Ritverk Árna Árnasonar/Um lundaveiðar, veiðiaðferðir og veiðimagn, (brot)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Um lundaveiðar
Veiðiaðferðir og veiðimagn
(Brot)


Lengi frameftir 19. öldinni var lundinn einungis veiddur í holunum, og voru þá notaðir hinir svonefndu greflar til veiðanna. Var það veiðiáhald skaft með krók á endanum, og var lundinn kræktur út úr holunum með því. Var það mjög ómannúðleg veðiaðferð, enda var hún með öllu bönnuð um 1870 og hefir ei verið notuð síðan hér í Vestmannaeyjum. Á þessari veiði var byrjað 9 vikur af sumri og verið að þangað til að 17 vikur voru af sumri og jafnvel lengur.
Um miðja öldina var svo farið að veiða lundann með netum, sem ýmist voru lögð yfir holur hans eða net, sem strengd voru neðan við brúnir fjallanna, þar sem fuglinn sat í þéttum röðum. Voru endar netanna festir í dráttartaugar, en þegar mikið hafði sest á brúnirnar, var halað í böndin og veltist þá netið innyfir brúnirnar og yfir fuglinn. Þá var og veitt með uppistöðum, - netum, sem voru fest milli tveggja hárra staura. Var gengið frá netum þessum fyrir neðan lundabyggðina. Þegar svo fuglinn var sestur mikið í byggðina, var gerður hávaði svo fuglinn flaug út úr byggðinni og lenti óumflýjanlega í netin.
Með þessum veiðiaðferðum var svo mikið drepið af fuglinum að til hreinnar og algjörrar útrýmingar horfði. Er fullsannað, að sum árin voru drepin hér um 480.000-560.000 og eitt árið 633.000 stykki. Menn sáu, að þetta gat ekki gengið, og voru því netaveiðar þessar algjörlega bannaðar líka um 1875.
Árið 1876 kom hingað fyrsti lundaháfurinn frá Færeyjum, og hefir hann síðan verið einasta veiðiáhald lundaveiðimanna hér. Er það gott áhald til veiða, en útheimtir mikla leikni í meðferð, ef vel á að veiða.
Þegar mest var veitt hér af lunda, þ.e.a.s á árunum 1840 til 1880, voru 32 menn í Elliðaey, 16 í Bjarnarey, 16 í Álsey, 8-16 í Suðurey, 8 til 16 í Ystakletti og 8 í Heimakletti og hinn mesti fjöldi veiðimanna á sjálfri Heimaey. Að mikið hafi veiðst af fugli þessi árin sest best af því, að árið 1858 er til dæmis flutt út héðan 26.680 pund af fiðri og með því að áætla 5 pund af fiðri af hverjum hundrað fuglum, hafa þá veiðst hér 533.600 stykki af lunda. En það er staðreynd, að af eitt hundrað lundum fást 5 pund af góðu fiðri, ef vel er reytt.
Eftir að háfurinn kemur til sögunnar, og bæði net og greflar voru bönnuð sem veiðitæki, minnkar lundaveiðin mjög mikið. Þannig er veitt árið 1898 57.394 lundar, 4.113 svartfuglar, 22.637 fýlar, 470 súlur. Árið 1901 veiðast 50.988 lundar, 2.176 svartfuglar, 19.701 fýlar, 241 súla.
Allt fuglakjöt, sem ekki var etið nýtt, var saltað í stærri og smærri ílát, – tunnur - og svo etið yfir haust og vetrarmánuðina. Það þóttu engir búmenn, sem ekki áttu 2 til 3 fullar tunnur af saltfugli, þegar nýmetið kom á vorin. Eggin voru afar mikið etin. Til meginlandsins var mikið selt af fugli og eggjum, jafnvel heilir bátafarmar, en í staðinn fengu eyjamenn skyr, smjör og kindakjöt, sem lítið var af hér í Eyjum. Enn þann dag í dag er mikið selt af fugli til meginlandsins. Mun óhætt að fullyrða, að helmingur heildaraflans sé seldur til Reykjavíkur og í Árnessýslu.
Fuglaveiðarnar eru vitanlega stórhættulegur atvinnuvegur, en um það var og er enn lítið hugsað, þegar á veiðistaðinn er komið. Hér er lítið sýnishorn af fjölda hrapaðra veiðimanna, og er það þó aðeins yfir þá, er hrapað hafa á öndverðri 19. öld og fram á tuttugustu öldina: Úr Heimakletti 19 menn, Ystakletti 3, Stóraklifi 4, Háenni 3, Lágenni 1, Dalfjall 4, Ofanleitishamri 12, Stórhöfða 10, Hellisey 1, Bjarnarey 3, Geirfuglaskeri 2, Elliðaey 4 og úr Flugum 5. Nokkrir hafa hrapað og komist af, svo sem Davíð bóndi á Kirkjubæ, sem hrapaði ofan af Súlnaskeri 300 fet í sjó niður. Hann hafði fallið þannig að koma hvergi við bergið og greip í fallinu höndunum undir hné sér. Hann teygðist mikið og meiddist, en varð þó mikið til jafngóður eftir hina óvanalegu byltu. Fluttist síðar til Ameríku og lést þar gamall maður. Jón nokkur er nefndur var „dynkur“ hrapaði í Háubælum í Elliðaey í sjó niður. Skaut honum úr kafinu skammt frá léttbátnum, og svo æðrulaus var hann, að hið fyrsta, sem hann sagði var: „Heyrðuð þið ekki dynk piltar”, og af því fékk hann viðurnefni sitt. Tóbaksbaukur hans flaut og þarna rétt hjá. Hafði hann misst baukinn í fallinu, bað hann bátsmenn blessaða að hirða baukinn, áður en þeir tækju sig upp í bátinn.
Til þess að vera góður veiðimaður þarf glöggt auga og eldsnöggar hugsanir og hreyfingar, þ.e. að vera fljótur að sjá, hvort fuglinn er nógu nálægt til þess að háfurinn nái til hans, hvar svo sem sú passandi fjarlægð verður út frá manninum, beint uppi yfir honum, upp með brekkunni, fyrir framan hann eða aftan við manninn, slá háfnum upp nákvæmlega á réttum tíma, vera ekki of fljótur eða seinn. Þá er vandinn mikill að ruglast ekki, þegar margir fuglar koma í einu fyrir veiðistaðinn, en það fyrirkemur oftast í góðum veiðistað, því að fuglinn flýgur í stórum hópum og mjög þétt. Þá koma margir í færi í einu, máske alltof nálægt og svo öllu megin við mann. En þessi list kemur með vananum. Þegar hugsun og hreyfingar veiðimannsins starfa saman með leifturhraða, augað hefir vanist hinu afar hraða flugi fuglsins og hreyfingum, verður glöggskyggnin á fjarlægðina til á broti úr sekúndum. Háfurinn þýtur upp með leiftur hraða, snöggt og ákveðið, en um leið og hann lendir á fuglinum er dreginn sem allra mestur kraftur úr uppslættinum til þess að forða frá broti á veiðitækjunum. Fuglinn flækist strax í netinu, og ef hægt er aðstæðna vegna, lætur maður nú háfinn renna sem allra fljótast gegnum léttlokaða lófana, allt skaftið fram að högld eða að maður handfangar skaftið að sér.
Fuglinn er greiddur úr netinu með fljótum og ákveðnum handtökum, þ.e. að vinstri höndin grípur ofanfrá yfir mjóbak hans, undir vængjunum, en með hægri hendi er fuglinn greiddur úr netinu og kippt úr hálsliðnum með sérstöku taki og örlitlum snúning á hálsliðnum, svo snöggt sem klippt sé. Varir aflífunin aðeins brot úr sekúndu. Allt þetta getur gengið ótrúlega fljótt, enda er og betra að vera snar í snúningum, þegar um góða veiðiátt og mikinn fugl er að ræða. Þá er síst tími til að vera þreyttur eða að blása í kaun, þó að köldum vindi slái í fjallsbrúnirnar, þar sem maður er að veiðum.
Misjöfn er dagveiðin. Fer það eftir veðri og vindi, kostum veiðimannsins og gæðum veiðistaðarins. Gott þykir að veiða á dag 3 til 5 hundruð. Annars er veiðimagnið mjög háð vindstöðunni, en veiðistaðirnir eru, hver fyrir sína sérstöku vindátt, t.d. SA, NA, SV, NV o.s.frv., og þar sem svo háttar, að á skammri stund breytist veður í lofti, skammtar það veiðimagn hvers manns. Nokkuð oft hafa menn veitt 1.000 stykki og þar yfir, en þá hafa líka veðurátt og fugl verið mjög að óskum.
Þessi lundaveiði fer að langmestu leyti fram í úteyjunum kringum Heimaey, þar sem menn dvelja frá því fyrst í júlí mánuði til miðs ágústmánaðar ár hvert við veiði. Það er mjög erfitt og ónákvæmt að áætla, hve mikið sé af lunda við Vestmannaeyjar, en í samráði við ýmsa vana fyglinga hef ég gert eftirfarandi áætlanir og þessutan stuðst við rannsóknir allmargra fuglafræðinga, er hér hafa starfað við talningu ýmissa fuglategunda.

Svæði Árleg
viðkoma
Fuglafjöldi
Elliðaey 356.000 2.850.000
Bjarnarey 225.000 1.800.000
Álsey 300.000 2.400.000
Brandur 100.000 800.000
Ystiklettur 200.000 1.600.000
Heimaklettur og
Miðklettur
137.000 1.100.000
Súlnasker 100.000 800.000
Hellisey 25.000 200.000
Smáeyjar 38.000 300.000
Geldungur 10.000 80.000
Heimaey 400.000 3.200.000

Af ofanrituðu sést, að viðkoma fuglsins er mjög mikil. Nútíma veiði mun aldrei geta orðið svo mikil að til skaða geti orðið fyrir fjölgun, a.m.k. alls ekki með nútíma veiðitækjum, þ.e. lundaháfnum. Háfurinn er 6 álna langt skaft (6 álnir og 5 tommur) með tveim spækum, rúmlega 2 álna löngum, en milli þeirra er net 11x12 möskva stórt, 2 tommu riðils. Í háfnum verður að vera valinn viður, þareð ákaflega mikið reynir á hann, þegar honum er slegið á hinn hrattfljúgandi lunda.
Þegar mest veiddist af lunda hér, nálgaðist veiðin 2/3 úr milljón lunda, en þegar holu- og netjaveiðin var bönnuð, minnkaði veiðin með hverju ári, enda fóru þá í hönd tímar með mjög breyttu mataræði og lífsafkomu almennings. Mönnum fannst þá ekki tilvinnandi að stofna lífi og limum í hættu vegna fuglaveiða, þegar hægt var að fá meir en nægilegt af dilkakjöti til matar o.fl. nú, þegar nógir peningar voru í veltu og almenningur hafði peningaráð, sem aldrei fyrr.
Veiðimagn nokkurra ára lítur þannig út. Þess ber að gæta, að allt framtil ársins 1870 eru bæði holu- og netjaveiðin enn við líði, en eftir þann tíma hverfa þau veiðitæki með öllu.
Úteyjalífið er gott og heilnæmt líf, hressandi og styrkjandi sálar- og líkamlega, frjálst og óþvingað veiðimannalíf, sem allir, er reynt hafa, dásama ævilangt og gleyma aldrei. Það hefur einhver æsandi áhrif og þó svo róandi á taugakerfið. Hávaði hins daglega lífs er horfinn, þarna er aðeins að heyra vængjaþyt og fuglaklið og róandi nið hafsins. Veiðiskapurinn lokkar mann fram á fremstu brún, tæpustu sylluna, bratta grasfláka og bergflár, þar sem hættan og dauðinn lúrir í hverju óvarlegu fótmáli. Eitt lítið feilspor eða smávegis mistök á einhvern hátt geta auðveldlega orsakað hrap veiðimannsins, og þá er dauðinn vís eins og tala hrapaðra hér að framan ber með sér.
Að stunda fuglaveiðar í úteyjum hér er og mjög ónæðissamt verk og erfitt í öllum greinum, og eru þau störf síst fyrir letingja eða værukæra ístrubelgi. Ef menn ætla sér að veiða, þá er ekki sofið út á morgnana heldur farið á fætur með sólaruppkomu um kl. 3 til fjögur að nóttu, hitað kaffi og borðaður einhver matur, sem venjulegast samanstendur af kjarnfæðu, rúgbrauð, egg og góður áskurður á brauð. Síðan er gengið upp snarbrattar brekkur (t.d. Álsey) í 15-25 mínútur og svo sest að veiðum, oftast við brún í kaldri morgungolunni, og setið þar langt frameftir miðdegi, matar- og kaffilaus, - stundum líka í rigningu og þunga vindi, og eru menn þá oft blautir inn að skinni og kaldir. Síðan er kippaður fuglinn, þ.e.a.s. hnýttur saman í 70-100 stykkja kippu, og borið á bakinu oftast upp brekkur, snarbrattar og sundur grafnar af lundanum, svo að mjög erfitt er að fóta sig á þúfnakollunum, sem velta og brotna undan manninum, sem um gengur, svo að maður fer oft meira afturábak en áfram. Loks kemst maður þó upp á brekkubrúnina, slituppgefinn, bullsveittur og engu fegnari en að setjast niður og hvíla sig. Og svo er eftir að bera fuglinn á geymslustaðinn, sem oftast er í námunda við uppgöngustað eyjarinnar (steðjann), og ganga frá honum þar. Er honum oft stúfað til þess að flugan nái síður til að vía í hann, en hún er ákaflega erfið viðureignar um veiðitímann, og sælist til að verpa eggjum sínum í nasir fuglsins, sem þá skemmist strax. Er þessvegna helst að geyma fuglinn sem næst sjó, því að þar er flugan síst vegna golunnar, er um sjóinn leikur.
Hugsið ykkur þessar aðstæður, til dæmis í Álsey, þar sem allsstaðar eru brekkur til og frá bústað veiðimanna, upp og niður brekkur, sem einna líkastar eru brekkunum í Heimakletti að sunnan. Haldið þið, að ykkur langaði að bera 80 til 100 lunda á bakinu af Efri-Kleifum upp á topp og máske fara 3 til 4 slíkar ferðir, eftir að vera búnir að sitja með háfinn allan daginn og veiða 500 til 700 lunda? Ykkur langaði máske að reyna eina slíka ferð rétt til þess að prófa styrkleika ykkar og burðarþol, en ég hygg, að þið vilduð losna við aðra og þriðju ferðina.
Eftir að hafa borðað miðdegismat er aftur farið út, ef aðstæður leyfa og þá setið að veiðum fram á kvöld, til kl. 8 eða 9, fuglinn þá borinn á sinn stað, og ég segi ykkur satt, að það eru oft þreyttir menn, sem leggjast til hvíldar og svefns í úteyjakofanum um kl. 11 á kvöldin.
Vitanlega þurfa mennirnir, eftir heimkomuna í kofann, að útbúa sér einhvern heitan mat, (í veiðikofanum er eldhús með góðum útbúnaði í hvívetna), steikja kjöt, lunda eða fisk, sjóða kartöflur o.fl. þessháttar, svo að tíminn vill oft styttast og líða fljótt í matseldartímunum. Og svo byrjar næsti dagur um sólaruppkomu með sömu störfum, sama erfiði, ef veiðiveður er. En svo koma líka dagar, sem ekkert er hægt að veiða vegna ýmissa aðstæðna, svo sem storma (9 vindstig ca.), eða að fuglinn kemur ekki upp af sjónum. Slíkir dagar eru notaðir til viðgerða og endurskoðunar á veiðitækjum, hefla, saga, ríða net o.fl., lagfæra í og við bústaðinn o.m.fl., og svo vitanlega til hvíldar og svefns. Stundum draga menn í spil, spila þá bridge, whist eða annað, er til skemmtunar má verða. Þá er spilað af hjartans lyst síðasta stikk um stúlkur, helst ungar blómarósir, hlegið dátt og saman spjallað, sögur sagðar, sungið o.fl., sem aðeins passar í fámennum vinahóp. Enginn skyldi þó halda, að alltaf sé legið inni og flatmagað, þótt stormur sé og regn. Nei, - það er nú eitthvað annað. Ef nokkur leið er að vera úti með háfinn, er farið til veiðanna algallaður frá hvirfli til ilja. Er þá oft æði kalt og hráslagalegt og veiðimanninum þá færð einhver hressing af hinum, sem ekki hafa veiðistaði. Er það vel þegið undir slíkum kringumstæðum.
Eins og fyrr getur hefir oft veiðst mikið af fugli hér í Eyjum, þótt hinsvegar hafi fuglaveiðum farið mjög aftur hin síðari ár af ýmsum orsökum, t.d. færri veiðimenn og styttri veiðitími. Samt munu nú, 1952-53, stunda veiðarnar um 50 menn, misjafnlega lengi, sumir aðeins nokkra daga og fæstir allan veiðitímann, sem er 5 vikur.
Erfitt er að áætla, hve margar milljónir eru hér af lunda, en í samráði við vana fyglinga hef ég gert þessar áætlanir og stuðst þess utan við rannsóknir ýmissa fuglafræðinga.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit