Ritverk Árna Árnasonar/Uppnefni í Vestmannaeyjum

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search




Úr fórum Árna Árnasonar


Uppnefni í Vestmannaeyjum


Fyrr á tímum, og jafnvel enn, tíðkaðist það, að öllum eða flestum var gefið viðurnefni. Oft voru þessi nöfn til orðin fyrir einhver atvik, en þó var það oftar, að mönnum væri gefið viðurnefnið þegar í æsku eftir einhverjum sérkennum í fari þeirra eða lyndiseinkunnum. Má þar til nefna viðurnefnin tréfótur, hvíti, svarti, hákur, ormstunga, gellir og pá.
Er tímar liðu fram, þvarr nafngjöf með þessum hætti og þegar kemur fram á nítjándu öldina og fyrr, er sú breyting orðin á, að þessi viðurnefnagjöf er orðin að uppnefnum til niðrunar. Var slík nafngjöf mjög almenn, einkum í þorpum við sjóinn.
Hér í Vestmannaeyjum varð þessi nafngjöf landlæg, sérstaklega munu þó þeir, sem að einhverju leyti voru sérkennilegir, hafa orðið fyrir þessu, og þó einkum þeir lítilsigldari. Um miðja síðustu öld kvað svo rammt að þessum nafngjöfum, að stór hluti Eyjaskeggja, bar slíkt uppnefni.
Um þetta leyti voru kaupmenn, verslunarstjórar og verzlunarþjónar mestmegnis danskir menn. Máttu þeir heita einvaldsherrar og báru litla virðingu fyrir viðskiptamönnunum sem og öllu, sem íslenskt var. Í verslunarbókum sínum titluðu þeir þá með uppnefnunum sem einskonar ættarnöfnum. Ekki veit ég, hvort reikningarnir voru sendir þeim með fullum titli eða hvort þeir fengu nokkurntíma að sjá viðskiptareikning sinn í höfuðbókunum, enda er líklegt, að svo hafi ekki verið. Í höfuðbók einni frá 1852, sem ég hefi séð, voru nefndir þessir menn, með eftirfarandi auknefnum:
Einar grófi, Jón durgur, Ólafur jötunuxi, Jón digri, Einar stóri, Guðmundur klárt, Guðmundur káfína, Sveinn loði, Jón sæli, Guðmundur frost, Jón stutti, Jón hái, Sigurður svarti, Sigurður snarli, (hann bjó í Snarlahjalli), Magnús kollur og Einar stopp.
Um þetta leyti hafa efalaust miklu fleiri borið uppnefni, þótt ekki hafi þeir notið þeirrar náðar að komast í bækur hinna dönsku einvaldsherra. Þessi nafngjöf hélst alla öldina og enn eimir eftir af henni, eins og menn vita. Á síðari hluta 19. aldar var þessi nafngjöf enn í almætti sínu. Fara hér á eftir nokkur nöfn frá þeim tíma og fram á þenna dag: Siggi bonn, Mundi stáli, Óli naddi, Ólafur kútur, Ólafur kúkur, Hannes sladdi, síðar Jón sladdi, Þóroddur sprengir, Erlendur taðauga, Bjarni skoti, Einar tólgarauga, Einar stormur, Runólfur berkrókur, Hjálmar tuddi, Einar grillir, Jón snari, Gvendur kíkir, Jón stubbur, Jón halti, Jón dynkur (sá er hrapaði í Bjarnarey), Páll silkimotta, Einar í laskanum, Mangi grjót eða Grjót-Mangi, Bogi með böddulinn (böggulinn), Magnús gashaus, Beggi vinur, Valdi brjál, Mangi lúddpei, Gunnar nefprýði, Gvendur skeglir, Mundi pæ, Tusku-Láki, Siggi kjammi, Siggi með vörina, Palli með augun, Gísli pú, Gísli píka, Skitu-Mangi. Megin hluti þessara uppnefna er gefinn í óvirðingarskyni, og er nú þessi ósiður alveg að leggjast niður, enda eru orsakirnar til hans smám saman að hverfa með vaxandi menningu og margbreyttari umhugsunarefnum. Efalaust mætti finna marga menn með uppnefnum enn hér í bæ, en þetta sýnishorn læt ég nægja í bili.
– Á.Á.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit