Ritverk Árna Árnasonar/Nokkrar lausavísur utan úr hafsauga

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Nokkrar lausavísur utan úr hafsauga,-
af gömlum minnisblöðum


Á leið með mb ,,MUGGUR” til Stokkseyrar frá Vm. í þoku og ruglanda:
Þokuskuggar efla ugg,
ekki er hnugginn drengur.
Aldan ruggar undir Mugg
áfram kuggur gengur.
Kári sveigir geðið grett,
gefst þá fegins hylli.
Ránarmeyjar leika létt
lands og Eyja milli.


Beiðni um viðtal:
Þú átt hvorki börn né bú
og besta hefir tíma.
Kjaftaðu við mig klukkan þrjú,
karl minn. – Ekki í síma. -


Ætlaði norður, en fór í þess stað til Víkur. Hreppti rigningu, ferðapelinn tómur, en Mangi ætlaði að koma með hressingu.

Hillu ranga rakst ég á,
regn í fangið lemur.
Þetta angur þokast frá,
þegar Mangi kemur.
Eitthvað dróst, að Mangi kæmi og virtist allt vonlaust um björg.
Allt í kring er veðravos,
vonin trauð og rotin.
Enginn dropi, ekkert bros,
öll er vonin þrotin.


Um heimasætu á gististað, sem var feimin og fátöluð.
Unga fríða faldaslóð,
framtíð geymir mæta.
Þórunn blíða, þögla fljóð,
Þverár heimasæta.
Seint í kvöld ég kem til þín,
kærleiksöldur fossa.
Eru gjöldin alltaf mín
og ógnarfjöldi kossa.


Afmælisvísa til ungrar stúlku:
Gesti fáðu og gleði í kvöld,
gæfan náði framtíð þína.
Á þessu láði lifðu í öld,
lífið dáðu og vinsemd mína.


Frá ferðalagi ,,Leynimel 13“ í sumar
Símskeyti frá Siglufirði:
Sólin gyllir grundir vel,
gefur snilli og kæti.
Landið hyllir Leynimel,
lýður fyllir sæti.


Símskeyti frá Mývatni:
Slútnes breiðir faðminn fríða
ferðalags er gengur ör.
Hér er himins blessuð blíða,
brosir sól við okkar för.


Frá Fornahvammi:
Sitjum hér við sólareld,
sinnið hresst og allir glaðir.
Á Akranesi verðum kveld.
Augað gleðja nýir staðir.


Ein leikstjarna í ,,Leynimel 13“ fór á Laugalandsskóla. Almenn sorg ríkjandi á Leynimel 13. Gamanvísa þessi varð til þá, og var hún Dísa þá 18 ára.

Viðlag: Í klúbbum þar sem Nillemand etc.
Dísa litla er átján vetra draumafagur svanni
í dag, og er að hverfa burtu Leynimelnum frá
til Norðurlands og kynnast þar Laugalandsins ranni
að laga mat og sauma kjóla og bleyjur börnin á.
Er því nokkur furða, þó að margur felli tár
af fólkinu á Leynimel. – Hún verður víst í ár.
Ó, Dísa, er það nokkuð betra að fara á Laugaland
en læra bara heima allt og flytja ,,inn á Sand“.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit