Ritverk Árna Árnasonar/Verslun Eyjamanna í Vík í Mýrdal

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Verslun Eyjamanna í Vík í Mýrdal


Fyrsta vöruflutningaskipið kom til Víkur 13. júlí 1885 í blíðuveðri og sléttum sjó og lagðist á Víkina. Þetta var hákarlaskip frá Eyjum, þilskipið Jósefína, sem var seglskip. Hún var stundum höfð í vöruflutningum milli Eyja og Reykjavíkur. Þetta skip leigði Halldór í Vík Jónsson til þess að flytja vörur sínar, er hann átti í Eyjum, til Víkur. Skipstjóri á Jósefínu þessa fyrstu ferð til Víkur var Jósef Valdason skipstjóri, Fagurlyst.
Sinn fyrsta vöruslatta fékk Halldór 1884 til Eyja með skipinu Camosus, sem var frá Englandi. Það var aðallega í ferðum frá Skotlandi til Eyja og Reykjavíkur. Það flutti og íslenskar afurðir til Englands, t.d. hross fyrir hrossakaupmanninn Coglúll, ásamt sauðfé. Þegar Halldór byrjaði, verslaði hann í hlöðu heima í Vík.
Árið 1889 mun J.P.T. Bryde hafa sett upp fyrsta vörugeymsluhús í Vík. Það stóð undir svonefndu Blánefi, fast við Urðina. Vörur fékk hann svo með hákarlaskipi sínu Jason. Þar hóf svo Bryde selverslun sína og verslaði fyrst á vorin aðeins og var svo um nokkur ár eða þar til að hann setti upp fasta verslun í Vík 1895. Flutti hann þá stórt verslunarhús frá Vestmannaeyjum, er hann keypti af Edinborg 1894. Sveinn Jónsson snikkari á Sveinsstöðum í Vestmannaeyjum smíðaði húsið upp austur í Vík, ásamt fleiri smiðum. Hús þetta reisti Bryde miklu ofar en vörugeymsluhúsið fyrsta eða við svo nefnda Sjávarbakka. Einnig flutti hann vöruhúsið frá Blánefi og notaði það áfram sem vörugeymsluhús.
Lóðina undir hús þessi keypti Bryde af Víkurbændum, og er seinni samningurinn gerður af Árna Filippussyni v/Bryde við Víkurbændur, dagsettur 29. des. 1894.
Þó nokkur samkeppni í verslun virðist hafa verið fyrrum í Vík.
Auk Halldórs og Brydes verslaði þar t.d. Guðmundur Ísleifsson, Háeyri, um nokkurn tíma, en hætti 1895. Sú verslun var nefnd Háeyrarbúðin og stóð nokkuð austan við Blánefið. Hús þetta brotnaði síðar í hafróti og hafði þá staðið tómt um tíma.
Þá starfaði pöntunarfélag í Vík, er nefnt var Stokkseyrarfélag og keypti eitthvað af sauðum til útflutnings. Forstöðumaður þess var Einar Brandsson, bóndi á ,,Reyni“.
Gísli Stefánsson, Vestmannaeyjum gerði tilraun með verslun í Vík líklega 1894, og var búð hans í hlöðu í Norður-Vík. Ekki taldi Gísli verslun þessa ábatasama. Hann verslaði aðallega með álnavöru. Verslunin var á óheppilegum stað, of langt frá hinum verslununum. Sennilega rak Gísli verslun þessa eitt ár, og var Jes Gíslason við afgreiðslu þar. Annars var ágætt samstarf milli þessara verslana og kenndi þar meira vinskap milli kaupmanna en beinnar samkeppni. Vörur, sem Bryde geymdi í Vík, seldi Halldór Jónsson fyrir hann, er verslunarmenn Bryde fóru frá Vík að haustinu. Bryde hóf verslun í Vík 1889 og verslaði í Vík til 1914. Fyrsti verslunarstjóri Bryde í Vík var Anton Bjarnasen.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit