækjum, ef með þarf. Um kl. 14-15 er aftur farið út til veiða og þá setið allt fram til kl 19 til 21, ef veiðiaðstæður eru hagkvæmar. Þá er fuglinn borinn á geymslustaðinn, en síðan er farið að malla í sig kvöldmatinn, hlusta á útvarpið o.fl.
Stundum höfum við nokkurskonar kvöldvöku, þannig að einn flytur einhverjar gamlar frásagnir úr eyjum, les einhverja sögu o.s.frv. Venjulegur svefntími er um 22-22:30.Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit