Ritverk Árna Árnasonar/Um daginn og veginn

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Um daginn og veginn


Það er ekki að ástæðulausu að fólk dásamar veðurfarið síðustu daga hér í Eyjum sem annarsstaðar. Þó ekki hafi verið óvenjulega hlýtt hefir þó veður verið yfirleitt stillt og sólar notið lengst af á hverjum degi, að segja má.
Húsmæðurnar hugðu þessvegna að notfæra sér veðurblíðuna og hefja vorhreingerningarnar, viðra fatnað og húsmuni og fá gott loft í íbúðirnar. En það varð fljótt annað upp á teningunum.
Strax og fyrsti glugginn var opnaður og ferskt loft og sólarylur skyldi streyma inn, ruddist í þess stað inn slík endemis fýla og reykjarbræla að fólki sló fyrir brjóst og varð höndum seinna að slagloka öllum gluggum og hurðum til þess að útiloka þessa ólyktar brælu, sem barst yfir mið og austurbæinn með norðanblænum frá mjölvinnlu Einars Sigurðssonar við Hraðfrystistöðina við Nausthamar. Eflaust hafa vesturbæingar haft líka sögu að segja, þareð þar yfir leggur samskonar óþef frá mjölverksmiðju Ástþórs MatthíassonarGúanó.
Mér dettur í hug, hvort þetta og þvílíkt geti ekki talist til óhollustu – a.m.k. er lyktin ekki heilnæm – og hvort ekki sé hægt og sjálfsagt fyrir bæjarbúa að mótmæla þessum óþef við viðkomandi yfirvöld og fá viðkomandi verksmiðjueigenda skyldaða til þess að ganga svo frá vinnslutækjum þessum, að þau geti ekki valdið, hvorki óhollustu eða óþægindum fyrir bæjarbúa. Það er andskoti hart að geta ekki í blíðskaparveðri, hvorki opnað glugga né gengið um götur bæjarins fyrir óþef.
Ég hefi heyrt, að það hafi oftlega fyrirkomið, að menn þeir er unnið hafa að hafnarframkvæmdunum í Læknum og út frá Nausthamri í haust og fyrri part vetrar hafi orðið að flýja vinnustaðinn eða flytja sig til, þareð þeir héldust ekki við og lá við uppköstum vegna umrædds óþefs. Virðist það sannarlega nokkuð langt gengið, að mönnum skuli átölulaust líðast að valda þessum og þvílíkum truflunum á starfsháttum og venjum borgaranna.
Heyrst hefir, að þegar Einar Sigurðsson fór fram á að setja upp fiskimjölsvinnslutæki þarna við aðal athafnasvæðið og í sambandi við hraðfrystistöðina, hafi hann undirgengist og lofað að ganga svo frá vinnslu tækjunum, að enginn reykur eða gufa og því síður óþefur skyldi svífa yfir bæinn eða höfnina. Öllu slíku skyldi eytt gjörsamlega með þartil gerðum tækjum. Hafi hann og lagt fram teikningar af slíkum nýtísku eyðingartækjum, ásamt vottorðum frá útlendum verkfræðingum eða verksmiðjum um fullkomið eyðingar öryggi á slíkum óhollustugöllum nefndra vinnsluvéla.
En það merkilega er, að enn virðist þessi eyðingartæki Einars Sigurðssonar óuppsett eða, að þau hafi algjörlega brugðist, ef þau eru uppsett. Að minnsta kosti er óþefurinn alveg óþolandi og ólíðandi. Þá er hitt ekki síður óþolandi, að ef tækin hafa aldrei verið sett upp, skuli ekki vera gengið neitt eftir að svo verði gert strax og Einar látinn uppfylla þau skilyrði, sem hann hefir undirgengist við leyfisveitinguna. Og væri þá ekki nema sjálfsagt að skylda Ástþór Matthíasson til hins sama viðkomandi hans mjölverksmiðju, sem eimir frá sér síst betri lykt.
En hverjum ber að ganga eftir, að nefndum skilyrðum sé hlýtt. Það virðist vart koma til greina nema 3 aðilar, þ.e. heilbrigðiseftirlitið, bæjarstjóri eða bæjarfógetinn. Vart væri til of mikils mælst þó farið væri fram á með vinsemd og allri kurteisi, að þeir létu mál þetta til sín taka og reyndu að losa eyjabúa við þessi óþægindi, sem hér hefir verið minnst á, og öllum bæjarbúum eru mjög hvimleið.
Væri ekki gerlegt að fá Einar Sigurðsson til þess að vera hér einn dag, skylda hann til að vera þar, sem bræluna leggur mesta, svo sem 3-4 tíma og vita hvort honum fyndist ekki nóg um. Ekkert gerði til þótt hann kastaði upp nokkrum sinnum – hárinn dyttu ekki af höfði hans þessvegna – en máske gæti það flýtt fyrir uppsetningu hinna lofuðu eim- og ódauns-eyðingartækja, sem hann undirgekkst að setja upp, er mjölvinnslutæki þessi voru uppsett.
Að sjálfsögðu mætti svo bjóða Ástþóri Matthíassyni upp á sömu trakteringar, en honum er víst lyktin það kunn, að hann er löngu orðinn sameinaður henni eða hún búin að gjördeyfa lyktarskilningarvit hans.
Hvað sem því líður, – okkur bæjarbúum er ábyggilega öllum áhugamál að fá mjölvinnslulyktinni bægt frá vitum vorum á varanlegan hátt.
P.S. Því skal að síðustu viðbætt, að lóðsarnir hafa sagt, að eimurinn frá mjölvinnslu Einars Sigurðssonar væri oft það mikill, að til trafala væri við að sigla skipum inn í höfnina. (Skrifað í apríl 1956).


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit